Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 7.–17.11.2020

2

Í vinnslu

  • 18.–26.11.2020

3

Samráði lokið

  • 27.11.2020

Skjöl til samráðs

Mál nr. S-239/2020

Birt: 7.11.2020

Fjöldi umsagna: 17

Drög að frumvarpi til laga

Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Skatta-, eigna- og fjármálaumsýsla

Drög að frumvarpi um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld (skattalegir hvatar fyrir lögaðila sem starfa til almannaheilla).

Niðurstöður

Sautján umsagnir bárust. Gerðar voru breytingar á nokkrum greinum frumvarpsins í ljósi framkominna athugasemda. Sjá nánari umfjöllun í niðurstöðuskjali.

Málsefni

Drög að frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld (skattalegir hvatar fyrir lögaðila sem starfa til almannaheilla).

Nánari upplýsingar

Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ýmsum lögum um skatta og gjöld til eflingar á skattalegu umhverfi þeirra lögaðila sem starfa til almannaheilla og falla undir þriðja geirann. Breytingarnar taka að miklu leyti mið af tillögum starfshóps um skattalegt umhverfi þriðja geirans.

Markmið frumvarpsins er að auka skattalega hvata fyrir þá lögaðila sem falla undir þriðja geirann og starfa til almannaheilla og skjóta þannig styrkari stoðum undir þá starfsemi sem þar fer fram. Þá þykir rétt að auka jafnframt hvatann fyrir gefendur vegna gjafa og framlaga til þeirrar starfsemi. Með auknum skattalegum hvötum bæði fyrir þiggjendur og gefendur mun sú starfsemi til almannaheilla sem fellur undir þriðja geirann eflast og styrkjast sem leiðir til auðgunar á því mikilvæga sjálfboðaliðastarfi sem fram fer í hinum ýmsu félögum og félagasamtökum um land allt.

Helstu efnisatriði frumvarpsins eru eftirfarandi:

— Að hugtakið ,,almannaheill“ komi í stað hugtaksins ,,almenningsheill“ og verði skilgreint nánar í lögum um tekjuskatt.

— Að einstaklingum verði heimilt að draga einstaka fjárframlög til þeirra lögaðila sem starfa til almannaheilla frá skattskyldum tekjum, að hámarki 350 þús. kr. á hverju almanaksári, að frekari skilyrðum uppfylltum.

— Að hlutfall frádráttarheimildar atvinnurekstraraðila vegna einstakra fjárframlaga til almenningsheilla verði hækkað úr 0,75% í 1,5% að frekari skilyrðum uppfylltum.

— Að þeir lögaðilar sem starfa til almannaheilla verði undanþegnir tekjuskatti af tilgreindum fjármagnstekjum.

— Að þeir lögaðilar sem starfa til almannaheilla verði undanþegnir staðgreiðslu skatts á tilgreindar fjármagnstekjur.

— Að þeim lögaðilum sem starfa til almannaheilla verði gert kleift að óska eftir 60% endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnulið vegna vinnu á byggingarstað, eða vegna endurbóta eða viðhalds, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.

— Að hugtakið góðgerðarstarfsemi verið skilgreint nánar í lögum um virðisaukaskatt. Samhliða er lagt til að sá dagafjöldi sem miðað er við vegna undanþágu góðgerðarstarfsemi frá virðisaukaskatti verði aukinn og að ákvæðið verði útvíkkað.

— Að þeir aðilar sem starfa til almannaheilla og eru undanþegnir tekjuskatti verði jafnframt undanþegnir gjaldskyldu stimpilgjalds samkvæmt lögum um stimpilgjald.

— Að í lögum um erfðafjárskatt verði kveðið á um að ekki skuli greiða erfðafjárskatt af gjöfum og framlögum til aðila sem starfa til almannaheilla.

Samráði lokið

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Tenging við önnur mál (3)

Umsjónaraðili

Skrifstofa skattamála

fjr@fjr.is