Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 10.–23.11.2020

2

Í vinnslu

  • 24.11.2020–15.9.2021

3

Samráði lokið

  • 16.9.2021

Skjöl til samráðs

Mál nr. S-242/2020

Birt: 10.11.2020

Fjöldi umsagna: 13

Drög að frumvarpi til laga

Innviðaráðuneytið

Samgöngu- og fjarskiptamál

Frumvarp til laga um breytingu á hafnalögum, nr. 61/2003.

Niðurstöður

Frumvarp til laga um breytingu á hafnalögum, nr. 61/2003, var lagt fyrir Alþingi á 151. löggjafarþingi (sjá 509. mál). Umfjöllun um niðurstöður samráðs sem fram fór um frumvarpið er að finna í greinargerð þess.

Málsefni

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið kynnir til umsagnar frumvarp til laga um breytingu á hafnalögum, nr. 61/2003. Frumvarpið hefur að geyma ákvæði um eldisgjald og rafræna vöktun í höfnum. Þá er það jafnframt til innleiðingar á ákvæðum EES-gerðar um þjónustu í höfnum og gagnsæi í fjármálum hafna.

Nánari upplýsingar

Frumvarpi þessu er ætlað að innleiða ákvæði reglugerðar (ESB) 2017/352 um að setja ramma um veitingu hafnarþjónustu og um sameiginlegar reglur um gagnsæi í fjármálum fyrir hafnir. Lagðar eru til breytingar að því er varða gjaldtöku hafna, þ.e. að höfnum, sem eru innan samevrópska flutninganetsins, sé skylt að eiga samráð við notendur hafna um gjaldtöku sína. Þær skuli jafnframt veita notendum hafna upplýsingar um breytingar á eðli eða fjárhæð hafnargjalds a.m.k. tveimur mánuðum áður en breytingarnar taka gildi. Þá er mælt fyrir um að gjaldskrárákarðanir hafna innan samevrópska flutninganetsins verði kæranlegar til Samgöngustofu. Íslenskar hafnir í samevrópska flutninganetinu eru Faxaflóahafnir/Sundahöfn, Höfnin á Seyðisfirði, Hafnir Fjarðabyggðar/Mjóeyrarhöfn, Reyðarfirði, Höfnin í Vestmannaeyjum og Landeyjahöfn. Þá er lagt til að allar hafnir, sem falla undir gildissvið hafnalaga, verði heimilað að veita umhverfisafslætti.

Í frumvarpinu er einnig að finna ákvæði um rafræna vöktun í höfnum. Á mörgum hafnarsvæðum er viðhaft myndavélaeftirlit. Þá er algengt að rauntímaefni myndavélanna sé sýnt á vefsíðum hafna í því skyni að leyfa bátaeigendum að fylgjast með bátum sínum og veðurlagi. Hafa skipstjórnarmenn, sem eru á leið til hafnar, einnig notað þessar upplýsingar til að sjá hvar laus pláss við hafnir séu. Þörf er á lagaheimild fyrir vinnslu persónuupplýsinga svo að gildandi réttur fullnægi skyldum laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

Loks mælir frumvarpið fyrir um nýtt ákvæði í 17. gr. hafnalaga um gjöld, um svokallað eldisgjald. Fiskeldisfyrirtæki eiga í viðskiptum við hafnir víðs vegar um landið. Einn þátturinn í starfsemi fiskeldisfyrirtækja varðar flutning eldisfisks um hafnir, þ.e. umskipun, lestun og losun. Sumar hafnir hafa byggt gjaldtöku vegna þessarar starfsemi í höfnum á ákvæði um aflagjald, þ.e. e-lið 2. mgr. 17. gr. laganna. Þar segir að höfnum sé í gjaldskrá heimilt að innheimta aflagjald af sjávarafurðum sem umskipað er, lestaðar eru eða losaðar í höfnum. Ágreiningur hefur verið uppi um lögmæti þessarar gjaldtöku þar sem hún nái samkvæmt orðum sínum til afla sjávarútvegsfyrirtækja en ekki til eldisfisks frá fiskeldisfyrirtækjum. Að mati ráðuneytisins er þörf á því að leysa úr þessari réttaróvissu. Eldisgjald er gjald sem tekið er fyrir eldisfisk í sjókvíum sem umskipað er, lestaður er eða losaður í höfnum. Um er að ræða þjónustugjald sem hafnir geta mælt fyrir um í gjaldskrám en í ákvæðinu er skýrt hvaða þætti í rekstri hafna gjaldinu er ætlað að standa undir.

Samráði lokið

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Umsjónaraðili

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

srn@srn.is