Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 23.11.–7.12.2020

2

Í vinnslu

  • 8.12.2020–13.9.2021

3

Samráði lokið

  • 14.9.2021

Skjöl til samráðs

Mál nr. S-254/2020

Birt: 23.11.2020

Fjöldi umsagna: 13

Drög að frumvarpi til laga

Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Hagskýrslugerð og grunnskrár

Drög að frumvarpi til laga um stafrænt pósthólf í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda

Niðurstöður

Frumvarpið var samþykkt sem lög frá Alþingi 25. júní 2021. Í 5. kafla í greinargerð með frumvarpi til laganna er fjallað um umsagnir í samráðsgáttinni.

Málsefni

Með frumvarpi til laga um stafrænt pósthólf er gert ráð fyrir þeirri meginreglu að stjórnvöld sendi gögn til einstaklinga og lögaðila með stafrænum hætti í gegn um stafrænt pósthólf. Sú aðferð mun hafa sömu réttaráhrif og þegar gögn berast með bréfpósti eða öðrum hætti.

Nánari upplýsingar

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 30. nóvember 2017 kemur fram að byggja skuli upp stafræna þjónustugátt þar sem landsmenn geti á einum stað nálgast þjónustu hins opinbera og sinnt þeim erindum sem beinast að stjórnvöldum og er Ísland.is nú þegar vísir að slíkri gátt. Á fundi ríkisstjórnar í maí 2018 var staðfest sú stefna að árið 2020 skuli stafræn þjónusta verða megin leið samskipta á milli hins opinbera (ríkis og sveitarfélaga), almennings og fyrirtækja. Þá segir í þingsályktun nr. 22/150 frá 29. janúar 2020 að fjármála- og efnahagsráðherra skuli stórefla vinnu er varðar gæði rafrænnar þjónustu hins opinbera gagnvart almenningi. Frumvarp þetta er í samræmi við framangreinda stefnuyfirlýsingu og heimilar það stjórnvöldum að senda gögn til einstaklinga og lögaðila með stafrænum hætti í meiri mæli en nú er gert.

Með frumvarpinu er gert ráð fyrir þeirri meginreglu að stjórnvöld sendi gögn til einstaklinga og lögaðila með stafrænum hætti. Lagt er til að einstaklingar sem hafa fengið útgefna kennitölu samkvæmt lögum um skráningu einstaklinga og lögaðilar sem skráðir eru með kennitölu í fyrirtækjaskrá eigi hver sitt pósthólf sem að jafnaði þeir einir hafa aðgang að.

Með því að setja sérstök lög um stafrænt pósthólf er tryggt að réttaráhrif þess að gera gögn aðgengileg í pósthólfinu verði þau sömu og þegar gögn berast með bréfpósti eða öðrum hætti. Þegar gögn hafa verið gerð aðgengileg í pósthólfi viðtakanda teljast þau þar með birt viðtakanda sjálfum. Frumvarpið tekur til allra gagna, þ.m.t. tilkynninga, ákvarðana og ákvaða sem viðtakandi er bundinn af, með tilliti til kærufrests og efni gagnanna að öðru leyti.

Markmið lagasetningarinnar er að auka gagnsæi, réttaröryggi og hagræði á mörgum sviðum samfélagsins, auk þess að styðja við frekari framþróun á stafrænni þjónustu fyrir almenning.

Samráði lokið

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Tenging við önnur mál (2)

Umsjónaraðili

Skrifstofa stjórnunar og umbóta

fjr@fjr.is