Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 20.11.–7.12.2020

2

Í vinnslu

  • 8.2020–14.12.2021

3

Samráði lokið

  • 15.12.2021

Skjöl til samráðs

Mál nr. S-253/2020

Birt: 20.11.2020

Fjöldi umsagna: 7

Drög að reglugerð

Matvælaráðuneytið

Nýsköpun, rannsóknir og þekkingargreinar

Drög að reglugerð um Kríu - sprota- og nýsköpunarsjóð

Niðurstöður

Drögin urðu að reglugerð um Kríu nr. 255/2021. Við lokafrágang reglugerðarinnar var ákveðið að taka til greina athugasemdir sem bárust varðandi fjárfestingahlutfall vísisjóða í seinni lokun og hækka það úr 10% í 25%. Þá var einnig ákveðið að einfalda skilgreiningu á sprota- og nýsköpunarsfyrirtækjum þannig að ekki var miðað við fastar veltu og starfsmannafjölda heldur miðað við skilgreiningu á litlum og meðalstórum fyrirtækjum í reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 651/2014 (almenna hópundanþágureglugerðin).

Málsefni

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið kynnir til samráðs drög að reglugerð um Kríu – sprota- og nýsköpunarsjóð.

Nánari upplýsingar

Kría – sprota- og nýsköpunarsjóður var settur á fót með lögum nr. 65/2020. Í lögunum er kveðið á um að ráðherra setji reglugerð þar sem m.a. komi fram skilyrði fyrir fjárfestingum Kríu og hvernig staðið skuli að þeim, um undirbúning stjórnar, ávöxtun eigin fjár sem er ekki bundið í fjárfestingum og önnur atriði sem nauðsynleg eru til að sjóðurinn geti sinnt hlutverki sínu skv. 3. gr. Stofnun Kríu er í samræmi við stefnumótun stjórnvalda í málefnum nýsköpunar eins og hún birtist í Nýsköpunarstefnu.

Tilgangur með stofnun Kríu – sprota- og nýsköpunarsjóðs er að efla fjárfestingarumhverfi sprota- og nýsköpunarfyrirtækja á Íslandi. Hlutverk Kríu er að fjárfesta í sérhæfðum fjárfestingarsjóðum, svokölluðum vísisjóðum (e. venture capital funds) sem sjálfir fjárfesta í nýskapandi sprotafyrirtækjum. Vísisjóðir eru frábrugðnir öðrum hefðbundum fjárfestingasjóðum að því leyti að stjórnendur sjóðanna hafa sprotafjárfestingar að meginstarfi, eru sjálfir hluthafar í sjóðunum og hafa mun meiri aðkomu að rekstri og stefnumótun þeirra sprotafyrirtækja sem þeir fjárfesta í en almennt gengur og gerist. Rekstur vel heppnaðra vísisjóða veltur því á stjórnendum sjóðanna og því afar mikilvægt að stjórnendur þeirra séu sérfróðir um rekstur og vaxtamöguleika sprotafyrirtækja og geti sótt í alþjóðlega reynslu á því sviði.

Til að ná framangreindum tilgangi er í reglugerðinni kveðið með ítarlegum hætti á um þau skilyrði sem vísisjóðir þurfi að uppfylla svo Kría geti fjárfest og tekið þátt í þeim. Ekki er lagt upp með að Kría taki þátt í öllum þeim fjárfestingarsjóðum sem kunna að verða stofnaðir heldur aðeins þeim sjóðum þar sem líklegt er að góður árangur náist með vísan til alþjóðlegrar reynslu af starfsemi vísisjóða. Stjórn Kríu tekur ákvörðun um það hvort umsókn tiltekins vísisjóðs uppfylli skilyrði reglugerðarinnar. Telji stjórn Kríu að svo sé tekur hún ákvörðun um þátttöku Kríu í viðkomandi vísisjóði. Séu fleiri en einn vísisjóður sem uppfylli skilyrði fyrir þátttöku Kríu í hverju umsóknarferli tekur Kría þátt í þeim sjóðum í samræmi við hlutfall umsókna og ráðstöfunarfjár sjóðsins hverju sinni. Stofnfé vísisjóða þarf að vera að lágmarki 4 milljarðar kr. að undanskildu því stofnfé sem Kría leggur til og við umsókn um þátttöku Kríu þarf að vera búið að fjármagna 70% af heildarstofnfé viðkomandi sjóðs. Einnig er í reglugerðinni kveðið á um aðkomu aðila sem hafi umtalsverða reynslu, þekkingu og árangur í alþjóðlegu umhverfi fjárfestinga í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum, að Kríu sé heimilt að ákvarða þátttöku í vísisjóði við svokallaða seinni lokun (subsequent closing), að samið skuli um kauprétt annarra fjárfesta að hlut Kríu á fyrirframákveðnu verði að tilteknum tíma liðnum, og önnur skilyrði sem eru til þess fallin að afmarka þá vísisjóði sem Kríu verði heimilt að taka þátt í.

Að auki mun stjórn Kríu setja sér sérstakar starfsreglur þar sem kveðið verður með nánari hætti á um framkvæmd ákvæða reglugerðarinnar eftir því sem við á.

Samráði lokið

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Umsjónaraðili

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið

postur@anr.is