Samráð fyrirhugað 13.10.2020—27.10.2020
Til umsagnar 13.10.2020—27.10.2020
Niðurstöður í vinnslu frá 27.10.2020
Niðurstöður birtar 28.10.2020

Drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um afleiðuviðskipti, miðlæga mótaðila og afleiðuviðskiptaskrár, nr. 15/2018

Mál nr. 216/2020 Birt: 13.10.2020 Síðast uppfært: 28.10.2020
  • Fjármála- og efnahagsráðuneytið
  • Drög að frumvarpi til laga
  • Málefnasvið:
  • Markaðseftirlit, neytendamál og stjórnsýsla atvinnumála

Niðurstöður birtar

Engar umsagnir bárust.

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 13.10.2020–27.10.2020. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 28.10.2020.

Málsefni

Fjármála- og efnahagsráðherra birtir til umsagnar drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um afleiðuviðskipti, miðlæga mótaðila og afleiðuviðskiptaskrá, nr. 15/2018. Frumvarpinu er ætlað að innleiða svokallað EMIR Refit reglugerð í íslenskan rétt.

Við mat framkvæmdastjórnar ESB á gæðum lagasetningar og mat á því hvort lög hafa náð markmiðum sínum á hún samráð við bæði haghafa og eftirlitsaðila. Niðurstaða þannig samráðs um reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 648/2012 um afleiðuviðskipti, miðlæga mótaðila og afleiðuviðskiptaskrár (EMIR) var m.a. að nauðsynlegt væri að draga úr ýmsum kröfum reglugerðarinnar, aðallega þeim sem gerðar eru til ófjárhagslegra mótaðila og smærri fjárhagslegra mótaðila, og framkvæma aðrar breytingar til að bæta gæði þeirra upplýsinga sem safnað er um afleiðuviðskipti.

Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/834 um breytingu á reglugerð (ESB) nr. 648/2012 að því er varðar stöðustofnunarskyldu, frestun á stöðustofnunarskyldu, kröfur um skýrslugjöf, aðferðir til mildunar áhættu fyrir OTC-afleiðusamninga sem miðlægur mótaðili stöðustofnar ekki, skráningu og eftirlit með afleiðuviðskiptaskrám og kröfurnar fyrir afleiðuviðskiptaskrár (EMIR Refit) felur því í sér ýmsar breytingar á EMIR sem ætlað er að viðhalda því markmiði að tryggja gagnsæi um afleiðuviðskipti og valdheimildir eftirlitsaðila en skýra kröfur og í einhverjum tilvikum slaka á þeim til að einfalda afleiðuviðskipti, skýrslugjöf um afleiðuviðskipti og draga úr kostnaði.

EMIR var veitt lagagildi með lögum um afleiðuviðskipti, miðlæga mótaðila og afleiðuviðskiptaskrár, nr. 15/2018. Veita þarf EMIR Refit lagagildi með breytingum á sömu lögum til að leiða í íslenskan rétt þær breytingar sem EMIR Refit gerir á EMIR.

EMIR Refit breytir EMIR að eftirfarandi leyti:

1. Skilgreiningunni á fjárhagslegum mótaðila er breytt hvað varðar sérhæfða sjóði, þ.e. í stað þess að teljast alltaf fjárhagslegur mótaðila þá munu þeir í sumum tilvikum falla utan skilgreiningarinnar og teljast ófjárhagslegur mótaðili. Auk þess er rekstrarfélögum verðbréfasjóða og verðbréfamiðstöðvum bætt við upptalninguna á þeim aðilum sem falla undir skilgreininguna.

2. Ákveðum þáttum útreiknings á viðmiðunarfjárhæðum og stöðustofnunarskyldunnar breytt hvað varðar ófjárhagslega mótaðila.

3. Dagsetningum breytt þ.e. hvenær tilteknir aðilar eru skyldugir til að stöðustofna tiltekna afleiðusamninga.

4. Tveggja ára fresturinn sem lífeyrissjóðir hafa til að stöðustofna tiltekna OTC- afleiðusamninga er framlengdur. Framkvæmdastjórn ESB er auk þess veitt heimild til að framlengja frestinn tvisvar um eitt ár í senn.

5. Skýrslugjafarskyldunni hvað varðar eldri samninga (e. backloading requirement) afnumin og henni breytt hvað varðar samninga innan samstæðu.

6. Gert er skýrara hver falli undir skýrslugjafarskylduna við tilteknar aðstæður, dregið er úr skýrslugjafarbyrði þeirra ófjárhagslegu mótaðila sem ná ekki viðmiðunarfjárhæðum stöðustofnunarskyldu (litlir fjárhagslegir mótaðilar, FC-) og lögð er skýrslugjafarskylda á rekstrarfélög verðbréfasjóða (UCITS) og sérhæfðra sjóða (AIFMD) og rekstraraðila eftirlaunasjóða (IORPS).

7. Framkvæmdastjórn ESB er veitt heimild til að afnema tímabundið (e. suspend) stöðustofnunarskylduna.

8. Skylda er lögð á miðlæga mótaðila til veita stöðustofnunaraðilum tól til að meta fjárhæð upphaflegrar tryggingar (e. margin) sem miðlægi mótaðilinn getur krafist við stöðustofnun nýrra viðskipta.

9. Gert er skýrara að gjaldþrotalög aðildarríkja skuli ekki koma í veg fyrir að miðlægur mótaðili geti uppfyllt skyldur sínar samkvæmt EMIR. Miðlægum mótaðila ber að tryggja að eignir og stöður stöðustofnunaraðila séu aðgreindar og aðskildar, með reikningaskipan sem gerir það kleift. Þetta er gert svo hægt sé að færa eignir og stöður stöðustofnunaraðila sem verður fyrir greiðslufalli yfir á aðra stöðustofnunaraðila til þess að tryggja að starfsemi miðlæga mótaðilans verði fyrir sem minnstu höggi vegna áfallsins. Þegar stöður þess aðila sem er gjaldþrota eru færðar yfir á hina stöðustofnunaraðilana sem eru enn greiðslufærir (e. solvent) þá smitast áhrif gjaldþrotsins síður út í kerfið með tilheyrandi keðjuverkun.

10. Evrópsku eftirlitsstofnunum á fjármálamarkaði (ESAs) er veitt heimild til að útbúa sameiginleg drög að tæknistöðlum sem tilgreina eftirlitsferla í tengslum við áhættustýringarferla (e. risk-management procedures).

11. Lögð er sú skylda á stöðustofnunaraðila og viðskiptavini sem veita stöðustofnunarþjónustu að veita þjónustu samkvæmt skilmálum sem eru sanngjarnir, skynsamlegir, gangsæir og án mismunar.

Jafnframt eru lagðar til smávægilegar breytingar á efni laganna í 3.-5. gr. frumvarpsins til samræmis við aðra nýlega löggjöf á fjármálamarkaði.