Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 19.10.–16.11.2020

2

Í vinnslu

  • 17.11.2020–4.3.2021

3

Samráði lokið

  • 5.3.2021

Mál nr. S-220/2020

Birt: 19.10.2020

Fjöldi umsagna: 13

Drög að frumvarpi til laga

Innviðaráðuneytið

Samgöngu- og fjarskiptamál

Frumvarp til laga um loftferðir

Niðurstöður

Frumvarpsdrög voru birt í samráðsgátt stjórnvalda á vefnum Ísland.is (mál S-220/2020) 19. október – 16. nóvember 2020. Samtals bárust þrettán umsagnir og hefur við lokafrágang frumvarpsins meðal annars verið tekið mið af þeim. Í yfirliti má sjá hvernig brugðist hefur verið við einstökum athugasemdum og ábendingum.

Málsefni

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið kynnir til umsagnar drög að frumvarpi til nýrra heildarlaga um loftferðir. Í frumvarpinu eru lagðar til veigamiklar breytingar frá núgildandi lögum einkum í því skyni að taka mið af þjóðréttarlegum skuldbindingum sem Ísland hefur undirgengist og stefnu stjórnvalda á sviði flugsamgangna.

Nánari upplýsingar

Meðal breytinga sem lagðar eru til í frumvarpsdrögum:

- Gildissvið laganna er útvíkkað frá því sem nú er. Er það einkum gert í ljósi víðtæks eftirlitshlutverks Flugöryggisstofnunar Evrópusambandsins (EASA) með loftförum, aðilum og starfsemi í þriðju ríkjum, en einnig til tryggja að tæki og hlutir sem ferðast um loftið en teljast ekki loftför falli undir gildissvið nýrra laga.

- Orðskýringar komi inn í lögin.

- Leitast er við að skýra nánar tilhögun og afmörkun verkefna, ábyrgðar og eftirlits lögbærra stjórnvalda (Samgöngustofu og EASA). Frekari heimildir til tilfærslu eftirlits koma inn sem ætlað er að leysa af hólmi mun takmarkaðri heimildir í núgildandi lögum.

- Uppfærð hafa verið ákvæði er varða aðgang loftfara að íslensku yfirráðasvæði og vottun loftfara frá þriðju ríkjum.

- Nýtt eftirlit: Bætt er við efnisákvæðum er lúta t.a.m. að eftirliti með flugafgreiðslu og hlaðstjórnunarþjónustu á flugvöllum, vottun og eftirliti með samevrópskum veitendum rekstrarstjórnunar flugumferðar og flugleiðsögu, hönnun, framleiðslu og starfrækslu kerfa og kerfishluta sem notuð eru til veitingar rekstrarstjórnunar flugumferðar og flugleiðsöguþjónustu, opinberrar markaðsgæslu með ómönnuðum loftförum, hönnunar og skipulagningar loftrýmisins, auk tækja og hluta sem ferðast geta um loftið en teljast ekki loftför. Jafnframt eru styrktar heimildir til setningar reglugerða með vísan til eftirlits með öryggi upplýsinga (netöryggi í flugi), flutnings á hættulegum varningi og vottun öryggistengds búnaðar á flugvöllum.

- Ómönnuð loftför eru nokkuð fyrirferðamikil í texta frumvarpsins og breytingar vegna þeirra koma víða fram. T.a.m. hvað varðar skyldu til skráningar ómannaðra loftfara sem háð eru vottun, skráningarskyldu flugrekenda/umráðenda ómannaðra loftfara í "opnum" og "sérstökum flokki", auk ákvæða er varða lofthæfi, starfrækslu o. fl.

- Kveðið er nánar á um loftrýmisskipulag, hönnun flugferla og stjórnun loftrýmis. Lagt til að komið verði á miðstýrðum ferli við ákvarðanatöku um takmarkanir á nýtingu loftrýmisins, s.s. vegna setningar ótímabundinna bann-, hafta- og hættusvæða. Þetta er ekki síst mikilvægt vegna ómannaðra loftfara og fjölda bæði opinberra- og einkaaðila sem vilja takmarka og banna flug þeirra yfir afmörkuðum svæðum.

- Nokkuð er um nýmæli til að undirbyggja eða styrkja lagastoð fyrir innleiðingu EES-gerða. Má sem dæmi nefna almenn (grunn) ákvæði um vottun hönnunar- og framleiðslufyrirtækja, vottun hönnunar framleiðsluvara, starfrækslu loftfara, ákvæði um aldurshámörk flugmanna og um vottun flughermisþjálfa.

- Mælt er fyrir um sérstaka samráðsskyldu milli sveitarfélaga og rekstraraðila flugvalla á sviði skipulagsmála. Einnig hafa ákvæði um hindranir við flugvelli verið endurskoðuð og komið er á tilkynningaskyldu vegna mannvirkja og hluta hærri en 50 m.

- Ákvæði er varða flugvernd eru uppfærð einkum með tilliti til breytinga á EES-gerðum er m.a. lúta að bakgrunnsathugunum.

- Breytingar á svonefndri kyrrsetningarheimild vegna ógreiddra gjalda einkum í því skyni að tryggja að framkvæmd fylgi lögum um kyrrsetningu, lögbann o. fl.

- Montreal-samningurinn frá 1999 um bótábyrgð í flutningum í lofti verði lögfestur í heild sinni í stað umritunar í núgildandi lögum.

- Breytingar á fyrirkomulagi við afgreiðslu kvartana neytenda; kæruheimild til ráðherra felld niður, úrskurðir verði bindandi með aðfararheimild en flugrekandi/rekstraraðili flugvallar hafi 30 daga til að tilkynna að hann hyggist ekki vera bundinn við úrskurð.

- Ákvæði um vinnuumhverfi flugverja, leit og björgun, skaðabætur og vátryggingar hafa verið yfirfarin og uppfærð. Lögð er til sérstök heimild ráðherra til að bregðast við markaðsbresti á vátryggingamarkaði.

- Valdheimildir Samgöngustofu eru styrktar. Kveðið er á um valdheimildir EASA og Eftirlitsstofnunar EFTA. Samgöngustofu er falið vald til að leggja á stjórnvaldssektir við brotum. Nánar er kveðið á um málsmeðferð t.a.m. hvað varðar undanþágur, verndarráðstafanir, kærurétt og rétt til málshöfðunar vegna ákvarðana Samgöngustofu og EASA. Þá hafa heimildir til eftirlits byggðar á áhættu- og frammistöðumati frekar verið styrktar, frekari möguleikar eru kynntir til samstarfs og tilfærslu eftirlits milli lögbærra landsyfirvalda, EASA og hæfra aðila.

- Mælt er fyrir ákvæðum um flugöryggisáætlun og aðgerðaráætlun á sviði flugöryggis, viðbragðsáætlunar á landsvísu vegna flugslysa, auk frammistöðuáætlunar á sviði flugleiðsögu.

Vinsamlega athugið að framangreind upptalning er ekki tæmandi.

Breytingar á öðrum lögum eru m.a. þessar:

- Lagðar eru til nokkrar breytingar á lögum um Samgöngustofu nr. 119/2012, með síðari breytingum, til samræmingar við ákvæði frumvarpsins.

- Nokkuð umfangsmiklar breytingar eru lagðar til á lögum um rannsókn samgönguslysa nr. 18/2013, með síðari breytingum. Má þar m.a. nefna breytingar á skyldum nefndarinnar til að rannsaka flugslys og alvarleg flugatvik, auk annarra atriða.

- Með breytingum á lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri nr. 34/1991, með síðari breytingum, er felld niður 3. mgr. 4. gr. laganna, þar eð samsvarandi ákvæði er tekið upp í kafla VIII. um flugrekstur.

- Þá eru breytingar lagðar til á tekjuskattslögum og lögum um friðhelgi og forréttindi alþjóðastofnana í því skyni innleiða afmörkuð atriði um friðhelgi og forréttindi Evrópusambandsins með vísan til ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar vegna aðildar Íslands að undirstofnunum Evrópusambandsins.

Samráði lokið

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Tenging við önnur mál (4)

Umsjónaraðili

Skrifstofa samgangna

srn@srn.is