Samráð fyrirhugað 17.11.2020—27.11.2020
Til umsagnar 17.11.2020—27.11.2020
Niðurstöður í vinnslu frá 27.11.2020
Niðurstöður birtar 24.06.2021

Frumvarp um breytingu á lögum um háskóla, nr. 63/2006 og lögum um opinbera háskóla, nr. 85/2008.

Mál nr. 250/2020 Birt: 17.11.2020 Síðast uppfært: 24.06.2021
  • Mennta- og menningarmálaráðuneytið
  • Drög að frumvarpi til laga
  • Málefnasvið:
  • Háskólastig

Niðurstöður birtar

Nánar um niðurstöður

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 17.11.2020–27.11.2020. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 24.06.2021.

Málsefni

Mennta- og menningarmálaráðuneyti kynnir til samráðs drög að frumvarpi um breytingu á lögum um háskóla, nr. 63/2006 og lögum um opinbera háskóla, nr. 85/2008. Í frumvarpinu er lagt til að breyta 19. gr. laga um háskóla, nr. 63/2006 og 18. gr. laga um opinbera

Mennta- og menningarmálaráðuneyti kynnir til samráðs drög að frumvarpi um breytingu á lögum um háskóla, nr. 63/2006 og lögum um opinbera háskóla, nr. 85/2008. Í frumvarpinu er lagt til að breyta 19. gr. laga um háskóla, nr. 63/2006 og 18. gr. laga um opinbera háskóla, nr. 85/2008 með þeim hætti að breyta aðgangsskilyrðum að háskóla fyrir nemendur sem vilja hefja nám til fyrstu háskólagráðu. Til jafns við aðgangsskilyrði „stúdentspróf“ kemur aðgangsskilyrði um að nemendur hafi lokið „lokaprófi af þriðja hæfnisþrepi“ og er þá vísað til aðalnámskrár framhaldsskóla. Þessari breytingu er ætlað að jafna stöðu nemenda sem hafa lokið list,- tækni- og starfsnámi af þriðja hæfniþrepi og þeirra, sem lokið hafa stúdentsprófi til inngöngu í háskóla. Á liðnum árum og áratugum hafa orðið miklar breytingar á skipulagi og tilhögun framhaldsskólanáms. Breytingin getur verið háskólum hvatning til að móta en frekar gagnsærri og skýrri aðgangsviðmið fyrir nemendur sem hafa lokið iðn- og starfsnámi. Nauðsynlegt er að lagt sé mat á raunverulega hæfni, en hæfniviðmiðin gera kleift að sjá hvaða hæfni og getu nemendur geti vænst að búa yfir við námslok. Skilgreind aðgangsviðmið verða þannig skýr og svara til krafna um undirbúning fyrir viðkomandi háskólanám.

Markmið þessa frumvarps er að jafna möguleika þeirra framhaldsskólanema sem ljúka prófi af þriðja hæfniþrepi samkvæmt aðalnámskrá framhaldsskóla til háskólanáms. Frumvarpið felur þar með í sér aukið jafnræði til náms óháð mismunandi námsleiðum nemenda og þeim lokaprófum frá framhaldsskólum sem nemendur hafa lokið. Þessi breyting er í samræmi við markmið sem er lýst fyrir málefnasvið háskólastigs í fjármálaáætlun 2020-2024, þ.e. um styrkari tengingu menntunar við atvinnulíf meðal annars með eflingu verk- og tæknináms.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Margrét Össurardóttir - 17.11.2020

Löngu tímabært!!!!!!!!!! Hefur verið með ólíkindum að Iðnmeistarar sem tekið hafa kennsluréttindi hafa ekki getað bætt við sig námi í Háskóla. Þeir hafa aldrei getað þróað sig í vinnu sinni s.l. 10 ár. Ég fagna þessu!!!!!!

Afrita slóð á umsögn

#2 Helgi Kristinsson - 18.11.2020

Þetta er frábært og löngu tímabært.

Afrita slóð á umsögn

#3 Magnús Þorkelsson - 19.11.2020

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um háskóla, nr. 63/2006 og lögum um opinbera háskóla, nr. 85/2008.

Ágæti Mennta- og menningarmálaráðherra. Lilja Alfreðsdóttir

Mér hefur borist boð um að veita umsögn um ofangreint mál.

Ég vil fyrst og fremst fagna þessu máli. Ég lít svo á að hér sé verið að taka fyrstu skrefin í að afnema hugtakið Stúdentspróf, sem er löngu tímabært. Stúdentsprófið var sett á laggirnar sem inntökupróf í Háskólann í Kaupmannahöfn þegar 19. öldin var ekki einu sinni hálfnuð. Þá var einn skóli sem sá um þetta mál en sú hefur þróunin orðið að í dag eru um og yfir 30 skólar sem útskrifa stúdenta og virðist það ítrekað koma bæði fulltrúum HÍ, sem og mörgum fjölmiðlamönnum í opna skjöldu að ekki sé um samræmt próf að ræða eða staðlað. Það hefur raunar ekki verið slíkt próf frá því seint á 19. öld.

Ítrekað fór fram umræða um samræmt stúdentspróf í lok 20. aldar en það féll um sjálft sig sem og stöðluð könnunarpróf.

Það er því mjög mikilvægt að fá þessa breytingu og gera þá að skyldu að HÍ og aðrir háskólar skilgreini kröfur sínar með þeim hætti að venjulegur nemandi geti lokið þriðja stigs lokaprófi á þremur árum. Það merkir t.d. að almenna krafan um stærð stúdentsprófsins sé miðuð við 180-200 einingar en ekki meira.

Ég tel að hér sé um raunveruleikaaðlögun að ræða. Í dag starfa um 30 framhaldskólar og hver með sína námskrá. Brautir til stúdentsprófs eru um og yfir 160 (ekki allar virkar) og hver skóli er með sína áfangaskrá. Núna vex Opin braut sem aldrei fyrr og er það líklega svar nemenda skólanna við þröngum námsbrautalýsingum. Eins og eins og sjá má á nýjustu niðurstöðum Rannsókna og greiningar um viðhorf framhaldsskólanemenda þá telur sívaxandi hópur nám sitt tilgangslaust. Það er því þörf tiltekt að leggja frumvarp sem þetta fram.

Ekki má gleyma því að í flestum bóknámsskólum eru nær eingöngu nemendur fæddir á þessari öld en nær eingöngu kennarar fæddir á síðustu öld. Ég held að þetta sé táknrænt fyrir alla vega sum vandamál skólanna.

Með vinsemd og virðingu

Magnús Þorkelsson, skólameistari Flesborgarskólans.

Stjórnarfrumvarp. Frumvarp til laga Um breytingu á lögum um háskóla, nr. 63/2006 og lögum um opinbera háskóla, nr. 85/2008.

Um breytingu á lögum nr. 63/2006 um háskóla, með síðari breytingum.

1. gr. Eftirfarandi breytingar verða á 19. gr. laganna:

1. málsl. 1. mgr. orðast svo: Nemendur, sem hefja nám í háskóla, skulu hafa lokið stúdentsprófi eða lokaprófi frá framhaldsskóla á þriðja hæfniþrepi.

II. KAFLI Breyting á lögum nr. 85/2008 um opinbera háskóla, með síðari breytingum.

2. gr. Eftirfarandi breytingar verða á 18. gr. laganna:

a. 1. málsl. 2. mgr. orðast svo: Nemendur, sem hefja nám til fyrstu háskólagráðu í háskóla, skulu hafa lokið stúdentsprófi eða lokaprófi frá framhaldsskóla á þriðja hæfniþrepi

b. a liður 3. mgr. orðast svo: kröfur um inntak lokaprófs frá framhaldsskóla á þriðja hæfniþrepi auk viðbótarkrafna, þegar við á, um undirbúning fyrir einstakar námsleiðir í grunnnámi.

Afrita slóð á umsögn

#4 Hlynur Steinn Þorvaldsson - 22.11.2020

Þetta er framfara skref , sem mun koma þjóðinni til góða eftir einhver ár. Iðnmentun hefur verið stórkostlega vanmetinn mentun og sú áhersla á bóknám, sem hefur verið allsráðandi hefur skilað því að skortur er á iðnmentuðum aðilum í öllum greinum.

Vonandi er þetta fyrsta skrefið til þess að lagfæra þá skömm.

Afrita slóð á umsögn

#5 Landssamtökin Þroskahjálp - 25.11.2020

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um frumvarp til breytingu á lögum um háskóla, nr. 63/2006 og lögum um opinbera háskóla, nr. 85/2008.

Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á réttidni og tækifæri fólks með þroskahömlun. Samtökin byggja stefnu sína á samningi Sameinuðu Þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum. Í stefnu sinni og starfi verkefnum sínum taka samtökin jafnframt mið af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.

Landssamtökin Þroskahjálp taka undir meginmarkmið frumvarpsins og telja mikilvægt að jafna aðgengi að menntun á háskólastigi, óháð því hvernig námi nemendur ljúka framhaldsskólastigi. Í Því samhengi lýsa þau vonbrigðum með að samhliða þessari endurskoðun á þessum lögum lögum skuli ekki jafnframt gerðar úrbætur hvað varðar tækifæri fólks með þroskahömlun til háskólanáms, eins og kveðið er á um í samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks.

Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að litlar stefnubreytingar hafi orðið varðandi menntun á háskólastigi á Íslandi undanfarin ár og engar frá árinu 2016 en það ár fullgiltu íslensk stjórnvöld samning SÞjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, eins og fyrr sagði og skulbundu sig þar með til að tryggja fötluðu fólki öll þau réttindi sem hann kveður á um, þar á meðal menntun á öllum skólastigum óháð fötlun. Í 24 grein samningsins segir:

1. Aðildarríkin viðurkenna rétt fatlaðs fólks til menntunar. Í því skyni að þessi réttur verði að veruleika án mismununar og þar sem allir hafa jöfn tækifæri skulu aðildarríkin koma á menntakerfi án aðgreiningar á öllum skólastigum og námi alla ævi sem leiðir til þess:

a) að mannleg geta og tilfinning fyrir reisn og eigin verðleikum þroskist til fulls og til þess að virðing fyrir mannréttindum, mannfrelsi og mannlegri fjölbreytni vaxi,

b) að fatlað fólk geti fullþroskað persónuleika sinn, hæfileika og sköpunargáfu, ásamt andlegri og líkamlegri getu,

c) að gera fötluðu fólki kleift að taka virkan þátt í frjálsu samfélagi.

2. Til þess að þessi réttur megi verða að veruleika skulu aðildarríkin tryggja:

a) að fatlað fólk sé ekki útilokað frá almenna menntakerfinu vegna fötlunar og að fötluð börn séu ekki útilokuð frá gjaldfrjálsu skyldunámi á grunnskólastigi eða námi á framhaldsskólastigi vegna fötlunar,

5. Aðildarríkin skulu tryggja að fatlað fólk geti hafið almennt nám á háskólastigi, starfs¬þjálfun og notið fullorðinsfræðslu og náms alla ævi án mismununar og til jafns við aðra. Aðildarríkin skulu, í þessu skyni, tryggja að fatlað fólk fái notið viðeigandi aðlögunar.

Þá má einnig benda á að þriðja undirmarkmið fjórða heimsmarkmiðs Sameinuðu þjóðanna sem fjallar um menntun er að: Eigi síðar en árið 2030 verði öllum konum og körlum tryggður jafn aðgangur að góðu tækni-, starfs- og framhaldsnámi, þar á meðal á háskólastigi, á viðráðanlegu verði. (Feitletr. Þroskahj.)

Eins og staðan er nú eru tækfiæri fólks með þroskahömlun til háskólanáms afar fá. Nemendur sem ljúka námi á starfsbrautum framhaldsskólanna útskrifast hvorki með stúdentspróf né fullnaðarpróf á þriðja hæfnisþrepi. Fólk með þroskahömlun hefur því almennt ekki aðgengi að námi á háskólastigi og það breytist ekki með frumvarpinu, þrátt fyrir að stjórnvöld hafi undirgengist þá skyldu að allt fatlað fólk eigi kost á námi á öllum skólastigum. Örfáum nemendum með þroskahömlun býðst diplómanám við Háskóla Íslands annað hvert ár, en það er eini valkosturinn sem í boði er á háskólastigi fyrir þennan hóp.

Mikilvægt er að ráðast í ítarlega stefnumótun um hvernig uppfylla megi kröfuna sem samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks gerir um nám fyrir allt fatlað fólk á öllum skólastigum. Til dæmis með því að útfæra fleiri námstækifæri í anda diplómanámsins við háskólana.

Landssamtökin Þroskahjálp lýsa miklum vilja til að vera til samstarfs og samráðs um það verkefni.

Afrita slóð á umsögn

#6 Berglind Ósk Guðmundsdóttir - 27.11.2020

Því má fagna að nú loks sé verið að breyta aðgangsskilyrðum svo að iðnmenntun sé metin til jafns við stúdentspróf. Það er göfugt markmið að auka tækifæri nemenda sem lokið hafa list-, tækni- eða starfsnámi til menntunnar á æðra stigi. Löngu tímabært. En er raunverulega verið að auka tækifæri? Eða er verið að boða aðgangstakmarkanir í alla háskóla landsins?

Aðgangsviðmið háskóladeilda munu þrengja val á nemendum í háskólanám. Aðgangsviðmið jafngilda þannig aðgangstakmörkunum.

“Frumvarpið er auk þess hvatning til háskóla að þeir setji sér skýr og gagnsæ aðgangsviðmið um það hvernig þeir meti hæfni, þekkingu og færni inn á einstakar námsbrautir.” Segir í frumvarpinu. Semsagt boðaðar eru þrengingar á aðgengi.

Ég hef áhyggjur af þessum 15 ára einstaklingum, börnum, sem nú þurfa að skoða aðgangsviðmið í einstaka háskóladeildir háskólanna áður en þau velja sér námsleið í framhaldsskóla. Með þessari breytingu stendur grunnskólanemi ekki lengur frammi fyrir vali á framhaldsskóla, þetta klassíska Versló, MA eða Kvennó. Það skiptir ekki máli lengur, heldur er þetta val um hvaða deild og í hvaða háskóla börnin vilja nema við seinna í framtíðinni. Auk þess sem þau þurfa að gæta þess að framhaldsskólanámið passi alveg örugglega við kröfur háskóladeildarinnar. Er þetta álagið sem okkur finnst eðlilegt að leggja á herðar barna? Ég myndi telja minnihluta grunnskólanema vera harðákveðna í því hvað gera eigi eftir framhaldsskólann.

Fæstir grunnskólanemar eru í þann stakk búnir að velja framhaldsskólanám sem hefur þá afleiðingu að valið getur verulega heft aðgengi þeirra að frekara námi eftir 3-4 ár. Við eigum ekki að leggja byrgðina þar. Verkefnið liggur í því að skilgreina almennari aðgangsviðmið eða grunn þvert á háskólana, að minnsta kosti opinberu háskólanna, svo að raunverulega sé hægt að tala um jafnara aðgengi að námi. Þessi tillaga að lagabreytingu skilur eftir fleiri spurningar en svör.

Hér er ég augljóslega ekki að segja að nemendur eigi að geta tekið hvaða fög sem er til að geta gengið í hvaða nám sem er að loknu framhaldsskólanámi. En hvar er sá grunnur skilgreindur í dag? Ekki veita lögin neitt frekari skýringu á þessu.

Skýringar með frumvarpinu eru óskiljanlegar á köflum. Sagt er að núgildandi lög hafi ekki verið nægjanleg hvatning til háskólanna að móta aðgangsviðmið fyrir nemendur sem lokið hafa iðn- og starfsnámi, sem vissulega er hægt að taka undir þar sem stúdentspróf er nú aðalviðmiðið. Síðan er sagt að „Nauðsynlegt er að lagt sé mat á raunverulega hæfni, en hæfniviðmiðin gera nemendum, skólum, atvinnuveitendum og öðrum hagsmunaaðilum kleift að sjá hvaða hæfni og getu nemendur geti vænst að búa yfir við námslok.“

Eiga aðgangsviðmið háskóladeilda að lýsa því yfir hvaða hæfni nemendur eigi að búa yfir við námslok? Snúast aðgangsviðmið ekki um þá hæfni sem nemandi á að búa yfir við inntöku í námið? Spyr sá sem ekki skilur. Auk þess sem háskólum ber nú þegar að birta lýsingar fyrir hverja námsleið á þeirri þekkingu, leikni og hæfni sem námsmenn eiga að ráða yfir við námslok, sbr. 5. gr. laga um háskóla.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#7 Viðskiptaráð Íslands - 27.11.2020

Meðfylgjandi er umsögn Viðskiptaráðs Íslands um breytingu á lögum um háskóla, nr. 63/2006 og lögum um opinbera háskóla, nr. 85/2008 (mál nr. 250/2020).

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#8 Háskóli Íslands - 27.11.2020

Efni: Umsögn um drög að frumvarpi um breytingu á lögum um háskóla og lögum um opinbera háskóla í samráðsgátt.

Samantekt á meginatriðum

Háskóli Íslands telur mikilvægt að efla starfsnám í landinu. Skólinn telur á hinn bóginn rétt að skoða aðrar leiðir til að efla slíkt nám en að opna ákvæði um almenn inntökuskilyrði í lögum um háskóla og þrengja síðan inntökuskilyrði hvers háskóla fyrir sig. Hætt er við að slíkt valdi misskilningi og óþarfa erfiðleikum í samskiptum háskóla annars vegar og nemenda og framhaldsskóla hins vegar. Almennt telur Háskóli Íslands ekki vænlegt að gera minni kröfur um bóklegan undirbúning nemenda fyrir háskólanám en nú er gert. Þá hefur Ísland gert samninga við önnur lönd um gagnkvæma viðurkenningu náms og kann grundvallarbreyting á inntökuskilyrðum háskóla að setja það samstarf í uppnám. Háskóli Íslands telur ráðlegra að gera greinarmun á lokaprófum sem veita almennan aðgang að háskólanámi, stúdentsprófi, og prófum sem veita afmarkaðan aðgang, önnur lokapróf á 3. hæfniþrepi.

Inngangur

Háskóli Íslands telur brýnt að umræða skuli tekin um inntökuskilyrði háskóla því lagaákvæði sem gilda um undirbúning nemenda undir háskólanám og inntöku þeirra í háskóla þurfa að vera skýr. Grunnforsendan er að nemendur sem heimilað er að hefja háskólanám hafi aflað sér fullnægjandi undirbúnings til að geta tekist á við háskólanám með viðunandi árangri.

Á það skal bent að einungis hluti námsbrauta með námslok á þriðja hæfniþrepi veita almennan undirbúning fyrir nám á háskólastigi. Háskóli Íslands hefur áður bent á að ekki sé tryggður nægilegur undirbúningur á þeim námsbrautum sem þó leiða til stúdentsprófs. Samkvæmt aðalnámskrá framhaldsskóla 2011 er að jafnaði 150 til 240 feininga nám að baki námslokum á þriðja hæfniþrepi. Í stúdentsprófi skulu vera a.m.k. 200 feiningar, þar af að lágmarki 45 feininga kjarni í ensku, íslensku og stærðfræði. Í íslensku skulu vera að lágmarki 10 feiningar á þriðja hæfniþrepi og í ensku og stærðfræði skulu vera að lágmarki 5 feiningar á öðru hæfniþrepi. Ekki er gerð sambærileg krafa til annarra námsbrauta með námslok á þriðja hæfniþrepi, þar er einungis krafist hæfni sem samsvarar fyrsta hæfniþrepi í þessum greinum.

Tillagan í frumvarpsdrögunum

Í frumvarpsdrögunum er lagt til að önnur próf á 3. hæfniþrepi en stúdentspróf veiti almennt sama aðgang að háskólanámi og stúdentspróf. Ef staðfestar námsbrautir á þriðja hæfniþrepi, aðrar en námsbrautir til stúdentsprófs, eru skoðaðar kemur í ljós að algengt virðist vera að brautirnar séu skipulagðar með 10 feiningum í íslensku og ensku (á öðru hæfniþrepi) og 5 í stærðfræði, þó í einhverjum tilvikum séu feiningarnar færri en öðrum fleiri. Þetta felur ekki í sér nægilegan undirbúning undir nám á háskólastigi. Að mati Háskóla Íslands þarf undirbúningur nemenda sem teljast uppfylla almenn inntökuskilyrði í háskóla að vera að lágmarki 20 feiningar í ensku og íslensku (þar af 10 í hvorri grein á þriðja hæfniþrepi), það er því ljóst að þessar brautir ná ekki því marki. Þar fyrir utan telur Háskólinn æskilegt að í kjarna slíkra námsbrauta séu einnig feiningar í stærðfræði, sögu, raungreinum og félagsgreinum (samtals 85-100 feiningar í kjarna).

Námsframvinda og gæði náms

Almenn inntökuskilyrði í háskóla þurfa að tryggja að nám sem veitir almennan aðgang að háskólum innihaldi sameiginlegan kjarna sem undirbúi nemendur fyrir nám á hvaða fræðasviði sem er. Enn meiri þörf er á slíkum undirbúningi í dag þegar lögð er aukin áhersla á þverfræðilega nálgun og sveigjanleika vinnuafls. Gæði náms felast meðal annars í því að viðmið og skipulag styðji við námsframvindu og tækifæri nemenda til að nýta sér fjölbreytt námsframboð innan háskóla.

Reynsla Háskóla Íslands og annarra háskóla sýnir að umtalsverður kostnaður getur falist í því að hleypa nemendum í nám sem þeir eru ekki nægilega undirbúnir fyrir. Í sumum tilvikum getur þetta komið niður á þeim námskröfum sem gerðar eru í námskeiðum og í öllum tilvikum dregur þetta úr gæðum námsins hjá þeim nemendum sem mæta vel undirbúnir til náms. Þá getur það reynst nemendum ákaflega erfitt andlega ef þeir hefja illa undirbúnir nám sem þeir ráða ekki við.

Háskóli Íslands hefur því lagt til að námsbrautir sem veiti almennan aðgang að háskólanámi á Íslandi (og þar með einnig að háskólanámi í nágrannalöndum okkar) innihaldi 85 til 100 feininga almennan kjarna í stað þess 45 feininga kjarna sem er krafist í dag. Með þessari áherslu er ekki verið að gera lítið úr námi í iðn-, list- og tæknigreinum, heldur er verið að leitast við að tryggja að þessir nemendur hafi fengið nægan undirbúning til þess að takast á við háskólanám á hvaða fræðasviði sem er.

Alþjóðlegt samhengi

Þá er rétt að vekja athygli á að í 1. mgr. 19. gr. laga um háskóla er kveðið á um að tryggt skuli að inntökuskilyrði í háskóla og námskröfur svari jafnan til þess sem krafist er í viðurkenndum háskólum á sambærilegu sviði erlendis. Að mati Háskóla Íslands er mikilvægt að Alþingi og menntamálayfirvöld hafi þetta í huga við orðalag ákvæða í lögum um inntökuskilyrði háskóla og við framsetningu reglna um inntak þeirra prófa sem veita eiga aðgang að háskólanámi. Í því samhengi er Ísland ekki eyland. Þannig er mikilvægt að löggjafinn og menntamálayfirvöld hafi til hliðsjónar þau lög og þær reglur sem gilda um inntökuskilyrði og undirbúningsnám nemenda í nágrannalöndum okkar, ekki síst vegna þess að íslensk stjórnvöld hafa í áranna rás gert samninga við nágrannalönd sín, einkum hin Norðurlöndin, um gagnkvæmt mat á námi – og mjög náið samstarf er á milli háskóla og matsaðila í Evrópu um mat og viðurkenningu inntökuskilyrða í háskóla og um háskólanám almennt.

Í nágrannalöndum okkar er gerður greinarmunur á annars vegar almennum aðgangi að háskólanámi og hins vegar takmörkuðum aðgangi. Til þess að próf úr framhaldsskóla veiti almennan aðgang að námi í háskóla þarf námið að innihalda ákveðinn sameiginlegan kjarna sem samanstendur af móðurmáli, ensku, stærðfræði, sögu, raungreinum og félagsgreinum, og í sumum tilvikum þriðja tungumáli. Próf úr framhaldsskólum sem ekki innihalda þennan almenna kjarna geta veitt takmarkaðan aðgang að háskólum í nágrannalöndum okkar, þ.e. aðgang að frekara námi á sama fræðasviði, og þá gjarnan í starfstengt háskólanám.

Gæta verður að því að nám til undirbúnings háskólanámi verður að byggjast á því að viðkomandi nemandi sé að því loknu fær um að takast á við háskólanámið.

Í hnotskurn er vandinn sá, eins og málum er nú háttað, að hugtakið stúdentspróf er samheiti um mjög fjölbreytt nám með mismunandi innihaldi. Þegar gengið var frá samningum (norrænum og evrópskum) um gagnkvæmt mat á námi milli landanna innihéldu þau próf á Íslandi sem veittu aðgang að háskólanámi þennan kjarna (sem nam samtals 130 feiningum af rúmlega 200 feiningum til stúdentsprófs) sem veitti almennan aðgang í hinum löndunum. Með þeim breytingum sem átt hafa sér stað á námi við framhaldsskóla á Íslandi með innleiðingu aðalnámskrár framhaldsskóla frá 2011 hefur þetta breyst til muna. Ekki er lengur tryggt að stúdentsprófið innihaldi þann almenna kjarna sem talinn er nauðsynlegur til almenns aðgangs að háskólanámi í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við.

Að mati Háskóla Íslands er mikilvægt að fram komi í lögum um háskóla hvaða tilgreind próf veiti almennan aðgang að háskólanámi á Íslandi þar sem erlendum háskólum er einnig gert að taka mið af ákvæðum laganna við mat á umsækjendum frá Íslandi samkvæmt samningum sem gilda þar um (t.d. á milli Norðurlandanna). Mikilvægt er að þetta sé skýrt og ótvírætt í lögum, ella eykst enn á þann vanda sem háskólar og matsaðilar standa frammi fyrir við mat á undirbúningi nemenda – og jafnframt getur dregið úr trúverðugleika hins íslenska menntakerfis gagnvart öðrum þjóðum.

Háskólinn telur æskilegt að meginreglan sé orðuð skýrar í lögunum en nú er, þ.e. að tiltekin samsetning stúdentsprófs (með 85-100 feininga kjarna) veiti almennan aðgang, en að önnur lokapróf á 3. hæfniþrepi veiti takmarkaðan aðgang að háskólanámi, samkvæmt nánari ákvörðun einstakra háskóla, og þeim verði gert að setja sér reglur þar um.

Menntasjóður námsmanna

Komi þessi breytingartillaga til framkvæmda, vakna óhjákvæmilega spurningar um lánshæfi náms á þriðja þrepi hjá Menntasjóði námsmanna. Þegar löggjafinn ákvað að veita lán til starfsnáms en ekki bóknáms á framhaldsskólastigi var það gert á þeirri forsendu að með því væri verið að veita jöfn tækifæri til bóknáms og starfsnáms, bóknámsnemendur gætu haldið áfram námi á háskólastigi og fengið lán til þess, en slíkt nám stæði starfsnámsnemendum að öllu jöfnu ekki til boða. Vandséð er að heimilt sé að gera þennan greinarmun á tegundum lokaprófa á þriðja hæfniþrepi þegar kemur að námsaðstoð ef þau teljast öll uppfylla almenn inntökuskilyrði háskóla. Ef hins vegar stúdentspróf teljast ein uppfylla almenn inntökuskilyrði, en önnur lokapróf á hæfniþrepi þrjú geti gefið afmarkaðan rétt til áframhaldandi náms á sama sviði (eins og þekkist í nágrannalöndum okkar) kunna að vera forsendur fyrir því að gera þennan greinarmun.

Lokaorð um aðferðafræði

Háskóli Íslands hefur eins og áður sagði efasemdir um þá aðferðafræði sem hér virðist fylgt, að löggjafinn opni aðgang að háskólanámi með þeim hætti sem til er lagt, en geri síðan ráð fyrir að háskólarnir eða háskóladeildir þeirra takmarki aðgang. Þetta kann að vekja upp væntingar sem ekki er innstæða fyrir. Eðlilegra er að meginreglan sé orðuð í lögunum (krafan um stúdentspróf) og rýmri heimildir til inntöku komi í undanþáguákvæðum eða nánari ákvæðum, t.d. er varðar inntöku í fagháskólanám. Einnig mætti hugsa sér að breyta ekki núverandi orðalagi en bæta við að „önnur lokapróf á 3. hæfniþrepi geti veitt takmarkaðan aðgang að háskólanámi samkvæmt nánari ákvörðun einstakra háskóla.“

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#9 Erla Björk Örnólfsdóttir - 27.11.2020

Umsögn Háskólans á Hólum um „Frumvarp um breytingu á lögum um háskóla, nr. 63/2006 og lögum um opinbera háskóla, nr. 85/2008.“

Við Háskólann á Hólum er tillögum um aukið aðgengi að háskólanámi tekið fagnandi. Allt frá því að skólinn færðist á háskólastig hafa umsóknir annarra en þeirra sem hafa lokið stúdentsprófi verið teknar til afgreiðslu skv. reglum skólans. Þannig hefur ávallt nokkur hluti nýnema verið samþykktur til náms á undanþágu frá stúdentsprófi, í kjölfar inntökuferils sem m.a felur í sér inntökupróf.

Af hálfu Háskólans á Hólum er lögð höfuðáhersla á að vel sé vandað til undirbúnings á umræddum breytingum á lögum. Sérstaklega er mikilvægt að breytingarnar leiði ekki til gjaldfellingar á gæðum háskólanáms. Skýrar leiðbeiningar þurfa að koma til háskólanna um alla framkvæmd. Mikilvægt er að lagabreytingunum fylgi fjárframlög til háskóla vegna aukins kostnaðar sem af málinu hlýst.

Þegar litið er til gæða háskólanáms er mikilvægt að huga að eftirfarandi áhrifum innleiðingar lagabreytinganna á starfsumgjörð háskóla:

• Hvað felur það í sér að lækka bóklegar kröfur til inngöngu í háskóla? Mun það leiða til þess að háskólarnir munu þurfa að kenna á Bakalár stigi hluta þess námsefnis sem áður var gerð krafa um að nemendur hefðu lokið í framhaldsskóla. Mun það leiða til þess að í þriggja ára Bakalár námi muni ekki vera tími til þess að fara eins djúpt í fræðasvið viðkomandi nemanda, eins og gert er í dag. Slíkt er klárlega líklegt að verði raunin í ákveðnum greinum, svo sem vísinda og tæknigreinum, þar sem nú þegar eru gerðar töluverðar kröfur um undirbúning nemenda.

• Líklegt er að háskólarnir velji í auknum mæli að setja eigin inntökupróf, til að minnka flækjustigið og viðhalda þeim gæðum sem til staðar eru í dag. Inntökupróf eru reyndar þegar til staðar í sumum tilvikum. Inntökupróf má í grófum dráttum flokka í tvennt– annars vegar próf almenns eðlis (þar sem leitast er við að kanna hæfni til að stunda akademískt nám) og hins vegar sérhæfð (þar sem sérhæfð þekking og/eða færni er könnuð, m.t.t. til þeirrar námsleiðar sem sótt er um). Undirbúningur/hönnun og úrvinnsla slíkra prófa, eigi þau að gefa lýsandi og sanngjarnar niðurstöður, er ekki aðeins tímafrekt og kostnaðarsamt viðfangsefni, heldur einnig afar vandasamt.

• Hætt er við að háskólar kalli í auknum mæli eftir viðbótar-undirbúningsnámi fyrir ákveðnar námsbrautir, ekki ósvipað háskólabrúnum sem nú eru til staðar. Það er að segja, að háskólarnir krefjist þess að umsækjendur sem ekki teljast vera nægilega vel undirbúnir, verði krafnir um að ljúka tilteknum undirbúningsnámskeiðum eða jafnvel undirbúningsönn. Að jákvætt svar við umsókn verði þannig bundið slíku skilyrði. Ef slíkt nám á að fara fram innan háskólanna, er verið að færa hluta af skilgreindu hlutverki framhaldsskólastigsins upp í háskóla. Og þá þurfa fjárframlög að fylgja.

Þegar kemur að framkvæmd málsins í háskólunumer vert að hafa í huga:

• Flækjustig mun aukast við inntöku nýnema. Gríðarleg vinna getur verið fólgin í að skilgreina aðgangsviðmið m.t.t. aðalnámskrár framhaldsskóla, fyrir einstakar námsleiðir. Vissulega hafa þegar verið sett aðgangsviðmið fyrir einstakar deildir, en þær hafa fyrst og fremst verið leiðbeinandi og eftir sem áður byggt á meginkröfunni um stúdentspróf eða sambærilegan undirbúning.

Breyttar aðgangskröfur munu kalla á ítarlegri skilgreiningu á aðgangsviðmiðum fyrir hverja einstaka námsleið. Enn fremur munu væntanlega koma upp umtalsvert fleiri álitamál en áður, ekki síst hvað varðar jafngildi. Hvort tveggja kallar á aukið vinnuframlag starfsmanna, bæði við undirbúning skilgreininga og úrvinnslu umsókna.

• Það er ljóst að færa þarf umsóknarfresti um námsvist við háskóla verulega fram, svo ljúka megi afgreiðslu þeirra innan ásættanlegra tímamarka. Mun það raska vinnualmanaki starfsmanna, þar sem álag verður fært til innan ársins, sem leiða mun til árekstra við önnur störf. Auk þess sem afgreiðsla hverrar einstakrar umsóknar verður tímafrekari. Þannig að fyrir utan aukið álag á starfsmenn (sjá ofar), mun væntanlega þurfa að fjölga starfsmönnum sem sinna beint umsóknum og úrvinnslu þeirra.

• Hætt er við að spurningum, vandamálum og jafnvel kærumálum varðandi jafnræðisreglur fari fjölgandi. Hér munu háskólarnir þurfa vandaða ráðgjöf. Slíkar spurningar tengdar inntöku nýnema geta komið upp, en ekki síður þegar kemur að óskum um mat á fyrra námi inn í námsferil nemanda í háskóla.

• Mikilvægt er að þessar breytingar/þróun haldist í hendur við þróun raunfærnimats, hérlendis og erlendis. Er þá átt við raunfærnimat á framhaldsskólastigi (og þar með v. inntökuskilyrði í háskóla) en ekki síður á háskólastiginu sjálfu. Þó hið síðarnefnda snúist ekki um aðgang að háskólanámi er það eigi að síður hluti af þeirri heildarmynd sem unnið er með.

• Námsráðgjöf hlýtur að verða lykilatriði. Þetta kallar á eflda námsráðgjöf í framhalds- og háskólum. Auk þess sem námsráðgjafarnir þurfa að hafa tíma og tækifæri til að setja sig inn í fleiri sviðsmyndir (varðandi mögulegar leiðir) en áður, munu fleiri þurfa á einstaklingsráðgjöf að halda. Einnig þarf að vera tryggt og skýrt hvert þeir, sem eru á milli skólastiga en hafa hug á að hefja háskólanám, eigi að leita. Í þeim tilvikum er um hreina viðbót að ræða, og ekki augljóst á hvers könnu hún skuli vera; framhaldsskólans, háskólans eða annarra, til dæmis símenntunarstöðva.

• Mikilvægt er að hafa í huga að ýmsar námsleiðir í grunnnámi eru þess eðlis að töluverður hluti umsókna berst frá erlendum ríkisborgurum. Við úrvinnslu slíkra umsókna hefur verið hægt að leita á vef Upplýsingaskrifstofu Íslands til að finna jafngildi stúdentsprófs í ýmsum löndum. Við flóknari mál hefur mátt leita eftir aðstoð starfsmanns HÍ. Vegna aukins flækjustigs sem fyrirhugaðar breytingar hafa í för með sér, mun væntanlega þurfa að efla þessar leiðbeiningar/aðstoð til muna.

Annað sem vert er að hafa í huga:

• Sú spurning vaknar hvort með þessum lagabreytingum sé verið að færa ábyrgðina á því að meta hvort nemendur hafi öðlast hæfni til að stunda akademískt nám, frá framhaldsskólunum til háskólanna? Er hugsanlegt að með þessu eigi að stoppa í eitthvað af þeim götum sem mynduðust þegar námstími til stúdentsprófs var styttur?

• Mikilvægt er að gæta þess að gildi almenns bóknáms – sem leiðir til stúdentsprófs – haldi sér, jafnhliða fjölgun leiða inn í háskóla. Að stúdentsprófið verði ekki gert að gamaldags ómerkingi.

• Mun þetta draga úr hvatningu ungs fólks, sem er ekki búið að gera upp hug sinn um framtíðarmenntun, til að ljúka þó stúdentsprófi – til að halda dyrum opnum? Á grundvelli spurningarinnar til hvers? Er hugsanlegt að þetta hafi þveröfug áhrif, hvað varðar brottfall úr framhaldsskólum?

• Upplýsingar um meðalaldur háskólastúdenta er meðal þess sem er kannað og borið saman milli landa. Er e.t.v. eitt af duldum markmiðum verkefnisins að lækka meðalaldur íslenskra háskólastúdenta? Þar sem unglingar verði knúðir til að taka ákvörðun fyrr? Eða mun þetta hafa þveröfug áhrif og valda hækkun meðalaldursins? Þar sem einstaklingar munu geta drifið sig í háskólanám „síðar“ á lífsleiðinni, þar sem skortur á stúdentsprófi er ekki lengur þröskuldur?

• Breytingar sem þessar þarf að kynna með góðum fyrirvara, einkum fyrir börnum í efstu bekkjum grunnskóla og forráðamönnum þeirra. Tryggja þarf að ekki komi upp sú staða að stór hópur ungmenna spyrji – hvers vegna var það ekki kynnt, áður en ég valdi námsleið í framhaldsskóla, að þessi breyting væri í sjónmáli?

Að lokum er ítrekað að við Háskólann á Hólum er tillögum um aukið aðgengi að háskólanámi tekið fagnandi.

Fyrir hönd yfirstjórnar og kennslusviðs Háskólans á Hólum, Erla Björk Örnólfsdóttir

Afrita slóð á umsögn

#10 Samtök iðnaðarins - 27.11.2020

Góðan dag,

Meðfylgjandi er umsögn Samtaka iðnaðarins um málið.

Virðingarfyllst,

f.h. SI

Steinunn Pálmadóttir

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#11 Anna Karen Úlfarsdóttir - 27.11.2020

Starfshópur APELE fagnar frumvarpi ráðherra um breytingu á lögum um háskóla, nr. 63/2006 og lögum um opinbera háskóla, nr. 85/2008. og telur það mikilvægt skref í átt að því að auka aðgengi nemendahóps með fjölbreyttan bakgrunn að háskólanámi.

APELE er Erasmus verkefni sem miðar að því að hvetja fólk með færri tækifæri, að meðtöldum innflytjendum, til að leggja sitt mikilvæga framlag til sem þátttakendur í háskólasamfélaginu. APELE vinnur að því að skrá hvernig fyrri reynsla og nám er viðurkennt í mismunandi löndum Evrópu og bera kennsl á hindranir og sameiginlega veikleika í viðurkenningarferlinu. Starfshópurinn vinnur að matsaðferð, til viðurkenningar á fyrra námi og reynslu, með gerð færnimöppu.

Hópurinn telur mikilvægt að raunfærnimat verði innleitt á háskólastig sem fyrst, en engin formleg aðferðarfræði er á Íslandi á háskólastigi til raunfrænimats. Það er því ánægjuefni að verkefnið Recognition of Prior Learning (RPL) in Practice hafi farið af stað árið 2019 en það verkefni snýst um að þróa leiðir til innleiðingu raunfrænimats á háskólastigi.

Opinbert og lýðræðislegt hlutverk háskóla hefur orðið sífellt mikilvægara umræðuefni á undanförnum árum í ljósi félagslegrar, pólitískrar og efnahagslegrar þróunar, sem og breytinga á fjölmiðlum og samskiptum.

Samfélagið á Íslandi hefur breyst mikið á undanförnum árum og samkvæmt nýjustu tölum eru 14% landsmanna innflytjendur. Þrátt fyrir það er aðeins fáa af þeim, fyrir utan Erasmus-nemendur, að finna við opinbera háskóla á Íslandi.

Aðgangur að háskólum er ekki aðeins þýðingarmikill fyrir nærsamfélagið heldur afar mikilvægur fyrir innflytjendur um alla Evrópu þar sem háskólanám býður upp á möguleika til frekari menntunar og þróunar.

Fyrir hönd starfshóps APELE við Háskólann á Akureyri

Markus Meckl, Anna Karen Úlfarsdóttir og Heiða Kristín Jónsdóttir.

Afrita slóð á umsögn

#12 Háskólinn á Akureyri - 27.11.2020

27. nóvember 2020

Umsögn Háskólans á Akureyri um drög að frumvarpi um breytingu á lögum um háskóla, nr. 63/2006 og lögum um opinbera háskóla, nr. 85/2008.

Það er fagnaðarefni að farið sé í endurskoðun á lögum um háskóla með það að markmiði að gera alla nemendur á framhaldsskólastiginu jafna gagnvart því að sækja um nám við háskóla hér á landi. Aðgengi að háskólum og kröfur um undirbúning nemenda áður en nám hefst ætti ætíð að vera í höndum háskólanna sjálfra og eru þær breytingar sem boðaðar eru í þessum frumvarpsdrögum skref í þá átt. Breytingin mun jafnframt auka jafnræði meðal umsækjenda um að fá að sækja um nám við háskóla en mikilvægt er að fram komi að þessi breyting tryggir ekki aðgengi að háskólanámi, hvorki fyrir nemendur sem ljúka hefðbundnu stúdentsprófi né heldur þann hóp sem líkur starfstengdu námi á framhaldsskólastigi.

Í greinargerðinni er tekið fram að lagabreyting þessi muni til skamms tíma hafa áhrif á starfsemi háskóla með tvennum hætti. Í fyrsta lagi með því að auka álag við upphaf gildistökunnar þar sem vinna þurfi ný aðgangsviðmið allra deilda háskólanna þannig að ljóst sé hver viðmiðin eru þegar umsóknarferli haustsins 2021 hefst. Í öðru lagi er leitt að því líkum að aðsókn í háskólanna muni aukast og því megi búast við auknum nemendafjölda sem muni þurfa að fjármagna sérstaklega.

Hvað varðar fyrri punktinn skal tekið fram að Háskólinn á Akureyri telur að vinna við slík aðgangsviðmið þurfi töluvert lengri tíma og aðdraganda svo unnt sé að kynna slíkar niðurstöður fyrir framhaldsskólum landsins - og að nemendur í framhaldsskólum geti aðlagað nám sitt að þessum nýju viðmiðum, þá hvort sem þau eru á hefðbundinni stúdentsbraut eða starfsfnámsbraut. Nauðsynlegt verður að eiga gott samráð á milli háskólastigsins og framhaldsskólastigsins um þessar breytingar þannig að sameiginlegur skilningur sé á milli þessara skólastiga um það hvaða kröfur séu gerðar í hverju námi fyrir sig. Í þessu samhengi má því velta því fyrir sér hvort ekki væri eðlilegt að boða þessar breytingar með góðum fyrirvara með því að lögin öðlist gildi fyrir umsóknir nemenda um háskólavist fyrir haustið 2022 eða jafnvel 2023, frekar heldur en að lögin öðlist þegar gildi eins og gert er ráð fyrir í frumvarpsdrögunum.

Hvað varðar seinni punktinn þá er Háskólinn á Akureyri sammála því að aðsókn mun aukast í kjölfar þessara breytingar og að í flestum tilfellum muni fleiri nemendur uppfylla aðgangsskilyrði einstakra deilda og námsbrauta innan háskóla. Sérstaklega má gera ráð fyrir því að til staðar sé uppsafnaður áhugi margra einstaklinga sem hafi iðnmenntun í grunninn en jafnframt aflað sér viðbótar þekkingar og starfsreynslu. Fyrstu árin eftir þessa breytingu verður því aukinn heildarfjöldi nemenda í háskólum landsins. Frestun gildistöku laganna myndi veita stjórnvöldum ákveðið svigrúm til þess að meta slíkan kostnað og koma þannig á móts við háskólastigið svo unnt verði að veita auknum nemendafjölda aðgengi að háskólanámi án þess að sá aukni fjöldi komi niður á gæðum námsins né gangi nærri þeim mannauð sem starfar við háskóla í dag. Aukinn nemendafjöldi mun kalla á fleiri starfsmenn fyrir háskóla landsins sem tekur tíma að auglýsa eftir og ráða til starfa.

Til viðbótar við þessi skammtímaáhrif, sem milda má með því að hafa lengri aðlögunartíma áður en lögin taka gildi, eru umtalsverð langtímaáhrif af breytingu sem þessari - sérstaklega þegar deildir háskóla verða búnar að skilgreina nánar aðgangsviðmið að hverri deild fyrir sig. Langtímaáhrifin munu koma fram með þeim hætti að nemendur á framhaldsskólastigi munu í auknu mæli þurfa að sérhæfa sitt nám þannig að þau geti vænst þess að fá aðgengi að námi á tilteknum fræðasviðum. Á síðustu árum hefur Háskólinn á Akureyri þurft að beita harðari aðgangsviðmiðum í ljósi þess að umsóknir hafa verið umfram þann nemendafjölda sem skólinn hefur fengið heimildir til að hafa frá stjórnvöldum. Reynslan af þeim aðgerðum sýnir okkur að nemendur eru oft að skipta um áherslur frá framhaldsskóla yfir í háskólanám og því getur undirbúningur þeirra verið mjög misjafn þegar kemur að umsókn í háskóla. Því má búast við að nemendur sem ekki uppfylla skilyrði deilda, en lokið hafa námi á þriðja þrepi, þurfi að taka viðbótarnám á þriðja þrepi til þess að uppfylla skilyrði tiltekinna deilda eða fræðasviða. Þannig mun heildarnámstími viðkomandi lengjast. Að sama skapi geta nemendur sem vita hvaða nám þau vilja stunda í háskóla aðlagað nám sitt í framhaldsskólanum og þannig aukið verulega líkur á því að uppfylla öll skilyrði deildarinnar. Með þessum hætti geta nemendur lokið námi sínu á háskólastigi tiltölulega snemma á lífsferlinum en það krefst þess að ákvörðun um háskólanám sé í raun tekin við 15 eða 16 ára aldurinn. Það mun taka íslenskt samfélag þó nokkurn tíma að aðlagast þessum veruleika.

Aðgengi að háskólanámi, sérstaklega á fyrsta stigi til bakkalárgráðu, er mikilvæg forsenda þess að byggja upp mannauð í landinu öllu þannig að íslenskt samfélag sé tilbúið til að takast á við samtíma- og framtíðaráskoranir. Eins og þessar áskoranir eru settar fram í heimsmarkmiðum Sameinuðu Þjóðanna og hvernig þær endurspeglast í stefnu stjórnvalda og daglegu lífi landsmanna er ljóst að þjóðin mun þurfa aðgengi að bestu mögulegu þekkingu á hverjum tíma - þekkingu sem nær yfir mörg fræðasvið. Öflug tengsl allra skólastiga eru nauðsynlegur þáttur í því að skólakerfið skili samfélaginu fjölbreyttu og vel menntuðu vinnuafli og er samvinna á milli skólastiga lykilþáttur í að það takist. Þær breytingar sem settar eru fram í þessum frumvarpsdrögum munu kalla fram nokkrar grundvallabreytingar sem ekki verður svarað hér en til þess að setja umfang verkefnisins í ákveðið samhengi við þann tíma sem þarf til undirbúnings er tæpt á nokkrum þeirra. Þar er hægt að nefna þætti eins og raunfærnimat svo unnt sé að jafna aðgengi þeirra sem koma með starfsmenntun af vinnumarkaði eða með nám og reynslu erlendis frá. Gera þarf breytingar á umsóknarferlum háskóla, þmt að flýta dagsetningu umsóknarfrests svo nægur tími gefist fyrir mat á umsóknum. Meta þarf áhrif þessara breytinga á möguleika nemenda til að sækja um í erlendum háskólum og tryggja að aðgengi þeirra skerðist ekki með því að tryggja að breytingarnar standist alþjóðlega samninga. Kynna þarf breytingarnar fyrir námsráðgjöfum bæði háskóla og framhaldsskóla þannig rágjafar geti leiðbeint væntanlegum nemendum í samræmi við stöðu þeirra og undirbúning. Margir fleiri þættir munu þurfa skoðunar við sem sýnir enn frekar þörfina á að gefa innleiðingarferlinu lengri tíma. Þá er mikilvægt að benda á að breyting þessi veitir ekki jafnt aðgengi að öllu háskólanámi fyrir alla nemendur né styrkir með beinum hætti við starfsmenntanám. Til þess að svo verði þarf að grípa til víðtækari og markvissari aðgerða til að kynna starfsmenntanám fyrir nemendum á grunnskólastigi jafnframt því að tryggja að námið höfði til fyrstu kynslóðar 21. aldarinnar.

Hvort sem litið er til ofangreindra þátta, skammtímaáhrifanna eða langtímaáhrifa er ljóst að hér er um stóra breytingu að ræða. Breytingin er þörf og á heildina litið nauðsynleg til að aðlagast nýjum raunveruleika í skólakerfinu í heild sinni. En vegna þess hversu mikilvæg þessi breyting er leggur Háskólinn á Akureyri megináherslu á að gildistími lagabreytingarinnar sé lengdur þannig að skólakerfið i heild sinni fá góðan undirbúningstíma, nemendum og skólunum til allra heilla.

Eyjólfur Guðmundsson, rektor

Háskólinn á Akureyri

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#13 Elmar Hallgríms Hallgrímsson - 27.11.2020

Umsögn frá Samiðn

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#14 Samband íslenskra framhaldsskólanema (S.Í.F) - 27.11.2020

Efni: Umsögn Sambands íslenskra framhaldsskólanema, SÍF, um frumvarp um breytingu á lögum um háskóla, nr. 63/2006 og lögum um opinbera háskóla, nr. 85/2008.

Samband íslenskra framhaldsskólanema, SÍF, fagnar frumvarpinu enda stórt og löngu tímabært framfaraskref í átt að því að jafna stöðu nemenda sem hafa lokið list,- tækni- og starfsnámi af þriðja hæfniþrepi og þeirra, sem lokið hafa stúdentsprófi til inngöngu í háskóla.

Félagið telur víst að breytingin muni hafa bein jákvæð áhrif á samfélagið auk þess sem það styður við heimsmarkmið 4.3. „Eigi síðar en árið 2030 verði öllum konum og körlum tryggður jafn aðgangur að góðu tækni-, starfs- og framhaldsnámi, þar á meðal á háskólastigi, á viðráðanlegu verði.“

Atvinnulíf þar sem t.d. nemendur í byggingaverkfræði hafa grunnmentun í húsasmíði, rafmagnsverkfræðingar grunn í rafvirkjun og hönnuðir grunn í t.d. skartgripasmíði, mun í alla staði verða fjölbreyttara og öflugra.

Þá má draga líkum að því að brottfall úr framhaldsskólum dragist saman þegar fram líða stundir enda muni nýnemar ekki vera undir þrýstingi frá sínu nánasta fólki að ljúka fyrst stúdentsprófi til að „halda öllum möguleikum opnum“ líkt og dæmi eru um. Nemendur muni strax eftir grunnskóla skrá sig í það nám sem hugur þeirra stendur til og því síður flosna upp úr skóla sökum áhugaleysis.

Hafa verður þó í huga að búast má við fjölgun skráninga í iðn-og verknám og því mikilvægt að samhliða breytingunni fylgi fjármagn til að styðja við þá framhaldsskóla sem bjóða upp á slíkt nám til að tryggja að þeir geti tekið við auknum fjölda nemenda, bæði þegar kemur að húsnæði og faglærðum kennurum.

Einnig þarf að tryggja aukið fjármagn til háskólanna en eðli málsins samkvæmt má gera ráð fyrir umtalsverðri fjölgun nemenda.

Til að tryggja að breytingin verði til batnaðar verða deildir háskólanna að endurskoða aðgangsviðmið sín með það fyrir augum að þau virki hvetjandi á þá nemendur sem velja sér list,- tækni- og starfsnám í framhaldsskóla án þess þó að minnka kröfur. Sterkast væri að ekki verði gerðar auka kröfur um áfanga sem ekki falla aðeins undir bóknámsbrautir í framhaldsskólum en ef þurfa þykir er mikilvægt að þeir áfangar verði mjög aðgengilegir í háskólabrúm eða annarsstaðar.

Þá er mikilvægt að þeir áfangar sem gerð er krafa um aukreitis við þriðja hæfniþrep verði einnig í boði á ensku fyrir nemendur sem ekki hafa íslensku að móðurmáli til að draga ekki úr möguleikum þeirra á að sækja sér framhaldssnám á háskólastigi.

SÍF tekur að lokum undir það sem fram kemur í umsögn Landssamtaka Þroskahjálpar um að rétt hefði verið að stíga skrefið til fulls með breytingunni og framfylgja þannig samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem íslensk stjórnvöld fullgiltu árið 2016. Þar segir meðal annars „að fatlað fólk sé ekki útilokað frá hinu almenna menntakerfi vegna

fötlunar og að fötluð börn séu ekki útilokuð frá gjaldfrjálsu skyldunámi á grunnskólastigi, eða námi á framhaldsskólastigi, vegna fötlunar“. Í dag býðst mörgum ungmennum með þroskahömlun ekki annað nám en á starfsbrautum í framhaldsskólum en þau sem ljúka því eru hvorki með stúdentspróf né próf af þriðja hæfnisþrepi og hafa því ekki annan möguleika á háskólanámi en diplómanám við Háskóla Íslands.

Afrita slóð á umsögn

#15 Sigrún Soffía Hafstein - 27.11.2020

Meðfylgjandi er umsögn Verkfræðingafélags Íslands. - Send inn í nafni undirritaðrar vegna bilunar á Íslykilsaðgangi Samráðsgáttar.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#16 Jóhanna Ásgeirsdóttir - 27.11.2020

Fyrir hönd Landssamtaka íslenskra stúdenta sendi ég inn eftirfarandi umsögn sem unnin var af framkvæmdastjórn og samþykkt af fulltrúaráði samtakanna.

Ánægjulegt er að sjá frumvarp þar sem ætlunin er að jafna aðgengi nemenda að háskólastiginu með því að breyta aðgangskröfunum á þá leið að nemendur sem hafa lokið námi á þriðja þrepi geta hafið nám til fyrstu gráðu á háskólastigi. Þó ber að varast, verði frumvarpið að lögum, að um raunverulega aukningu á aðgengi sé að ræða en einnig að breytingunni fylgi aukið fjármagn og stuðning við hópinn sem á í hlut.

Aukið aðgengi

Þessi breyting hefur möguleika til þess að auka félagslega vídd innan háskólasamfélagsins, þ.e. að auka fjölbreytni meðal stúdenta. Í fyrirhugaðri menntastefnu til 2030 er lögð áhersla á sköpun og gagnrýna hugsun, hæfni sem list,- tækni- og starfsnám getur þjálfað ekki síður en bóklegt nám. Það er einnig beinlínis lögð áhersla á starfs-, iðn-, tækni-, list- og verknám. Meta skal verklegt nám sem ekki síður samfélagslega mikilvægt en bóklegt nám og eru það framför að gráða á framhaldskólastigi, sama hvort það sé af bóklegri eða verklegri námsbraut, veiti fólki aðgang að áframhaldandi menntun. Breytingin gæti gert verk- og tækninám að aðlaðandi kost sem lokar ekki á möguleikann á háskólanámi síðar meir. Breytingin gæti einnig dregið úr brottfalli úr námi auk þess að gera nemendum sem eiga undir högg að sækja betri möguleika á að sækja sér nám við hæfi.

Raunhæf aðgangsviðmið og leiðir til þess að uppfylla inntökuskilyrði

Setja verður skorður á því hvers konar aðgangskröfur einstaka námsleiðir geti sett þannig að nemendur sem útskrifast af þriðja hæfniþrepi en ekki með stúdentspróf hafi raunhæfan möguleika til þess að uppfylla aðgangsviðmið. Búa verður til úrræði, háskólabrýr eða undirbúningsnámskeið, til þess að gefa fólki raunverulegt tækifæri til þess að öðlast þá færni sem krafist er í aðgangsviðmiðum. Það verður að vera skýrt hvort það sé á ábyrgð háskólanna, framhaldsskólanna eða þriðja aðila að útvega undirbúningsnámskeið. Undirbúningsnámskeið skulu vera nemendum að kostnaðarlausu, aðgengileg og vel fjármögnuð en einnig þarf að huga að gæðum námskeiðanna.

Aukinn stuðningur við nemendur

Verði frumvarpið að lögum öðlast stór hópur fólks aðgang að háskólanámi sem útskrifaðist úr verk- eða tækninámi á þriðja þrepi fyrir einhverju síðan. Huga verður að stuðningi við háskólana til að geta tekið á móti þessum nýja hóp sem og þeim sem koma beint úr framhaldsskóla. Felur það í sér aukið fjármagn til háskólastigsins en einnig aðlögun að þörfum þessa hóps, t.a.m. með eflingu náms- og starfsráðgjafar bæði á framhaldsskóla- og háskólastigi. Einnig er þörf á aukinni grunnframfærslu og hækkun frítekjumarks í úthlutunarreglum Menntasjóðs námsmanna. LÍS hefur ítrekað bent á að hár meðalaldur og hátt hlutfall foreldra meðal stúdenta þýði að framfærsluþörf stúdenta á Íslandi er hærri en almennt í Evrópu. Þó er grunnframfærsla námslána það lág, miðað við dæmigert neysluviðmið, lágmarkslaun og almennt leiguverð, að hún er stúdentum ekki bjóðandi óháð aldri og aðstæðum.

Viðhengi