Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 22.12.2020–31.1.2021

2

Í vinnslu

  • 1.2.–8.7.2021

3

Samráði lokið

  • 9.7.2021

Skjöl til samráðs

Mál nr. S-277/2020

Birt: 22.12.2020

Fjöldi umsagna: 25

Drög að frumvarpi til laga

Heilbrigðisráðuneytið

Lýðheilsa og stjórnsýsla velferðarmála

Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 87/2018, um rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur (nikótínvörur)

Niðurstöður

Máli þessu lauk með framlagningu frumvarps á 151. löggjafarþingi, en var ekki samþykkt.

Málsefni

Í frumvarpi þessu sem er samið í heilbrigðisráðuneytinu eru lagðar til breytingar á lögum nr. 87/2018, um rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur. Með breytingunum eru tóbakslausar nikótínvörur felldar undir gildissvið laganna, þar á meðal nikótínpúðar.

Nánari upplýsingar

Frumvarp þetta var unnið í heilbrigðisráðuneytinu og er ætlunin með því að setja skýrar reglur um heimildir til sölu, markaðssetningar og notkunar á nikótínvörum, þar á meðal nikótínpúðum. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum nr. 87/2018, um rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur, á þann veg að nikótínvörum er bætt inn í lögin á viðeigandi staði sem hefur það í för með sér að þær muni að mestu leyti lúta sömu reglum og gilda um rafrettur og áfyllingar fyrir þær. Með því eru settar heildstæðar reglur um heimildir til innflutnings, sölu og markaðssetningar á nikótínvörum, auk reglna um eftirlit með slíkum vörum til að viðhlítandi öryggi verði tryggt. Lagt er til að eftirlit með öryggi varanna og merkingum verði í höndum Neytendastofu og eftirlit með auglýsingabanni verði í höndum Neytendastofu og fjölmiðlanefndar.

Með frumvarpinu er lagt til að sömu reglur gildi um aldurstakmark fyrir kaupum og sölu á nikótínvörum og þegar gilda um rafrettur og áfyllingar fyrir þær, þannig að einungis einstaklingum eldri en 18 ára verði heimilt að kaupa nikótínvörur og sama gildi um þá sem selja nikótínvörur. Lagt er til óheimilt verði að hafa á umbúðum nikótínvara texta eða myndmál sem geti höfðað sérstaklega til barna og ungmenna, m.a. með myndskreytingum eða slagorðum, og þannig hvatt til neyslu nikótínvara, en hið sama gildir í dag um rafrettur og áfyllingar fyrir þær. Lagt er til að kveðið verði á um að tryggt sé að nikótínvörur séu ekki staðsettar þar sem börn nái til.

Með frumvarpinu er lagt til að sömu reglur gildi varðandi markaðseftirlit og tilkynningar fyrir markaðssetningu nikótínvara og þegar gilda um rafrettur og áfyllingar fyrir þær skv. IV. kafla laga nr. 87/2018. Í því felst m.a. að Neytendastofa fari með markaðseftirlit með nikótínvörum í samræmi við ákvæði laganna og reglna settra samkvæmt þeim. Það þýðir einnig að framleiðendum og innflytjendum nikótínvara, sem þeir hyggjast setja á markað, verður gert að tilkynna um slíkt til Neytendastofu sex mánuðum áður en markaðssetning er fyrirhuguð og er ráðherra veitt heimild til að setja reglugerð um nánari útfærslu á tilkynningum til Neytendastofu. Neytendastofu er einnig veitt heimild til að taka gjald fyrir móttöku tilkynninga og er henni gert að birta á vef sínum upplýsingar um þá aðila sem uppfyllt hafa skilyrði tilkynningarinnar. Þá er Neytendastofu heimilað að krefjast þess að framleiðendur eða innflytjendur nikótínvara veiti upplýsingar um tiltekna hluta vörunnar og innihald hennar, auk þess að leggja fram sýnishorn af vöru í því magni sem nauðsynlegt er til að meta eiginleika hennar og áhrif. Einnig er sú skylda lögð á herðar framleiðendum, innflytjendum og dreifingaraðilum að grípa tafarlaust til ráðstafana ef ástæða er til að ætla að nikótínvörur sem eru í vörslu þeirra séu ekki öruggar eða að öðru leyti ekki í samræmi við lög. Einnig er framleiðendum og innflytjendum nikótínvara gert að upplýsa embætti landlæknis og Neytendastofu árlega um sölu og neysluvenjur á nikótínvörum í samræmi við reglugerð sem ráðherra setur.

Frestur til að skila inn umsögnum er til og með 31. janúar 2021.

Samráði lokið

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Umsjónaraðili

Skrifstofa heilsueflingar og vísinda

hrn@hrn.is