Samráð fyrirhugað 23.11.2020—07.12.2020
Til umsagnar 23.11.2020—07.12.2020
Niðurstöður í vinnslu frá 07.12.2020
Niðurstöður birtar 14.09.2021

Drög að frumvarpi til laga um stafrænt pósthólf í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda

Mál nr. 254/2020 Birt: 23.11.2020 Síðast uppfært: 14.09.2021
  • Fjármála- og efnahagsráðuneytið
  • Drög að frumvarpi til laga
  • Málefnasvið:
  • Hagskýrslugerð og grunnskrár

Niðurstöður birtar

Frumvarpið var samþykkt sem lög frá Alþingi 25. júní 2021. Í 5. kafla í greinargerð með frumvarpi til laganna er fjallað um umsagnir í samráðsgáttinni.

Skjal að loknu samráði

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 23.11.2020–07.12.2020. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 14.09.2021.

Málsefni

Með frumvarpi til laga um stafrænt pósthólf er gert ráð fyrir þeirri meginreglu að stjórnvöld sendi gögn til einstaklinga og lögaðila með stafrænum hætti í gegn um stafrænt pósthólf. Sú aðferð mun hafa sömu réttaráhrif og þegar gögn berast með bréfpósti eða öðrum hætti.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 30. nóvember 2017 kemur fram að byggja skuli upp stafræna þjónustugátt þar sem landsmenn geti á einum stað nálgast þjónustu hins opinbera og sinnt þeim erindum sem beinast að stjórnvöldum og er Ísland.is nú þegar vísir að slíkri gátt. Á fundi ríkisstjórnar í maí 2018 var staðfest sú stefna að árið 2020 skuli stafræn þjónusta verða megin leið samskipta á milli hins opinbera (ríkis og sveitarfélaga), almennings og fyrirtækja. Þá segir í þingsályktun nr. 22/150 frá 29. janúar 2020 að fjármála- og efnahagsráðherra skuli stórefla vinnu er varðar gæði rafrænnar þjónustu hins opinbera gagnvart almenningi. Frumvarp þetta er í samræmi við framangreinda stefnuyfirlýsingu og heimilar það stjórnvöldum að senda gögn til einstaklinga og lögaðila með stafrænum hætti í meiri mæli en nú er gert.

Með frumvarpinu er gert ráð fyrir þeirri meginreglu að stjórnvöld sendi gögn til einstaklinga og lögaðila með stafrænum hætti. Lagt er til að einstaklingar sem hafa fengið útgefna kennitölu samkvæmt lögum um skráningu einstaklinga og lögaðilar sem skráðir eru með kennitölu í fyrirtækjaskrá eigi hver sitt pósthólf sem að jafnaði þeir einir hafa aðgang að.

Með því að setja sérstök lög um stafrænt pósthólf er tryggt að réttaráhrif þess að gera gögn aðgengileg í pósthólfinu verði þau sömu og þegar gögn berast með bréfpósti eða öðrum hætti. Þegar gögn hafa verið gerð aðgengileg í pósthólfi viðtakanda teljast þau þar með birt viðtakanda sjálfum. Frumvarpið tekur til allra gagna, þ.m.t. tilkynninga, ákvarðana og ákvaða sem viðtakandi er bundinn af, með tilliti til kærufrests og efni gagnanna að öðru leyti.

Markmið lagasetningarinnar er að auka gagnsæi, réttaröryggi og hagræði á mörgum sviðum samfélagsins, auk þess að styðja við frekari framþróun á stafrænni þjónustu fyrir almenning.

Tengd mál

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Bjarni Valur Guðmundsson - 28.11.2020

Ágæti viðtakandi.

Ég mótmæli því harðlega að fólk, þar á meðal öryrkjar og eldri borgarar sem á e.t.v. ekki einu sinni snjallsíma og/eða tölvu, verði skyldað til að vera með þetta stafræna pósthólf. Mér finnst afskaplega sérkennilegt að flokkur sem stendur fyrir frelsi einstaklingsins, þ.e. Sjálfstæðisflokkurinn, skuli standa fyrir þessu. Fólk á að hafa val um þetta.

Með virðingu,

Bjarni.

Afrita slóð á umsögn

#2 Hagsmunasamtök heimilanna - 29.11.2020

Sjá viðhengi.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#3 Björgvin Rúnar Leifsson - 06.12.2020

Góðan dag.

Mér skilst að það standi til að allir með íslenska kennitölu fái rafrænt pósthólf. Á að líka við um þá sem búa erlendis? Ef svo er, þá vek ég athygli á að þeir hafa ekki að aðgang að rafrænum skilríkjum nema þeir haldi íslenska símanúmerinu sínu.

Afrita slóð á umsögn

#4 Friðjón Guðjohnsen - 06.12.2020

Með frumvarpinu er lögð kvöð á einstaklinga um að hafa til staðar rafræn skilríki. Á Íslandi er útbreiddasta útgáfan af þeim í formi rafrænna skilríkja á farsíma. Í þessar kvöð felst einnig krafa til einstaklinga til að gæta að öllum öryggisþáttum sem geta leitt til þess að óviðkomandi komist í stjórn yfir rafrænu skilríkin og geti misnotað þau. Þegar skoðað er hvaða þættir geta stefnt öryggi rafrænna skilríkja á farsíma í hættu er ljóst að þeir eru þó nokkrir:

* Notkun á farsíma sem ekki er uppfærður með nýjustu öryggisuppfærslum.

* Notkun á þráðlausum netum sem óvinveittur aðili hefur stjórn á.

* Notkun á farsíma sem óvinveittur aðili fær einhvern aðgang að, hvort sem er með áþreifanlegum hætti eða með fjarlægri tengingu.

* Notkun á forritum skrifuðum af óvinveittum aðila sem ógna öryggi farsímans

* Ótal mörg önnur atriði ...

Þótt hugsanlega megi sjá fyrir sér að hægt sé að nota farsíma á öruggan hátt þannig að óvinveittir aðilar munu ekki komast í stjórn yfir rafrænum skilríkjum á símanum er líklegt að stór hluti almennings sinni slíkum öryggisatriðum ekki endilega vel. Það hafa komið upp mörg tilfelli þar sem stýrikerfi farsíma hafa verið haldið slíkum göllum að ómögulegt er fyrir jafnvel grandvaran einstakling að gera nauðsynlegar öryggisráðstafanir. Því til viðbótar er venjuleg notkun á farsíma ekki til þess fallin að gæta að öryggi þeirra. Með því að gera farsíman að hluta af öruggum undirskriftarbúnaði er ekki lengur hyggilegt að nota síman á sama hátt og áður.

Afleiðingar af misnotkun óvinveittra aðila á rafrænu skilríkjunum geta verið mjög alvarlegar. Undirskrift með rafrænum skilríkjum er álitin jafngild undirskrift á pappír. Sá munur er þó á að aðili sem verður fyrir því að óvinveittur aðili framkallar rafræna undirskift án samþykkis er í vonlausri stöðu til að sýna fram á slíkt.

Þessi kvöð á hendur einstaklingum til þess að þurfa að hafa rafræn skilríki opnar því alla einstaklinga fyrir mögulegri misnotkun skilríkjana. Einstaklingarnir hafa ekki lengur val um það hvort þeir meti hagræðið af notkun þeirra vega upp á móti áhættuni af þeim. Litlar takmarkanir virðast vera á því hvað slík rafræn undirskrift getur skuldbundið eiganda hennar fyrir.

Það væri strax til bóta ef einstaklingurinn gæti tiltekið, þegar rafræn skilríki eru fengin, að með þeim fylgi engin skuldbinding, aðeins sönnun á auðkenni. Þ.e. að einstaklingurinn sem notar rafrænu skilríkin vilji eingöngu nota þau til að sýna fram á auðkenni sitt en ekki til að skuldbinda sig á nokkurn hátt. Þetta ætti ekki að vera flókið í framkvæmd, hægt væri þegar rafrænu skilríkin eru fengin að bjóða upp á mismunandi tegundir rafræna skilríkja. Þannig gæti ein tegund eingöngu verið til auðkenningar en t.d. ekki til að skrifa undir lánasamninga eða aðrar skuldbindandi gjörðir. Þá gætu þeir sem efasemdir hafa um möguleika sinn á að halda farsíma sínum öruggum, kosið að fá sér aðeins auðkennandi rafræn skilríki en ekki skuldbindandi.

Þetta væri einnig mun hófsamari leið til að ná markmiðum frumvarpsins, og leiddi ekki til þess að allir þyrftu að taka á sig eins miklar kvaðir um að halda farsímanum sínum öruggum. Það væri auðvitað slæmt, en ekki eins slæmt og ef óvinveittur aðili skrifar t.d. undir lánasamning í nafni fórnarlambsins. Möguleg misnotkun mundi þá gefa óvinveittum aðilum færi á að komast í gögn viðkomandi en ekki til þess að skuldbinda fórnarlambið með öfugri sönnunarbyrði.

Það að gera kröfu um að einstaklingar fá sér rafræn skilríki með möguleikan á svo til ótakmarkaðri skuldbindingu er afarósanngjarnt af stjórnvöldum. Það sem stjórnvöld þurfa í þessu tilfelli er aðeins að koma gögnum til einstaklingana en ekki að neyða þá til þess að opna aðra leið fyrir ótakmarkaðar skuldbindingar sem mun vera hægt að misnota af óvinveittum aðilum.

Afrita slóð á umsögn

#5 Bragi Leifur Hauksson - 06.12.2020

Ágætu viðtakendur umsagnar og samborgarar allir.

Ég hef um árabil komið að þróun og rekstri þeirra kerfa sem hér um ræðir. Almennt finnst mér alltaf besta sjónarhornið að skoða þetta út frá því sem hentar viðskiptavininum (borgaranum eða lögaðilanum) best. Mín reynsla er sú að þannig endar maður með lausnina sem hentar öllum best (win – win). Hér á eftir fer ég yfir nokkur atriði sem tengjast þessum frumvarpsdrögum.

1. Það hefur lengi verið mikilvægt að setja í lög að birting í pósthólfi á Ísland.is hafi sömu réttaráhrif og birtingar sem tilgreindar kunna að vera í lagatexta. Þetta er því gleðilegt og löngu tímabært. Það sem ég hnýt hins vegar um er að það eru lagðar alls kyns kvaðir á viðtakanda sendingar, en litlar á birtingaraðilann. Högun pósthólfsins er mjög nútímaleg og upplýsingar um skjal eru sendar í pósthólfið, en skjalið/sendingin sjálf ekki afhent fyrr en viðtakandi vill opna hana. Þannig veit viðkomandi birtingararaðili nákvæmlega hvenær sendingin hefur verið opnuð. Þar með veit birtingaraðili auðvitað líka ef sendingin hefur ekki verið opnuð. Birtingaraðili getur óskað eftir að hnippt sé í viðtakanda þegar hann á sendingu. Ef um „mikilvægar“ sendingar er að ræða er því eðlilegt að birtingaraðili geri fleiri en eina tilraun til þess að vekja athygli viðtakanda á sendingunni, en bíði ekki bara eftir því að hann sitji í súpunni. Þetta gæti verið með SMS hnippi og jafnvel ef allt annað þrýtur, með póstsendingu. Frumvarpsdrögin gera birtingaraðila allt of stikkfrí á sama tíma og viðtakandinn verður strax að vera á tánum. Birtingaraðilar fá hins vegar fjögurra ára aðlögunartíma!

2. Ég held að flestir muni fagna því að fá allar sínar sendingar í pósthólfið. Það verður hins vegar ekki framhjá því litið að það hentar ekki endilega öllum. Ýmsar hugmyndir varðandi lausnir hafa verið viðraðar í gegnum tíðina, t.d. að prenta á 7-14 daga fresti út allt sem viðkomandi hefur fengið í pósthólfið sitt á því tímabili og setja í eitt umslag og senda viðkomandi. Það er skautað svolítið létt yfir þetta í frumvarpsdrögunum og bara hamrað á gjaldtökuheimild. Þetta er hins vegar sennilega viðkvæmasti hópurinn og því mikilvægt að koma fram við hann af nærgætni!

3. Innskráningarþjónusta Ísland.is er nýtt af hundruðum þjónustuveitenda með góðum árangri. Þar er boðið upp á innskráningu á vefi í krafti Íslykils, styrkts Íslykils og rafrænna skilríkja. Hver þjónustuveitandi ákveður hvaða kröfur hann gerir til innskráningar hjá sér. Þorri þjónustuveitenda veitir aðgang að sinni þjónustu í krafti Íslykils, en örfáir aðilar gera kröfu um styrktan Íslykil eða rafræn skilríki. Eins er það með pósthólfið, þar ákveða birtingaraðilar hvaða kröfur eru gerðar til auðkenningar svo veita megi aðgang að sendingu. Nær allir birtingaraðilar gera bara kröfu um Íslykil. Ég man eftir einum birtingaraðila sem gerir kröfu um rafræn skilríki til að aðgangur sé veittur að skjölum hans í pósthólfiinu. Sá aðili veitir hins vegar aðgang að sömu gögnum á vef sínum með einföldu lykilorði.

Ef bara er gerð krafa um Íslykil, þá kemst fólk auðvitað líka inn á styrktum Íslykli eða rafrænum skilríkjum.

Ef skilja á frumvarpsdrögin sem svo að gera eigi kröfu um rafræn skilríki í öllum tilvikum, þá er það STÓRSLYS. Ágætt er að rifja upp að fyrir mörgum árum var gerð tilraun til að „þröngva“ þjóðinni til þess að fara að nýta rafræn skilríki á debetkortum. Það var algjört fíasko. Rafræn skilríki í símum eru auðvitað mun notendavænni, en henta alls ekki öllum.

Í stjórnsýslunni er gjarna hamrað á því að meðalhófs skuli gætt og ekki settar upp áþarfa hindranir fyrir fólk. Hérna er einmitt gott að hafa það í huga. Áherslan á að vera á það að veita góða þjónustu og mæta viðskiptavininum þar sem það hentar honum. Borgarinn í öndvegi. Þjónusta, þjónusta, þjónusta og aftur þjónusta!

4. Af hverju er ekki rétt að gera alls staðar kröfu um rafræn skilríki? Það eru margar ástæður fyrir því. Með því að gera alltaf kröfu um rafræn skilríki, þá missum við alltaf einhverja fyrir borð, sem ekki treysta sér til þess að nota rafræn skilríki. Vilji menn gera meiri kröfur en bara Íslykil, þá er styrktur Íslykill mjög góður kostur og sambærilegur við varaleið bankanna inn í heimabanka. Bankarnir gera miklar kröfur um öryggi og því ágætt að líta til þess hvað þeir telja að veiti gott öryggi.

Ég mæli alls ekki með að þeir sem þurfa mikla aðstoð við sín tölvumál fái sér rafræn skilríki. Rafræn skilríki eru hættulega öflug, eins og bent hefur verið á í annarri umsögn. Fíkniefnafíklar og spilafíklar finnast því miður í mörgum fjölskyldum og sjúkleikinn getur valdið stórfelldu fjárhagslegu tjóni hjá viðkvæmum handhafa rafrænna skilríkja, svo dæmi sé tekið.

5. Gleymum ekki að viðskiptavinir opinberra stofnana eru öll þjóðin, ekki bara hip og kúl lið!

Bragi L. Hauksson, tölvunarfræðingur

Afrita slóð á umsögn

#6 Landssamtökin Þroskahjálp - 07.12.2020

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um drög að frumvarpi til laga um stafrænt pósthólf í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda.

Landssamtökin Þroskahjálp fagna því að skapa eigi eina miðlæga þjónustugátt í stað þess að hver og ein ríkisstofnun, sveitarfélag og fleiri reki innri vef. Það einfaldar þeim sem nýta sér tæknina að læra á eitt kerfi og fylgjast með á einum stað. Hins vegar hafa ekki allir færni til þess að nýta sér stafræna þjónustu á borð við þessa og munu aldrei öðlast þá færni sökum fötlunar, veikinda eða aldurs. Því er mikilvægt, eins og fram kemur í 5. gr., að einstaklingar geti kosið að fá gögnin send með öðrum hætti. Samtökin velta fyrir sér hvernig eigi að tryggja, að einstaklingar sem ekki hafa fengið upplýsingar um miðlægu þjónustugáttina og hafa því ekki óskað eftir því að fá gögn send með bréfpósti, viti af ákvörðunum hins opinbera. Þetta getur varðað mikilsverð réttindi hópsins, bæði réttarfarsleg og hvað varðar þjónustu sem einstaklingurinn á rétt á.

Þá hvetja samtökin yfirvöld til þess að tryggja að persónulegir talsmenn fatlaðs fólks geti fengið umboð til þess að nálgast innri vef umbjóðanda síns, án þess að einstaklingurinn sjálfur þurfi að einkenna sig enda hefur margt fatlað fólk ekki aðgang að rafrænni auðkenningu sem er þeim aðgengileg, sem er miður. Því er mikilvægt að persónulegir talsmenn auðkenni sig sjálfir inn á þjónustugáttina, til að tryggja að rekjanleg slóð sé með þeim sem sýsla með mál fatlaðs fólks fyrir þeirra hönd.

Samtökin óska eftir að fá fund með fjármála- og efndahagsráðuneytinu til að gera ráðuneytinu betur grein afstöðu sinni og áhyggjum varðandi efni frumvarpsdraganna.

Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður Þroskahjálpar.

Afrita slóð á umsögn

#7 Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu - 07.12.2020

Meðfylgjandi er umsögn f.h. Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#8 Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu - 07.12.2020

Umsögn send aftur þar sem að viðhengi skilaði sér ekki.

Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu fagnar frumvarpi til laga um stafrænt pósthólf í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda og telur ótvírætt að verði það að lögum muni það stuðla að skilvirkari opinberri þjónustu og tryggja öruggari leið til miðlunar gagna til einstaklinga og lögaðila með stafrænum boðleiðum. Þá mun það jafnframt hafa í för með sér verulega hagræðingu í starfsemi embættisins og framför í málsmeðferð auk fjárhagslegs sparnaðar.

Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu vill koma á framfæri athugasemd sem snýr að því hvort að vafi geti leikið á því að frumvarpið taki til allrar opinberrar starfsemi og þjónustu óháð því t.d. hvort að málefnið heyri undir stjórnsýslulög eða ekki. Stjórnsýslulög nr. 37/1993, utan X. kafla laganna, gilda ekki um þinglýsingu, aðfarargerðir, kyrrsetningu, löggeymslu, lögbann, nauðungarsölu og skipti á dánarbúum, sem allt heyrir undir starfsemi sýslumannsembætta. Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu telur að það megi ekki vera neinum vafa undirorpið að frumvarpið taki einnig til þessara málaflokka og mælist til þess að við meðferð frumvarpsins á Alþingi verði skoðað hvort ástæða sé til að kveða skýrar á um það í frumvarpinu eða greinargerð með því.

Kópavogi 07.12.2020

f.h. Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu

Brynjar Kvaran

Sviðsstjóri

Fullnustu- og skiptasvið

Afrita slóð á umsögn

#9 Samtök fjármálafyrirtækja - 07.12.2020

Meðfylgjandi er umsögn Samtaka fjármálafyrirtækja.

Bestu kveðjur, Jóna Björk Guðnadóttir

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#10 Guðrún Pálmadóttir - 07.12.2020

Umsögn er send fyrir hönd réttindagæslumanna fyrir fatlað fólk

Samkvæmt 5. gr. laga um réttindagæslu fyrir fatlað fólk nr. 88/2011 þá skulu réttindagæslumenn fylgjast með högum fatlaðs fólks á sínu svæði og vera því innan handar við réttindagæslu hvers konar, hvort sem það er vegna meðferðar einkafjármuna þess, þjónustu sem það á rétt á eða varðandi önnur persónuleg réttindi eða einkamál þess. Er þetta gert með vísan í alþjóðaskuldbindingar sem íslensk stjórnvöld hafa undirgengist og þá með vísan til 12. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og almennra athugasemda sem fylgja þeirri grein.

Réttindagæslumenn fatlaðs fólks vilja vekja athygli á hópi innan samfélagsins sem þarf að huga sérstaklega að þegar unnið er að lagasetningu, setningu reglugerða og reglna þar sem krafist er undirskriftar einstaklings. Eins þegar einstaklingur þarf að veita umboð sem leiðir til veitingu þjónustu, upplýsinga eða að viðkomandi fái notið réttinda sinna. Réttindagæslumenn vöktu athygli á málinu í vor þegar átti að breyta fyrirkomulagi afhendingu lyfja og hafa verið í samráði við Lyfjastofnun um málið. Ekki er búið að finna þessu endanlegt fyrirkomulag með afhendingu lyfja til þessa hóps en tímabundið úrræði er í gangi til að leysa vanda sem uppi er. Staðreyndin er að þessi hópur sem um ræðir getur ekki haft aðgang að réttindum og þjónustu sem veitt er rafrænt nema með stuðning annarra. Jafnframt er þessi hópur í áhættu gagnvart því að verða fyrir hverskyns misnotkun á þessu sviði og hefur ekki sömu tækifæri til að halda utan um, hafa yfirsýn né eftirlit með sínum málum. Þess vegna þarf að finna leið sem felur bæði í sér aðgengi, eftirlit og yfirsýn.

Um er að ræða hóp sem hefur sitt lögræði samkvæmt lögum en getur hvorki skrifað undir né veitt umboð fötlunar sinnar vegna. Viðkomandi getur þar af leiðandi ekki nýtt sér rafræna þjónustu í eigin persónu eða fengið talsmann sinn sem skipaður er s.kv. lögum 88/2011 til að styðja sig við þau verkefni. Hópurinn felur í sér annars vegar einstaklinga sem geta tekið eigin ákvarðanir en ekki skrifað undir vegna líkamlegrar fötlunar og hins vegar einstaklinga sem ekki eru færir um að sýna skilning á réttindum sínum eða skrifa undir. Þessa aðila þarf að aðstoða við að ná fram réttindum sínum en jafnframt verja fyrir misnotkun á eignum og réttindum. Um leið og fyrirtæki eða stofnun setur upp rafrænan aðgang þarf þessi hópur aðstoð, stuðning eða þjónustu annarra við að nálgast réttindi sín á þessu nýja formi.

Í reglum Auðkennis, sem sér um um útgáfu rafrænna skilríkja, er gert ráð fyrir því að við umsókn votti einstaklingur með undirskrift og persónuskilríkjum sínum að hann sé sá sem hann er á staðnum. Ekki gert ráð fyrir að annar aðili geti skrifað undir fyrir hönd einstaklings. Þetta gerir það að verkum að verið er að útiloka þá einstaklinga sem þurfa á stuðning við athafnir dagslegs lífs við að njóta réttina sinna og geta ekki skifað undir. Ef einstaklingar geta ekki fengið sér rafræn skilríki þá eru þeir útilokaðir frá þjónustu sem krefst rafrænna skilríkja.

Dæmi um þetta er að einstaklingar sem t.d. fá greiddar sanngirnisbætur eða arf og þurfa að nálgast upplýsingar eða fylla út umsóknir þess efni á þar til gerðum vef fyrir rafrænar umsóknir og hafa þá ekki aðgang að því. Einnig eru dæmi um að einstaklingar sem áttu sparireikning fyrir 18 ára aldur missi aðgang sinn að honum geti þeir ekki skrifað undir eða sett sparifé sitt á ráðstöfunarreikning. Ástæðan fyrir þessu er að réttindagæslumenn geta einungis veitt aðgang að einum reikningi, staðfesti þeir samning fyrir fatlaðan einstakling sem ekki getur ritað nafnið sitt. Af því leiðir þarf að svipta fólk fjárræði til að veita aðgang að fjármunum.

Í lögum um réttindagæslu nr. 88/2011 og reglugerð um persónulega talsmenn nr. 972/2012 er gert ráð fyrir að réttindagæslumenn staðfesti val fatlaðs einstaklings á persónulegum talsmanni sem getur þá sýslað með fjármuni af einum ráðstöfunar reikningi. Heimild talsmanna nær ekki til umsókna um rafræn skilríki. Heimildir réttindagæslumanna ná einungis til þeirra þátta sem lög um réttindagæslu fjalla um, það er að staðfesta val einstaklinga sem vegna fötlunar sinnar eiga erfitt með að gæta hagsmuna sinna og gildir ekki um rafræn skilríki. Fatlaður einstaklingur getur óskað eftir samráði við réttindagæslumann við gerð umboða og réttindagæslumaður staðfest vilja hans. Geti fatlaður einstaklingur ekki tjáð vilja sinn með skýrum hætti þá ber réttindagæslumanni að leita eftir vilja hans og staðfesta umboð sem gert er með undirskrift sinni. Er þessi ráðstöfun gerð með vísun í samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks með það að augnamiði að auka aðgengi fatlaðs fólks að samfélaginu. Þessi réttindi eru tilgreind í 9. og 12. grein samningsins. Heimildir réttindagæslumanna fatlaðs fólks og persónulegra talsmanna nýtast ekki við borgaraleg réttindi er fást við notkun rafrænna skilríka. Í auknum mæli eru stofnanir farnar að notast við rafræn skilríki. Sumar stofnanir notast bæði við rafræn skilríki og Íslykil. Þegar er boðið er upp á að fá Íslykil sendan á lögheimili viðkomandi þá getur það nýst fyrir alla hópa sem aðgangur að réttindum. Þær stofnanir sem ekki notast við Íslykla heldur einungis rafræn skilríki hamla lagalegum réttindum fatlaðs fólks með því að skerða aðgengi þeirra að þjónustuvefjum og þar með samfélaginu.

Við réttindagæslumenn teljum mikilvægt að hugað verði sérstaklega að réttindum þessa hóps og samráð haft við fatlaðs fólk sjálft við gerð laga og reglna sem fela í sér notkun rafrænna skilríkja. Allt fatlað fólk er jafnt fyrir lögum og reglum. Ekki má koma til þess að fólk missi borgaraleg réttindi sín við setningu laga, reglugerða eða reglna sem sett eru til að auka öryggi almennings. Við teljum mikilvægt að þessi hópur sé hafður í huga og gert sé ráð fyrir samtali og ráðstöfunum til að koma í veg fyrir skerðingu réttinda þessa hóps.

Það er því beiðni okkar að þessi mál verði tekin til gagngerrar skoðunar og leyst verði úr málum er snúa að rafrænum skilríkjum fyrir þennan hóp til framtíðar. Er það mat réttindagæslumanna fatlaðs fólks að hér sé um mikilvægt mál er að ræða sem þarfnist úrlausnar sem fyrst.

Afrita slóð á umsögn

#11 Samband íslenskra sveitarfélaga - 07.12.2020

Góðan daginn

Meðfylgjandi er umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga

Virðingarfyllst,

Bryndís Gunnlaugsdóttir

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#12 Þjóðskrá Íslands - 07.12.2020

Meðfylgjandi er umsögn Þjóðskrár Íslands

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#13 Viðskiptaráð Íslands - 07.12.2020

Meðfylgjandi er umsögn Viðskiptaráðs Íslands.

Viðhengi