Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 20.11.–4.12.2020

2

Í vinnslu

  • 5.12.2020–28.1.2021

3

Samráði lokið

  • 29.1.2021

Skjöl til samráðs

Mál nr. S-252/2020

Birt: 20.11.2020

Fjöldi umsagna: 5

Drög að frumvarpi til laga

Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Skatta-, eigna- og fjármálaumsýsla

Frumvarp til laga um nýtingu á landi í eigu ríkisins í atvinnuskyni

Niðurstöður

Fjórar umsagnir bárust innan athugasemdafrests, frá einum einstaklingi, Landsvirkjun, Bændasamtökum Íslands og sameiginleg umsögn Samtaka atvinnulífsins, Samtaka ferðaþjónustunnar og Viðskiptaráðs Íslands. Þá bárust ráðuneytinu við vinnslu frumvarpsins umsagnir frá Samorku og Ríkiseignum. Leitast var við að taka mið af þeim sjónarmiðum og ábendingum sem komu fram í þeim umsögnum sem bárust við vinnslu frumvarpsins. Sjá niðurstöðuskjal til nánari upplýsingar.

Málsefni

Mikilvægt er að móta almennan lagaramma um nýtingu á landi í eigu ríkisins. Markmiðið er að setja fram tillögur um hvernig best verður staðið að úthlutun á rétti til hvers kyns nýtingar á landi og náttúruperlum í eigu ríkisins í atvinnuskyni.

Nánari upplýsingar

Fjölgun ferðamanna til landsins hefur aukið áhuga og ásókn þjónustuaðila inn á landssvæði þar sem ferðamenn geta upplifað þá náttúru sem Ísland hefur uppá að bjóða. Þetta á við um hvers konar landsvæði, s.s. friðlýst svæði, þjóðlendur og önnur svæði í eigu ríkisins. Í tengslum við þetta hefur um nokkurt skeið verið til skoðunar að nýta svokallaða sérleyfissamninga til að byggja upp og vernda land ríkisins með markvissri uppbyggingu og gagnsærri og skilvirkri stýringu. Talið er að vönduð umgjörð um slíka samninga geti einnig komið að góðum notum við ýmsa aðra nýtingu á landi eða auðlindum í eigu ríkisins en þá sem tengist ferðaþjónustu.

Þegar íslenska ríkið, og aðrir opinberir aðilar, ráðstafa landi til eignar eða leigu er um að ræða ráðstöfun takmarkaðra gæða. Ekki hafa verið sett heildstæð lög um ráðstöfun eigna ríkisins af þessu tagi, en almennt er það talið til góðra stjórnsýsluhátta og í samræmi við jafnræðisreglu stjórnsýsluréttarins að auglýsa opinberlega ráðstafanir sem þessar. Að öðrum kosti ríkir ekki samkeppni um hin takmörkuðu gæði og í slíkum tilvikum er hætta á því að gæðunum verði ráðstafað með óhagkvæmum hætti.

Markmið frumvarpsins eru margþætt en samantekið er því ætlað að tryggja að vönduð og fagleg vinnubrögð við ákvörðun um hvort gera eigi sérleyfis- eða rekstrarleyfissamning á tilteknu landsvæði í eigu íslenska ríkisins. Þegar tekin hefur verið ákvörðun um að gera slíkan samning ber að auglýsa hann, að uppfylltum nánar tilteknum skilyrðum, og gefa öllum áhugasömum kost á að bjóða í gæðin. Ákvörðun um val tilboðs skal byggja á málefnalegum sjónarmiðum og hlutlægum og gagnsæjum forsendum.

Um er að ræða rammalöggjöf, sem þýðir að ekki er ætlunin að lýsa með ítarlegum hætti hvernig skilmálar og skilyrði eiga að vera í einstaka tilvikum. Lögfestar eru ítarlegar meginreglur sem leyfisveitendum ber að fylgja, en þeir hafa svigrúm til þess að setja skilyrði innan þess ramma sem lögin setja. Þó er gert ráð fyrir að hægt sé að kveða á um ítarlegri skilmála eða skilyrði vegna einstakra samninga í reglugerð sem sett yrði á grundvelli rammalöggjafarinnar.

Í frumvarpinu er samningum um nýtingu á landi í eigu ríkisins skipt í þrjár samningstegundir, eins og lagt er til í skýrslu starfshóps. Í fyrsta lagi sérleyfissamning, sem gengur lengst í nýtingu, bæði er varðar umfang og tímalengd. Í öðru lagi rekstrarleyfissamning, sem svipar til sérleyfissamnings en felur ekki í sér eins yfirgripsmikil afnot af landinu. Þannig er slíkur samningur til skemmri tíma en sérleyfissamningur og almennt er ekki gert ráð fyrir mannvirkjagerð af hálfu rekstrarleyfishafa. Í þriðja lagi nýtingarsamning sem ekki er ætlað að takmarka fjölda fyrirtækja á svæðinu. Gera skal samning við öll fyrirtæki sem uppfylla þau skilyrði sem sett eru fyrir umræddri starfsemi. Tilgangur slíks samnings er fyrst og fremst að hafa yfirsýn eða eftirlit með þeirri starfsemi sem fer fram á viðkomandi svæði.

Af eðli frumvarpsins leiðir að það sækir fyrirmynd í almennar reglur stjórnsýsluréttarins og settra réttarreglna af sviði útboðsréttar.

Samráði lokið

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Umsjónaraðili

Skrifstofa stjórnunar og umbóta

postur@fjr.is