Þrjár umsagnir bárust innan athugasemdafrests frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Landssamtökunum Þroskahjálp og Akureyrarbæ. Sjá niðurstöðuskjal til nánari upplýsinga.
Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 13.11.2020–27.11.2020.
Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.
Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 02.02.2021.
Félags- og barnamálaráðherra kynnir til umsagnar frumvarp til laga um breytingu á lögum um Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins. Það er liður í endurskoðun á löggjöf um málefni barna sem tengist m.a. samþættingu þjónustu í þágu barna.
Frá árinu 2018 hefur umfangsmikil vinna átt sér stað innan stjórnsýslunnar og á vettvangi þingmannanefndar um málefni barna, með virku samráði við hagsmunaaðila, við að greina stöðu barna og hvernig auka megi farsæld barna í samfélaginu. Meðal helstu niðurstaða úr þessari vinnu er að brýnt sé að bæta snemmtækan stuðning við börn og efla samvinnu þeirra sem veita börnum og fjölskyldum þjónustu.
Til að koma til móts við þessar niðurstöður hefur verið unnið að fjölbreyttum verkefnum, þ.m.t. tillögum að breytingum á löggjöf um þjónustu við börn og barnafjölskyldur. Ber þar helst að nefna frumvarp til laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna en með því eru lagðar til grundvallarbreytingar á umgjörð samvinnu þeirra sem veita börnum og barnafjölskyldum þjónustu. Til að styðja við breytingarnar hefur jafnframt verið unnið að nýju skipulagi stofnana ríkisins á sviði velferðarmála.
Þessar breytingar kalla á endurskoðun og uppfærslu á verkefnum Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins. Í frumvarpinu sem hér er kynnt almenning er lagt til að gerðar verði breytingar á gildandi lögum um stofnunina til að skýra hlutverk hennar í samþættri þjónustu í þágu barna. Lagt er til að settur verði skýrari rammi utan um markhópa stofnunarinnar og lögð áhersla á stuðnings- og leiðbeiningahlutverk stofnunarinnar gagnvart þjónustuveitendum, einkum sveitarfélögum. Þá eru lagðar til breytingar á gildandi löggjöf sem endurspegla tilkomu nýrra stofnana félagsmálaráðuneytisins, Barna- og fjölskyldustofu og Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála.
Endurskoðun lagaumhverfis stofnunarinnar var jafnframt talin kalla á að hugtakanotkun yrði tekin til sérstakrar skoðunar. Löggjöf um stofnunina hefur lítið verið breytt frá setningu gildandi laga nr. 83/2003 um Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins þrátt fyrir að ytra umhverfi hennar hafi breyst, t.d. með tilkomu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Felur frumvarpið því í sér nokkrar breytingar á skilgreiningum og hugtakanotkun, þ.m.t. tillögu að breytingum á nafni hennar.
Meginefni frumvarpsins er eftirfarandi:
1. Breyting á nafni stofnunarinnar í Greiningar- og ráðgjafarstöð.
2. Breytingar á skilgreiningum í frumvarpinu, þ.m.t. á hugtökunum alvarleg þroskaröskun, fötlun, frumgreining og greining, auk nýrra skilgreininga, þ.m.t. á hugtökunum snemmtæk íhlutun og fjölskyldumiðuð nálgun.
3. Aukin áhersla í löggjöf á samstarf og samþættingu þjónustu í þágu barna, þ.m.t. með skýringum á aðkomu Greiningar- og ráðgjafarstöðvar að samþættingu þjónustu í þágu barna sem tilheyra mismunandi markhópum stofnunarinnar.
4. Heimild til Greiningar- og ráðgjafarstöðvar til að setja reglur um frumgreiningar og langtímaeftirfylgd.
5. Aukin áhersla í löggjöf á hlutverk Greiningar- og ráðgjafarstöðvar við leiðbeiningar, ráðgjöf og fræðslu gagnvart þeim sem veita börnum þjónustu.
6. Staða Greiningar- og ráðgjafarstöðvar gagnvart nýjum stofnunum félagsmálaráðuneytisins skýrð.
Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um breytingar á lögum um Greiningar- og ráðgjafastöð ríkisins nr. 83/2003 (Greiningarstöð ríkisins).
Landssamtökin Þroskahjálp vilja koma eftirfarandi á framfæri vegna frumvarps um breytingu á lögum um Greiningar- og ráðgjafastöð ríkisins.
Landssamtökin Þroskahjálp hafa um áraraðir bent á þann annmarka að starfsemi stofnunarinnar miðast nánast einvörðungu við börn, eins og kemur fram í 1. gr. og er sérstaklega áréttað í 4. gr. núgildandi laga.
Þroskahjálp bendir í því sambandi á að Greiningar- og ráðgjafastöð ríkisins er eini aðilinn sem veitir ráðgjöf á landsvísu vegna þroskahömlunar og/eða einhverfu og því er enginn aðili ábyrgur fyrir ráðgjöf vegna fullorðins fólks með þessar skerðingar .
Einnig skal bent á að samtökin þekkja þess dæmi að einstaklingar sem flust hafi til landsins og eru eldri en 18 ára gamlir lenda í vandræðum með að fá viðeigandi greiningu sem oft á tíðum er þó grundvöllur fyrir ýmsum réttindum og aðgangi að viðeigandi og nauðsynlegri þjónustu.
Landssamtökin Þroskahjálp telja mjög æskilegt og eðlilegt að þegar lög um Greiningar- og ráðgjafastöð eru endurskoðuð verði tekið til skoðunar hvort ekki sé rétt að breyta þessu fyrirkomulagi þannig að einstaklingar eldri en 18 ára eigi greiðari leið að ráðgjöf og greiningu.
Hvað varðar efnisatrið fyrirliggjandi frumvarps virðist tilgangur þess vera sá helstur að laga það að breytingum sem ráðgerðar eru með nýjum lögum sem hlotið hafa heitin lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, lög um barna- og fjölskyldustofu og lög um Gæða- og eftirlitsstofnun.
Í greinargerð með frumvarpinu er rifjuð upp vinna sem fór fram á árunum 2013 og 2014 og miðaði að því að koma á laggirnar einni séhæfðri Greiningar- og ráðgjafamiðstöð vegna allra fatlana sem eftir atvikum gæti verið deildarskipt í barna- og fullorðinssvið. Landssamtökin Þroskahjálp studdu þá tillögu og styðja hana enn.
Gert er ráð fyrir því samkvæmt frumvarpinu að stofnuninni sé falið að setja reglur um annars vegar frumgreiningu og hins vegar langtíma-eftirfylgd. Hvað varðar þessar reglusetningar skal haft samráð við Samband íslenskra sveitarfélaga. Þess er hins vegar hvergi getið að slíkt samráð skuli haft við hagsmunasamtök fatlaðs fólk eða aðra hópa notenda þjónustunar, þótt skylt sé að hafa slíkt samráð samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem íslenska ríkið fullgilti árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að framfylgja.
Í frumvarpinu eru einnig gerðar breytingar á orða- og hugtakanotkun í núverandi lögum. Landssamtökin Þroskahjálp gera ekki miklar athugasemdir við þær orðalagsbreytingar en velta þó fyrir sér hvort samræma þurfi orðanotkun þar sem annars vegar er lagt til að fötlun sé skilgreind sem samspil skerðinga og samfélagslegra hindrana sem koma í veg fyrir fulla þátttöku (sjá 2. tl. 3. Gr.). En samt sem áður eru notuð orð eins “alvarleg frávik”, “óvenju flókin fötlun” um skerðingar einstaklinga einvörðungu.
Fleira mætti tilgreina hvað varðar umdielanlega orða- og hugtakanotkun. T.a.m. virðist hugtakið “sjálfsbjörg barns” vera nokkuð sérstakt og óljóst, a.m.k. hvað lagalegt innihald varðar.
Landssamtökin Þroskahjálp áskilja sér rétt til að koma frekari athugansemdum á framfæri varaðdni frumvarpið á síðari stigum meðferðar þess.
Virðingarfyllst.
Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður Þroskahjálpar
Anna Lára Steindal, verkefnastjóri Þroskahjálpar í málefnum fatlaðra barna og ungmenna
ViðhengiAkureyri 26. nóvember 2020
Umsögn Akureyrarbæjar um framvarp til laga um Greiningar- og ráðgjafarstöð
Ánægjulegt er að sjá nýtt frumvarp um þessa mikilvægu stofnun sem er nauðsynleg ekki síst fyrir sveitarfélög er varðar uppbyggingu á þjónustu fyrir fötluð börn og fjölskyldur þeirra. Stofnunin á að vera stuðningur í erfiðum úrlausnarefnum og að vera sá aðili sem kynnir nýjungar í rannsóknum er varðar íhlutun og þróun þjónustunnar.
Sú nýjung í frumvarpinu (4.grein) um að það eigi að samræma á landsvísu innihald frumgreiningar er metnaðarfullt verkefni sem verður áhugavert að fylgjast með. Þannig ættu allir að sitja við sama borðið. Einnig er ánægjulegt að sjá að stofnunin setji sér reglur um hvað langtímaeftirfylgd inniber því það er oft á tímum óljóst. Mjög jákvætt er fyrir tilvonandi Barna- og fjölskyldustofu að styrkja tengslin við Greiningarstöð þar sem þar liggur sérþekking sem Barnaverndarstofu hefur skort.
Helstu athugasemdir við frumvarpið snúa að því sem ekki er þar. Ekki er gert ráð fyrir breytingum á aldri þeirra sem njóta þjónustu stofnunarinnar og því ekki verið að leysa vanda, sérstaklega ungs fólks sem þarf verulega sérhæfða þjónustu sem er miður.
Ekki er sett inn í lögin ákvæði um landshlutateymi sem myndi styrkja samband Greiningarstöðvar við landsbyggðina og styrkja þar faglegt starf.
Það er ljóst að verklag varðandi mat á umönnunarþyngd fatlaðra barna þarf að endurskoða. Nota hefði átt tækifærið við endurskoðun þessara laga að Greiningarstöð hefði hlutverk í þeirri vinnu sem þarf að fara fram t.d. með því að tengja SIS mat við umönnunarmatið.
f.h. Akureyrarbæjar
Karólína Gunnarsdóttir
Sviðsstjóri búsetusviðs Akureyrarbæjar
ViðhengiMeðfylgjandi er umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga.
f.h. sambandsins
Valgerður Rún Benediktsdóttir
Viðhengi