Niðurstöður samráðs um drög að frumvarpi um breytingu á ýmsum lögum vegna laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018 (mennta- og menningarmál).
Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 03.11.2020–16.11.2020.
Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.
Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 14.09.2021.
Frumvarpinu er ætlað að gera nauðsynlegar breytingar á ákvæðum laga sem heyra undir málefnasvið mennta- og menningarmálaráðuneytis til að tryggja að vinnsla persónuupplýsinga skv. lögunum samræmist persónuverndarlögum.
Mennta- og menningarmálaráðuneyti kynnir til samráðs drög að frumvarpi um breytingar á ýmsum lögum sem heyra undir ráðuneytið vegna laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018. Tilefni þessa frumvarps eru ný lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, sem tóku gildi 15. júlí 2018 á Alþingi, en með þeim lögum var persónuverndarreglugerð Evrópusambandsins (ESB) 2016/679 innleidd í íslenskan rétt. Upphaflega var gert ráð fyrir því að lögin yrðu safnlög en horfið var frá því eftir að komist var að því að gera þyrfti ýmsar efnislegar breytingar á ákvæðum sérlaga á málefnasviðum Stjórnarráðsins. Hverju ráðuneyti var gert að gera þær breytingar á lögum sem heyra undir það svo að ákvæði er kveða á um vinnslu persónuupplýsinga samrýmist lögum nr. 90/2018, sbr. reglugerð ESB 2016/679. Í framhaldinu var hverju og einu ráðuneyti falið að taka til endurskoðunar ákvæði sérlaga sem falla undir málefnasvið viðkomandi ráðuneytis til samræmis við ný lög. Með frumvarpi þessu er ætlað að gera nauðsynlegar breytingar á ákvæðum laga sem heyra undir málefnasvið mennta- og menningarmálaráðuneytis til þess að tryggja að vinnsla persónuupplýsinga samkvæmt þeim lögum samræmist kröfum laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Markmið frumvarpsins er að tryggja að þeir aðilar sem vinna með persónuupplýsingar samkvæmt þeim lögum sem heyra undir málefnasvið mennta- og menningarmálaráðuneytis hafi viðeigandi heimildir í samræmi við kröfur laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Um er að ræða breytingar á lögum nr. 90/2008 um leikskóla, lögum nr. 91/2008 um grunnskóla, lögum nr. 92/2008 um framhaldsskóla, lögum nr. 91/2015 um Menntamálastofnun, íþróttalögum nr. 64/1998, bókasafnslögum nr. 150/2012, lögum nr. 129/1990 um Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, lögum nr. 3/2003 um opinberan stuðning við vísindarannsóknir, lögum nr. 38/2011 um fjölmiðla og lögum nr. 63/2006 um háskóla.
Margir lagabálkar á málefnasviðum ráðuneytisins fela í sér lögbundna þjónustu við börn og ungmenni í tengslum við menntastofnanir, þar á meðal lög um leik-, grunn- og framhaldsskóla. Mikilvægt er að lagastoð fyrir vinnslu persónuupplýsinga á þessu sviði sé skýr og að heimild til vinnslu persónuupplýsinga grundvallist á lagaheimild.
Frumvarpið felur ekki í sér breytingar á þjónustu við einstaklinga sem eiga í hlut eða aukið umfang stofnana. Verið er að styrkja og skýra þær lagastoðir sem fyrir eru svo að stofnanir sem vinna með persónuupplýsingar geti sinnt lögbundnu hlutverki, sérstaklega þegar kemur að vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga.
Varðandi breytingu á lögum um grunnskóla, nr. 91/2008, með síðari breytingum. 47.gr a
Í 5.línu stendur í lok setningar.... og vegna nemenda með sérþarfir. Ég vil gera athugasemd við orðalagið. Þessir nemendur eins og allir aðrir nemendur falla undir fyrri hluta setningar og þarf ekki að nefna sérstaklega.
Fyrri hluti setningarinnar inniheldur alla nemendur grunnskólans og getur staðið ein og sér án þessarar endingar þ.e. Heimil er vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga, þar með
talið um heilsufar nemenda vegna skimana, greininga, vottorða, námsmats og í tengslum við
framkvæmd samræmdra könnunarprófa.
Ef það er mat ykkar að setningin eigi að vera inni, ætti hún þá ekki líka að vera í leikskólalögunum?
Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar hefur tekið til umsagnar frumvarp mennta- og menningarmálaráðuneytisins um breytingu á ýmsum lögum sem heyra undir mennta- og menningarmálaráðuneyti vegna laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018.
Skóla- og frístundasvið vill koma á framfæri eftirfarandi umsögn:
Í frumvarpi ráðuneytisins má finna nauðsynlegar breytingar á lagaumhverfi skóla- og frístundastarfs sveitarfélaga í ljósi nýrra persónuverndarlaga. Í frumvarpinu er að finna heimildir til vinnslu persónuupplýsinga í þágu lögskyldra verkefna sveitarfélaga á þessu sviði. Í frumvarpinu má finna upptalningu á ýmsum starfsstöðum sem þurfa að vinna með persónuupplýsingar í þessum tilgangi og mun sú vinnsla verða nánar útfærð í reglugerð ráðherra samkvæmt texta frumvarpsins.
Um miðlun leikskóla til grunnskóla og frístundaheimila
Í 1. gr. frumvarpsins eru taldar upp þær starfsstöðvar sem heimilt er að vinna með persónuupplýsingar samkvæmt lögum um leikskóla nr. 90/2008 verði frumvarpið lögfest. Tekur upptalningin til leikskóla, skólaþjónustu og þeirra aðila er lögbundið hlutverk hafa samkvæmt leikskólalögum.
Skóla- og frístundasvið vill vekja athygli á því að þegar barn færist úr leikskóla í grunnskóla og hefur dvöl í frístundaheimili getur verið þörf á miðlun persónuupplýsinga til að tryggja samfellu í þjónustu innan skólakerfisins. Það er því mat skóla- og frístundasviðs að bæta þurfi við grunnskólum og frístundaheimilinum í upptalningu 1. gr. frumvarpsins.
Skóla- og frístundasvið leggur því til að bætt sé við 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins og að ákvæðið verði svohljóðandi:
Leikskólum, skólaþjónustu og þeim aðilum er lögbundið hlutverk hafa samkvæmt lögum þessum er heimilt að afla og miðla persónuupplýsingum frá og til stofnana og fagaðila sem veita börnum lögbundna þjónustu, þar með talið Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, félagsþjónustu sveitarfélaga, skólaþjónustu sveitarfélaga, grunnskólum, frístundaheimilum, stofnunum og fagaðilum sem tilgreindir eru í reglugerð sem ráðherra setur, enda sé miðlunin liður í því að tryggja barni markvissa og lögbundna þjónustu.
Um skólahljómsveitir
Í 3. gr. frumvarpsins má finna upptalningu á þeim starfsstöðvum sem heimilt er að vinna með persónuupplýsingar samkvæmt grunnskólalögum verði frumvarpið lögfest. Tekur upptalningin til grunnskóla, skólaþjónustu og þeirra aðila er lögbundið hlutverk hafa samkvæmt lögunum. Frumvarpsdrögin gera einnig ráð fyrir því að veita félagsmiðstöðum og frístundastarfi vægi með þeim hætti að þær falli undir framangreinda upptalningu, sbr. 4. gr. frumvarpsins.
Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar vill vekja athygli á því að einn þátt félagsstarfs barna á vegum sveitarfélaga vantar í framangreinda upptalningu og það eru skólahljómsveitir og í mörgum sveitarfélögum tónlistarskólar.
Skólahljómsveitir og tónlistarskólar sveitarfélaga þurfa að kalla eftir og vinna með persónuupplýsingar barna sem skráð eru í hljómsveitirnar. Haldið er utan um persónuupplýsingar eins og nöfn, heimilisföng og símanúmer barna og foreldra, samskipti við foreldra, mætingar, námsframvindu og upplýsingar um veikindi, bráðaofnæmi o.fl. í samræmi við eðli og tilgang hljómsveitanna. Þar getur því verið um að ræða sömu vinnslu persónuupplýsinga og finna má á þeim starfsstöðum sem taldar eru upp í 4. gr. frumvarpsins.
Skóla- og frístundasvið leggur því til að bætt sé við 4. gr. frumvarpsins sem yrði þá svohljóðandi:
Við 2. málsl. 1. mgr. 33. gr. bætist: til dæmis í félagsmiðstöð, í frístundastarfi, skólahljómsveit eða tónlistarskóla á vegum sveitarfélags.
Með þessum hætti er skólahljómsveitum og tónlistarskólum á vegum sveitarfélagsins gefið vægi innan grunnskólalaga þannig að ekki fari á milli mála að starfsemi þeirra falli undir grunnskólalög og skólahljómsveitirnar falli þar með undir upptalningu 3. gr. frumvarpsins. Eru það eindregin tilmæli að réttarstaðan verði skýrð hvað varðar framangreint álitaefni.
Þá er farið fram á að skoðað verði hvort tilefni er til í 36. og 37. gr. laga um grunnskóla nr. 91/20008 að bæta við tilvísun til laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga nr. 90/2018. Jafnframt hvort víkja þurfi sérstaklega að vinnslu persónuupplýsinga sveitarfélaga þegar kemur að persónuupplýsingum sjálfstætt rekinna leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila.
Þá er vakin athygli á því að orðið frístund er í hugum flestra starfsemi frístundaheimila en lögð hefur verið áhersla á orðanotkunina frístundaheimili og félagsmiðstöð til sundurgreiningar. Frístundastarf telst því vera yfirheiti sem túlka má víðtækt.
Að lokum er vísað til bréfs skóla- og frístundasviðs, dags. 9. janúar 2020 auk fylgiskjals, með ábendingum um þau atriði sem taka þurfi til skoðunar í tengslum við útfærslu breytinga vegna nýrrar persónuverndarlöggjafar. Til samræmis við það sem fram kemur í drögum að frumvarpi er gert ráð fyrir að settar verði reglugerðir með nánari útfærslu og því ekki tilefni til frekari athugasemda að svo stöddu.
ViðhengiGóðan daginn
Meðfylgjandi er umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga
Virðingarfyllst,
Bryndís Gunnlaugsdóttir
Viðhengi