Samráð fyrirhugað 29.12.2020—25.01.2021
Til umsagnar 29.12.2020—25.01.2021
Niðurstöður í vinnslu frá 25.01.2021
Niðurstöður birtar 04.02.2021

Grænbók um byggðamál

Mál nr. 274/2020 Birt: 29.12.2020 Síðast uppfært: 04.02.2021
  • Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið
  • Annað
  • Málefnasvið:
  • Sveitarfélög og byggðamál

Niðurstöður birtar

Sjá niðurstöðuskjal.

Nánar um niðurstöður

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 29.12.2020–25.01.2021. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 04.02.2021.

Málsefni

Grænbók þessari, sem hér er lögð fram í samráðsgátt stjórnvalda, er ætlað að veita upplýsingar um núverandi stöðu byggðamála. Leitast er við að svara því hvernig núgildandi byggðaáætlun hefur reynst og hverjar séu helstu áskoranir næstu 15 ára. Þá eru sett fram lykilviðfangsefni og áherslur og lagðar til leiðir til að fylgja þeim eftir.

Í júní 2018 samþykkti Alþingi einróma stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2018-2024. Skömmu síðar voru gerðar breytingar á ýmsum lögum til samræmingar á áætlunum á sviði samgöngu-, fjarskipta-, sveitarstjórnar- og byggðamála sem fólu meðal annars í sér að ráðherra skyldi á að minnsta kosti þriggja ára fresti leggja fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun til fimmtán ára í senn. Þar skyldi jafnframt mörkuð aðgerðaáætlun til næstu fimm ára. Vorið 2021 verða þrjú ár liðin frá samþykkt byggðaáætlunar og því er hafin vinna við gerð nýrrar tillögu til þingsályktunar.

Mikið samráð hefur verið haft við endurskoðun byggðaáætlunarinnar, sem hófst með fundi með ýmsum haghöfum þann 11. júní sl. og sama dag var opnuð samráðsgátt á vef Byggðastofnunar. Í haust voru haldnir samráðsfundir með fulltrúum allra landshlutasamtaka sveitarfélaga, Sambands íslenskra sveitarfélaga, alþingismönnum og stýrihópi Stjórnarráðsins um byggðamál, alls 11 fundir. Tilgangur fundanna var fyrst og fremst að leita eftir skoðunum og sjónarmiðum á gildandi byggðaáætlun og áskorunum komandi ára. Fundirnir voru vel sóttir, umræður virkar og nýttust vel við gerð grænbókar.

Grænbókin er umræðuskjal og er almenningi og haghöfum boðið að leggja fram sín sjónarmið um framtíðarsýn, lykilviðfangsefni, áherslur og leiðir sem nýst gætu í stefnumótuninni. Að loknu samráði eru niðurstöður dregnar saman og mótuð stefna til 15 ára og aðgerðaáætlun til fimm ára.

Tengd mál

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Sveitarfélagið Skagafjörður - 13.01.2021

Á 948. fundi byggðarráðs Sveitarfélagsins Skagafjarðar þann 13. janúar 2021var eftirfarandi bókað.

Lagður fram tölvupóstur dagsettur 29. desember 2020 þar sem samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 274/2020, "Grænbók um byggðamál".

Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar fagnar framkominni grænbók um byggðamál. Um er að ræða afar brýnan málaflokk sem snertir ákaflega marga þætti innviða landsins alls.

Meginmarkmið grænbókarinnar er að byggðir og sveitarfélög um land allt verði sjálfbær og að þjónusta samgöngu- og fjarskiptakerfa mæti þörfum samfélagsins. Áherslur og leiðir eru einnig brýnar, þ.e. að jafna aðgengi að þjónustu, jafna tækifæri til atvinnu og stuðla að sjálfbærri þróun byggða um land allt.

Byggðarráð leggur áherslu á hversu gríðarlega mikilvægt það er að styrkja mikilvæga innviði landsins, s.s. aðgang að góðri og öruggri heilbrigðisþjónustu og hjúkrunarrýmum, tækifæri til fjölbreyttrar menntunar, tengingu heimila og atvinnulífs við öruggt raforkukerfi sem mismunar ekki íbúum landsins hvað gjaldskrár varðar, eflingu og stækkun dreifisvæðis hitaveitna, og stuðning við nýsköpun og sprotastarfsemi, svo fátt eitt sé nefnt. Allt þetta stuðlar að styrkingu byggða og atvinnulífs um land allt.

Í dag búa um 64% Íslendinga á höfuðborgarsvæðinu en sambærilegt hlutfall í nágrannalöndum okkar er 20-36%. Eðlilegt er því að stjórnvöld beiti sér fyrir jafnari búsetuskilyrðum um land allt og að fólk hafi val um að búa á þeim stað sem það kýs, án þess að það bitni á aðgengi að grunninnviðum sem hvert samfélag á að búa við.

Byggðarráð hvetur stjórnvöld til dáða við að framfylgja og innleiða markmið og áherslur grænbókarinnar sem allra fyrst.

Afrita slóð á umsögn

#2 Dalabyggð - 21.01.2021

Fjallað var um Grænbók um byggðarmál á 201. fundi sveitarstjórnar Dalabyggðar (dagskrárliður 4) þann 14. janúar 2021 og eftirfarandi umsögn samþykkt samhljóða:

Sveitarstjórn Dalabyggðar lýsir yfir ánægju með að leggja eigi fram framtíðarstefnu varðandi byggðarmál.

Sveitarstjórnin vill þó benda á að í samantekt sem þessari grænbók þá gefur sú nálgun að skoða landshlutana ekki rétta mynd. Þegar landshlutarnir eru hafðir sem viðmið verður að gæta þess að staðan innan þeirra er mjög mismunandi og t.d. verða oft minni sveitarfélög innan þeirra útundan í áherslum. Þetta á við um Vesturland þar sem uppbygging hefur fyrst og fremst átt sér stað á því svæði í landshlutanum sem næst er höfuðborgarsvæðinu. Sem dæmi þá er talað um fjölgun íbúa á Vesturlandi en það er ekki raunin í Dalabyggð. Því má ekki gleyma aðstæðum í einstökum sveitarfélögum, þó að tölur fyrir heildina sýni ágætan árangur, þegar kemur að verkefnum og aðgerðum til úrbóta.

Það eru metnaðarfull markmið sem koma fram í grænbókinni. Sveitarstjórn Dalabyggðar telur grundvallaratriði að fjármagn fylgi þeim aðgerðum og verkefnum sem á að ráðast í.

Til að koma í veg fyrir m.a. ójafnræði þegar kemur að grunnþjónustu og styrkja inniviði, þarf einnig að standa vörð um að viðhalda þeirri grunnþjónustu og þeim innviðum sem eru þegar til staðar s.s. heilsugæslu, skólum og þjónustu við eldri borgara.

Þegar talað er um atvinnutækifæri, nýsköpun og að nýta eigi fjórðu iðnbyltinguna, þarf að fylgja því eftir að slíkt nái til allra sveitarfélaga og að þau hafi tækifæri til þess að taka þátt. Síðustu mánuðir hafa sýnt að tæknin getur boðið upp á margar lausnir og tækifæri á ýmsum sviðum s.s. þegar kemur að atvinnu og menntun.

Afrita slóð á umsögn

#3 Norðurþing - 22.01.2021

Sveitarstjórn Norðurþings telur raunsætt mat á stöðu byggðar í landinu koma fram í Grænbók um byggðarmál og eðlilegt að stjórnvöld beiti sér fyrir jafnari búsetuskilyrðum um land allt. Þannig geta íbúar landsins öðlast raunhæft val um búsetukosti, án þess að það bitni á aðgengi þeirra að þeim grunninnviðum sem hvert samfélag þarf að búa yfir.

Sveitarstjórn leggur áherslu á gott að aðgengi að grunnþjónustu eins og góðri heilbrigðisþjónustu, hjúkrunarrýmum og fjölbreyttri menntun óháð búsetu. Þá telur sveitarstjórn mikilvægt að haldið verði áfram uppbyggingu innviða á sviði samgangna, fjarskipta og raforku og að áhersla verði lögð á starfræna þróun, nýsköpun og sprotastarfsemi. Framangreint skapar frjórri jarðveg fyrir fjölbreytt atvinnulíf og aukin búsetugæði.

Sveitarstjórn Norðurþings tekur undir áherslu Grænbókar um að skapa þurfi fjölbreytt og verðmæt störf um land allt, þar með talin störf án staðsetningar. Þá er sveitarstjórn sammála því áhersluatriði sem fram kemur í Grænbók um að greina og vinna með styrkleika einstakra landshluta í þeim tilgangi að byggja upp sjálfbær byggðalög, öflug sveitarfélög með sterka byggðakjarna og gott aðgengi að þjónustu, menningu og afþreyingu. Sveitarstjórn telur jafnframt farsælt skref fyrir byggðir landsins að byggðaáætlun verið samþætt öðrum áætlunum ríksins með tilliti til aðgerðaáætlana og fjármögnunar á aðgerðum.

Afrita slóð á umsögn

#4 Sigurður Sigursveinsson - 24.01.2021

Sjá viðhengi

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#5 Stykkishólmsbær - 25.01.2021

Hjálögð er umsögn Stykkishólmsbæjar.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#6 Vesturbyggð - 25.01.2021

Meðfylgjandi er umsögn Vesturbyggðar.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#7 Samband íslenskra sveitarfélaga - 25.01.2021

Hjálagt sendist umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga

F.h. sambandsins

Guðjón Bragason

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#8 Öryrkjabandalag Íslands - 25.01.2021

Meðfylgjandi er umsögn Öryrkjabandalags Íslands.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#9 Skútustaðahreppur - 25.01.2021

Sveitarstjórn Skútustaðahrepps fagnar framkominni grænbók um byggðamál. Um er að ræða brýnan málaflokk sem hefur tengingu við flesta þætti íslensks samfélags og innviði landsins alls.

Með grænbókinni er haghöfum, þ.m.t. almenningi, gert kleift að hafa áhrif á byggðaáætlun og koma á framfæri sjónarmiðum um framkvæmd hennar. Byggðaáætlun er mikilvægt tæki til að stuðla sjálfbærni byggða og sveitarfélaga um land allt og að þjónusta og innviðir um allt land mæti þörfum samfélagsins.

Skútustaðahreppur fagnar þeim áherslum sem fram koma í töflu 1 á bls 14. þar sem kemur fram að markmið nýrrar byggðastefnu sé að ,,efla samkeppnishæfni á grunni svæðisbundinna styrkleika“. Í Því ljósi leggjum við áherslu á mikilvægi þess að nýsköpun og umhverfismálum verði gert hátt undir höfði í byggðaáætlun. Jafnframt er mikilvægt að styrkja mikilvæga innviði landsins og má þar t.d. nefna aðgang að staðbundinni heilbrigðisþjónustu og fjarheilbrigðisþjónustu, sem og hjúkrunarrýmum. Hyggja þarf að geðheilbrigði, ekki síður en líkamlegu heilbrigði og horfa sérstaklega til forvarna og fræðslu. Tækifæri til fjölbreyttrar menntunar þarf að tryggja og að uppbygging höfuðborgarsvæðis og annarra þéttbýlissvæða gangi ekki á möguleika dreifbýlli svæða til þróunar og sjálfbærrar nýtingar eigin auðlinda, t.d. orkuauðlinda. Að sama skapi er mikilvægt að dreifing orku miðist við þarfir samfélagsins og uppbyggingu staðbundinnar verðmætasköpunar, þar sem meginstef sé fullnýting orku og sjálfbær samfélags- og umhverfisþróun. Eftirlitskerfi með matvælaframleiðslu þarf að taka mið af raunverulegu áhættumati og líta þarf á „úrgang“ sem auðlind sem eigi að nýta í staðbundnu hringrásarhagkerfi, sé þess kostur. Þá er sérstaklega mikilvægt að hugað verði að uppbyggingu ,,mjúkra“ innviða og velta má upp hvort árangursmælikvarðar byggðastefnu verði ekki einnig að taka mið af slíkum sjónarmiðum. Ætti hamingja fólks ekki að vera mælikvarði?

Einungis þriðjungur íbúa á Íslandi eiga í dag lögheimili utan höfuðborgarsvæðisins. Sambærilegt hlutfall í nágrannalöndum okkar er 64-80%. Samþjöppun íbúa á þröngt afmarkað svæði á landinu skapar kerfislæga áhættu fyrir samfélagið og dregur úr möguleikum Íslands til umbyltandi nýsköpunar sem getur haft mikil áhrif á áskoranir samtímans, t.d. tengt loftslagsmálum og bindingu kolefnis með sjálfbærri landnotkun. Með skýrri samþættingu loftslags- og byggðamála og áherslu á tækifæri sem felast í sjálfbærri landnýtingu má ná miklum árangri og nýta fjármagn sem fer til aðgerða í loftslagsmálum með skilvirkum hætti.

Fjárfesting í nýsköpun á Íslandi er að stærstum hluta á höfuðborgarsvæðinu og dregur það úr möguleikum annarra svæða til framþróunar. Mikilvægt er að styðja með beinum hætti við frumkvöðla, fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélög utan þéttustu byggðakjarna til að ná auknum árangri í nýsköpun og takast á við brýnar samfélagslegar áskoranir. Ríkisframlög til stofnana, sem flestar eru staðsettar á þéttbýlustu svæðum landsins, tryggja nauðsynlegt grunnrekstrarfé þeirra, þ.a sækja megi frekara fé til nýsköpunar í þessum stofnunum í samkeppnissjóðum og með samstarfi við einkaaðila. Slíkum grunnframlögum er sjaldnast fyrir að fara utan höfuðborgarsvæðisins. Sveitarstjórn Skútustaðahrepps vill lýsa ánægju sinni með 20 milljóna framlag jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til verkefnisins „Nýsköpun í norðri“ (NÍN), en það verkefni er samstarfsverkefni Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar. Með framlagi jöfnunarsjóðs var sveitarfélögunum gert kleift að virkja íbúa til aukinnar nýsköpunar og sækja aukið fjármagn til innlendra og erlendra aðila. Þannig hafa skapast „snjóboltaáhrif“ sem m.a. hafa haft áhrif á vinnu við uppfærslu aðalskipulags og skapað a.m.k. 6-8 einstaklingum störf tengt nýsköpun á svæðinu.

Sveitarstjórn Skútustaðahrepps tekur undir sjónarmið, sem koma fram í grænbókinni, þess efnis að rýna þurfi starf á vegum ríkisins með „byggðagleraugum“, á sambærilegan hátt og gert hefur verið með góðum árangri út frá kynjasjónarmiðum. Þannig mætti sjá fyrir að „byggðajafnrétti“ verði náð á skömmum tíma með beinum aðgerðum og skýrum lagaramma. Eðlilegt væri t.d. að a.m.k. verulegur hluti (30-50%) stjórnarmanna í opinberum fyrirtækjum og stofnunum eigi lögheimili utan höfuðborgarsvæðis til að tryggja fjölbreytta sýn í stjórnun ríkisaðila. Þá er mikilvægt að fundamenning fjarfunda, sem skapast hefur vegna Covid-19, verði þróuð enn frekar og fulltrúum í stjórnum, starfshópum og ráðum utan höfuðborgarsvæðisins þannig gert kleift að starfa með sambærilegum hætti og íbúum höfuðborgarsvæðisins. Þá er jafnframt bent á sparnað og lægri losun koldíoxíðs í þessu sambandi.

Störf án staðsetningar eru afar mikilvæg aðgerð tengt byggðaþróun. Lagt er til að markmið þar að lútandi verði uppfærð strax, þ.a. stefnt verði að því að 25% allra auglýstra starfa í ráðuneytum og stofnunum þeirra verði án staðsetningar árið 2022 þannig að búseta hafi ekki áhrif við val á starfsfólki í ráðuneytum. Störf án staðsetningar hafa verið til umræðu um nokkra hríð. Þó vissulega hafi meira gerst á síðustu misserum í þeim efnum en áður, gengur hægt að brjóta upp íhaldssaman stofnanakúltúr ríkisins, sem einblínir á Reykjavíkursvæðið fyrir starfsstöðvar og stuðlar þannig að enn frekari byggðaröskun. Covid-19 hefur kennt okkur að fjarfundir og fjarvinna geta virkað mjög vel og er því ástæða til að nýta þá reynslu og skerpa á og flýta markmiðum um störf án staðsetningar. Þá er afar mikilvægt að haldið verði utan um raunverulegan fjölda starfa án staðsetningar hjá stofnunum ríkisins og gripið til viðeigandi ráðstafana gangi markmið um störf án staðsetninga ekki eftir.

Eins og bent er á í grænbókinni er staða Íslands og Noregs sambærileg gagnvart regluverki evrópska efnahagssvæðisins. Vænlegt væri að leita í smiðju Norðmanna varðandi aðferðir til byggðaþróunar, s.s. tengt jöfnun flutningskostnaðar, mismunandi tryggingagjaldi af launum, afskriftum námslána, lægri tekjuskatti og hærri barnabótum, auk stefnumiðaðra verkefna á borð við nýsköpun tengt loftslagsmálum og landnýtingu. Í þessu samhengi er bent á þann árangur Norðmanna að einungis 30% íbúa eiga lögheimili á höfuðborgarsvæði þar í landi, en 64% hér, sem fyrr segir.

Skútustaðahreppur fagnar þeim árangri sem náðst hefur í byggðaþróun í tíð núverandi ríkisstjórnar og hvetur stjórnvöld til dáða í þessum efnum.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#10 Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra - SSNE - 25.01.2021

Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra, SSNE, leggja hér fram umsögn sína um drög að Grænbók um byggðamál. Umsögnin felur í sér svör við þeim spurningum sem settar eru fram í drögunum og er eftirfarandi:

1. Hver er skoðun þín á stöðumatinu?

Stöðumatið er gott yfirlit og heldur vel utan um efnið.

Góðir samráðsfundur voru haldnir í aðdragandanum að gerð stöðumatsins

2. Hver er skoðun þín á þeirri framtíðarsýn sem hér er sett fram?

Í Stefnumótandi Byggðaáætlun eru taldar fram aðgerðir og aðferðir sem notaðar hafa verið hér á landi en ekki tekið á nauðsynlegri kerfisbreytingu. Í 5. kafla er farið yfir alþjóðlegan samanburð og væri mjög jákvætt að líta til bæði Noregs og Skotlands í þessu samhengi. Nýta mætti veikleika byggðaáætlunar sem listaðir eru upp í stöðumatinu til að byggja upp sterkari Byggðaáætlun.

3. Hver er þín skoðun á lykilviðfangsefnum sem hér eru sett fram? (6 kafli)

Í dag búa um 64% landsmanna á höfuðborgarsvæðinu sem er mjög hátt hlutfall miðað við nágrannalönd okkar þar sem hlutfallið er í kringum 20-35%. Í stöðumatinu er nefnd borgarstefna Skotlands sem miðar sérstaklega að því að styrkja borgir og aðliggjandi dreifbýli. SSNE bendir því hér á nauðsyn þess að styrkja fleiri þéttbýliskjarna og hugsa vel að grunninnviðum. Verkefnið Borgarhlutverk Akureyrar sem er unnið hjá SSNE í samvinnu við RHA, Akureyrarbæ og Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið, þar er verið að skoða fýsileika þess að byggja upp Akureyri sem aðra borg (second city) með þeim hlutverkum og skyldum sem borgir hafa. Slíkt verkefni ætti vel heima í Stefnumótandi byggðaáætlun.

Huga þarf að öruggri heilbrigðisþjónustu og hjúkrunarrýmum í hverjum landshluta, þeir tímar sem við lifum núna sýna okkur mikilvægi fjarlækninga og velferðartækni. Nú er í undirbúningi stofnun Velferðartæknimiðstöðvar á Norðurlandi sem mun starfa þvert á stofnanir og sveitarfélög, miðla þekkingu og reynslu sem mun koma öllum til góða og ætti vel heima sem verkefni í Byggðaáætlun.

Menntun er lítið sem ekkert tekin fyrir en nauðsyn fjölbreyttra tækifæra til menntunar, skóli í skýjunum, fjarnám og verk- og tækninám svo eitthvað sé nefnt er gríðarlega mikilvægt fyrir íbúa landsbyggðanna.

Uppbygging innviða hefur verið mikið á dagská ríkisins í kjölfar óveðurs í desember 2019 og kórónuveirufaraldurs. Vegstyttingar hafa hins vegar ekki verið á dagskrá en stytting vegalengda hefur mikil áhrif, sem dæmi, á framleiðslufyrirtæki á landsbyggðinni og vinnusóknarsvæði kvenna líkt og fram hefur komið í rannsóknum en ekki síst í umhverfislegum tilgangi.

4. Hver er þín skoðun á þeim leiðum sem lagðar eru til að farnar verði?

Ekki er gerð athugasemd við þær leiðir sem lagaðar eru til en jafnframt bent á að það eru fleiri leiðir sem hægt er að fara.

Noregur hefur sömu stöðu og Ísland gagnvart regluverki evrópska efnahagssvæðisins og því auðvelt að skoða þær leiðir sem farnar hafa verið þar. Nefna má mismunandi tryggingargjald, afskriftir námslána fólks á ákveðnum svæðum, lægri tekjuskattur og hærri barnabætur. Hér mætti hugsa sér að slíkar aðgerðir væru notaðar á svæðum / byggðalögum sem skilgreindar hafa verið sem brothættar byggðir og tekið þátt í verkefninu Brothættar byggðir hjá Byggðastofnun. Nauðsynlegt væri þó að grípa fyrr til aðgerða og í lengri tíma.

5. Hver er skoðun þín á því hvernig best er að meta árangur byggðastefnunnar?

Íbúaþróun er góður mælikvarði. Stóra málið hlítur að vera að jafna lýðfræðilega þætti og væri því frábært að t.d. aldur og kyn væri tekið inn í mælikvarða.

Þjónustukort Byggðastofnunar er góður mælikvarði á aðgengi að þjónustu á landinu öllu sem miðar að því að tryggja íbúum þjónustu og jafna kostnað. Efling þjónustukortsins er mjög góður mælikvarði sem dæmi.

Stórar stefnumarkandi ákvarðanir stjórnvalda líkt og flutningur opinberra starfa út á land þyrfti að mæla og gera árangur slíkra verkefna sýnilegan. Þessi aðgerð mun sem dæmi auka mjög atvinnutækifæri og bæta búsetuskilyrði víða um land.

6. Annað sem þú vilt taka fram?

SSNE fagnar því samráði sem haft var um þessa endurskoðun og gerð Grænbókar. Skýrara hlutverk landshlutasamtaka og aukið fé inn í sóknaráætlanir hefur gefið góða raun. Það er hins vegar algjört grundvallar atriði að þær aðgerðir sem útfærðar eru í aðgerðaráætlun séu fjármagnaðar. Framlög til rannsóknasjóða og samkeppnissjóða á vegum ríkisins hafa stóraukist en ljóst er að landsbyggðirnar bera skarðann hlut frá borði þar og því þarf að breyta.

F.h. SSNE

Eyþór Björnsson

Afrita slóð á umsögn

#11 Samband sveitarfélaga á Austurlandi - 25.01.2021

Hjálagt sendist umsögn Sambands sveitarfélaga á Austurlandi.

Fh. SSA

Jóna Árný Þórðardóttir

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#12 Hrefna Jóhannesdóttir - 25.01.2021

Í viðhengi er umsögn Skógræktarinnar.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#13 Bændasamtök Íslands - 25.01.2021

Hjálögð er umsögn BÍ.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#14 Samtök sunnlenskra sveitarfél - 25.01.2021

Almennt

SASS lýsir yfir ánægju með það verklag sem haft er við endurskoðun byggðaáætlunar og þá sérstaklega það mikla og góða samráð sem hefur verið haft við hagaðila.

Stöðumatið

Stöðumatið er greinargott en sú nálgun að skoða landshluta í stað sveitarfélaga eða svæða gefur ekki alltaf rétta mynd. Á Suðurlandi eru aðstæður ólíkar milli svæða í landshlutanum og sem dæmi hefur íbúafjölgun verið mest á því svæði sem næst er höfuðborgarsvæðinu. Ef upplýsingar eru brotnar niður á einstök sveitarfélög fengist skýrari mynd. Í framtíðinni er lagt til að slíkt verði haft að leiðarljósi. Sveitarfélögin eru og eiga að vera virkur aðili í samtali um þróun byggðamála. Greinargóðar upplýsingar geta stutt við og eflt þátttöku þeirra.

Ljóst má vera að nýjustu upplýsingar skortir um stöðu dagvöruverslana á Suðurlandi. Með lokun dagvöruverslunar á Kirkjubæjarklaustri þarf nú stór hluti íbúa í Skaftárhreppi að aka allt að 200 km til að nálgast nauðsynjar.

Samlegð með öðrum áætlunum

Tekið er undir mikilvægi þess að skoða frekari samlegð með öðrum áætlunum og stefnum. Líta ætti til sjálfbærrar þróunar sem megin stef byggðaáætlunar líkt og tíðkast víðast hvar í heiminum í dag. Felur það í sér að horfa á þróun byggða í samhengi efnahags-, samfélags- og umhverfismála. Árangri á einu sviði verður ekki náð nema með árangri á öllum sviðum. Felur slíkt í sér breiðari nálgun byggðaáætlunar, s.s. út frá lýðheilsu, menningarmálum og umhverfismálum eða út frá þátttöku og tengingum ólíkra stofnana og ráðuneyta.

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna eru einnig gott dæmi um stefnumörkun sem tekur m.a. til sjálfbærrar þróunar. Er um leið dæmi um markmið og stefnu sem hefur breiða skírskotun en jafnframt skarast á við málefnasvið byggðaáætlunar. Spyrja má hvernig sveitarfélög, landhlutar og í raun landið allt geti með markvissari hætti náð þeim markmiðum með stuðningi byggðaáætlunar.

Landsskipulagsstefna er einnig stefnumörkun sem nær til landsins alls og snertir mjög þróun byggða. Spyrja má með hvaða hætti byggðaáætlun geti stutt við landsskipulagsstefnu og hvernig landsskipulagsstefna geti stutt við byggðaþróun.

Stuðla að sjálfbærri þróun byggða um allt land

Í ljósi þróunar á Suðurlandi er ljóst að ólíkir mælikvarðar gefa ólíkar myndir af þeirri þróun sem á sér stað. Samtökin hafa sérstaklega vakið athygli á þróun íbúaveltu á svæðinu. Nær sá mælikvarði að fanga ákveðna þróun betur en aðrir mælikvarðar. Ljóst er að einn eða fáir mælikvarðar duga ekki til að setja fram þróun byggða svo vel sé út frá settum markmiðum. Há íbúavelta yfir lengri tíma er vísbending um að stór hluti íbúa er ekki að setjast að. Meðan einn íbúi flytur inn á svæðið flytur annar á brott. Slíkt hefur ekki áhrif á aðra mælikvarða og þar með verður vandinn ekki ljós. Mikil hreyfing íbúa getur leitt af sér samfélög þar sem stór hluti íbúa telur sig ekki vera hluta af samfélaginu og getur þar með haft mikil staðbundin áhrif á samfélagsgerð. Opna þarf augun gagnvart fleiri mælikvörðum sem ná betur utan um samfélagslega þætti lýðfræðilegrar þróunar.

Svæðabundin þróun

Líkt og fram kemur í grænbókinni er talin fram sem veikleiki, lítil tenging sóknaráætlana landshluta og byggðaáætlunar. Er það á ákveðinn hátt vitnisburður þess að skoða eigi byggðamál í víðara samhengi en út frá byggðaáætluninni einni og sér. Svæðabundin þróun er lykilþáttur í nútíma byggðaþróun, með því að færa völd og ákvarðanatöku heim í hérað. Tekið er undir að slík tenging sé lítil og þörf á að vinna skipulega að samlegð þeirra áætlana, svo kostir beggja áætlana nái fram að ganga og skili landsmönnum öllum þeim ábata sem vænst er.

Lokaorð

Fjármögnun aðgerða er iðulega takmarkandi þáttur við útfærslu aðgerða í einstökum áætlunum og það gildir líka um byggðaáætlun. Um leið og mikilvægt er að tryggja fjármögnun aðgerða eru stjórnvöld hvött til að framfylgja og innleiða markmið og áherslur grænbókarinnar.

Afrita slóð á umsögn

#15 Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu - 26.01.2021

Sjá umsögn í viðhengi.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#16 Vestfjarðastofa - 28.01.2021

Sjá umsögn Vestfjarðastofu í viðhengi.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#17 Samorka - 28.01.2021

Sjá umsögn Samorku í viðhengi.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#18 Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi - 29.01.2021

Sjá umsögn í viðhengi.

Viðhengi