Samráð fyrirhugað 22.12.2020—31.01.2021
Til umsagnar 22.12.2020—31.01.2021
Niðurstöður í vinnslu frá 31.01.2021
Niðurstöður birtar 09.07.2021

Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 87/2018, um rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur (nikótínvörur)

Mál nr. 277/2020 Birt: 22.12.2020 Síðast uppfært: 09.07.2021
  • Heilbrigðisráðuneytið
  • Drög að frumvarpi til laga
  • Málefnasvið:
  • Lýðheilsa og stjórnsýsla velferðarmála

Niðurstöður birtar

Máli þessu lauk með framlagningu frumvarps á 151. löggjafarþingi, en var ekki samþykkt.

Skjal að loknu samráði

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 22.12.2020–31.01.2021. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 09.07.2021.

Málsefni

Í frumvarpi þessu sem er samið í heilbrigðisráðuneytinu eru lagðar til breytingar á lögum nr. 87/2018, um rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur. Með breytingunum eru tóbakslausar nikótínvörur felldar undir gildissvið laganna, þar á meðal nikótínpúðar.

Frumvarp þetta var unnið í heilbrigðisráðuneytinu og er ætlunin með því að setja skýrar reglur um heimildir til sölu, markaðssetningar og notkunar á nikótínvörum, þar á meðal nikótínpúðum. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum nr. 87/2018, um rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur, á þann veg að nikótínvörum er bætt inn í lögin á viðeigandi staði sem hefur það í för með sér að þær muni að mestu leyti lúta sömu reglum og gilda um rafrettur og áfyllingar fyrir þær. Með því eru settar heildstæðar reglur um heimildir til innflutnings, sölu og markaðssetningar á nikótínvörum, auk reglna um eftirlit með slíkum vörum til að viðhlítandi öryggi verði tryggt. Lagt er til að eftirlit með öryggi varanna og merkingum verði í höndum Neytendastofu og eftirlit með auglýsingabanni verði í höndum Neytendastofu og fjölmiðlanefndar.

Með frumvarpinu er lagt til að sömu reglur gildi um aldurstakmark fyrir kaupum og sölu á nikótínvörum og þegar gilda um rafrettur og áfyllingar fyrir þær, þannig að einungis einstaklingum eldri en 18 ára verði heimilt að kaupa nikótínvörur og sama gildi um þá sem selja nikótínvörur. Lagt er til óheimilt verði að hafa á umbúðum nikótínvara texta eða myndmál sem geti höfðað sérstaklega til barna og ungmenna, m.a. með myndskreytingum eða slagorðum, og þannig hvatt til neyslu nikótínvara, en hið sama gildir í dag um rafrettur og áfyllingar fyrir þær. Lagt er til að kveðið verði á um að tryggt sé að nikótínvörur séu ekki staðsettar þar sem börn nái til.

Með frumvarpinu er lagt til að sömu reglur gildi varðandi markaðseftirlit og tilkynningar fyrir markaðssetningu nikótínvara og þegar gilda um rafrettur og áfyllingar fyrir þær skv. IV. kafla laga nr. 87/2018. Í því felst m.a. að Neytendastofa fari með markaðseftirlit með nikótínvörum í samræmi við ákvæði laganna og reglna settra samkvæmt þeim. Það þýðir einnig að framleiðendum og innflytjendum nikótínvara, sem þeir hyggjast setja á markað, verður gert að tilkynna um slíkt til Neytendastofu sex mánuðum áður en markaðssetning er fyrirhuguð og er ráðherra veitt heimild til að setja reglugerð um nánari útfærslu á tilkynningum til Neytendastofu. Neytendastofu er einnig veitt heimild til að taka gjald fyrir móttöku tilkynninga og er henni gert að birta á vef sínum upplýsingar um þá aðila sem uppfyllt hafa skilyrði tilkynningarinnar. Þá er Neytendastofu heimilað að krefjast þess að framleiðendur eða innflytjendur nikótínvara veiti upplýsingar um tiltekna hluta vörunnar og innihald hennar, auk þess að leggja fram sýnishorn af vöru í því magni sem nauðsynlegt er til að meta eiginleika hennar og áhrif. Einnig er sú skylda lögð á herðar framleiðendum, innflytjendum og dreifingaraðilum að grípa tafarlaust til ráðstafana ef ástæða er til að ætla að nikótínvörur sem eru í vörslu þeirra séu ekki öruggar eða að öðru leyti ekki í samræmi við lög. Einnig er framleiðendum og innflytjendum nikótínvara gert að upplýsa embætti landlæknis og Neytendastofu árlega um sölu og neysluvenjur á nikótínvörum í samræmi við reglugerð sem ráðherra setur.

Frestur til að skila inn umsögnum er til og með 31. janúar 2021.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Helena Líndal Baldvinsdóttir - 23.12.2020

F.h. Eitrunarmiðstöðvar Landspítala þá óskar miðstöðin eftir því að bætt verði við kaflann "14. gr. Tilkynning til Neytendastofu." að skyllt sé að senda Eitrunarmiðstöðinni öryggisblöð fyrir þær nikótínvörur sem óskað er eftir að selja. Öryggisblöðin verði send á netfangið: eitur@landspitali.is

Afrita slóð á umsögn

#2 Hafnarfjarðarkaupstaður - 25.01.2021

Sjá meðfylgjandi viðhengi.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#3 LYFIS ehf. - 27.01.2021

Meðfylgjandi eru athugasemdir forsvarsmanna LYFIS vegna frumvarps til laga um breytingu á lögum um rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur (nikótínvörur)

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#4 Fjölmiðlanefnd - 28.01.2021

Í hjálögðu viðhengi er umsögn fjölmiðlanefndar um frumvarp til laga um breytingar á lögum nr. 87/2018 um rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur (nikótínvörur).

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#5 Ingibjörg Þ Sigurþórsdóttir - 29.01.2021

Umsögn um:

151. löggjafarþing 2020-2021.

Mál nr. 277/2020

Frumvarp til laga um breytingar á lögum nr. 87/2018,

um rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur (nikótínvörur).

Undirrituð sitja í Samráðshópi um forvarnir hjá Reykjavíkurborg og hafa kynnt sér frumvarp til laga um breytingar á lögum um rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur (nikótínvörur).

Hópurinn, sem samanstendur af sérfræðingum stjórnsýslusviða borgarinnar sem hafa með málefni barna og unglinga að gera, telur brýna þörf á skýrri löggjöf um nikótínvörur sem takmarkar aðgengi að vörunum og fagnar því þessari lagabreytingu.

Hópurinn lýsir yfir ánægju sinni á því að aldursmörk sölu og afhendingar miðist við 18 ára aldur og að sýnileikabann verði í almennum verslunum. Jafnframt því að ekki megi auglýsa nikótínvörur, að á umbúðum verði viðvaranir og merkingar um styrkleika nikótíns. Einnig er ánægjulegt að hámarksstyrkleiki nikótíns í vörunum verði lögbundinn. Að öðru leyti eru eftirfarandi athugasemdir gerðar við frumvarpið.

Notkun nikótínpúða er umtalsverð meðal unglinga. Í október síðastliðnum höfðu um 10% unglinga í 10. bekk grunnskóla notað nikótínpúða í vör einu sinni eða oftar 30 daga þar á undan. Ekki hefur verið unnt að bregðast afdráttarlaust við neyslu ungmenna vegna skorts á tilhlítandi lagasetningu.

Lagt er til að notkun nikótínvara verði óheimil, sbr. 12. gr. fyrrgreindra laga ,,í leikskólum, grunnskólum, framhaldsskólum og öðrum menntastofnunum sem og í öðrum húsakynnum sem ætluð eru til dagvistunar og félags-, íþrótta- og tómstundastarfs barna og ungmenna,“ Því mikilvægt er að notkunin sé bönnuð bæði fyrir börnum og fullorðnum í starfsemi með börnum. Það er ekki gott ef hinar fullorðnu fyrirmyndir mega neyta nikótínvara fyrir framan börnin í starfinu.

Jafnframt telur hópurinn mikilvægt að lögin taki til þess að börn og unglingar geti ekki keypt sér nikótívörur á netinu og að girt verði fyrir að unglingar geti pantað nikótínpúða á netinu og fengið afhent á bensínstöðvum.

Hópurinn veltir því upp hvort ekki hefði verið heppilegt að vera með eina löggjöf sem nái til tóbaks og nikótíns, þ.e að sameina löggjöf um rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur (nikótínvörur), nr. 87/2018 og lög um tóbaksvarnir nr. 6/2002. Í því fælist að setja rafrettur og áfyllingar ásamt nikótínvörum undir sama hatt og tóbak. Með því féllu eftirlit og dreifing undir ÁTVR og takmarkanir yrðu hinar sömu.

Reykjavík, 27. janúar 2021

Guðrún Halla Jónsdóttir, Miðgarði, Þjónustumiðstöð Grafarvogs og Kjalarness

Hólmfríður G Guðjónsdóttir, skólastjóri Hólabrekkuskóla

Ingibjörg Sigurþórsdóttir, Miðgarði, Þjónustumiðstöð Grafarvogs og Kjalarness

Magnús Arnar Sveinbjörnsson, Umhverfis- og skipulagssviði

Markús Heimir Guðmundsson, Hitt húsið, Íþrótta- og tómstundasviði

Sigrún Sveinbjörnsdóttir, Skóla- og frístundasviði

Þóra Kemp, Velferðasviði

Afrita slóð á umsögn

#6 Jón Steinar Jónsson - 29.01.2021

Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 87/2018, um rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur (nikótínvörur)

Undirrituð fagna því að fram er komin tillaga að breytingum á lögum sem taka til sölu og neyslu nikótínpúða.

Í 11.grein lagafrumvarpsins er kveðið á um að nikótínvörur verði ekki sýnilegar á sölustöðum. Þó er sérverslunum með nikótínvörur og rafrettur heimilt að hafa vörunar sýnilegar inni í sérversluninni.

Að mati okkar felst í þessu fyrirkomulagi hætta á að lögin styðji við frekari þróun sérverslana með nikótínvörur og menningu í kringum þær, sem er sérstaklega varasamt varðandi unga einstaklinga sem ánetjast eða eru í hættu að ánetjast nikótíni. Að okkar mati væri öruggari leið að banna sölu nikótínvara annarra en rafrettna í sérverslunum. Nikótínvörur verði þá til sölu á öðrum sölustöðum og sömu reglur gildi um sýnileika eins og um tóbak

Virðingarfyllst

Ása Sjöfn Lórensdóttir, hj.fr. MPH

Fagstjóri heilsuverndar skólabarna

Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu (ÞÍH)

Jón Steinar Jónsson

Sérfræðingur í heimilislækningum

Yfirlæknir á Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu

Afrita slóð á umsögn

#7 Neytendastofa - 29.01.2021

Meðfylgjandi er umsögn Neytendstofu í viðhengi.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#8 Aðalsteinn Gunnarsson - 29.01.2021

Aðalsteinn Gunnarsson forvarnafulltrúi.

Æskan Barnahreyfing hefur í langan tíma unnið við forvarnir og félagsstörf.

Við fögnum þessum drögum að lagabreytingu og mælum með að þau nái fram.

Við sem höfum með málefni barna og unglinga að gera, teljum brýnt að fá skýra löggjöf um nikótínvörur sem takmarkar aðgengi að vörunum.

Við lýsum ánægju okkar á að aldursmörk sölu og afhendingar miðist við 18 ára aldur og að sýnileikabann verði í almennum verslunum. Jafnframt því að ekki megi auglýsa og markaðssetja nikótínvörur.

Við mælum með að á umbúðum verði lýsing á innihaldi, viðvaranir og merkingar um styrkleika nikótíns. Að sjálfsögðu styðjum við að hámarksstyrkleiki nikótíns í vörunum verði lögbundinn.

Takmarka ætti sölu nikótínvara nærri stöðum þar sem börn og ungmenni venja komur sínar. Takmarka ætti notkun fullorðinna þar líka vegna fyrirmyndarinnar sem þar skapast.

Afrita slóð á umsögn

#9 SVÞ-Samtök verslunar og þjónustu - 29.01.2021

Meðfylgjandi er umsögn SVÞ - Samtaka verslunar og þjónustu um drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 87/2018, um rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur (nikótínvörur). Fylgiskjal sent með tölvupósti af tæknilegum ástæðum.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#10 SVÞ-Samtök verslunar og þjónustu - 29.01.2021

Meðfylgjandi er fylgiskjal með áðursendri umsögn SVÞ.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#11 Jóhanna Sigr Kristjánsdóttir - 30.01.2021

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 87/2018, um rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur (nikótínvörur)

Unnið fyrir hönd Ráðgjafar í reykbindindi,

Jóhanna S. Kristjánsdóttir

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#12 Lára Guðrún Sigurðardóttir - 30.01.2021

Góðan dag,

Í viðhengi eru athugasemdir við ofangreint frumvarp um breytingu á lögum nr. 87/2018, um rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur (nikótínvörur)

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#13 Krabbameinsfélag höfuðborgarsvæðisins - 31.01.2021

Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 87/2018, um rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur (nikótínvörur)

Mál nr. 277/2020

Heilbrigðisráðuneytið – Lýðheila og stjórnsýsla velferðarmála

Umsögn Krabbameinsfélags höfuðborgarsvæðisins

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#14 Barnaheill - Save the Children á Íslandi - 31.01.2021

Umsögn Barnaheilla - Save the Children á Íslandi um drög að frumvarpi til breytingu á lögum nr. 87/2018 um rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur (nikótínvörur).

Barnaheill – Save the Children á Íslandi þakka fyrir boð um að senda inn athugasemdir við ofangreint mál.

Samtökin fagna því að nú sé loks komið fram lagafrumvarp sem setur takmarkanir á sölu á nikótínvörum á borð við þær sem nú þegar eru í gildi um rafrettur, svo sem 18 ára aldurstakmark bæði fyrir kaupendur og seljendur, að viðvaranir skuli hafðar á umbúðum varanna, að varan skuli ekki vera sýnileg í verslunum auk annarra tillagna sem í frumvarpsdrögunum fram koma.

Barnaheill hafa haft áhyggjur af því takmarkalausa aðgengi sem börn og unglingar hafa haft að nikótínvörum í almennum verslunum og vitað er að notkun nikótínpúða er afar algeng á meðal ungmenna og barna allt niður í grunnskóla.

Barnaheill kalla eftir að í greinargerð með frumvarpinu verði sérstaklega fjallað um verslun á neti og hvaða reglur skuli gilda um hvernig einstaklingar skuli sýna fram á að þeir hafi náð 18 ára aldri hyggist þeir kaupa nikótínvörur í gegnum vefverslanir. Um vefverslanir sem selja nikótínvörur þarf að kveða skýrt á um hvernig þær megi kynna vörur á netinu því vefverslanir geta jú verið aðgengilegar börnum. Við skoðun á vefverslunum sem selja rafrettur og nikótínvörur má sjá að engar takmarkanir eru á aðgengi inn á síður þeirra, engar tilkynningar um að aðeins þeir sem séu 18 ára eða eldri megi stunda þar viðskipti.

Barnaheill kalla jafnframt eftir því að í greinargerð verði bætt við umfjöllun um áhrif lagasetningarinnar á börn, sbr. 3. grein Barnasáttmálans. Allar ákvarðanir sem varða börn ber að taka með það sem þeim er fyrir bestu að leiðarljósi og því verður að fara fram mat á því hvað kemur sér best fyrir börn og gera grein fyrir því mati við lagasetningu.

Mikilvægt er að halda vörð um þann góða árangur sem náðist hér á landi þegar dró verulega úr reykingum og tóbaks-/nikótínneyslu barna og ungmenna frá 10. áratugnum og fram eftir nýrri öld. Því miður hafa kannanir gefið til kynna, eins og áður var nefnt, að töluverður fjöldi barna, ánetjast nú nikótínvörum þar sem ekki hefur verið brugðist nægilega fljótt við að setja reglur um sölu slíkra vara.

Þess vegna er þeim mun mikilvægara að efla forvarnir til að vara við fíkni-hættu af nikótínvörum og slæmum heilsufarsafleiðingum af neyslu þeirra.

Mikilvægt er að þessu frumvarpi verði fylgt eftir og það afgreitt sem lög frá Alþingi sem allra fyrst, að teknu tilliti til athugasemda.

Barnaheill leggja mikla áherslu á forvarnir í víðum skilningi og hafa Barnasáttmálann að leiðarljósi í öllu sínu starfi.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#15 Dufland ehf. - 31.01.2021

Meðfylgjandi er umsögn Duflands í viðhengi.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#16 Ragnar Orri Benediktsson - 31.01.2021

Meðfylgjandi er umsögn Sven ehf.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#17 Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga - 31.01.2021

Sjá viðhengi

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#18 Þórunn Bylgja Borgþórsdóttir - 31.01.2021

Umsögn íþrótta- og æskulýðssviðs Múlaþings

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#19 Lyfjafræðingafélag Íslands - 31.01.2021

Hér í viðhengi er umsögn frá Lyfjafræðingafélagi Íslands.

Kv

Inga

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#20 Lilja Sigrún Jónsdóttir - 31.01.2021

Sjá meðfylgjandi skjal.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#21 Sigríður Björk Einarsdóttir - 31.01.2021

Umsögn send fyrir SAMFOK, samtök foreldra grunnskólabarna í Reykjavík.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#22 Guðný Hjaltadóttir - 31.01.2021

Meðfylgjandi er umsögn nokkurra rafrettufyrirtækja innan Félags atvinnurekenda.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#23 Ungmennafélag Íslands - 31.01.2021

Meðfylgjandi er umsögn UMFÍ.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#24 British American Tobacco - 01.02.2021

Hjálagt er umsögn við mál nr. 277/2020.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#25 Embætti landlæknis - 01.02.2021

Viðhengi