Samráð fyrirhugað 15.12.2020—12.01.2021
Til umsagnar 15.12.2020—12.01.2021
Niðurstöður í vinnslu frá 12.01.2021
Niðurstöður birtar 17.03.2021

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um réttindi sjúklinga, nr. 74/1997.

Mál nr. 267/2020 Birt: 15.12.2020 Síðast uppfært: 17.03.2021
  • Heilbrigðisráðuneytið
  • Drög að frumvarpi til laga
  • Málefnasvið:
  • Sjúkrahúsþjónusta
  • Réttindi einstaklinga, trúmál og stjórnsýsla dómsmála

Niðurstöður birtar

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um réttindi sjúklinga, nr. 74/1997, var lagt fram á Alþingi 4. mars 2021.

Skjal að loknu samráði

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 15.12.2020–12.01.2021. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 17.03.2021.

Málsefni

Með frumvarpinu er ætlað að tryggja fullnægjandi lagaheimildir til að taka ákvarðanir gagnvart frelsissviptum sjúklingum á heilbrigðisstofnunum og tryggja réttindi sjúklinga, m.a. með því að kveða skýrt á um að þvingunum sé ekki beitt nema í algerum undantekningartilvikum.

Á þingmálaskrá heilbrigðisráðherra fyrir 151. löggjafarþing er áætlað að leggja fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um réttindi sjúklinga, nr. 74/1997. Með frumvarpinu er ekki ætlunin að auka heimildir til þvingunar né inngripa á heilbrigðisstofnunum miðað við gildandi framkvæmd, einungis er ætlunin að tryggja fullnægjandi lagaheimildir fyrir þeim inngripum sem talið er nauðsynlegt að beita í undantekningartilvikum ásamt því að tryggja réttindi sjúklinga, s.s. með rétti til endurskoðunar ákvarðana og eftirliti með beitingu þvingana.

Tengd mál

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Landssamtökin Þroskahjálp - 05.01.2021

Í kynningu frumvarpsins í samráðsgátt kemur fram að tilgangur frumvarpsins sé að tryggja fullnægjandi lagaheimildir í þeim algeru undantekningartilvikum þegar sjúklingar eru beittir þvingunum og að meðalhófs verði þá gætt og eftirlit verði með beitingu slíkra þvingana.

Athugasemdir við núverandi framkvæmd þvingana á geðdeildum hafa verið gerðar af hálfu umboðsmanns Alþingis og nefndar samkvæmt Evrópusamningi um varnir gegn pyndingum og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Þær athugasemdir eru ekki þess efnis að þvingaðri meðferð eða valdbeitingu sé beitt að óþörfu heldur beinast aðfinnslur beggja aðila að því að slík alvarleg inngrip í stjórnaskrárbundin mannréttindi fái ekki staðist nema um þau sé skýr ákvæði í lögum. Núverandi ástand þar sem ákvörðun um slík inngrip eru tekin af starfsfólki geðheilbrigðisstofnana án skýrra lagaheimilda sé óásættanlegt.

Landssamtökin Þroskahjálp taka undir það sjónarmið að þörf sé á að setja í lög skýrar skilgreiningar á því hvenær heimilt geti verið að beita þvingun af þessu tagi. Nauðsynlegt er að skrá öll slík atvik þar sem tilgreint er m.a. hver er ástæða þvingunar, til hvaða þvingana hafi verið gripið svo og hvaða önnur úrræði, án þvingunar, hafi verið fullreynd áður.

Landssamtökin Þroskahjálp hafa stutt það fyrirkomulag sem verið hefur samkvæmt lögum um réttindagæslu fyrir fatlað fólk, frá árinu 2011, að heimilt geti verið að beita fólk þvingun sé hætta á að fólk skaði sig eða aðra eða valdi stórfelldu tjóni. Forsenda stuðnings samtakanna fyrir slíku inngripi er að um þau gildi skýr lagaákvæði þar sem m.a. er tilgreint í hverju nauðung geti falist og að tryggt sé að tilvik séu vel skráð og öll framkvæmt undir fullgnægjandi og virku eftirliti.

Samtökin áskilja sér rétt til að koma frekari athugasemdum við frumvarpið á framfæri við meðferð þess á Alþingi.

Virðingarfyllst.

Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður Þroskahjálpar.

Afrita slóð á umsögn

#2 Geðhjálp - 11.01.2021

Heilbrigðisráðuneytið

Skógarhlíð 6

105 Reykjavík

Reykjavík 11. janúar 2021

Umsögn Landssamtakanna Geðhjálpar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um réttindi sjúklinga, nr. 74/1997

Skaðalögmál John Stewart Mill hefur gegnt mikilvægu hlutverki í vestrænni löggjöf þegar kemur að meðferð og vistun geðsjúkra síðustu aldir. Inntak lögmálsins er í stuttu máli: „að hvert siðað samfélag geti svipt einstaklinga frelsi sínu séu þeir hættulegir sjálfum sér eða öðrum“. Lögmálið hefur gert framkvæmdavaldi ríkisins, á forsendum laga, það kleift að beita frjálsa einstaklinga þvingun og valdi. Lögmálið hefur skilið eftir „op" í lögum, hvort sem það eru sérlög um geðsjúka eða almenn löggjöf, þar sem heilbrigðiskerfinu er heimilað að beita þvingun og valdi er kemur að vistun og meðferð einstaklinga. Þvingunin hefur líkt og annað í heilbrigðisþjónustu helst þróast á forsendum þjónustuveitenda og gerir huglægt eðli lögmálsins og málaflokksins það að verkum að þjónustuveitendur hafa geta stillt það af eftir sínum hentugleik. Þvingun og valdbeiting er alltaf ofbeldi í ítrasta skilningi orðsins og því getur því miður alltof oft fylgt enn meira ofbeldi og upplifað brot á mannhelgi auk lífsgæðaskerðingar. Það var eitt af meginmarkmiðum Alþingis árið 2015 með breytingum á lögræðislögum að lágmarka ofbeldi og mögulega lífsgæðaskerðinu sem leiðir af „löglegum" þvingunum og valdbeitingu. Það var göfugt markmið en erfitt er að vinna með þá þversögn að þvinga meðferð; nauðung, þvinganir og ofbeldi fara ekki saman við læknandi meðferð.

Eins og fyrr er getið hafa breytingar á lögum og réttindum sjúklinga nær undantekningalítið verið á forsendum þjónustuveitenda og oftar en ekki án aðkomu þjónustuþega. Þetta frumvarp er því miður engin breyting þar á eða eins og segir í athugasemdum við frumvarpið:

„Efni frumvarpsins snertir fyrst og fremst sjúklinga á heilbrigðisstofnunum ásamt aðstandendum þeirra. Enn fremur snertir efni frumvarpsins starfsfólk heilbrigðisstofnana. Áform um frumvarp og drög að frumvarpi voru birt til samráðs á Samráðsgátt stjórnvalda. Mikið samráð var við Landspítala. Samráð var við dómsmála- og félagsmálaráðuneyti með reglulegum fundum en unnið er að löggjöf um öryggisgæslu í félagsmálaráðuneyti sem tengist efni þessa frumvarps að einhverju leyti.“

Hagsmunasamtök notenda og aðstandenda voru ekki höfð með í ráðum við frumvarpsgerðina og er það miður. Því eins og segir í athugasemdinni: „Efni frumvarpsins snertir fyrst og fremst sjúklinga á heilbrigðisstofnunum.“ Raunverulegt samráð er ekki að setja frumvarp í samráðsgátt þegar það hefur verið skrifað heldur að skrifa það í samráði í rauntíma við þann hóp sem hefur mestra hagsmuna að gæta. Að þessu sinni eru það notendur þjónustu geðþjónustu heilbrigðiskerfisins en til þeirra var ekkert leitað.

Að mati Geðhjálpar snýst frumvarpið fyrst og fremst um að endurtaka greinar 19 og 28 úr lögræðislögunum þar sem fyrst er byrjað á að taka fyrir það að sjálfráða einstaklingar verði beittir nauðung en svo kemur „nema“ og réttlæting þess að beita einstaklinga með geðraskanir nauðung og þvingun. Það verður ekki séð að með þessu frumvarpi sé mikil framför frá þeim breytingum sem gerðar voru á lögræðislögunum árið 2015.

Í heimsóknarskýrslu umboðsmanns Alþingis á þrjár lokaðar deildir geðsviðs Landspítalans í október 2018 kom fram að mannréttindi notenda væru brotin þar nær daglega. Benti umboðsmaður á að lagaheimildir skorti. Umboðsmaður benti á ýmislegt annað m.a. að dagleg útivera væri ekki tryggð öllum sem liggja á þessum lokuðu deildum. Geðhjálp tók undir þessar athugasemdir umboðsmanns en benti jafnframt á hugmyndfræði og meðferð sem eru lykilatriði þegar kemur að því að draga úr þvingun og nauðung á geðdeildum. Það eru því Geðhjálp vonbrigði að í stað þess að ráðast í endurskoðun á hugmyndafræði og meðferð auk þess að ráðast í byggingu nútímalegs meðferðarkjarna geðsviðs, eru lögin lagfærð svo það verði ekki lengur lögbrot að brjóta á réttindum notenda þjónustunnar.

Stjórn Landssamtakanna Geðhjálpar telur þrátt fyrir þetta að það sé jákvætt að ráðist hafi verið í vinnu við endurskoðun á þvingunarúrræðum og það er vissulega margt til bóta í frumvarpinu. Skráning atvika er þannig afar mikilvæg en í dag veit t.d. enginn hve oft þvingunum er beitt á deildum geðsviðs Landspítalans sem er auðvitað algjörlega óásættanlegt. Í frumvarpinu er enn fremur tilgreint nokkuð nákvæmlega hvernig verklagið á að vera þegar beita á nauðung og er það talsverð framför.

Komið er á fót sérfræðiteymi sem í situr fulltrúi með notendareynslu sem er jákvætt en í drögum var gert ráð fyrir að notendur hefðu meira vægi en nú er gert ráð fyrir og það er miður að því skuli hafa verið breytt. Geðhjálp ítrekar þá skoðun að í sjö manna sérfræðiteymi skuli tryggt að einstaklingar með notendareynslu séu a.m.k. þrír. Sporin í tengslum við lög um réttindagæslu fatlaðra og undanþágur og sérfræðiteymi sem þar er kveðið á um hræða því miður. Fá mál berast sérfræðiteyminu miðað við þann fjölda tilvika þar sem ætla má að nauðung sé beitt og Geðhjálp telur víst að þjónustuveitendur á geðdeildum landsins hafi aldrei unnið eftir þeim ákvæðum sem þar koma fram þrátt fyrir að hafa beitt fatlaða notendur þjónustunnar nauðung.

Í VII. kafla 28. gr. frumvarpsins er kveðið á um bann við beitingu nauðungar en í 29. gr. þess er fjallað um undanþágur. Þær undaþágur eru því miður of rúmar og geta þannig gefið yfirlækni eða vakthafandi lækni of mikið svigrúm til að beita nauðung. Í undaþágukaflanum segir m.a. „Að tilgangur nauðungar eða fjarvöktunar sé eftirfarandi:

Að koma í veg fyrir að sjúklingur valdi sjálfum sér eða öðrum líkamstjóni eða stórfelldu eignatjóni. Það á einnig við fyrirbyggjandi aðgerðir sem ætlað er að forða því að aðstæður komi upp sem leitt geta til líkamstjóns eða stórfellds eignatjóns.

Að uppfylla grunnþarfir viðkomandi einstaklings, svo sem varðandi mat, heilsu og hreinlæti, eða til þess að draga úr hömluleysi sem af sjúkleika kann að leiða.“

Draga úr hömluleysi sem af sjúkleika kann að leiða er nýtt, huglægt og afar óljóst orðalag í lagatexta og erfitt að meta hvenær einstaklingur er svo hömlulaus að þurfi að beita hann nauðung. Í gegnum tíðina hefur það sýnt sig að undanþágur eiga það til að verða að reglu þegar hægt er að túlka um of og þetta orðalag er einmitt til þess fallið.

Geðhjálp ítrekar þá skoðun að byrjað sé á öfugum enda og spurningin sem hefði átt að liggja til grundvallar er: Hvernig má koma í veg fyrir nauðung og þvingun? Það verður ekki gert með því að búa til lagaramma í kringum beitingu valds og nauðungar. Hugmyndafræðin og sú meðferð sem viðhöfð er á geðdeildum landsins er því miður ekki til þess fallin að draga úr beitingu nauðungar. Húsnæði geðheilbrigðisþjónustu er auk þess, eins og margoft hefur verið bent á, úr sér gengið og alls ekki til þess fallið að flýta fyrir meðferð endurhæfingu notenda sem þar dvelja.

Stjórn Geðhjálpar vill í lok þessarar umsagnar minna stjórnvöld á tvennt. Í fyrsta lagi að þegar ráðast á í breytingar á lögum sem skarast, eins og er um þessi lög, lögræðislög, hegningarlög og lög um réttindi fatlaðra, verði að tryggja samráð og samstarf milli þeirra ráðuneyta sem eiga í hlut og samráð við alla haghafa frá upphafi ferils. Með því sé tryggt að samræmi sé á milli laga og þannig betri þjónusta og réttaröryggi gagnvart notendum. Í öðru lagi leggur stjórn það enn á ný til við stjórnvöld að þau skoði þann möguleika vandlega að ráðast í það tímabundna tilraunaverkefni að gera Ísland að þvingunarlausu landi.

Virðingarfyllst,

Stjórn Landssamtakanna Geðhjálpar

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#3 Guðmundur Steinn Gunnarsson - 11.01.2021

0.

Áður en lengra er haldið er mér ofarlega í huga að minnast á það að þvingun er í rauninni orð yfir löglegt ofbeldi. Lög þessi fjalla ef ég skil það rétt, um að bannað sé að beita ofbeldi og undir hvaða kringumstæðum það sé leyfilegt eða jafnframt æskilegt. Meira um það í lokin.

1.

Það er áhugavert að þarna sé hornklofi - því að þessi gerð nauðungar sker sig úr frá öðrum því að í henni er alltaf verið að leggja líf sjúklingsins og langtímaheilsu í verulega hættu, b-liður 7. greinar birtist innan hornklofa:

b. [Sjúklingi er haldið föstum og gefið lyf í þeim tilgangi að draga úr ofbeldisfullri hegðun.]

Fjölmargar rannsóknir sýna fram á umtalsverða dánartíðni af völdum geðrofslyfja*. Þar sem fólk er neytt til þess að taka þau og aðstandendur yfirleitt ekki upplýstir um áhættur er geðlæknum í raun gefið leyfi til að leggja fólk í lífshættu að eigin frumkvæði án þess að hafa líffræðilegar sannanir fyrir sjúkdómsgreiningu né haldbæra sönnun fyrir því að sjúklingur sé í hættu.

Án efa hefur fjöldi Íslendinga látist af völdum geðrofslyfja. Þetta þarf því að hafa skýran lagaramma því um er að ræða mjög hættuleg efni og rannsóknir hafa sýnt að nauðungarlyfjagjöf getur aukið líkur á skyndilegum dauða t.d. Vegna Neuroleptic Malignant Syndrome eða annarra svokallaðra Extra-Pyramidal aukaverkanna.

2.

Þá aukast hætturnar við langtímanotkun og auknar líkur eru á örorku einstaklings sem þiggur slík lyf yfir langan tíma. Þetta er tekið fram í 31. grein að yfirlæknir eða vakthafandi sérfræðilæknir hafi heimildir til að halda fólki til 6 mánaða í senn. Ég hvet lesanda til að íhuga að vera í þeirri stöðu að vera beittur þvingunum þeim sem hér er lýst í 6 mánuði samfellt.

Aukaverkanir lyfja sem sumar eru varanlegar innihalda ósjálfráðar hreyfingar, taugakippi, þvoglumælgi og viðstöðulausan munnvatnsmissi (slef). Þetta mun reynast ríkinu dýrt á heildina litið.

Sex mánuðir er líka langur tíma í ljósi þess að ef sjúklingur hlýtur áverka snemma í sjúkrahúsdvölinni vegna þvingunaraðgerða er líklegt að einhverjir þeirra hafi gróið þegar sjúklingi er hleypt út og ekki hægt að nýta sem sannanir í kærumáli. Þarna er geðlæknum gefið öflugt tæki til þöggunnar.

3.

Það er mjög mikilvægt að lögbundið eftirlit með þessum ferlum sé ekki allt í höndum geðlækna. Allir geðlæknar hafa borið ábygð á slíkum verknaði á einhverjum tímapunkti og því líklegir til að standa saman. Þar sem það eru geðlæknar sem skrá skýrslurnar er þetta augljós hagsmunaárekstur. Þegar sjúklingur lendir í nauðung er þegar dregið úr öllum trúverðugleika viðkomandi og niðurlægingin er algjör. Það er eins og ríki, dómstólar, spítalar, lögregla og háskólar - í raun allar valdamestu stofnanir landsins sameinist gegn einstaklingnum. Dómsmál eru ekki auðunnin auk þess sem sjúklingur er oft samanbrotin eftir slíka meðferð óháð því hvað annað hefur gengið á.

Einhver utanaðkomandi aðili, jafnvel inna spítala - félagsráðgjafi eða sálfræðingur þyrfti að vera málsvari sjúklings og sjá til þess að álit sjúklings sé skráð í samræmi við óskir sjúklings en ekki endurorðað af geðlækni.

Undir núverandi kringumstæðum stendur geðlæknir báðu megin við borðið. Læknismeðferð hvers konar byggir á trausti, sé það ekki til staðar er erfitt að álykta að um lækningu sé að ræða.

Best væri fyrir geðlækningar til þess að geta veirð teknar alvarlega sem læknisfræðigrein, ef öryggismál væru ekki í höndum lækna heldur öryggisvarða og læknar sæju í raun og veru um að lækna. Lög þessi sem og núverandi starfshættir grafa því undan traustssambandi læknis og sjúklings sem álitið er nauðsynlegt í öðrum greinum læknisfræðinnar.

4.

Best væri ef að sjúklingur gæti skilað skýrslu eftir að nauðung líkur og skilað til umræddrar nefndar til þess að segja sína hlið á málinu og deila sinni upplifun ef ske kynni að skráning í sjúkraskrá viðkomandi væri með rangfærslum eða einhverjir atburðir ekki skráðir

5.

Þá ættu hótanir um nauðung að vera flokkaðar sem nauðung og skráðar sem slíkar.

6.

Æskilegt væri að bjóða upp á langtímaeftirlit (4 ár +) með fólki sem hefur orðið fyrir nauðung og bjóða upp á meðferð við áfallastreituröskun þar sem jafnframt eru skráð eftirköst og einkenni þeirra. Oft koma upp endurupplifanir (flashback) eða aðrar sambærilegar upplifanir sem líkjast upplifunum hjá fórnarlömbum nauðgana. Þetta getur eitt og sér hróflað við öðrum vandamálum sem fyrir eru og því sem olli því að einstaklingur fór á geðdeild til að byrja með. Það eitt og sér getur ógnað öryggi fjölskyldna og haft áhrif á svefn, mataræði og heilsu sjúklings.

Eftirmeðferð sem þessi yrði að vera á kostnað ríkisins og niðurstöður hennar skráðar í sjúkraskrá til að geðlæknar hafi yfirsýn yfir þennan hluta meðferðarinnar ef að innlögn sjúklings kemur á ný.

7.

Fjöldi sjálfsmorða hér á landi er gríðarlegur ef við berum það saman við t.d. Farsóttir, náttúruhamfarir, ofbeldisglæpi og bílslys. Það er hins vegar vafasamt að láta sérfræðilækna áætla útfrá utanaðkomandi hegðun hvort manneskja sé hættuleg sjálfri sér því það verður með engu móti sannað fyrirfram nema manneskja segji það sjálf. Auk þess þyrftu að liggja fyrir ítarleg gögn um tengsl þvingunar og sjálfsmorða því allt eins líklegt er að þvingun auki líkur á sjálfsmorðum til lengri tíma litið en styttri.

Þá er ákveðin mótsögn í lögum að leyfilegt er að binda enda á meðgögnu fram yfir hana miðja en einstakingur virðist ekki með nokkru móti hafa jafn mikinn sjálfsákvörðunarrétt yfir eigin líkama eins og líkama barns. Ef meðgöngurof er löglegt ætti sjálfsskaði hvers konar að vera það líka og ekki gefa heimildir til utanaðkomandi ofbeldis eða afskipti ríkis eða lækna.

8.

Að lokum. Enginn geðsjúkdómur byggist á líffræðilegri greiningu. Ef svo væri myndi viðkomandi sjúkdómur samstundis flokkast sem annars konar sjúkdómur. Mögulega sem heila- og/eða taugasjúkdómur eða eitthvað slíkt.

Að því sögðu, af hverju ætti læknir að hafa leyfi til þess að beita fólk ofbeldi? Því eru vandamál hugans og tilfinninganna lögð í hendur fólks sem veit að öllu jöfnu lítið um hvort tveggja. Það eru ekki vísindaleg rök fyrir neinu er varðar nauðung í meðferð - öll gögn benda í hina áttina.

Hver ein og einasta geðdeild á Íslandi (sem og annars staðar) er eins og Stanford fangelsis tilraunin. Gefðu fólki óskorað vald, yfir einstaklingum sem hafa enga rödd, eru ólíklegir til að svara fyrir sig eða teknir alvarlega af réttarkerfi, stjórnvöldum eða samfélaginu almennt. Á kreiki eru sögur um lyfjanauðganir starfsfólks á geðdeidum LSH. Sögurnar sem nýlega hafa komið upp af Arnarholti og Kópavogshælinu eru bara toppur á ísjakanum. Það er ekkert sem tryggir það að sambærilegt ofbeldi, misbeiting og vanræksla eigi sér ekki stað nú þegar á ríkisstofnunum á kostnað skattgreiðenda. Best væri ef ríkið og spítalar þess skiptu sér ekki að líðan fólks og hugsuðu fyrst um sína eigin.

Eitt er víst að þvinganir af þessu tagi eru ekki góðar fyrir neinn, síst af öllu geðlækna og ríkið. Þá er deginum ljósara að þær gera landið ekki öruggara. Geðæknisfræðin þarf að gera upp við sig hvort það sé á hennar ábyrgð að vernda samfélagið gagnvart „hættulegum einstaklingum“ og vera þar með hluti af lögregluefturliti eða hjálpa sjúklingum á forsendum sjúklinga líkt og önnur læknisfræði.

*Sjá t.d.:

Meghan E. Jones, Giedra Campbell, Deven Patel, Elizabeth Brunner, Chetan C. Shatapathy, Tarita Murray-Thomas, Tjeerd P. van Staa, Stephen Motsko, "Risk of Mortality (including Sudden Cardiac Death) and Major Cardiovascular Events in Users of Olanzapine and Other Antipsychotics: A Study with the General Practice Research Database", Cardiovascular Psychiatry and Neurology, vol. 2013, Article ID 647476, 13pages, 2013. https://doi.org/10.1155/2013/647476

Afrita slóð á umsögn

#4 Guðmundur Steinn Gunnarsson - 12.01.2021

9. (viðauki við fyrra bréf)

Ég vil biðja lesanda um að íhuga að með þessu frumvarpi er í raun verið að gera yfirlækni hverrar geðdeildar og eða vakthafandi sérfræðilæknis að valdamesta fólki landsins. Þeir geta haldið fólki inni án nokkurra sannana, hvorki á sjúkdómsgreiningu eða öðru, því greiningin byggir aðeins á skoðun geðlæknis á hegðun eða útliti sjúklings.

Dæmi eru um að þess konar heimildir hafi verið misnotaðar í pólitískum tilgangi í öðrum löndum - en svo virðist sem óljósar heimildir af þessu tagi hafi oftar en einu sinni verið notaðar til þess að þagga niður í fórnarlömbum kynferðis- eða kynbundins ofbeldis.

Geðlækni þarf bara að finnast sjúklingur geta sett sjálfan sig eða aðra í hættu, eða þarf í raun einungis að segja að honum finnist sjúklingur geta sett sjálfan sig eða aðra í hættu en engar skilgreiningar eru á því hvernig læknirinn metur það eða hvað telst nægjanleg sönnun. Því getur geðlæknir ákveðið það um hvern sem er, hvenær sem er, undir hvaða kringumstæðum sem er.

Þegar verknaði er lokið er hægt að hóta einstaklingi áfram til hlýðni, setja viðkomandi í ítrekaðar raflost meðferðir gegn hótun um eitthvað verra, þar til sjúklingur hlýtur alvarleg minnisglöp. En fyrir þá sem ekki vita eru slíkar meðferðir gerðar þannig að sjúklingur fær deyfilyf til þess að viðkomandi beinbrotni ekki í þeim taugakippum sem raflostið veldur - einnig er sjúklingur látinn bíta í eitthvert stykki til að koma í veg fyrir að viðkomandi bíti af sér tunguna eða brjóti úr sér tennur meðan raflostið líður yfir. Engar breytingar hafa orðið á þessari meðferð frekar en annarri í þessari grein læknisfræði í áratugi.

Samkynhneigð var skilgreind sem geðsjúkdómur þar til á 8.áratugnum. Heilaskurðaðgerðir voru notaðar í mörgum löndum þar til nýlega gegn fólki með geðraskanir sem einungis eru greinanlegar útfrá hegðun. Hægt er að eyðileggja heila og líkamsstarfssemi með þeim lyfjum sem nú eru notuð til „geðlækninga.“ Nauðungalyfjagjöf er fínt orð yfir taugaeituráras því neuroleptar eru í rauninni taugaeitur.

Þá bið ég lesanda um að sjá sjálfan sig fyrir sér í þeirri aðstöðu að geta verið beitt/(ur)

a. líkamlegri valdbeitingu

b. nauðungarlyfjagjöf

c. einangrun

d. verið læstur inni

e. ferðafrelsi skert með öðrum hætti

f. vera fluttur milli staða gegn vilja (fyrir framan aðra)

g. aðgangur að eigin eignum skertur

h. valdi eða þvingun

i. leit gerð í herbergi

j. rannsókn gerð á póst og bréfasendingum (t.d. ef viðkomandi væri að óska eftir utanaðkomandi hjálp)

k. aðgangur að tölvu eða síma takmarkaður

. . . en einnig hleranir og persónunjósnir með myndavélum.

Ekkert að ofantöldu virðist bannað þegar undanþágur eða neyðartilvik eiga sér stað. Á geðdeildum er alltaf neyð og alltaf undantekning. Öll lög eru túlkuð mjög vítt. Þegar svona úrræðum er ekki beitt er hótað að nota þau. Þá bið ég lesanda um að íhuga hvað sér fyndist ef slíkar aðgerðir yrðu notaðar gegn barni viðkomandi, maka, ættingum eða vinum.

Þá bið ég lesanda um að spyrja sig hvort honum eða henni finnist stjórnmálamenn í öðrum flokkum hættulegir sjálfum sér öðrum og/eða geta mögulega valdið umtalsverðum skaða á almenningshagsmunum. Ef að Alþingi hefði einn vakthafandi lækni til að fylgjast með gangi mála og grípa inn í þegar viðkomandi fyndist nóg komið, hvað haldiði að margir stjórnmálamenn hefðu fengið nauðungarlyf, verið settir í einangrun og svo framvegis og svo framvegis.

Þar sem greiningin byggir bara á skoðunum einnar manneskju á utanaðkomandi hegðun fólks er alls ekkert fráleitt við þessa líkingu.

Fyrir þá sem eru að íhuga að samþykkja þessa löggjöf án nokkurra breytinga óska ég ykkur nauðungarvistunnar svo þið megið finna á eigin skinni þann glæp sem þið gerið öðrum.

Fólk sem hefur orðið fyrir áföllum þarf vissulega oft á hjálp að halda. Hugsanlega getur ríkið og spítalar þess hins vegar bara gert illt verra og er betra að láta fólk alfarið í friði. Til eru lögregla og réttarkerfi sem geta séð um sakamál. Fyrir þá sem ekki hafa framið glæp er óþarfi að láta lækna giska á hvort þeir munu mögulega fremja glæp - því undir einhverjum kringumstæðum myndu allir beita ofbeldi og fremja glæpi ef gengið er nógu harkalega að þeim.

Þá bið ég í lokinn lesanda að íhuga vandlega hvort það myndi hvarfla að viðkomandi að fremja glæp eftir að hafa fengið 6 mánaða nauðungarmeðferð sem innihéldi kokteil að úrræðum og aðgerðum sem lýst er hér að ofan.

virðingarfyllst,

Guðmundur Steinn Gunnarsson