Samráð fyrirhugað 15.10.2020—29.10.2020
Til umsagnar 15.10.2020—29.10.2020
Niðurstöður í vinnslu frá 29.10.2020
Niðurstöður birtar

Áform um breytingar á lögum um málefni aldraðra

Mál nr. 219/2020 Birt: 15.10.2020
  • Heilbrigðisráðuneytið
  • Áform um lagasetningu
  • Málefnasvið:
  • Heilbrigðisþjónusta utan sjúkrahúsa

Niðurstöður í vinnslu

Umsagnarfrestur er liðinn (15.10.2020–29.10.2020). Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Niðurstöður samráðsins verða birtar þegar unnið hefur verið úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust.

Málsefni

Samræma lög nr. 125/1999, um málefni aldraðra, þeirri niðurstöðu vinnuhóps um mat á InterRAI-mælitækjum og færni- og heilsumati, að betur færi að ein færni- og heilsumatsnefnd fari yfir álitamál á landsvísu en ekki séu starfandi færni- og heilsumatsnefndir í öllum heilbrigðisumdæmum landsins.

Stefna hins opinbera er að einfalda samþykktarferli á hjúkrunarheimilum, með tilliti til hvers einstaklings og gera ferlið skilvirkara. Í því samhengi er stefnt að notkun interRAi-mælitækisins, líkt og er m.a. gert í Kanada. Mælitækið sker úr um þjónustuþörf og mat á þörf fyrir dvöl í hjúkrunarheimili myndi byggjast á niðurstöðum þess án þess að hver umsókn væri tekin fyrir af færni- og heilsumatsnefnd. Ef upp kæmu álitamál færu þau til færni- og heilsumatsnefndar þar sem lokaniðurstaða fengist.

Til að auka skilvirkni og yfirsýn væri æskilegt að einn biðlisti væri á landsvísu. Sá listi væri unnin sjálfkrafa úr interRAi-mælitækjunum og óskir umsækjenda um ákveðin hjúkrunarheimili væru auðkenndar. Með þessu fyrirkomulagi ætti að vera tryggt að þeim sem eru mestri þörf fyrir hjúkrunarrými væru í mestum forgangi.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Anna Björg Jónsdóttir - 21.10.2020

Góðan dag,

Sendi inn athugasemdir við ofanskráð.

Væri þakklát fyrir að fá staðfestingu á því að þetta sé móttekið.

Bestu kveðjur

Anna Björg

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#2 Pálmi V Jónsson - 29.10.2020

Ég undirritaður sendi inn umsögn um áform um breytingu á lögum um málefni aldraðra nr. 125/1999HRN20060137.

Ég hef margvíslega menntun og reynslu sem tengist því sem um er rætt í umræddri tillögu um breytingu á framkvæmd Færni- og heilsumats (FHM) á Íslandi.

Ég er sérfræðingur í lyf- og öldrunarlækningum, yfirlæknir öldrunarlækningadeildar Landspítala og prófessor í öldrunarlækningum. Ég hef setið í nefndum á vegum HTR frá byrjun, bæði hvað varðar vistunarmat, síðar FHM og einnig er varðar interRAI matshóp HTR og síðar Embættis Landlæknis, þar til þessir matshópar voru lagðir niður. Þá hef ég verið í interRAI hópnum í tæp 30 ár og í stjórn hópsins þar til nýlega. Ég hef tekið þátt í fjölmörgum rannsóknum, bæði á vistunarmati Íslandi (sjá greinar í Læknablaði ) og einnig margvíslegum íslenskum og alþjóðlegum rannsóknarverkefnum á vegum interRAI. InterRAI eru „not-for-profit“ samtök sem hafa að markmiðið nýsköpun og þróun matstækja fyrir fólk með langvinna sjúkdóma. Ég beitti mér fyrir því að hugverk interRAI var fært íslenska ríkinu að gjöf án endurgjalds gegn því að tækin yrðu þýdd, staðfærð og endurþýtt og notuð eins og til er ætlast. Ég vil taka fram að interRAI tækjunum og notkun þeirra á ég enga fjárhagslega hagsmuni. Ég hef setið í FHM nefnd frá árinu 2008 sem formaður nefndarinnar á höfuðborgarsvæði.

Ég tel mig því hafa djúpan skilning og reynslu þegar kemur að öllum þessum málum. Varðandi samráðsferli í aðdraganda þessa málatilbúnaðar, þá var ekki leitað til mín af viðkomandi starfshóp að öðru leiti en því að mér var boðið á einn af þremur hópfundum sem stóðu stutt með 10 – 15 manns hver. Þar reyndi ég að koma á framfæri ábendingum og andmælum en sé að ekki hefur verið tekið tillit til þeirra.

Ég tel að núverandi tillaga sé gölluð á margan hátt og sé ekki til þess gerð að bæta FHM ferlið nema að litlu leiti og gæti verið stórvarhugaverð í öðrum atriðum.

1) Varðandi interRAI HC tækið. Þetta er gott tæki með margvíslegt notagildi og það getur stutt við grunnöldrunarþjónustu í heilsugæslu og heimahjúkrun. Einkum ef það er notað til að styrkja teymisvinnu aðila í samfélagsþjónustunni. Þá er mikilvægt að hver skjólstæðingur heimahjúkrunar eigi einnig faglegan málssvara ( „case manageger“ ) sem er ekki nú. Fyrsta og aðal gildi tækisins er að greina viðfangsefni sem eru óleyst og lyfta þeim þannig upp auk þess að gefa ákveðna ítarlega mynd af skjólstæðingnum. Þetta tæki leysir hins vegar ekki úr læknisfræðilega þætti málsins, það öllu er lýtur að greiningu og læknisfræðilegri meðferð.

Til að innleiðsla HC tækisins á landsvísu verði vönduð þá tel ég að þyrfti lítinn hóp fagaðila, að lágmarki einn til að vera með þjálfun matsaðila, einn til að vinna úr gögnum og þriðja til að vinna að gæðaumbótum. Innleiðsla tækisins tæki að mínu mati 12-18 mánuði til að tryggja samræmd vinnubrögð og góðar upplýsingar.

HC tækið getur upplýst einkum um ýmis ógreind og ógerð atriði sem þarf síðan að setja í klínisikan farveg til úrlausnar. Þannig verður tækið mikilvægt til að stuðla að því að fólk geti verið lengur heima, það er ef kostir þess eru nýttir til samfélagslegrar teymisvinnu og eðlilegrar útfærslu á þjónustunni í kjölfar mats.

Ég tel ekki að HC tækið geti komið í staðinn fyrir FHM.

2) Varðandi FHM. Það er brýnt að það sé unnið óháð þeim fagaðilum sem eru í nærumhverfi að vinna með einstaklingi. Breytingin árið 2008 skilaði miklum árangri, m.a. því á höfuðborgarsvæði að það var hægt að loka um 90 sjúkrarúmum á LSH uþb árið 2010 sem viðbrögð við fjárhagslegri kreppu, án þess að skerða gæði þjónustu við sjúklinga. Það gerðist með forgangsröðun veikasta fólksins inn í hjúkrunarrými.

Læknaþátturinn í FHM er lykilatriði. HC tækið kemur ekki í staðinn fyrir hann en hjálpar samt að nokkru leiti.

Það er réttur sjúklinga að fá þá bestu heilbrigðisþjónustu sem völ er á á hverjum tíma. Það er einnig þar með réttur fólks að fá viðeigandi greiningarvinnu, meðferð og endurhæfingu við öllum sínum sjúkdómum. Þetta á jafnt við heilabilunarsjúkdóma sem byltur, sem þvagleka, vannæringu, geðsjúkdóma og hvaðeina. Það er nauðsynlegt að fá greinargerðir frá ábyrgum lækni um hvern og einn einstakling – í líkingu við það sem nú er gert á höfuðborgarsvæðinu – þar sem fram kemur að farið hefur verið í ítarlega greiningarvinnu, öll meðferðarúrræði þaulreynd og endurhæfing. Það verður að vera reyndur læknir á þessu sviði – allra helst öldrunarlæknir eða annar læknir með sérstakan áhuga og reynslu á sviði öldrunarlækninga – sem yfirfer innsend gögn fyrir hvern einasta sjúkling. Það getur engin önnur fagstétt komið í stað þessa læknis.

Það er stór hættulegt að sleppa þessum þætti. Það er mikill þrýstingur á það að sleppa greiningarvinnu og fara beint í dvöl á hjúkrunarheimili ef eitthvað bjátar á í stað þess að virða réttindi sjúklinga og gera það sem þarf í greiningu, meðferð og endurhæfingu. Það tók talsverðan tíma að aðlaga fagaðila að þessum kröfum upp úr árinu 2008 á höfuðborgarsvæðinu en það hefur náðst. Mun betri gögn berast nú frá ýmsum aðilum en gerðar eru athugasemdir þegar upp á vantar í úrvinnslu viðfangsefna skjólstæðings og upplýsingar eru ófullnægjandi.

Því miður getur HC tækið ekki leyst þetta atriði. Ekki hjúkrunarfræðingur, ekki skrifstofumanneskja.

Að mínu mati er eðlilegt að nefndin sé sett saman úr lækni, hjúkrunarfræðingi og félagsráðgjafa ( hef ekki rætt þann þátt hér ).

Ég teldi gott að innleiða HC tækið á landsvísu, þjónustunnar vegna við skjólstæðinga heimahjúkrunar sem ég gæti útskýrt enn nánar ef eftir því væri leitað.

Það er nauðsynlegt að í nefndinni sé læknir og hjúkrunarfræðingur að lágmarki og eðlilegt að þar sé einnig félagsráðgjafi. Það væri mögulegt að hafa eina nefnd á landsvísu en ekki viss um að það bætti mikið. Hugsa mætti sér Eina nefnd fyrir Suðvesturland, Reykjanes og höfuðborgarsvæði. Aðra fyrir Vestfirði, norður- og austurland.

Til að tryggja góða greiningarvinnu allra á landinu og samræmd vinnubrögð væri samtímis rétt að styrkja fjarlækningar til dæmis frá Landspítala og FSA fyrir sinn hvorn hópinn á vegum öldrunarlækningadeilda.

Þetta eru stuttlegir punktar en þeir fela í sér varnaðarorð gagnvart fyrirliggjandi tillögu.

Vegna kórónuveirufaraldursins get ég ekki orðlengt þessa aumsögn en tek fram að ég er tilbúin að verða að hverju því liði sem ég get orðið til þess að hverjar þær breytingar sem gerðar yrðu væru til góðs en ekki til hins gagnstæða.

Virðingarfyllst,

Pálmi V. Jónsson

Pálmi V. Jónsson, FACP, FRCP L

yfirlæknir, öldrunarlækningadeild Landspítala,

prófessor í öldrunarlækningum, Læknadeild Háskóla Íslands,

Landakoti, 101, Reykjavík, Ísland

sími: 354-5439891, tölvupóstfang: palmivj@landspitali.is

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#3 Reykjavíkurborg - 29.10.2020

Meðfylgjandi er umsögn velferðarsviðs Reykjavíkurborgar um áform um breytingar á lögum um málefni aldraðra nr. 125/1999.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#4 Rósa Marinósdóttir - 29.10.2020

Umsögn um breytingu á lögum um málefni aldrarðar no 219/2020

Samkvæmt tillögum á breytingum á lögum um málefni aldraðra þá er gert ráð fyrir að leggja niður færni og heilsumatsnefndir í hverju heilbrigðisumdæmi og taka í staðin í notkun inter Rai matskerfi.

Undirrituð situr í færni og heilsumatsnefnd Vesturlands og er einnig yfirmaður heimahjúkrunar á HVE Borgarnesi. Ég fagna því að verið sé að skoða málefnið og gera það eins gott og frekast er kostur.

Vil ég koma eftirfarandi á framfæri.

1. Mælitækið interRai eru margvísleg bæði fyrir Heimahjúkrun, öldrunarheimili og félagsþjónustu. Það þarf að vera skýrt hvaða mælitæki á að nota. Heimahjúkrun notar Rai home care.

2. Tryggja þarf að umsóknarferlið verði ekki flóknara en það er í dag.

3. Hver á að halda utanum umsóknir, hvert eiga þær að fara.

4. Skráning á biðlista hjúkrunarheimila verður á vera skýr.

5. Sé ekki kostinn að hafa einn biðlista. Alltaf er hægt að kalla fram biðlistana í kerfinu.

6. Tryggja þarf að allir sem koma að málaflokknum kunni á Rai matið.

7. Tryggja þarf að einstaklingar sem búa á landsbyggðinni, t.d langt frá næstu þjónustu og hafa ekki möguleika á því að fá heimahjúkrun, heimaþjónustu eða dagdvöl eins og þarf vegna fjarlægðar og fámennis á svæðinu. Ekki fjármagn í dag til að sinna þessari þjónustu, kvöld, helgar og aðra frídaga, Tryggja þarf fjármagn til þess. Einnig þarf að vera framboð á dagdvöl og hvíldarinnlögnum fyrir þessa einstaklinga. Það getur verið mun dýrara að þjóna einstaklingi heima ef fjarlægir eru miklar heldur en viðkomandi vistaðist t.d í dvalarrými.

8. Upplýsingar um einstaklinginn í Færni og heilsumati geta verið árs gamlar en Rai home care er gert á 6 mán fresti svo upplýsingarnar geta verið 6 mán. Í báðum tilvikum getur hafa orðið veruleg breyting á stöðu einstaklingsins

9. Í dag leitast Færni og heilsumatsnefnd eftir því að afla upplýsinga um einstaklinga á biðlistum ef matið er orðið eldra en 6 mán og hjúkrunarheimili er að biðja um nafn af biðlistanum. Þá er leitað upplýsinga hjá heimahjúkrun, félagsþjónustu og sjúkrhúsum á svæðinu hvort einhver einstaklingur er í meiri þörf en færni og heilsumatið segir til um.

10. Upplýsingar í rai home care eru fengnar frá hj.fr og einnig getur félagsþjónusta sveitrafélaga gefið upplýsingar þar í gegn. Upplýsingar frá læknum eru hvergi í Rai home care matinu. Mjög nauðsýnlegt að það sé tryggt að læknar gefi upplýsingar um einstaklinginn, jafnvel á eftir að vinna einstaklinginn upp m.t.t sjúkdóma og lyfja. Ekki er spurt um aðara sjúkdóma í Rai home care en vitræna sjúkdóma.

11. Félagsþjónusta er víða að taka RaiHomeCare grunnmatið. Í janúar 2020 var umræða með embættismanni hjá Landlækni um að gera breytingar að þeim matslista með tilliti til þess að mæla nánar þá þætti sem tengjast félagslegu umhverfi, líðan, heimilisaðstæðum og fleira sem ekki er hægt að mæla í núverandi grunnmati. Mikilvægt er að óskað verði áfram eftir upplýsingum frá félagsþjónustu um stöðu umsækjanda er nauðsynlegt að gera breytingar á grunnmatinu svo allir þeir sem að málinu koma geti skráð niðurstöður í sama matskerfi,

12. Framboð á hjúkrunar og dvalarrýmum er mismunandi eftir heilbrigðisumdæmum en það er stjórnvalda að stjórna því á sem réttlátastann hátt. Ekki er boðlegt fyrir einstaklinga að fá ekki hjúkrunar/dvalarrými í því sveitarfélagi sem hann helst kýs.

13. Hvernig verður haldið utan um flutningsmöt á milli stofnanna.

Rósa Marinósdóttir

Yfirhjúkrunarfræðingur HVE Borgarnesi

Formaður færni og heilsumatsnefndar Vesturlands

Laufey Jónsdóttir

Forstöðumaður stuðnings og stoðþjónustu Akraneskaupstaðar

Nefndarmaður í Færni og heilsumatsnefnd Vesturlands

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#5 Inga Valgerður Kristinsdóttir - 29.10.2020

Meðfylgjandi er umsögn vegna áforma um breytinga á lögum um málefni aldraðra

Viðhengi