Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 23.10.–13.11.2020

2

Í vinnslu

  • 14.11.2020–15.6.2021

3

Samráði lokið

  • 16.6.2021

Skjöl til samráðs

Mál nr. S-226/2020

Birt: 23.10.2020

Fjöldi umsagna: 3

Áform um lagasetningu

Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Markaðseftirlit og neytendamál

Áform um frumvarp til laga um gjaldeyrismál

Niðurstöður

Drög að frumvarpi til nýrra laga um gjaldeyrismál voru birt í samráðsgátt stjórnvalda 14. janúar 2021 (mál 9/2021).

Málsefni

Fjármála- og efnahagsráðherra birtir til umsagnar áform um lagasetningu ásamt frumdrögum að frumvarpi.

Nánari upplýsingar

Með frumvarpinu er lagt til að sett verði ný heildarlög um gjaldeyrismál. Frumvarpið er á þingmálaskrá 151. löggjafarþings 2020-2021 og er gert ráð fyrir framlagningu þess í janúar 2021.

Fjármagnshöftunum sem komið var á árið 2008 hefur í öllum meginatriðum verið aflétt. Því þótti tímabært á árinu 2019 að hefja heildarendurskoðun á lögum og reglum á þessu sviði og meta á hvaða meginsjónarmiðum gjaldeyrismál á Íslandi ættu að byggjast til frambúðar.

Efni frumvarpsins er í meginatriðum í samræmi við efni gildandi laga. Framsetningin hefur þó verið tekin til gagngerrar endurskoðunar m.a. með það að markmiði að lögin verði aðgengilegri og hugtakanotkun uppfærð til samræmis við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands og þá þróun sem hefur átt sér stað frá gildistöku núgildandi laga.

Í frumvarpinu er lagt til að áréttuð verði meginreglan um að gjaldeyrisviðskipti, fjármagnshreyfingar á milli landa og greiðslur á milli landa skuli vera frjáls, nema annað leiði af lögum. Gert er ráð fyrir að grípa megi til ráðstafana sem fela í sér undantekningar frá meginreglunni í þeim tilgangi að standa vörð um efnahagslegan stöðugleika eða fjármálastöðugleika. Í frumvarpinu er að finna ákvæði sem lýsa þeim ráðstöfunum sem Seðlabankinn getur gripið til í því skyni að fyrirbyggja óstöðugleika. Um er að ræða úrræði af tvennum toga: annars vegar fyrirbyggjandi stjórntæki á sviði þjóðhagsvarúðar og hins vegar verndunarráðstafanir (höft) við sérstakar aðstæður.

Lagt er til að þeir aðilar einir megi hafa milligöngu um gjaldeyrisviðskipti sem hafa til þess heimild í lögum, en öðrum aðilum verði óheimilt að stunda hana. Gert er ráð fyrir heimild Seðlabankans til að setja reglur um skilyrði til gjaldeyrisviðskipta fyrir þá aðila sem hafa heimild til milligöngu um gjaldeyrisviðskipti.

Í frumvarpinu er jafnframt tillaga að ákvæði um upplýsingagjöf um gjaldeyrisviðskipti og fjármagnshreyfingar milli landa. Lagt er til að þeim sem framkvæma gjaldeyrisviðskipti, fjármagnshreyfingar á milli landa og greiðslur á milli landa verði áfram skylt að tilkynna þau viðskipti og hreyfingar til Seðlabanka Íslands. Jafnframt er lagt til að lögaðilum verði skylt, sambærilegt og nú er í gildandi lögum, að tilkynna Seðlabanka Íslands um nánar tilgreind stór gjaldeyrisviðskipti eða fjármagnshreyfingar (yfir 100 m.kr.) sem ekki eiga sér stað fyrir milligöngu fjármálafyrirtækja, greiðslustofnana, rafeyrisfyrirtækja, gjaldeyrisskiptastöðva eða þeirra sem stunda milligöngu um gjaldeyrisviðskipti.

Þá er í frumvarpinu að finna tillögur að ákvæðum um eftirlit með gjaldeyrisviðskiptum og fjármagnshreyfingum auk ákvæða um þvingunarúrræði og viðurlög ef brotið er gegn lögunum og reglum sem lagt er til að Seðlabankanum verði heimilt að setja á grundvelli laganna. Lagt er til að ákvarðanir sem varða brot á lögunum, s.s. ákvarðanir um viðurlög og kærur, verði teknar af fjármálaeftirlitsnefnd Seðlabanka Íslands í samræmi við fyrirkomulag ákvörðunartöku og stjórnskipulag bankans. Undir nefndina falla ákvarðanir sem varða viðskiptaháttaeftirlit.

Loks er í frumvarpinu lagt til að lög um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum, nr. 37/2016, verði felld úr gildi. Með lagabreytingu snemma árs 2019 var öllum aflandskrónueigendum gefið færi á að losa aflandskrónueignir sínar. Fyrir stærstan hóp aflandskrónueigenda felst losun eignanna í kaupum á erlendum gjaldeyri sem flytja skal á reikning erlendis. Þeir aflandskrónueigendur sem vilja áfram fjárfesta hér á landi þurfa því að flytja gjaldeyri aftur til landsins og skipta í krónur til að fjárfesta á nýjan leik. Í þessu felst einhver viðskiptakostnaður. Við brottfall laga nr. 37/2016 verða engar takmarkanir á aflandskrónueignum eða ráðstöfun þeirra og renna aflands- og álandsmarkaður því saman í einn markað.

Samráði lokið

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Tenging við önnur mál (1)

Umsjónaraðili

Fjármála- og efnahagsráðuneytið

postur@fjr.is