Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 3.–17.12.2020

2

Í vinnslu

  • 18.12.2020–15.6.2021

3

Samráði lokið

  • 16.6.2021

Skjöl til samráðs

Mál nr. S-261/2020

Birt: 3.12.2020

Fjöldi umsagna: 24

Drög að reglugerð

Mennta- og barnamálaráðuneytið

Framhaldsskólastig

Reglugerð um vinnustaðanám

Málsefni

Kynnt er til umsagnar ný reglugerð um vinnustaðanám og starfsþjálfun sem ætlað er að koma í stað eldri reglugerðar. Með nýrri reglugerð eru skólar gerðir ábyrgir fyrir því að iðnnámsnemandi komist í vinnustaðanám, nemendum er gert auðveldara að ljúka starfsþjálfun sinni óháð stöðu í atvinnulífinu og tímalengd vinnustaðanámssamnings látin miðast við hæfni nemenda en ekki fjölda vikna á vinnustað.

Nánari upplýsingar

Núverandi skipulag verk- og starfsnáms gerir ráð fyrir að starfsgreinaráð, fyrir hönd atvinnulífsins, skilgreini starfalýsingar og hæfnikröfur fyrir hvert starf og að þær séu endurskoðaðar reglulega. Starfsnámsskólarnir skipuleggja síðan námsbrautalýsingar svo nemendur öðlist þá hæfni sem atvinnulífið þarfnast á hverjum tíma. Í meginatriðum, og með fáum undantekningum, er vinnustaðanám skipulagt þannig að gerður er námssamningur milli iðnmeistara og iðnnema. Kveðið er á um umfang vinnustaðanáms í námsbrautalýsingum, þar sem vinnuviknafjöldi er tilgreindur. Fjöldi vinnuvikna er ólíkur milli iðngreina er yfirleitt á bilinu 48 - 120 vikur. Vinnustaðanámið fer þannig fram að gerður er starfsþjálfunarsamningur. Nemandinn er launþegi hjá því fyrirtæki sem meistarinn starfar hjá eða rekur og þiggur laun samkvæmt kjarasamningi um nemalaun. Samningstíminn er mældur með lífeyrissjóðsgreiðslum atvinnurekanda. Þegar tilteknum vikufjölda er náð samkvæmt lífeyrissjóðsgreiðslum telst viðkomandi nemandi hafa lokið vinnustaðanáminu.

Í núverandi atvinnuástandi hefur nemendum á starfsþjálfunarsamningum fækkað. Munar þar mestu um fækkun nema í matreiðslu, framreiðslu, húsasmíði og rafiðngreinum. Fyrirtæki hafa haldið að sér höndum og síður tekið nýja nema á námssamning í stað þeirra sem ljúka vinnustaðanámi. Einnig hefur borið á því að námssamningum nema hafi verið sagt upp og þeir ekki komist á námssamning aftur eða annars staðar. Á haustönn 2020 tóku starfsnámsskólarnir jafnframt inn fleiri nemendur en þeir hafa alla jafna gert vegna mikillar eftirspurnar. Sú fjölgun mun leiða til þess að fleiri nemar þurfa að komast á samning en áður, samhliða þrengingum í atvinnulífinu.

Sumar iðngreinar hafa tekið breytingum á undanförnum árum. Til eru greinar sem eru að miklu leyti samansettar af einyrkjum og fámennum vinnustöðum. Slíkar greinar eiga erfitt með að taka á sig þær skuldbindingar sem fylgja því að taka nema í vinnustaðanám. Aðrar greinar hafa einnig orðið sérhæfðari og ekki hefur því verið unnt að uppfylla allar þær kröfur sem gerðar eru til iðnmeistara á aðeins einum vinnustað. Kallað hefur verið eftir nýjum leiðum og auknu samstarfi skóla og atvinnulífis við að útskrifa nemendur við þessar kringumstæður. Þörf er á nýliðun í mörgum af þessum greinum og því nauðsynlegt að fjölga möguleikum nemenda og mynda sterkari tengsl atvinnulífs og skóla.

Í drögum að nýrri reglugerð um vinnustaðanám eru nú tilgreindar tvær leiðir í vinnustaðanámi; annars vegar iðnmeistaraleið, sem byggir á núverandi samningsleið og hins vegar skólaleið, sem er ný. Með þessum breytingum er komið í veg fyrir óvissu nemenda sem vilja stunda iðnnám þar sem útskrift hans verður á ábyrgð skóla. Hægt verður að grípa til ráðstafana ef nemandi kemst ekki á hefðbundinn iðnmeistarasamning. Með breytingum á reglugerðinni má einnig ætla að hægt verði að dragi úr líkum á brotthvarf nemenda.

Samkvæmt gildandi reglugerð er nemanda gert að finna sér iðnmeistara og gera við hann samning. Með þeim breytingum sem lagðar eru til í nýrri reglugerð verður skólinn ábyrgur fyrir því að nemandinn komist á samning. Þessi breyting er í takt við umfjöllun í greinargerð með frumvarpi til laga um framhaldsskóla nr. 92/2008 en þar sagði m.a.: „Frumvarpið miðar að því:… að tryggja hag og stöðu nemenda í iðn- og verknámi, og starfsnámi almennt, m.a. með því að framhaldsskólar beri ábyrgð á vinnustaðanámi“ og „Að skólar taki ábyrgð á námi nemenda í starfsnámi m.a. með því að tryggja þeim samninga við aðila sem standast kröfur sem skólar setja um vinnustaðanám og starfsþjálfun. Í dag er slíkt undir hælinn lagt, þ.e. hvort nemandinn komist í starfsþjálfun annars vegar og hins vegar hvort hún komi að því gagni sem þarf. Hér er um mjög mikla breytingu að ræða frá núverandi kerfi þar sem það er á ábyrgð nemandans að komast í starfsþjálfun að loknu námi á viðkomandi braut í skóla. Með þessari breytingu eru bundnar vonir við að samstarf skóla og atvinnulífs eflist nemendum til hagsbóta. Með þessu skapast einnig sterkari tengsl skóla og vinnustaða.“

Eins og áður segir er skv. reglugerðinni gert ráð fyrir að um verði að ræða tvær leiðir í vinnustaðanáminu, annars vegar iðnmeistaraleið og hins vegar svokölluð skólaleið. Áður en skólaleiðin er farin skal skóli hafa fullreynt að koma nemenda á iðnmeistarasamning og tilkynnt það til meistarafélags iðnarinnar. Í skólaleiðinni er gert ráð fyrir að skólinn sjái um að skipuleggja vinnustaðanámið. Áfram er gert ráð fyrir að nemandi á iðnmeistarasamningi fái laun í samræmi við gildandi kjarasamning, en miðað er við að nemendur á skólasamningi verði launalausir. Eins og áður hefur komið fram er vinnustaðanám á skólaleið skipulögð af skóla og framkvæmd í samvinnu við vinnustað, en vinnustaðanám samkvæmt iðnmeistarasamningi er skipulagt af vinnustað. Vegna mögulegrar sérhæfingar vinnustaðar gera báðar leiðir ráð fyrir því að nemandi gæti þurft að nema á fleiri en einum vinnustað til að uppfylla kröfur um hæfni.

Tímalengd starfsþjálfunar er í núverandi kerfi skilgreind í vikum og birt í námsbrautalýsingum. Með þeim breytingum sem hér eru lagðar til er gert ráð fyrir að birt tímamörk í námsbrautalýsingum séu hámarkstími starfsþjálfunar, en mat á hæfni nemanda ráði tímalengd starfsþjálfunar. Þannig geti námstími orðið mislangur. Miðað er við að fulltrúi skóla og vinnustaðar meti sameiginlega hæfni nemanda í einstökum þáttum og haldi rafræna ferilbók utan um ferlið bæði þegar um er að ræða iðnmeistarasamning og skólasamning.

Menntamálastofnun hefur umsjón með rafrænni ferilbók, en í hana er skráð hæfni nemandans. Með notkun rafrænnar ferilbókar má efla gæði og samræmingu starfsþjálfunar, tryggja yfirsýn yfir hæfni og framvindu nemandans og auðvelda nemanda og skóla að halda utan um námið. Í rafrænu ferilbókinni er tiltekin hæfni nemanda staðfest af umsjónarmönnum skóla auk iðnmeistara, fyrirtækis og stofnana eftir því sem við á.

Öll starfsgreinaráð vinna nú að því að endurnýja starfalýsingar og hæfnikröfur, undir stjórn Menntamálastofnunar sem einnig heldur utan um vinnu faghópa við að skilgreina hæfniþætti starfa sem skráðir eru í rafræna ferilbók.

Samráði lokið

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Umsjónaraðili

Mennta- og menningarmálaráðuneytið

mrn@mrn.is