Samráð fyrirhugað 07.11.2020—17.11.2020
Til umsagnar 07.11.2020—17.11.2020
Niðurstöður í vinnslu frá 17.11.2020
Niðurstöður birtar 27.11.2020

Drög að frumvarpi um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld (skattalegir hvatar fyrir lögaðila sem starfa til almannaheilla).

Mál nr. 239/2020 Birt: 07.11.2020 Síðast uppfært: 17.12.2020
  • Fjármála- og efnahagsráðuneytið
  • Drög að frumvarpi til laga
  • Málefnasvið:
  • Skatta-, eigna- og fjármálaumsýsla

Niðurstöður birtar

Sautján umsagnir bárust. Gerðar voru breytingar á nokkrum greinum frumvarpsins í ljósi framkominna athugasemda. Sjá nánari umfjöllun í niðurstöðuskjali.

Nánar um niðurstöður

Skjal að loknu samráði

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 07.11.2020–17.11.2020. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 27.11.2020.

Málsefni

Drög að frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld (skattalegir hvatar fyrir lögaðila sem starfa til almannaheilla).

Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ýmsum lögum um skatta og gjöld til eflingar á skattalegu umhverfi þeirra lögaðila sem starfa til almannaheilla og falla undir þriðja geirann. Breytingarnar taka að miklu leyti mið af tillögum starfshóps um skattalegt umhverfi þriðja geirans.

Markmið frumvarpsins er að auka skattalega hvata fyrir þá lögaðila sem falla undir þriðja geirann og starfa til almannaheilla og skjóta þannig styrkari stoðum undir þá starfsemi sem þar fer fram. Þá þykir rétt að auka jafnframt hvatann fyrir gefendur vegna gjafa og framlaga til þeirrar starfsemi. Með auknum skattalegum hvötum bæði fyrir þiggjendur og gefendur mun sú starfsemi til almannaheilla sem fellur undir þriðja geirann eflast og styrkjast sem leiðir til auðgunar á því mikilvæga sjálfboðaliðastarfi sem fram fer í hinum ýmsu félögum og félagasamtökum um land allt.

Helstu efnisatriði frumvarpsins eru eftirfarandi:

— Að hugtakið ,,almannaheill“ komi í stað hugtaksins ,,almenningsheill“ og verði skilgreint nánar í lögum um tekjuskatt.

— Að einstaklingum verði heimilt að draga einstaka fjárframlög til þeirra lögaðila sem starfa til almannaheilla frá skattskyldum tekjum, að hámarki 350 þús. kr. á hverju almanaksári, að frekari skilyrðum uppfylltum.

— Að hlutfall frádráttarheimildar atvinnurekstraraðila vegna einstakra fjárframlaga til almenningsheilla verði hækkað úr 0,75% í 1,5% að frekari skilyrðum uppfylltum.

— Að þeir lögaðilar sem starfa til almannaheilla verði undanþegnir tekjuskatti af tilgreindum fjármagnstekjum.

— Að þeir lögaðilar sem starfa til almannaheilla verði undanþegnir staðgreiðslu skatts á tilgreindar fjármagnstekjur.

— Að þeim lögaðilum sem starfa til almannaheilla verði gert kleift að óska eftir 60% endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnulið vegna vinnu á byggingarstað, eða vegna endurbóta eða viðhalds, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.

— Að hugtakið góðgerðarstarfsemi verið skilgreint nánar í lögum um virðisaukaskatt. Samhliða er lagt til að sá dagafjöldi sem miðað er við vegna undanþágu góðgerðarstarfsemi frá virðisaukaskatti verði aukinn og að ákvæðið verði útvíkkað.

— Að þeir aðilar sem starfa til almannaheilla og eru undanþegnir tekjuskatti verði jafnframt undanþegnir gjaldskyldu stimpilgjalds samkvæmt lögum um stimpilgjald.

— Að í lögum um erfðafjárskatt verði kveðið á um að ekki skuli greiða erfðafjárskatt af gjöfum og framlögum til aðila sem starfa til almannaheilla.

Tengd mál

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Bandalag íslenskra skáta - 11.11.2020

Bandalag íslenskra skáta fagnar þessum breytingum sem snúa að þriðja geiranum. Það er ljóst að fjárhagsleg áhrif munu vera jákvæð fyrir m.a. skátastarf í landinu. Skátafélög reka í flestum tilfellum sitt eigið húsnæði og því skiptir það miklu málið að geta sinnt eðlilegu viðhaldi og uppbyggingu á sem hagstæðastan hátt. Eins er þarna að finna fjölmarga þætti sem létta undir með erfiðum rekstri. Þriðji geirinn er afar mikilvægur í okkar samfélagið og sjálfboðaliðar skila inn verðmætu vinnuframlagi til samfélagsins.

F.h. Bandalags íslenskra skáta

Kristinn Ólafsson

Framkvæmdastjóri

Afrita slóð á umsögn

#2 Brautin bindindisfélag ökumanna - 11.11.2020

Félagið lýsir ánægju með drögin og telur að þau muni verða til góða fyrir samfélagið.

Félagið leggur jafnframt til að frjáls félagasamtök sem vinna að forvarnastarfi séu einnig skilgreind sem starfsemi til almannaheilla. Má þar nefna félagasamtök sem vinna að umferðaröryggismálum, forvörnum gegn fíkniefnanotkun, forvörnum gegn sjálfsvígum o.s.frv. Slík félagasamtök sinna mikilvægum málefnum í samfélaginu og treysta á velvilja almennings, fyrirtækja, sjóða og hins opinbera.

Slík félagasamtök falla vel að tilefni laganna þar sem þau starfa með samfélagsleg markmið að leiðarljósi og hafa það að meginmarkmiði að vinna að umbótum í þágu almennings og samfélagsins.

Fyrir hönd Brautarinnar - bindindisfélags ökumanna

Guðmundur Karl Einarsson

Gjaldkeri stjórnar

Afrita slóð á umsögn

#3 Magnús Björnsson - 11.11.2020

Í drögunum stendur: " Einstaka gjafir og

framlög til lögaðila sem hafa með höndum starfsemi til almannaheilla skv. a–f-lið 4. tölul. 4.

gr., að lágmarki 10 þús. kr. og allt að hámarki 350 þús. kr. á almanaksári"

Ekki virðist fastur styrkur, t.d. 1000 kr á mánuði falla undir þetta þótt heildar fjárhæð yfir árið sé yfir tilgreindu lágmarki. Fastir styrkir í formi mánaðrgreiðslna eru mikilvægir í rekstri margra félaga og samtaka en gera má ráð fyrir því að stærstur hluti þeirra nái ekki 10 þús. kr. á mánuði. Skýra þarf hvort mánaðarstyrkir sem samtals ná yfir 10 þús. kr. mörkin falli undir þennan lið.

Afrita slóð á umsögn

#4 Bjarni Valur Guðmundsson - 11.11.2020

Ágæti viðtakandi.

Mér finnst að kaup á skjalaöskjum, blöðum og bleki til útprentunar tölvupósta vegna gjafar á sínu eigin einkaskjalasafni til Þjóðskjalsafns eigi að heyra undir þessi lög. Eins það ef maður kaupir skjöl á Netinu og gefur þau til skjalasafns eða skjalsafn kaupir þau ekki af manni á kostnaðarverði. Mér finnst líka að þessi lög eigi að gilda fyrir nótur og gjafir á þessu ári svo maður geti fært þetta inn á næsta skattframtali.

Með virðingu,

Bjarni.

Afrita slóð á umsögn

#5 Krabbameinsfélag Íslands - 17.11.2020

Krabbameinsfélag Íslands fagnar þeim tímabæru breytingum sem lagðar eru til í frumvarpsdrögunum. Breytingarnar munu án efa hafa jákvæð áhrif og efla þriðja geirann í sínum mikilvægu störfum til almannaheilla.

Félagið gerir eftirfarandi athugasemdir:

2. gr.: Í greininni þarf að taka tillit til þess að styrkir til félagasamtaka eru oft ekki greiddir í einni greiðslu heldur brotnir niður á greiðslur í hverjum mánuði. Gera þarf ráð fyrir að þegar styrkir hvers og eins nema samtals á bilinu frá 10.000 til 350.000, á almanaksári, sé viðkomandi veittur frádráttur frá skatti, að uppfylltum öðrum skilyrðum.

Mikilvægt er sömuleiðis að búa þannig um hnúta í reglugerð ráðherra að auðvelt verði tæknilega fyrir bæði lítil og stór félagasamtök að gera skil á styrkjum til Skattsins.

8. gr. Í síðustu málsgrein er fjallað um að verði breyting á forsendum endurgreiðslu virðisaukaskatts innan 10 ára frá því að framkvæmd fór fram, skuli félög leiðrétta virðisaukaskatt og endurgreiða ríkissjóði. Krabbameinsfélagið leggur til að tímabilið frá því að framkvæmd fór fram og þar til þær breytingar verða sem geta kallað á endurgreiðslu, verði stytt í fimm ár. Endurgreiðsla félaga til ríkissjóðs verði ekki að fullu allan þann tíma, heldur reiknist hlutfallslega miðað við fimm ár.

Með kveðju

Halla Þorvaldsdóttir

framkvæmdastjóri

Afrita slóð á umsögn

#6 Jón Rúnar Halldórsson - 17.11.2020

Jón Rúnar Halldórsson

Fagna framkomnum drögum að frumvarpi og þeim breytingum sam þar eru lagðar til. Betur má ef duga skal og leggur umsagaraðili til breytingar sem sjá má í viðhengi

Hafnarfirði 17.11.2020

Jón Rúnar Halldórsson

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#7 Fulbright stofnunin á Íslandi - 17.11.2020

Menntastofnun Íslands og Bandaríkjanna (Fulbright stofnunin) fagnar þessum frumvarpsdrögum, en vill benda á að ákveðnar skilgreiningar og ummæli í skýringartexta kunni að valda óskýrleika og leggur til ákveðnar breytingar. Sjá nánar í viðhengi.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#8 Árni Einarsson - 17.11.2020

Hér er um að ræða löngu tímabæra breytingu á rekstrarumhverfi almannaheillasamtaka.

Auknir skattalegir hvatar til þess að styrkja almannaheillafélög fjárhagslega koma ekki síst vel smærri félögum og samtökum sem byggja stærstan hluta tekna sinna á fjárframlögum einstaklinga og fyrirtækja. Það sama má segja um undanþágu frá að greiða erfðafjárskatt af gjöfum til aðila sem starfa til almannaheilla.

Fyrir þau samtök sem eiga og reka fasteignir í tengslum við starfsemi sína eru ákvæðin sem snúa að tekjuskatti og virðisaukaskatti vegna vinnu á byggingastað afar mikilvæg, enda endurnýjun og viðhald húsnæðis fjárfrekur liður í rekstri þeirra.

Árni Einarsson, framkvæmdastjóri FRÆ, Fræðslu og forvarna.

Afrita slóð á umsögn

#9 KFUM og KFUK - 17.11.2020

Umsögn frá KFUM og KFUK

Frumvarpið felur í sér mikilvægt og tímabært skref til að styrkja og efla skattalegt umhverfi félaga sem starfa til almannaheilla, þ.m.t. KFUM og KFUK. Í frumvarpinu fellst einnig viðurkenning löggjafans á því mikilvæga hlutverki sem félög til almannaheilla sinna í íslensku samfélagi og því óeigingjarna starfi sem oftar en ekki er sinnt af sjálfboðaliðum.

Þakka ber vinnuhópnum fyrir þá vinnu sem lögð hefur verið í frumvarpið.

Við gerum þó ahugasemdir við liðinn sem snýr að endurgreiðslu virðisaukaskatts af byggingu eða endurbótum húsnæðis, en þar teljum við bæði sanngjarnt og mikilvægt að ganga enn lengra.

-- Sjá nánar meðfylgjandi fylgiskjal --

Með kveðju,

Tómas Torfason,

framkvæmdastjóri KFUM og KFUK á Íslandi

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#10 Bindindissamtökin IOGT - 17.11.2020

IOGT á Íslandi lýsa ánægju með þessi drög og telja að þau verði til góðs fyrir samfélagið.

IOGT á Íslandi styður umræðu um að frjáls félagasamtök sem vinna með forvarnir séu skilgreind sem almannaheillasamtök. Frjáls félagasamtök sem sinna starfi í grasrótinni í samvinnu við samfélagið eru vel til þess fallin að flokkast til almannaheillasamtaka.

Afrita slóð á umsögn

#11 Ásta Guðrún Beck - 17.11.2020

Fagnað er þeim breytingum sem fyrirhugaðar eru í frumvarpsdrögunum sem telja verður fullvíst að hafi jákvæð áhrif og verði samfélaginu öllu til heilla. Þakka ber vinnuhópnum fyrir þá vinnu sem lögð hefur verið í frumvarpsgerðina. Ábendingar við frumvarpsdrögin má finna í meðfylgjandi viðhengi en þær snúa að ákvæðinu sem varðar endurgreiðslu á virðisaukaskatti. Sjá nánar viðhengt skjal.

Fyrir hönd þjóðkirkjunnar-biskupsstofu,

Ásta Guðrún Beck lögfr.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#12 Slysavarnafélagið Landsbjörg - 17.11.2020

Umsögn Slysavarnafélagsins Landsbjargar er hér meðfylgjandi í viðhengi.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#13 Fimleikafélag Hafnarfjarðar - 17.11.2020

Meðf.viðhengi með tillögu að breytingum á drögum að frumvarpi um breytingu á ýmsum lögum.

Fyrri umsögn frá Fimleikafélagi Hafnarfjarðar sem send var fyrr í dag óskast eytt.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#14 Jónas Guðmundsson - 17.11.2020

Reykjavík 17. nóvember 2020

Almannaheill, samtök þriðja geirans, vísa til fyrri umsagnar sinnar um þau áform um skattalagabreytingar almannaheillasamtaka sem hér birtist í formi draga að lagafrumvarpi. Almannaheill fagnar aftur þessum breytingum sem skrefi í átt að sambærulegu skattaumhverfi almannaheillasamtaka hér á landi og þeirra sem starfa í helstu samanburðarlöndum Íslands.

Almannaheill vekja þó sérstaka athygli á einu atriði í boðuðu frumvarpi. Í nokkrum greinum þess er vísað til almannaheillafélagaskrár hjá Skattinum. Umrædd skrá hefur aðeins verið skilgreind í frumvarpi til laga um félög til almannaheilla sem, ein og kemur fram í greinargerð frumvarpins sem hér er til umsagnar, hefur þrisvar sinnum verið lagt fram á Alþingi en ekki enn náð fram að ganga. Í frumvarpinu um félög til almannaheilla sem lagt var fram í október 2019 var eftirfarandi kafli um almannaheillafélagaskrá:

“VIII. KAFLI

Skráning í almannaheillafélagaskrá.

28. gr.

Stjórnvald.

Ríkisskattstjóri skráir félag til almannaheilla samkvæmt lögum þessum og lögum um fyrirtækjaskrá og starfrækir almannaheillafélagaskrá í því skyni.

29. gr.

Tilkynning um félag til almannaheilla.

Skráning félags til almannaheilla í almannaheillafélagaskrá er valkvæð og er ætluð félögum þar sem stærð, umfang eða eðli starfseminnar felur í sér þær skyldur og réttindi sem í lögunum er kveðið á um.

Tilkynningar til almannaheillafélagaskrár ásamt fylgiskjölum og tilskildum skráningar- og birtingargjöldum skal senda almannaheillafélagaskrá beint á því formi sem skráin ákveður. Skal málsmeðferð vera rafræn sé þess kostur.

Með tilkynningu skal senda stofnsamning, stofnfundargerð og samþykktir félagsins. Í tilkynningunni skal koma fram fullt heiti félags og tilgangur, heimilisfang og varnarþing, nöfn og kennitölur stjórnarmanna og varamanna og tilgreining stjórnarformanns og annarra þeirra sem geta skuldbundið félagið, auk takmarkana á þeim rétti ef einhverjar eru.

Stjórnarmenn og varamenn skulu undirrita tilkynninguna og lýsa því yfir að þær upplýsingar sem fram koma í tilkynningunni séu réttar og þeir sem þar koma fram hafi rétt til að skuldbinda félagið að lögum.

30. gr.

Meðferð tilkynninga.

Þegar almannaheillafélagaskrá berst tilkynning skv. 29. gr. skal skráin m.a. kanna:

a. hvort tilkynning samrýmist ákvæði 29. gr.,

b. hvort heiti félagsins sé skýrt aðgreint frá heiti annarra félaga sem þegar eru skráð og hvort heitið sé villandi,

c. hvort ákvæði laganna mæli gegn því að félagið sé skráð,

d. hvort ákvæði laga um fyrirtækjaskrá mæli gegn því að félagið sé skráð.

Mæli einhver þau atriði sem nefnd eru í 1. mgr. gegn því að félagið sé skráð, en ekki þyki þó efni til að hafna skráningu, skal þeim sem tilkynnir félagið til skráningar gefinn kostur á að bæta eða leiðrétta tilkynninguna. Þetta skal gert innan ákveðins frests sem almannaheillafélagaskrá setur. Hafi leiðrétting eða viðbót ekki borist innan frestsins skal hafna skráningu.

Mæli ekkert gegn skráningu skal skrá félagið í almannaheillafélagaskrá.

31. gr.

Tákn félags til almannaheilla.

Þegar félag til almannaheilla hefur verið skráð skal það hafa orðin félag til almannaheilla í heiti sínu eða skammstöfunina fta. Eingöngu þeim félögum til almannaheilla sem skráð eru í almannaheillafélagaskrá er heimilt og skylt að hafa skammstöfunina fta. í heiti sínu.

32. gr.

Tilkynning um breytingar og slit.

Breytingar á samþykktum félags, val á nýjum stjórnarmanni eða varamanni í stjórn eða breyting á heimild til að skuldbinda félagið, ásamt öðru því sem skráð hefur verið, ber að tilkynna til almannaheillafélagaskrár innan mánaðar frá breytingunni. Breyttar samþykktir í heild sinni skulu fylgja tilkynningu um breytingar. Sömu reglur gilda um meðferð tilkynningar um breytingu á því sem áður er skráð og um upphafstilkynningu til almannaheillafélagaskrár.

Breyting á samþykktum félags tekur gildi við skráningu í almannaheillafélagaskrá. Sama gildir um breytingu á stjórn félags og varastjórn og annarra þeirra einstaklinga sem geta skuldbundið félagið, auk takmarkana á þeim rétti ef einhverjar eru.

Þegar félagi til almannaheilla hefur verið slitið, sbr. VI. kafla, skal tilkynna það til almannaheillafélagaskrár og auglýsa slit félagsins í Lögbirtingablaði.

33. gr.

Reglugerðarheimild.

Ráðherra getur með reglugerð sett nánari ákvæði um skráningu í almannaheillafélagaskrá, þ.m.t. um skipulag skráningarinnar, rekstur almannaheillafélagaskrár og aðgang að skránni og gjaldtöku, m.a. fyrir útgáfu vottorða og afnot af þeim upplýsingum sem almannaheillafélagaskrá hefur á tölvutæku formi.”

Vísunin í almannaheillafélagaskrá í þessum frumvarpsdrögum minnir á að brýnt er að taka frumvarp um lög um félög til almannaheilla jafnhliða til umræðu á Alþingi og afgreiða það endanlega. Þau lög myndu eins og þær skattabreytingar sem hér eru boðaðar styrkja og treysta starfsemi almannaheillasamtaka í landinu.

Virðingarfyllst,

Jónas Guðmundsson formaður Almannaheilla

Afrita slóð á umsögn

#15 Jónas Guðmundsson - 17.11.2020

Í viðhengi er umsögn Almannaheilla, samtaka þriðja geirans, samhljóða umsögn nr. 16.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#16 Hagsmunasamtök heimilanna - 17.11.2020

Sjá viðhengi.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#17 Knattspyrnusamband Íslands - 18.11.2020

Sjá viðhengi

Viðhengi