Samráð fyrirhugað 11.11.2020—25.11.2020
Til umsagnar 11.11.2020—25.11.2020
Niðurstöður í vinnslu frá 25.11.2020
Niðurstöður birtar 28.06.2021

Áform um ný lög um mat á umhvefisáhrifum framkvæmda og áætlana

Mál nr. 243/2020 Birt: 11.11.2020 Síðast uppfært: 28.06.2021
  • Umhverfis- og auðlindaráðuneytið
  • Áform um lagasetningu
  • Málefnasvið:
  • Umhverfismál
  • Sveitarfélög og byggðamál
  • Sjávarútvegur og fiskeldi
  • Orkumál
  • Samgöngu- og fjarskiptamál

Niðurstöður birtar

Frumvarp birt í samráðsgátt, mál nr. 30/2021

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 11.11.2020–25.11.2020. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 28.06.2021.

Málsefni

Kynnt eru áform um setningu nýrra heildarlaga um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda og áætlana. Með lögunum verða sameinuð í eitt lög um mat á umhverfisáhrifum og lög um umhverfismat áætlana auk þess sem ferli við mat á umhverfisáhrifum verður einfaldað og þátttökuréttindi almennings elfd.

Starfshópur vinnur að heildarendurskoðun laga um mat á umhverfisáhrifum. Meginmarkmiðin með heildarendurskoðuninni eru að auka skilvirkni í ákvarðanatöku við mat á umhverfisáhrifum og að tryggja sem best aðkomu almennings og annarra hagsmunaaðila að ferli mats á umhverfisáhrifum. Í aukinni skilvirkni getur m.a. falist samþætting á ferli mats á umhverfisáhrifum framkvæmda við ferli skipulagsgerðar og umhverfisáhrifum áætlana auk leyfisveitingaferlis. Vegna þessa þarf einnig að taka önnur lög til skoðunar, þ.e. skipulagslög, lög um umhverfismat áætlana, sérlöggjöf um leyfisskylda starfsemi og framkvæmdir og stjórnsýslulög. Við heildarendurskoðunina ber að hafa í huga að lögin fela í sér innleiðingu á grunntilskipun 2011/92/ESB um mat á umhverfisáhrifum. Tilskipun 2011/92/ESB eins og henni var breytt með tilskipun 2014/52/ESB mælir fyrir um mat á umhverfisáhrifum vegna framkvæmda sem líklegt er að hafi umtalsverð umhverfisáhrif. Til að tryggja sem best aðkomu almennings og annarra hagsmunaaðila að ferlinu er stefnt að því að kynningar og samráð við almenning og aðra sem hagsmuna hafa að gæta fari fram með rafrænni gátt. Þannig má stuðla að því að athugasemdir komi fram sem fyrst í ferli mats á umhverfisáhrifum. Þá má bæta framsetningu og skýrleika laganna í heild og gera þau aðgengilegri.

Tengd mál

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Orkustofnun - 24.11.2020

Efni: Áform um ný lög um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda og áætlana

Orkustofnun er sammála því að einfalda þurfi undirbúningsferli ákvarðana vegna framkvæmda. Einkum er óþarflega flókið samráðs- og umsagnarferli til þess fallið að flækja ákvarðanatöku. Þannig er vel þekkt að sama framkvæmdin er nokkrum sinnum send sömu aðilum til umsagnar. Fyrri umsagnir viðkomandi aðila eru ekki endilega aðgengilegar stjórnvaldi á næsta stigi (t.d. eru umsagnir um matskyldufyrirspurnir vegna laga um mat á umhverfisáhrifum ekki birtar) og því getur verið að umsagnaraðili þurfi ítrekað að endurtaka umsögn um sömu framkvæmd.

Notkun rafrænna umsóknar- og umsagnarleiða má telja til þess fallna að straumlínulaga umsagnar- og leyfisveitingarferli. Þannig liggja öll málsskjöl fyrir í samræmdri málagátt og í stað þess að endurtaka í sífellu flókin umsagnarferli má hugsa sér að á hinum ýmsu stigum lúti umsagnir að breytingum á skipulagi framkvæmda frá fyrra stigi.

Þau áform, eins og þeim hefur verið lýst í skjölum ráðuneytisins sem birt hafa vegna samráðsins, falla betur að stjórnsýslu Orkustofnunar þar sem þau koma til með að einfalda aðkomu stofnunarinnar á málum. Stofnunin telur allt benda til þess að slíkt einfaldara ferli muni hafa sömu tilætluðu áhrif um samráð við stofnunina.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#2 Landsvirkjun - 25.11.2020

Meðfylgjand er umsögn Landsvirkjunar

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#3 Umhverfisstofnun - 25.11.2020

Meðfylgjandi pdf skjali er umsögn Umhverfisstofnunar.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#4 Samtök iðnaðarins - 25.11.2020

Góðan dag.

Meðfylgjandi er umsögn Samtaka iðnaðarins.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#5 Baldur Dýrfjörð - 25.11.2020

Hjálögð er umsögn Samorku, samtaka orku- og veitufyrirtækja.

Virðingarfyllst, f.h. Samorku Baldur Dýrfjörð lögfræðingur

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#6 Samork - 25.11.2020

Fylgiskjal með umsögn

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#7 Verkfræðingafélag Íslands - 25.11.2020

Meðfylgjandi er umsögn Verkfræðingafélags Íslands.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#8 Hörður Einarsson - 27.11.2020

Í samráðsplagginu segir svo í lið B.2:

"Meginmarkmiðin með heildarendurskoðuninni eru að auka skilvirkni í ákvarðanatöku við mat á umhverfisáhrifum og að tryggja sem best aðkomu almennings og annarra hagsmunaaðila að ferlinu þannig að hún samræmist sem best ákvæðum Árósarsamningsins og tilskipun 2011/92/ESB."

Þegar kemur að lýsingu á helztu fyrirhuguðu breytingum á gildandi lögum og reglum (D.1.) snýst hins vegar allt um einföldun og flýtisauka fyrir framkvæmdaraðila, hvergi sér stað neinna áforma til þess að bæta aðkomu almennings að matsferlum og ákvörðunum. Meina að segja er ráðagerð um ferli, þar sem á að tryggja, að almenningur komi hvergi nærri. Verður þegar á þessu stigi að vara sérstaklega við þessum hugsunarhætti og vinnubrögðum við breytingar á löggjöf um umhverfismál.

Meðal þeirra atriða, sem stinga í augu, er eftirfarandi áform:

"Taka upp ákvæði um forsamráð þar sem framkvæmdaaðili, leyfisveitendur, sveitarfélög og lögbæra yfirvaldið koma saman og skipuleggja matsferlið."

Áform af þessu tagi verða að teljast andstæð ákvæðum Árósasamningsins og tilskipana ESB um umhverfismat, sem kveða á um það, að gert skuli ráð fyrir þátttöku almennings snemma í ferlinu, þegar allir kostir eru fyrir hendi og um virka þátttöku almennings geti verið að ræða. Með umræddri lagabreytingarhugmynd er ætlunin að koma á fót ferli, sem almenningi er berum orðum haldið utan við, strax í upphafi.

Það er framkvæmdaraðili, sem ber ábyrgð á matsskýrslu, og það er og á að vera á hans ábyrgð, að rétt og löglega sé staðið að matsferlinu. Opinberir aðilar eiga ekki að láta gera sig lagalega eða siðferðislega ábyrga fyrir matsferlinu og málsmeðferðinni fyrirfram. Hin áformaða lagabreyting er aðeins aðferð til þess að binda hendur leyfisveitenda fyrirfram - á bak við almenning, löngu áður en nokkurt opinbert matsferli fer af stað.

Matsferlið á að vera skipulagt í löggjöfinni sjálfri, opið og gegnsætt, en ekki í "forsamráði" framkvæmdaraðila við leyfisveitendur og aðra opinbera aðila. Það er rétta aðferðin til þess að tryggja, að ákvarðanataka við mat á umhverfisáhrifum "samræmist sem best ákvæðum Árósarsamningsins og tilskipun 2011/92/ESB".

Með beztu kveðju og í von um góðan skilning á þátttökurétti almennings í ákvörðunum um umhverfismál,

Hörður Einarsson