Hætt var við reglugerðarbreytinguna.
Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 13.10.2020–10.11.2020.
Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.
Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 29.11.2021.
Drög að 5. breytingu á reglugerð nr. 1130/2012 um menntun, réttindi og skyldur sálfræðinga og skilyrði til að hljóta starfsleyfi og sérfræðileyfi.
Með reglugerðarbreytingunni er gert ráð fyrir að sálfræðingur sem hefur í hyggju að veita heilbrigðisþjónustu á eigin starfsstofu eftir útgáfu starfsleyfis skuli hafa lokið tólf mánaða verklegri þjálfun undir leiðsögn sálfræðings á stofnunum eða starfsstofum sem landlæknir viðurkennir. Staðfesting á verklegri þjálfun skuli fylgja tilkynningu til landlæknis, sbr. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 41/2007, um landlækni og lýðheilsu.
Ég á ekki til orð yfir þessari reglugerðarbreytingu. Það hefur verið stefnt að þessu til nokkurra ára og allir verið sammála um mikilvægi þessa strfsþjálfunarárs. Við þurfum að geta staðist samanburð við hin norðulöndin sem öll gera kröfu um starfsþjálfunarár. Við viljum líka stuðla að því að ungir sálfræðingar fái klíníska reynslu að loknu lögnu bóklegu námi svo þeir séu betur í stakk búnir fyrir faglega kíníska vinnu með sjúklingum.
Þessi reglugerðarbreyting er nú birt án nokkurs samráðs við Sálfræðingafélag Íslands, forstöðusálfræðinga innan Heilsbrigðisstofnana landsins og án þess að hafa samráð við Háskólana sem þjálfa þessa verðandi sálfræðinga! Það er bara ekkert vit í þessari breytingatillögu eða þessum vinnubrögðum.
Í heilbrigðisstefnu til 2030 kemur m.a. fram: „Það er því nauðsynlegt að stöðugt sé fjárfest í menntun og þjálfun alls heilbrigðisstarfsfólks og að skapaðar séu starfsaðstæður og kjör hér á landi sem standast samanburð við það sem best gerist í nágrannalöndunum“. Starfsþjálfunarár er nauðsynlegt til þess að sálfræðingar geti staðist slíkan samanburð.
Reglugerðarbreytingin gerir einnig ráð fyrir að bætt sé við kröfum til sálfræðinga sem hyggist veita heilbrigðisþjónustu á eigin starfsstofu. Ég mótmæli líka þessari breytingu, sem ekki var gerð með samráði við sálfræðinga og helstu hagsmunaaðila, og kemur alls ekki í staðinn fyrir starfsþjálfunarár. Margt er hér mjög óljóst eins og hvaða kröfur eigi að gera til þessarar þjálfunar, hverjir eigi að meta hæfni og hvernig, og hvaða áhrif það hefur að koma svona breytingu á án nokkurs samráðs við þá aðila sem málið varðar.
Ég krefst þess að ráðuneytið hætti við þessa reglugerðarbreytingu, og hefji aftur samtal við sálfræðinga, og helstu hagsmunaaðila, til þess að koma á starfsþjálfunarári, og séu þá helstu forstöðusálfræðingar, háskólar auka Sálfræðingafélags Íslands hafðir með í ráðum í því mikilvæga verkefni að koma á slíkri þjálfun hér á landi. Við teljum að það sé nauðsynlegt skref til að standast alþjóðlegar kröfur til sálfræðinga og uppfylla heilbrigðisstefnu sem sett hefur verið á Íslandi.
Sigurlín Hrund Kjartansdóttir
Yfirsálfræðingur á Heilbrigðisstofnun Austurlands (HSA)
Heilbrigðisráðuneytið hefur nú birt breytingar á reglugerð nr 1130/2012 um menntun, réttindi og skyldur sálfræðinga og skilyrði til að hljóta starfsleyfi og sérfræðileyfi. Þar er lagt til að 2. málsl. 1. mgr. 3. gr. sé felld brott. Nánar tiltekið er lagt til að krafa um starfsþjálfunarár verði felld niður.
Þessar tillögur um breytingar á reglugerðinni eru gerðar einhliða og án nokkurs samráðs við Sálfræðingafélag Íslands, forstöðusálfræðinga á helstu stofnunum, þá háskóla sem hafa þjálfað sálfræðinga (Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík), og aðra sálfræðinga. Mikilvægt er að hafa í huga að þessar breytingar koma í veg fyrir að sálfræðingar á Íslandi standist alþjóðlegan samanburð, m.a. við þau lönd sem við viljum bera okkur saman við, sbr. öll Norðurlöndin sem gera kröfu um starfsþjálfunarár.
Ég mótmæli því eindregið að starfsþjálfunarár sé lagt niður. Þá mótmæli ég harðlega þessum vinnubrögðum.
Það sem ég tel alvarlegast er að markmiðið með starfsþjálfunarári virðist alveg hafa glatast í vinnu heilbrigðisráðuneytisins. Markmið starfsþjálfunarársins er að sálfræðikandídatinn öðlist frekari hagnýta reynslu í sálfræðistörfum undir handleiðslu reyndari sálfræðinga. Með slíkri þjálfun er ætlunin að undirbúa sálfræðikandídatann undir flókið og ábyrgðarmikið starf sálfræðings. Gangi reglugerðarbreytingin eftir þá standa nýjir sálfræðingar áfram eftir með mjög takmarkaða klíníska reynslu sem á engan hátt býr þá nægilega vel undir þá miklu ábyrgð sem starfinu fylgir. Hér er vert að rifja upp að mikil sátt ríkti um skilyrði um starfsþjálfunarár þegar það var sett í reglugerðina á sínum tíma, bæði hjá nemum og sálfræðingum, og það eru vonbrigði að gildistöku hefur endurtekið verið frestað.
Þá gerir reglugerðarbreytingin einnig ráð fyrir að auka við kröfur til sálfræðinga sem hyggjast opna eigin starfsstofu. Þessar breytingar eru einnig gerðar án samráðs við sálfræðinga og helstu hagsmunaaðila. Ég mótmæli eindregið þessari breytingu. Ég vil vekja sérstaka athygli á að þessar breytingar gætu verið villandi og þeim ruglað saman við grunnkröfur um starfsþjálfunarár. Hér er einungis verið að tala um kröfur fyrir þá sálfræðinga sem þegar hafa hlotið starfsleyfi og eru að óska eftir leyfi Embættis Landlæknis til að opna eigin stofu. Þessi breyting á reglugerðinni veldur undrun og margt er óljóst tengt henni, eins og t.d. hvaða kröfur eigi að gera til þessarar þjálfunar, hvaða skilyrði þarf að uppfylla til að vera metinn hæfur til að veita slíka þjálfun og hvaða áhrif þessar kröfur hafa. Ekkert samstarf hefur átt sér stað við þá aðila sem þetta myndi hafa áhrif á, þ.m.t. þá sem myndu sinna þjálfunarhlutverki. Það er því nokkuð ljóst að greining á áhrifum virðist ekki hafa farið fram.
Ég krefst þess að ráðuneytið hætti við þessa reglugerðarbreytingu, og hefji tafarlaust aftur samtal við sálfræðinga, og helstu hagsmunaaðila, til þess að koma á starfsþjálfunarári, og séu þá háskólar, Sálfræðingafélags Íslands og forstöðusálfræðingar lykil stofnana á Íslandi hafðir með í ráðum í því mikilvæga verkefni.
Það er mikilvægara en nokkrum sinnum fyrr einmitt núna að menntun sálfræðinga á Íslandi standist alþjóðlegar kröfur.
Reykjavík, 9. nóvember 2020
Dr. Berglind Guðmundsdóttir, sérfræðingur í klínískri sálfræði
Yfirsálfræðingur, Landspítali / Prófessor í sálfræði við Læknadeild, Háskóla Íslands
Í heilbrigðisstefnu til 2030 kemur fram: ”Það er nauðsynlegt að stöðugt sé fjárfest í menntun og þjálfun alls heilbrigðisstarfsfólks og að skapaðar séu starfsaðstæður og kjör hér á landi sem standast samanburð við það sem best gerist í nágrannalöndunum”.
Nú hefur verið birt reglugerðarbreyting þar sem starfsþjálfunarár sálfræðinga hefur verið fellt niður. Þessi reglugerðarbreyting er alfarið óásættanleg. Starfsþjálfunarár er nauðsynlegt fyrir alla þá sálfræðinga sem útskrifast úr klínísku sálfræðinámi frá háskólum á Íslandi. Norðurlöndin öll gera kröfu um starfsþjálfunarár og þetta fyrirkomulag hér á landi leiðir til þess að íslenskir sálfræðingar standast ekki samanburð við þessar þjóðir.
Með reglugerðarbreytingunni er einnig gert ráð fyrir að bætt sé við kröfum til sálfræðinga sem stefna á að veita heilbrigðisþjónustu á eigin starfsstofu. Hér er ekki ljóst hvaða kröfur á að gera til slíkrar þjálfunar, hvernig hún verður metin og ekki hefur verið haft samráð við þær stofnanir sem koma að starfsþjálfun sálfræðinga. Það er í sjálfu sér rétt að setja reglur og kröfur um að minnsta kosti eins árs starfsþjálfun sé krafist fyrir sálfræðinga sem hyggjast starfa sjálfstætt og veita heilbrigðisþjónustu á eigin starfsstöð. Eðlilegt væri að starfsreynsla væri lengri áður en stofnað er til stofureksturs. Þessi reglubreyting kemur alls ekki í stað starfsþjálfunarárs.
Reglugerðarbreytingu eins og þessa ætti að gera í nánu samráði og samstarfi við Sálfræðingafélag Íslands, háskólana og ekki síst þær stofnanir sem koma að starfsþjálfun sálfræðinga. Starfsþjálfunarár sálfræðinga krefst undirbúingsvinnu í formi kröfulýsingar um þjálfun og handleiðslu og að þeirri vinnu ættu að koma ofantaldir aðilar.
Reglugerðarbreytingunni er mótmælt. Krafan er að ráðuneytið dragi til baka þessa breytingu og í samræmi við heilbrigðisstefnu til 2030 sé fjárfest í þjálfun heilbrigðisstarfsfólks sem stenst samanburð við það sem best gerist alþjóðlega og í nágrannalöndunum.
Agnes Agnarsdóttir
Fagstjóri sálfræðiþjónustu
Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins
agnes.agnarsdottir@heilsugaeslan.is
Með þessari reglugerðarbreytingu er verið að fella úr gildi málsgreinina „Til viðbótar skal umsækjandi hafa lokið tólf mánaða verklegri þjálfun, að loknu framhaldsnámi (cand.psych. námi) undir leiðsögn sálfræðings, á viðurkenndum stofnunum eða starfsstofum sem landlæknir viðurkennir.“
Undirrituð hefur í mörg ár verið í samstarfi við forstöðusálfræðinga LSH (Berglindi Guðmundsdóttur), Heilsugæslu Höfuðbogarsvæðisins (Agnesi Agnarsdóttur) og SÁÁ (Ingunni Hansdóttur) enda allar þessar stofnanir með fjölda sálfræðinema í starfsþjálfun á hverju ári frá báðum háskólunum á Íslandi sem eru með klínískt meistaranám í sálfræði og erlendum háskólum. Við funduðum meðal annars í upphafi árs 2018 með háttvirtum heilbrigðisráðherra Svandísi Svavarsdóttur og hennar fólki í ráðuneytinu út af þessu máli ásamt okkar yfirmönnum. Við komum með tillögur að framkvæmd starfsþjálfunarársins og útreikninga fyrir kostnaði. Við buðumst til að þróa þessar tillögur áfram með ráðuneytinu og vinna að því að búa til starfsþjálfunarstöður á okkar stofnunum, veita handleiðslu og koma að fræðslu.
Síðar á árinu 2018 var stofnaður vinnuhópur að frumkvæði heilbrigðisráðuneytis til að finna leiðir til að koma starfsárinu til framkvæmda sem kveðið er á um í reglugerðinni frá 2012 nr. 1130 sem fjallar um menntun, réttindi og skyldur sálfræðinga og skilyrði til að hljóta starfsleyfi og sérfræðileyfi. Af okkur fjórum forstöðusálfræðingunum var aðeins Ingunn í þeim hópi en ekki fyrir sína stofnun heldur fyrir Háskóla Íslands. Haldnir voru 2 fundir snemma árs 2019 en síðan hefur ekki tekist að halda vinnunni áfram, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til að koma á fundi samkvæmt upplýsingum frá Sálfræðingafélaginu.
Tólf mánaða verkleg þjálfun, að loknu framhaldsnámi (cand.psych. námi) undir leiðsögn sálfræðings, á viðurkenndum stofnunum eða starfsstofum sem landlæknir viðurkennir er nauðsynleg til að sálfræðingar á Íslandi geti staðist alþjóðlegan samanburð. Öll hin Norðurlöndin eru með starfsþjálfunarár að loknu framhaldsnámi.
Í reglugerðarbreytingunni er í staðinn fyrir starfsþjálfunarárið sett inn ákvæði um faglegar kröfur vegna reksturs heilbrigðisþjónustu „Sálfræðingur sem hefur í hyggju að veita heilbrigðisþjónustu á eigin starfsstofu eftir útgáfu starfsleyfis skv. 2. gr. skal hafa lokið tólf mánaða verklegri þjálfun undir leiðsögn sálfræðings á viðurkenndum stofnunum eða starfsstofum sem landlæknir viðurkennir.“
Þetta er allt annar hlutur og þarf að skoða sérstaklega en kemur engan veginn í staðinn fyrir starfsþjálfunarár.
Mosfellsbæ, 9. nóvember, 2020
Inga Hrefna Jónsdóttir, forstöðusálfræðingur
Reykjalundi endurhæfingarmiðstöð SÍBS
Með fyrirhugaðri breytingu á reglugerð um menntun sálfræðinga er stigið skref aftur á bak og brýtur hún í bága við heilbrigðisstefnu til 2030 þar sem markmiðið er að fjárfesta í þjálfun heilbrigðisstarfsfólks sem stenst samanburð við það sem best gerist í nágrannalöndunum.
Reglugerðarbreytingin felur í sér að fella 12 mánaða starfþjálfunarár brott úr námi og veita starfsleyfi eftir einungis einnar annar starfsþjálfun. Samhugur hefur verið um það meðal sálfræðistéttarinar að nauðsynlegt sé að bæta starfsþjálfunarári við námið allt frá því að nám til löggildingar hófst á Íslandi árið 1999. Þá var námið sniðið eftir danskri fyrirmynd og alltaf stóð til að hafa kandidatsár að hætti Dana. En við sitjum uppi með hálfkarað nám sem ekki stenst fyllilega samanburð við nágrannalöndin okkar.
Ég mótmæli harðlega fyrirhugaðri breytingu enda stuðlar hún ekki að betri gæðum á heilbrigiðisþjónustu og ef eitthvað er hamlar hún þróun heillar fagstéttar sem ekki situr við sama borð og aðrar klínískar heilbrigðisstéttir sem þurfa langt starfsnám.
Í fjölda ára hefur verið rætt um mikilvægi starfþjálfunarárs sálfræðinema hérlendis, sambærilegt kanditatsári hjá læknum. Slíkt er mikilvægt til að sálfræðiþjónusta hérlendis standist alþjóðlegan samanburð og til að efla gæði þjónustu og fagmennsku. Undirrituð sat fundi með yfirsálfræðingum heilbrigðisstofnana vegna þessarar umræðu 2015-2016. Samhljómur var á þeim fundum um mikilvægi þessa.
Í núgildandi heilbrigðisstefnu er málsgrein um að nauðsynlegt sé að fjárfest sé í menntun og þjálfun alls heilbrigðisstarfsfólks og að kjör og starfsaðstæður standist samanburð við bestu þjónustu í nágrannalöndum okkar. Ljóst er að starfsþjálfunarár er lykilbaráttumál í því samhengi. Einnig tiltekur reglugerðabreytingin að kröfur til sálfræðinga á stofu aukist og virðist sú ákvörðun byggð á sandi og illa ígrunduð.
Mikilvægt er að samtal á milli kerfa s.s. Sálfræðingafélags Íslands og Heilbrigðisráðuneytis eigi sér stað um útfærslu starfsþjálfunarárs og að ekki sé tekin einhliða ákvörðun innan ráðuneytis. Von mín er að ráðuneytið sýni vilja í verki og setjst að fundarborði með fagfélagi stéttarinnar og þannig geti raunhæf lausn sem endurspeglar fagmennsku og markmið samþykktrar heilbrigðisstefnu, orðið að veruleika.
Kveðja Sigrún V. Heimisdóttir, sérfræðingur í klínískri sálfræði, fyrrverandi yfirsálfræðingur á Sjúkrahúsinu á Akureyri, framkvæmdastjóri Sálfræðiþjónustu Norðurlands Akureyri.
Nám sálfræðinga á Íslandi stendur ekki jafnfætis námi á hinum Norðurlöndunum eða því námi sem Samtök sálfræðingafélaga í Evrópu (EFPA) leggja til. Sú staða er alvarleg. Það sem vantar upp á hérlendis er starfsþjálfunarár sem barist hefur verið fyrir í mörg ár.
Gildistöku reglugerðar sem tekur á starfsþjálfunarári sálfræðinga á Íslandi hefur ítrekað verið frestað og nú er lagt til að hætta við starfsþjálfunarárið – nema fyrir þá sem ætla að opna eigin starfsstofur. Starfsþjálfunarár á ekki að snúast um að þjálfa sálfræðinga til að opna eigin starfstofur. Sú viðbót er afar furðuleg og virðist byggja á þekkingarleysi á málinu.
Starfsþjálfunarár á að snúast um að þjálfa alla nýja sálfræðinga í faglegum vinnubrögðum, tryggja handleiðslu og þróun til að hámarka gæði faglegrar þjónustu sem almenningur nýtur góðs af.
Í Heilbrigðisstefnu til 2030 er tekið fram að framhaldsmenntun heilbrigðisstétta eigi að uppfylla stöngustu alþjóðlegar kröfur. Ef þessi breyting verður á reglugerð sem nú er lögð til er farið gegn því markmiði á grófan hátt. Við eigum ekki að sætta okkur við lakari menntun á Íslandi en í nágrannalöndum.
Þessar tillögur um breytingar á reglugerð eru einhliða frá Heilbrigðisráðuneytinu, án nokkurs samráðs frá helstu stofnunum og háskólum sem koma að menntun og þjálfun sálfræðinga eða Sálfræðingafélagi Íslands. Vinnsla um starfsþjálfunarár hefur dregist í allt of mörg ár og er staðan löngu orðin alvarleg þar sem m.a. ekki er tekið tillit til eða reynt að vinna í samráði við þessa aðila sem hafa í mörg ár reynt að finna leiðir til að gera nám sálfræðinga á Íslandi samanburðarhæft við nágrannalöndin.
Reglugerðarbreytingunni er harðlega mótmælt.
Hrund Þrándardóttir, sálfræðingur
Framkvæmdastjóri Sálstofunnar
Nú hefur verið ákveðið að gera breytingar á reglugerð um starfsþjálfunarár sálfræðinga (reglugerð r. 1130/2012). Breytingin felur í sér m.a. að starfþjálfunarár sálfræðinga er fellt niður. Því miður virðist tillagan að breytingu hafa verið gerð einhliða og án samstarfs hagsmunaaðila.
Starf sálfræðings getur verið erfitt og krefjandi. Ábyrgð sálfræðinga er oft mikil og er því þjálfun þeirra mikilvæg. Starfsþjálfunarár er nauðsynleg viðbót við það nám sem sálfræðingar fá nú þegar. Mikilvægi þess að starfa undir handleiðslu reyndari sálfræðinga í umhverfi þar sem þekkingu er miðlað til þeirra mun skila af sér hæfari sálfræðingum og betri þjónustu.
Nú er staðan þannig á Norðurlöndunum að þau hafa tekið upp þá stefnu að bæta starfsþjálfunarári við nám sálfræðinga. Þessi breyting sem lögð er til hér myndi því geta haft þær afleiðingar að íslenskir sálfræðingar verði ekki samkeppnishæfir á alþjóðlegum vettvangi.
Með starfsþjálfunarári koma einnig margir möguleikar sem gætu enn frekar eflt það átak og breytingar sem hafa átt sér stað í geðheilbrigðismálum síðustu ár. Þannig gæti starfsþjálfunarárið t.a.m. verið sérstaklega mikilvægt fyrir stofnanir á landsbyggðinni þar sem oft reynist erfitt að ráða sálfræðinga sem og mannafli er lítill. Þessi leið gæti því aukið gæði geðheilbrigðisþjónustu á landsvísu.
Unnið hefur verið að því til lengri tíma að skipuleggja starfsþjálfunarár fyrir sálfræðinga og tel ég mikilvægt að þeirri vinnu verði haldið áfram með þeim stofnunum sem að málinu hafa komið hingað til. Ég mótmæli því þessari fyrirhuguðu breytingu.
Emil Einarsson, yfirsálfræðingur
Heilbrigðisstofnun Vesturlands
Árið 2012 var samþykkt reglugerð nr. 1130/2012 um menntun, réttindi og skyldur sálfræðinga. Þar voru sett skilyrði um 12 mánaða starfsnám til að hljóta starfsleyfi sem sálfræðingur á Íslandi. Nú hefur verið birt reglugerðarbreyting þar sem lagt er til að felld sé niður krafa um 12 mánaða starfsþjálfun verðandi sálfræðinga. Þessi reglugerðarbreyting er gerð án samráðs við Sálfræðingafélag Íslands, háskóladeildir sem sjá um menntun sálfræðinga og þær stofnanir sem sjá um starfsþjálfun/starfsmenntun sálfræðinga.
Það er sameiginleg niðurstaða sálfræðinga á Íslandi þ.e. Sálfræðingafélagsins, Háskóla Íslands, Háskólans í Reykjavík og forstöðumanna stofnanna sem sjá um starfsþjálfun sálfræðinga, að þjálfun sálfræðinga á Íslandi sé samanburðarhæf við önnur lönd sér í lagi Norðurlöndin sem við berum okkur gjarnan við. Heilbrigðisráðuneytið stofnaði vinnuhóp hagsmunaaðila haustið 2018 með það að markmiði að útfæra starfsþjálfunina. Lítil vinna hefur verið í þeim hópi þar sem ráðuneytið hefur ekki svarað ákalli sálfræðinga um samráð þannig að hægt sé að komast að niðurstöðu sem tryggir þá menntun sem reglugerðin segir til um. Á Norðurlöndum er gerð krafa um starfsþjálfunarár áður en sálfræðingur fær löggildingu sína.
Ég mótmæli harðlega þessari reglugerðarbreytingu, því að með henni erum við ekki samanburðarhæf við menntun annarra nágrannaríkja. Leiða má líkur að því að íslenskir sálfræðingar þurfi að taka einhverskonar aukamenntun ef þeir ætla sér að vinna erlendis þar sem okkar menntun verði, þegar til lengri tíma er litið, ekki talin fullnægjandi. Það að við séum ekki samanburðarhæf samræmist ekki heilbrigðisstefnu sem sett hefur verið, en þar hefur verið lögð áhersla á menntun og þjálfun heilbrigðisstarfsfólks þannig að það standist samanburð við heilbrigðismenntun annarra ríkja.
Það skýtur skökku við að stofna starfshóp allra helstu hagsmunaaðila varðandi menntun sálfræðinga og gefa síðan út reglugerðarbreytingu sem er án alls samráðs og í mikilli andstöðu við samfélag sálfræðinga í heild sinni. Ég mótmæli harðlega slíkum vinnubrögðum og yfirgangi af hálfu ráðuneytisins.
Ég mótmæli harðlega því ójafnræði að nýútskrifaðir sálfræðingar sem hefja störf á stofnun eða viðurkenndum starfsstofum fái löggildingu en aðrir ekki. Þar virðist ráðuneytið vera að fría sig ábyrgð á því að fjármagna og tryggja tólf mánaða verklega þjálfun verðandi sálfræðinga. Ef þetta snýr einungis að því að Landlæknir gefi ekki út leyfi fyrir nýtútskrifaða að starfa á eigin starfsstofu, þá þarf það ekki að vera í reglugerð um menntun sálfræðinga. Það hlýtur að koma að öðrum reglugerðum sem tengjast leyfum sjálfstætt starfandi sálfræðinga. Mjög óljóst er hvernig útfærslan yrði og ekki tækt að slík krafa sé ekki samræmd og gerð í samráði við sálfræðinga. Það er mikilvægt að nýútskrifuðum sálfræðingum sé tryggð lengri þjálfun undir dyggri handleiðslu sem væri partur af skipulögðu starfsnámi sem væri bæði skilgreint af sálfræðingum á stofnunum/starfsstofum sem og háskólasamfélaginu.
Út frá staðreyndum málsins og hroðvirknislegum vinnubrögðum varðandi reglugerðarbreytingu þessa, tel ég ráðuneytinu ekki stætt á því að halda málinu til streitu. Það er mikilvægt að málið sé dregið til baka og nauðsynlegt að það sé unnið í samvinnu við sálfræðinga en ekki þröngvað í gegn. Nauðsynlegt er að hefja að nýju vinnu með helstu hagsmunaaðilum þannig að nám íslenskra sálfræðinga sé í samræmi við heilbrigðisstefnu sem sett hefur verið á Íslandi og það sem mikilvægast er standist alþjóðlegar kröfur um menntun sálfræðinga.
Ágústa Ingibjörg Arnardóttir
Sérfræðingur í klínískri sálfræði
Framkvæmdastjóri SÓL sálfræði- og læknisþjónustu
Farið var að kenna sálfræði til BA-prófs við Háskóla Íslands árið 1971. Eftir sem áður þurftu þeir Íslendingar sem vildu verða fullnuma í faginu að leita til Evrópu eða N-Ameríku eftir framhaldsnámi og réttinum til að kallast sálfræðingar. Fyrir vikið var skortur á sálfræðingum viðvarandi vandamál á Íslandi út síðustu öld þrátt fyrir að mörg hundruð Íslendingar lykju BA-prófi í sálfræði. Á þessu varð mikil bót árið 1999 þegar fyrsti hópur Cand. Psych. nema í klínískri sálfræði hóf framhaldsnám í sálfræði við Háskóla Íslands. Þessi hópur útskrifaðist árið 2001 og varð þar með fyrsti árgangur sálfræðinga sem hlutu fulla menntun á Íslandi. Síðan hefur íslenskum sálfræðingum fjölgað mikið og í dag útskrifa bæði Háskóli Íslands og Háskólinn í Reykjavík sálfræðinga.
Frá upphafi hefur sálfræðinám á Íslandi verið skipulagt á sama grunni og sálfræðinám á hinum Norðurlöndunum og víðar í Evrópu. Þar, líkt og á Íslandi, er um að ræða fimm ára nám við háskóla sem hafa fengið viðurkenningu til að mennta sálfræðinga. Fyrri hluti námsins er þriggja ára grunnnám og að því loknu tekur við tveggja ára framhaldsnám á meistarastigi. Að námi loknu útskrifast nemendur ýmist með meistaragráðu í sálfræði eða Cand. Psych. gráðu. Að þessu leiti er nám sálfræðinga sem mennta sig á Íslandi í dag sambærilegt námi sálfræðinga á hinum Norðurlöndunum og annars staðar í Evrópu en frá upphafi náms í sálfræði við HÍ hefur námið verið skipulagt að danskri fyrirmynd.
Þó að menntun íslenskra sálfræðinga sé þannig að flestu leiti lík menntun sálfræðinga á hinum Norðurlöndunum sker sálfræðimenntun á Íslandi sig þó úr í einu veigamiklu atriði. Það atriði er að íslenskir sálfræðingar hafa ekki fengið starfsþjálfunarár eða s.k. kandídatsár eftir útskrift úr háskóla líkt og kollegar þeirra á Norðurlöndunum og annars staðra í Evrópu. Nú er kveðið á um starfsþjálfunarár í reglugerð um menntun, réttindi og skyldur sálfræðinga en gildistöku ákvæðisins hefur ítrekað verið frestað þar til nú að ákveðið hefur verið að fella það á brott.
Þó að fyrirhuguð breyting reglugerðarinnar láti ekki mikið yfir sér (í stað starfsþjálfunarárs kemur inn ákvæði um verklega þjálfun undir leiðsögn sálfræðings) er afar mikilvægt að þessi breyting nái ekki fram að ganga. Það er afar mikilvægt að fullgilt starfsþjálfunarár verði hluti af menntun sálfræðinga og um það gildi opinber námskrá þar sem skilgreindir eru þeir færniþættir sem sálfræðingur þarf að uppfylla til að fá að starfa sjálfstætt sem sálfræðingur.
• Verði fallið frá starfsþjálfunarári er vandséð að nást muni að fella alla verklega þjálfun undir sameiginlega námskrá eða gæðaviðmið sem þó verða að gilda um allt starfsnám. Hér er nærtækast að horfa til starfsþjálfunarárs (kandídatsárs) lækna til samanburðar.
• Ef vel á að vera er verkleg kennsla heilbrigðisstétta vandasamt erfiðisverk. Ef fallið verður frá ákvæði um starfsþjálfunarár er ljóst að réttindi mentora eða leiðbeinanda verða ekki tryggð. Þannig skapast raunveruleg hætta á að erfitt verði að finna nýútskrifuðum sálfræðingum þjálfunarstöður sem tryggja fullnægjandi handleiðslu og reynslu.
• Verði fallið frá starfsþróunarári í stað þess fyrirkomulags sem hér er birt er fyrirséð að Embætti Landlæknis verði gert mjög erfitt fyrir að framfylgja ákvæðum 2. mgr. 6. gr. laga nr. 41/2007, um landlækni og lýðheilsu þar sem engin samræmd námskrá verður til um starfsþjálfun og/eða mjög erfitt að framfylgja henni.
• Frá 1999 hefur verið unnið að því að samræma menntun sálfræðinga og kröfur til þeirra í löndum Evrópu. Grunnkrafan er s.k. 3+2+1 skipulag náms þar sem sálfræðingur þarf að lágmarki að ljúka viðurkenndu þriggja ára grunnnámi í sálfræði, þá viðurkenndu tveggja ára framhaldsnámi og loks viðurkenndu starfsþjálfunarári. Mikilvægt er að um starfsþjálfunarári gildi námskrá gefin út og staðfest af yfirvöldum heilbrigðis- og menntamála í viðkomandi landi. Án starfsþjálfunarárs munu íslenskt menntaðir sálfræðingar lenda í vandræðum með að fá réttindi sín viðurkennd annars staðar í Evrópu. Þannig verður menntun sálfræðinga á Íslandi gengisfelld og gerð minna aðlaðandi en efni standa til.
• Svo virðist sem horft hafi verið í ætlaðan kostnað við starfsþjálfunarár sálfræðinga við endurteknar frestanir á gildistöku ákvæðis um starfsþjálfun. Staðreyndin er þó sú að starfsþjálfunarár sem fer fram samkvæmt vel skilgreindri námskrá sem er í samræmi við það sem best gerist hverju sinni er bæði hagkvæm og arðbær fjárfesting í mannauði sálfræðinga. Með starfsþjálfunarári nást mikilvægir færniþættir og faglegur þroski fyrr en ella. Það hefur svo þau áhrif að auka enn frekar samfélagslegan arð af störfum sálfræðinga.
• Án starfsþjálfunarárs sem skipulagt er á grundvelli námskrár í nánu samstarfi fræðasamfélags, heilbrigðisstofnana, fagfélags sálfræðinga og heilbrigðisyfirvalda er raunveruleg hætta á því að faglegt starf íslenskra sálfræðinga dragist aftur úr í samanburði við störf sálfræðinga annars staðar í Evrópu. Slík afturför er í hróplegu ósamræmi við þá miklu uppbyggingu sem nú á sér stað í geðheilbrigðisþjónustu m.a. með mikilli fjölgun sálfræðinga á heilsugæslustöðvum.
• Í ljósi framangreinds er það sérstaklega bagalegt að Heilbrigðisráðuneytið hafi nú þegar birt framangreinda reglugerðarbreytingu án samráðs við fagfélag sálfræðinga, háskólasamfélagið eða þær heilbrigðisstofnanir sem hlut eiga að máli.
Sálfræði er ungt fag á Íslandi. Þegar svo er, er eðlilegt að það taki tíma að móta lög, reglur og hefðir sem um fagið gilda. Við Íslendingar erum hins vegar svo lánsamir að við erum ekki að finna sálfræðina upp.
Aðrar þjóðir hafa fetað þessa slóð á undan okkur og hjá nágrannaþjóðum okkar gildir samevrópskt regluverk bæði um menntun sálfræðinga og sérfræðiviðurkenningar í faginu. Það er því alger óþarfi fyrir okkur að sætta okkur við annars flokks menntun og annars flokks sálfræðiþjónustu. Þess í stað tel ég bæði rökrétt og eðlilegt að horft verið til skipulags starfsþjálfunar sálfræðinga á hinum Norðurlöndunum og sami háttur hafður á hér á Íslandi. Næsta skref á þeirri vegferð verður að vera full gildistaka ákvæðis um starfsþjálfunarár sálfræðinga í samræmi við fyrri útgáfu reglugerðar nr. 1130/2012.
Það er mat undirritaðs að öðru vísi verði gæði sálfræðiþjónustu á Íslandi ekki tryggð til frambúðar.
Mikill samhljómur hefur ríkt á meðal sálfræðinga um mikilvægi þess að stofna til starfsþjálfunarárs, og geta þannig betur staðist alþjóðlegan samanburð. Má í því samhengi benda á að öll Norðurlöndin gera kröfu um starfsþjálfunarár. Eins og meðal annars kemur fram í heilbrigðisstefnu til ársins 2030 þá er afar mikilvægt að menntun og þjálfun alls heilbrigðisstarfsfólks standist samanburð við það sem best gerist í nágrannalöndunum. Það væri því afar bagaleg niðurstaða ef ekki verður áfram stefnt að því að stofna til starfsþjálfunarárs sem hluta af menntun og þjálfun sálfræðinga á Íslandi.
Reglugerðarbreytingin gerir einnig ráð fyrir að bætt sé við kröfum til sálfræðinga sem hyggist veita heilbrigðisþjónustu á eigin starfsstofu. Ég geri athugasemd við að slík breyting sé ekki gerð með samráði við sálfræðinga og helstu hagsmunaaðila og bendi á að það sem lagt er til varðandi verklega þjálfun undir leiðsögn kemur alls ekki í staðinn fyrir starfsþjálfunarár. Margt er hér mjög óljóst eins og hvaða kröfur eigi að gera til þessarar þjálfunar, hverjir eigi að meta hæfni og hvernig.
Ég vil einnig ítreka þá skoðun mína um það hversu óásættanlegt það er að breytingar sem þessar skuli ekki vera gerðar með meira samráði við sálfræðinga og helstu hagsmunaaðila. Ég óska þess eindregið að ráðuneytið hætti við þessa reglugerðarbreytingu og hefji aftur samtal við sálfræðinga og helstu hagsmunaaðila til þess að koma á starfsþjálfunarári. Í því mikilvæga verkefni að koma á slíkri þjálfun hér á landi verði helstu forstöðusálfræðingar, háskólar og Sálfræðingafélag Íslands höfð með í ráðum.
Elín Díanna Gunnarsdóttir, sálfræðingur
Forseti hug- og félagsvísindasviðs Háskólans á Akureyri
Það var mikilsverður áfangi þegar heilbrigðisráðherra samþykkti árið 2012 að bæta starfsþjálfunarári við menntun sálfræðinga, í samræmi við kröfur sem gerðar eru til sálfræðinga í löndum sem við viljum bera okkur saman við, svo sem á Norðurlöndum. Í heilbrigðisstefnu til 2030 kemur meðal annars fram: „Það er því nauðsynlegt að stöðugt sé fjárfest í menntun og þjálfun alls heilbrigðisstarfsfólks og að skapaðar séu starfsaðstæður og kjör hér á landi sem standast samanburð við það sem best gerist í nágrannalöndunum.“ Starfsþjálfunarár er nauðsynlegt til þess að sálfræðingar geti staðist slíkan samanburð.
Hins vegar hefur hefur starfsþjálfunarárið enn ekki verið útfært í samvinnu ráðuneytis, Sálfræðingafélags Íslands (SÍ) og þeirra stofnana (eins og Háskóla Íslands) sem að þjálfun sálfræðinga koma.
Í júní 2018 var gildistöku reglugerðar um starfsþjálfunarár (reglugerð nr. 1130/2012 um menntun, réttindi og skyldur sálfræðinga og skilyrði til að hljóta starfsleyfi og sérfræðileyfi) frestað enn einu sinni, þá til 1. júlí 2020. Haustið 2018 var stofnaður vinnuhópur að frumkvæði heilbrigðisráðuneytis til að finna leiðir svo uppfylla megi reglugerðina. Haldnir voru 2 fundir snemma árs 2019 en síðan hefur ekki tekist að halda vinnunni áfram, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til að koma á fundi. Tekið skal fram að í vinnuhópnum voru einungis fulltrúar frá háskólunum tveimur sem sinna menntun og þjálfun sálfræðinema, auk Sálfræðingafélags Íslands, en ekki fulltrúar frá ýmsum öðrum stofnunum sem málið varðar.
SÍ kvartaði til heilbrigðisráðherra um seinagang í þessari vinnu í febrúar 2020 og fengum við þá viðbrögð úr ráðuneytinu um að verið væri að vinna að þessu innanhúss. Við ítrekuðum óskir okkar nokkrum sinnum um fund hjá starfshópi sem okkar var ávallt lofað. Þegar reglugerðin átti að taka gildi 1. júlí í sumar var gildistöku hennar frestað til áramóta vegna Covid-19. Enn var okkur lofað fundi í nefndinni en fengum ekki.
Nú í september 2020 kemur tölvupóstur frá lögfræðingi ráðuneytisins um að búið sé að ákveða breytingu á reglugerðinni. Var það gert án samráðs við starfshóp og fékk starfshópur þau svör að ekki væri ástæða til að funda þar sem búið væri að ákveða breytingu á reglugerðinni.
Þegar nefndin ítrekaði ósk sína um fund komu þau svör að ekki væri hægt að verða við því og okkur bent á að breytingin á reglugerðinni verði sett í samráðsgátt til umsagnar.
Við mótmælum harðlega þessum vinnubrögðum ráðuneytisins og algjörum skorti á samráði um þetta mikilvæga hagsmunamál.
Við mótmælum jafnframt reglugerðarbreytingunni sjálfri. Í henni felst að starfsþjálfunarár er lagt niður, sem grefur undan þjálfun sálfræðinga í alþjóðlegum samanburði.
Reglugerðarbreytingin gerir einnig ráð fyrir að bætt sé við kröfum til sálfræðinga sem hyggist veita heilbrigðisþjónustu á eigin starfsstofu. Við mótmælum líka þessari breytingu, sem ekki var gerð með samráði við sálfræðinga og helstu hagsmunaaðila, og kemur alls ekki í staðinn fyrir starfsþjálfunarár. Margt er hér mjög óljóst eins og hvaða kröfur eigi að gera til þessarar þjálfunar, hverjir eigi að meta hæfni og hvernig, og hvaða áhrif það hefur að koma svona breytingu á án nokkurs samráðs við þá aðila sem málið varðar. Það er einungis hægt að ímynda sér hverjar afleiðingar af þessari ákvörðun gæti orðið, til dæmis þær að nýútskrifaðir sálfræðingar í leit að starfi í eitt ár á opinberum starfsstöðum yrðu örugglega mun fleiri en plássin sem hægt væri að veita. Þeir væru jafnframt að keppa við sálfræðinga með fullt starfsleyfi sem mjög líklega yrði til þess að margir yrðu að bíða lengi áður en þeir fengju pláss og fullt starfsleyfi til þess að geta opnað stofu. Einnig er mikilvægt að taka fram að kostnaður fyrir starfsstöðvar að gera þetta með þessum hætti (eins og reglugerðarbreytingin gerir ráð fyrir) yrði að líkindum síst minni en að bjóða upp á skiplögð þjálfunarpláss á starfsþjálfunarári. Mun fleiri neikvæðar afleiðingar mætti tína til.
Við krefjumst þess að ráðuneytið hætti við þessa reglugerðarbreytingu, og hefji aftur samtal við sálfræðinga, og helstu hagsmunaaðila, til þess að koma á starfsþjálfunarári, og séu þá helstu forstöðusálfræðingar, háskólar, auk Sálfræðingafélags Íslands hafðir með í ráðum í því mikilvæga verkefni að koma á slíkri þjálfun hér á landi. Við teljum að það sé nauðsynlegt skref til að standast alþjóðlegar kröfur til sálfræðinga og uppfylla heilbrigðisstefnu sem sett hefur verið á Íslandi.
Virðingarfyllst,
Fyrir hönd Sálfræðideildar Háskóla Íslands,
Andri Steinþór Björnsson,
prófessor við Sálfræðideild Háskóla Íslands
Reykjavík 10. nóvember 2020
Efni: Umsögn um „Breytingu á reglugerð nr. 1130/2012 um menntun, réttindi og skyldur sálfræðinga og skilyrði til að hljóta starfsleyfi og sérfræðileyfi“.
Hér hefur verið sett fram reglugerðarbreyting um að 12 mánaða verknámi sálfræðinga, á leið til löggildingar, verði feld niður. Um leið skulu sálfræðingar sem hafa í hyggju að veita heilbrigðisþjónustu á eigin starfsstofu eftir útgáfu starfsleyfis hafa lokið 12 mánaða verklegri þjálfun undir leiðsögn sálfræðings á stofnunum eða starfsstofum sem Landlæknir viðurkennir. Reglugerðabreytingin er sett fram án nokkurs samráðs við Sálfræðingafélag Íslands, forstöðusálfræðinga á helstu stofnunum, þá háskóla sem hafa þjálfað sálfræðinga (Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík), og aðra sálfræðinga. Sálfræðingafélagið mótmælir þessari breytingu harðlega og leggur áherslu á 12 mánaða verknám verði hluti af menntun sálfræðinga hér á landi. Slíkt væri gæfuspor fram á við og myndi tryggja að nám sálfræðinga hér á landi uppfyllti þær kröfur sem gerðar eru til sálfræðinga á hinum Norðurlöndunum og víðar í Evrópu. Samhljómur er á meðal sálfræðinga (þ.á.m. Sálfræðingafélags Íslands, Háskóla Íslands, Háskólans í Reykjavík, og forstöðusálfræðinga við ýmsar stofnanir) að stofna til starfsþjálfunarárs, og geta þannig staðist alþjóðlegan samanburð, m.a. við þau lönd sem við viljum bera okkur saman við.
Í reglugerð nr. 1130/2012 um menntun, réttindi og skyldur sálfræðinga og skilyrði til að hljóta starfsleyfi og sérfræðileyfi frá 2012 var sett inn 12 mánaða verknám sem hluti af grunnkröfum fyrir því að geta kallað sig löggildan sálfræðing og fá starfsleyfi sem slíkur. 12 mánaða verknám hefur lengi verið hluti af menntun sálfræðinga hjá þjóðum sem við berum okkur saman við. Samtök Evrópskra sálfræðingafélaga (EFPA) hafa m.a. sett 12 mánaða verknám sem eitt af lágmarks gæðakröfum fyrir Europsy. Europsy er gæðavottun fyrir menntun löggildra sálfræðinga. Þjóðir geta fengið þessa gæðavottun að uppfylltum ákveðnum lágmarks skilyrðum. Allar Norðurlandaþjóðirnar, fyrir utan Ísland, hafa fengið þessa gæðavottun og er það 12 mánaða verknámið sem stendur út af til að Íslandi geti orðið aðili.
Til að átta sig á hvernig málum er háttað hjá öðrum þjóðum, er nám til löggildingar með eftirfarandi hætti hjá:
• Svíþjóð: Bóklegt nám 3+2 ár. Starfsþjálfun í 1 ár, tímabundið starfsleyfi fæst þegar starfsþjálfun hefst og svo löggilding að lokinni starfsþjálfun.
• Noregur: Bóklegt nám 3+2 ár, við það bætist 1 ár í starfsþjálfun sem er hluti af náminu og því um að ræða 6 ára nám. Útskrift úr háskóla að starfsþjálfun lokinni og í framhaldi er hægt að sækja um löggildingu.
• Danmörk: Bóklegt nám 3+2 ár. Starfsþjálfun 2 ár. Að loknu bóklegu námi fást réttindi til að kalla sig sálfræðing en að loknu tveggja ára starfsþjálfun fást réttindi til að kalla sig löggiltan sálfræðing.
• Íslandi: Bóklegt nám 3+2 ár. Færð löggildingu að loknu 5 ára námi þar sem reglugerðabreyting um 12 mánaða verknám hefur ekki verið innleidd á Íslandi.
Samtök norrænna sálfræðingasamtaka (SAK) sendu árið 2016 bréf til þáverandi heilbrigðisráðherra Kristjáns Þórs Júlíussonar þar sem yfirvöld voru hvött til þess að tryggja gæði sálfræðiþjónustu á Íslandi með því að innleiða starfsþjálfunarár og þannig tryggja að menntun sálfræðinga á Íslandi standist norræna og Evrópska hæfnistaðla. Afrit af bréfinu fylgir umsögninni.
Gæði menntunar er mikilvæg fyrir gæði heilbrigðisþjónustu sem heilbrigðisráðherra er meðvitaður um og leggur áherslu á. Eitt af markmiðum heilbrigðisstefnu til 2030 er að: „Framhaldsmenntun heilbrigðisstétta uppfyllir ströngust alþjóðlegar kröfur.” Því koma breytingatillögur ráðherra nú mjög á óvart og ganga að mati Sálfræðingafélags Íslands gegn þessari stefnu. Að framansögðu er ljóst að starfsþjálfunarár er nauðsynlegt til þess að menntun sálfræðinga hér á landi standist alþjóðlegar kröfur.
Reglugerðarbreytingin gerir einnig ráð fyrir að bætt sé við kröfum til sálfræðinga sem hyggist veita heilbrigðisþjónustu á eigin starfsstofu. Við mótmælum líka þessari breytingu, sem ekki var gerð með samráði við sálfræðinga og helstu hagsmunaaðila, og kemur alls ekki í staðinn fyrir starfsþjálfunarár. Margt er hér mjög óljóst eins og hvaða kröfur eigi að gera til þessarar þjálfunar, hverjir eigi að meta hæfni og hvernig, og hvaða áhrif það hefur að koma svona breytingu á án nokkurs samráðs við þá aðila sem málið varðar. Auk þess virðist sem verið sé að gera ríkari kröfur á sálfræðinga sem hyggjast starfa á eigin starfsstofu en annarra heilbrigðisstétta og sér Sálfræðingafélag Íslands ekki hvernig hægt er að mismuna heilbrigðisstéttum með þessum hætti.
Eins og fram kemur í umsögn þessari hefur ekki verið haft samráð við sálfræðinga né helstu hafsmunaaðila við gerð þessarar reglugerðarbreytingar. Það var ekki gert þrátt fyrir að heilbrigðisráðuneytið hafi skipað vinnuhóp, til að finna leiðir svo uppfylla mætti reglugerðina, árið 2018. Í vinnuhópnum sátu m.a. aðili frá Sálfræðingafélagi Íslands, aðili frá sálfræðideild Háskóla Íslands og aðili frá sálfræðideild Háskólans í Reykjavík. Fundað var í tvígang snemma árs 2019 en síðan hefur ekki verið fundar þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til að koma á fundi í nefndinni. Sálfræðingafélag Íslands getur ekki látið hjá líða að vekja athygli á þessum slælegu vinnubrögðum í kringum gerð þessarar reglugerðarbreytingar.
Við krefjumst þess að ráðuneytið dragi þessa reglugerðarbreytingu til baka, og hefji aftur samtal við sálfræðinga, og helstu hagsmunaaðila, til þess að koma á starfsþjálfunarári, og sé þá Sálfræðingafélag Íslands, helstu forstöðusálfræðingar og háskólar hafðir með í ráðum í því mikilvæga verkefni að koma á slíkri þjálfun hér á landi. Við teljum að það sé nauðsynlegt skref til að standast alþjóðlegar kröfur til sálfræðinga og uppfylla heilbrigðisstefnu sem sett hefur verið á Íslandi.
Fyrir hönd stjórnar Sálfræðingafélags Íslands
Tryggvi Guðjón Ingason, formaður
Viðhengi ViðhengiMeð vísan til máls nr. 217/2020 sem birt var 13.10.2020 á Samráðsgátt island.is, veitir sálfræðideild Háskólans í Reykjavík hér umsögn um drög að 5. breytingu á reglugerð nr. 1130/2012 um menntun, réttindi og skyldur sálfræðinga og skilyrði til að hljóta starfsleyfi og sérfræðileyfi.
Í drögunum leggur heilbrigðisráðuneytið til þá breytingu að ákvæðið um starfsþjálfunarár að loknu meistaranámi í klínískri sálfræði verði fellt niður og í staðinn verði eingöngu gerðar kröfur um 12 mánaða verklega þjálfun til nýútskrifaðra sálfræðinga sem hyggjast veita heilbrigðisþjónustu á eigin starfsstofu.
Sálfræðideild Háskólans í Reykjavík leggst eindregið gegn þessum breytingum. Sér í lagi leggst deildin gegn því að starfsþjálfunarár fyrir þá sem hafa lokið meistaranámi í klínískri sálfræði á Íslandi verði lagt niður. Það að bæta við kröfum um þjálfun til sálfræðinga sem hyggjast veita heilbrigðisþjónustu á eigin starfsstofu kemur ekki í staðinn fyrir starfsþjálfunarár sambærilegt við það sem gerð er krafa um á Norðurlöndunum og annars staðar. Í heilbrigðisstefnu fyrir íslenska heilbrigðisþjónustu til ársins 2030, sem gefin var út af heilbrigðisráðuneytinu í fyrra, kemur fram að nauðsynlegt sé að fjárfesta í menntun og þjálfun alls heilbrigðisstarfsfólks og að skapaðar séu starfsaðstæður og kjör sem standast samanburð við það sem best gerist í nágrannalöndunum. Þá er sérstök áhersla lögð á að framhaldsmenntun heilbrigðisstétta uppfylli ströngustu alþjóðlegar kröfur (sjá bls. 34, liður 8). Með því að fella niður kröfu um starfsþjálfunarárið stenst menntun og þjálfun sálfræðinga á Íslandi ekki þennan alþjóðlega samanburð, heldur verður með minni kröfur en öll þau lönd sem við berum okkur saman við, hvort sem er á Norðurlöndum, annars staðar í Evrópu eða Bandaríkjunum.
Þá vill deildin benda á að það vinnulag sem ráðuneytið viðhafði við gerð þessara breytinga er í hrópandi ósamræmi við þann farveg sem málið var komið í. En ráðuneytið skipaði í nefnd til að fjalla um og útfæra starfsþjálfunarárið haustið 2018. Í nefndinni sátu meðal annars aðila frá þeim háskólum á Íslandi sem mennta sálfræðinga (Háskólinn í Reykjavík og Háskóli Íslands) og Sálfræðingafélagi Íslands. Þessar breytingartillögur sem nú hafa verið lagðar fram voru hins vegar gerðar án nokkurs samráðs við þessa nefnd, sem var að störfum fyrir ráðuneytið að þessum málum á þeim tíma sem tillögurnar voru lagðar fram.
Sálfræðideild Háskólans í Reykjavik hvetur ráðuneytið til þess að hætta við þessa reglugerðarbreytingu og halda áfram þeirri samvinnu sem var í gangi milli fyrrgreindra aðila til þess að koma á starfsþjálfunarárinu. Deildin telur samvinnu þessara aðila að útfærslu starfsþjálfunarársins árangursríkustu leiðina til að tryggja gæði sálfræðiþjónustu á Íslandi til framtíðar og til að tryggja að við sem þjóð stöndumst alþjóðlegar menntakröfur heilbrigðisstéttar sálfræðinga í samræmi við viðmið heilbrigðisstefnu heilbrigðisráðuneytisins til ársins 2030.
Fyrir hönd sálfræðideildar Háskólans í Reykjavík
Dr. Linda Bára Lýðsdóttir, forstöðumaður MSc náms í klínískri sálfræði við sálfræðideild HR
Dr. Bryndís Björk Ásgeirsdóttir, deildaforseti sálfræðideildar HR