Samráð fyrirhugað 04.11.2020—25.11.2020
Til umsagnar 04.11.2020—25.11.2020
Niðurstöður í vinnslu frá 25.11.2020
Niðurstöður birtar 26.11.2020

Áform um frumvarp til laga um breytingu á lögum um réttindi sjúklinga, nr. 74/1997 (þvinguð meðferð, inngrip og önnur valdbeiting)

Mál nr. 234/2020 Birt: 04.11.2020 Síðast uppfært: 26.11.2020
  • Heilbrigðisráðuneytið
  • Áform um lagasetningu
  • Málefnasvið:
  • Sjúkrahúsþjónusta
  • Réttindi einstaklinga, trúmál og stjórnsýsla dómsmála

Niðurstöður birtar

Samráði um áform um breytingar á lögum um réttindi sjúklinga, nr. 74/1997, er lokið. Það barst ein jákvæð umsögn sem tekin verður til skoðunar. Einnig stendur til að birta frumvarp til laga um breytingu á lögum um réttindi sjúklinga, nr. 74/1997. á Samráðsgátt stjórnvalda.

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 04.11.2020–25.11.2020. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 26.11.2020.

Málsefni

Áformað er að leggja fram breytingar á lögum um réttindi sjúklinga, nr. 74/1997. Frestur til að skila inn umsögnum er til og með 25. nóvember nk.

Áform um lagasetningu sem hér eru til kynningar og samráðs voru samin í heilbrigðisráðuneyti.

Á þingmálaskrá heilbrigðisráðherra fyrir 151. löggjafarþing er áætlað að leggja fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um réttindi sjúklinga, nr. 74/1997.

Úrlausnarefnið með frumvarpinu er að tryggja fullnægjandi lagaheimildir til að taka ákvarðanir gagnvart frelsissviptum sjúklingum á heilbrigðisstofnunum og tryggja réttindi sjúklinga, m.a. með því að kveða skýrt á um að þvingunum sé ekki beitt nema í algerum undantekningartilvikum, að meðalhófs verði gætt og að eftirlit verða með beitingu þeirra.

Með frumvarpinu er ekki ætlunin að auka heimildir til þvingunar né inngripa á heilbrigðisstofnunum miðað við gildandi framkvæmd, einungis er ætlunin að tryggja fullnægjandi lagaheimildir fyrir þeim inngripum sem talið er nauðsynlegt að beita í undantekningartilvikum ásamt því að tryggja réttindi sjúklinga, s.s. með rétti til endurskoðunar ákvarðana og eftirliti með beitingu þvingana.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Landssamtökin Þroskahjálp - 24.11.2020

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um áform um um breytingu á lögum um réttindi sjúklinga nr. 74/1997 (þvinguð meðferð, inngrip og önnur valdbeiting).

Í kynningu frumvarpsins í samráðsgátt kemur fram að úrlausnarefnið með frumvapinu sé að tryggja fullnægjandi lagaheimildir í þeim algeru undantekningartilvikum þegar sjúklingar eru beittir þvingunum og að meðalhófs verði þá gætt og eftirlit verði með beitingu slíkra þvingana.

Athugasemdir við núverandi framkvæmd þvingana á geðdeildum hafa verið gerðar af hálfu umboðsmanns Alþingis og nefndar samkvæmt Evrópusamningi um varnir gegn pyndingum og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Þær athugasemdir eru ekki þess efnis að þvingaðri meðferð eða valdbeitingu sé beitt að óþörfu heldur beinast aðfinnslur beggja aðila að því að slík alvarleg inngrip í stjórnaskrárbundin mannréttindi fái ekki staðist nema um þau sé skýr ákvæði í lögum. Núverandi ástand þar sem ákvörðun um slík inngrip eru tekin af starfsfólki geðheilbrigðisstofnana án skýrra lagaheimilda sé óásættanlegt.

Landssamtökin Þroskahjálp taka undir það sjónarmið að þörf sé á að setja í lög skýrar skilgreiningar á því hvenær heimilt geti verið að beita þvingun af þessu tagi. Nauðsynlegt er að skrá öll slík atvik þar sem tilgreint er m.a. hver er ástæða þvingunar, til hvaða þvingana hafi verið gripið svo og hvaða önnur úrræði, án þvingunar, hafi verið fullreynd áður.

Landssamtökin Þroskahjálp hafa stutt það fyrirkomulag sem verið hefur samkvæmt lögum um réttindagæslu fyrir fatlað fólk frá árinu 2012 að heimilt geti verið að beita fólk þvingun sé hætta á að fólk skaði sig eða aðra eða valdi stórfelldu tjóni. Forsenda stuðnings samtakanna fyrir slíku inngripi er að um þau gildi skýr lagaákvæði þar sem m.a. er tilgreint í hverju nauðung geti falist og að tryggt sé að tilvik séu vel skráð og öll framkvæmt undir fullgnægjandi og virku eftirliti.