Samráð fyrirhugað 23.12.2020—20.01.2021
Til umsagnar 23.12.2020—20.01.2021
Niðurstöður í vinnslu frá 20.01.2021
Niðurstöður birtar 24.11.2021

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um landlækni og lýðheilsu, nr. 41/2007.

Mál nr. 278/2020 Birt: 23.12.2020 Síðast uppfært: 24.11.2021
  • Heilbrigðisráðuneytið
  • Drög að frumvarpi til laga
  • Málefnasvið:
  • Sjúkrahúsþjónusta
  • Heilbrigðisþjónusta utan sjúkrahúsa

Niðurstöður birtar

Alls bárust 7 umsagnir auk erindis frá embætti landlæknis þar sem lagt var til að farið verði í heildstæða endurskoðun á eftirlitsákvæðum laga um landlækni og lýðheilsu. Ákveðið var að taka frumvarpið af þingmálaskrá og í kjölfarið stofnaður starfshópur sem hefur það hlutverk að endurskoða ákvæði II. kafla laga nr. 41/2007 um landlækni og lýðheilsu og móta tillögur að frumvarpi til breytinga á lögunum. Áætlað er að hópurinn skili af sér tillögu að frumvarpi sem verður lagt fram á 153. löggjafarþingi.

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 23.12.2020–20.01.2021. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 24.11.2021.

Málsefni

Drög að frumvarpi til laga um breytingu á 12. gr. laga nr. 41/2007 um landlækni og lýðheilsu.

Hjálögð eru drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 41/20007 um landlækni og lýðheilsu. Í frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar sem lúta að því að skýra heimildir til kvörtunar til embættis landlæknis vegna heilbrigðisþjónustu. Enn fremur er frumvarpinu ætlað að skýra málsmeðferð í slíkum málum og gera einfaldari þannig að hún falli betur að störfum og hlutverki landlæknis.

Frumvarp sama efnis var lagt fram á 149. löggjafarþingi en náði ekki fram að ganga. Við endurskoðun frumvarpsins var lögð áhersla á að skýra nánar málsmeðferð í kvörtunarmálum Í hjálögðum drögum er sérstaklega tekið fram með hvaða hætti málsmeðferð skuli háttað í kvörtunarmálum.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Árni Haukdal Kristjánsson - 07.01.2021

Ég geri tvær athugasemdir við frumvarpið.

Annars vegar: „Kvörtun skal borin fram við landlækni án ástæðulauss dráttar.“ Ekki fylgir nein útlistun á hvað telst vera ástæðulaus dráttur. Því getur landlæknir lagt huglægt mat á það og hafnað kvörtunum eftir dúk og disk. Hafa ber í huga að oft er fólk ekki í standi til að kvarta eftir alvarleg áföll. Þekkt er að eftir slíkt býr fólk oft við langvarandi andlegan og líkamlegan heilsubrest.

Hins vegar: Það er nauðsynlegt að í frumvarpinu sé ákvæði um að tengdir aðilar hjá landlækni taki ekki á móti kvörtunum og úrskurði um þær. Slík mál lenda oft á borði fyrrverandi skólasystkina, samstarfsmanna og jafnvel vinar þess sem er tilkynntur — geranda. Í dómskerfinu kalla slík tengsl skilyrðislaust á vanhæfi en ekki hjá landlækni. Þetta girðir fyrir að hægt sé að gæta jafnræðis eins og raun ber vitni. Sjúklingar og aðstandendur þeirra líða fyrir þetta fyrirkomulag eins og fjölmörg ófögur dæmi sanna. Þetta fyrirkomulag hefur leitt til samtryggingar þar sem málflutningur heilbrigðisstofnunar er oftar en ekki grundvöllur úrskurðar landlæknis. Gera þarf skilyrðislausa kröfu um að utanaðkomandi og ótengdir aðilar taki á móti og úrskurði í kvörtunarmálum.

Afrita slóð á umsögn

#2 Auðbjörg Reynisdóttir - 09.01.2021

Ég geri eftirfarandi athugsemdir við frumvarpið.

Í fyrsta lagi verðandi 4. mgr. frumvarpsins

„Kvörtun skal vera skrifleg… Kvörtun skal borin fram við landlækni án ástæðulauss dráttar. Séu meira en fimm ár liðin frá því að þau atvik gerðust sem eru tilefni kvörtunar er landlækni rétt að vísa kvörtun frá nema sérstakar ástæður mæli með því að hans mati að kvörtun sé tekin til meðferðar.“

Í þessu sambandi gæti ég bent á fjölda rannsókna sem sýna að fólk er ekki mjög burðugt eftir alvarleg áföll og síst áföll sem skaða heilsu þeirra og lífsgæði til langframa. Sama gildir um nánustu aðstandendur þess sem fyrir verður. Þau hafa sjaldnast orku og getu aflögu til þess að sjá til þess að gæði og öryggi í heilbrigðiskerfinu sé tryggt. Það er ekki þeirra ábyrgð enda ekki það mikilvægasta þegar alvarlegur heilsubrestur blasir við. Ef markmiði lagananna er aukið öryggi og gæði í heilbrigðisþjónustunni er jú mikilvægt að fá ábendingar sem fyrst um það sem fer úrskeiðis til þess að verja aðra fyrir sambærilegum skaða. Eina leiðin til þess að fá fólki í áfalli til að skila inn kvörtun er að veita þeim viðeigandi aðstoð til þess án kostnaðar eða gera þeim kleift að koma kvörtun á framfæri munnlega. Taka þarf tillit til þess að í mikilli sorg og reiði er orðalagið ekki endilega það sem fellur stjórnsýslunni vel og gæti auðveldlega orðið til þess að málið fái ekki meðferð ef huglægar matsaðferðir eru ríkjandi. Það er mikilvægt að gera fólki kleift að einbeita sér að eigin heilsu og uppbyggingu eftir alvarleg áföll og skaða. Umboðsmaður sjúklinga er hugmyndafræði sem nýtist vel til að ná þessu markmiði á Norðurlöndunum. Nefndin hlýtur að hafa kynnt sér það líka og tilvalið að bæta því inn í þetta frumvarp.

Sjálf missti ég son eftir alvarleg mistök og það liðu níu ár þar til ég áttaði mig á að ég gæti ekki náð sáttum við atburðinn nema að gera tilraun til að koma í veg fyrir að aðrir upplifðu það sama. Nú hef ég skrifað bók um vegferð mína til sátta og eflaust upplýsandi fyrir nefndina og fleiri að kynna sér það hvernig fólk nær áttum eftir alvarleg atvik í heilbrigðisþjónustunni. Þar vísa ég í margar fræðigreinar og bækur máli mínu til stuðnings. Að eiga möguleika á að hafa áhrif á öryggi sjúklinga skiptir miklu máli og mikilvægt að það sé unnið af heillindum, hratt og vel. Það þarf að hvetja sjúklinga og aðstandendur til að taka þátt í því og með eins litlum tilkostnaði og hægt er. Ef hindranir eru miklar þá er líklegt að fólk dragi það að gera athugasemdir eða kvarta. Það að verða fyrir alvarlegu atviki er hindrun út af fyrir sig ekki síst þegar viðkomandi þarf á þjónustunni að halda í kjölfarið. Hver vill kvarta á sama tíma og hann er háður þjónustunni?

Í öðru lagi varðandi 5. grein frumvarpsins

„Landlæknir skal fjalla um kvartanir skv. 2. og 3. mgr. og ljúka máli með því að upplýsa þann sem kvartar um niðurstöðu máls.“

Ef markmið laganna er að komast að niðurstöðu er þetta rétti endir á öllum málum. Að sjálfsögðu er rétt að upplýsa þann sem kvartar um niðurstöðu málsins en ef markmiðið er umbætur til að tryggja öryggi og gæði þá er rétt að ljúka öllum málum með því að upplýsa þann sem kvartar um það til hvaða ráðstafana hefur verið gripið til að koma í veg fyrir að atvikið endurtaki sig. Það má alveg undanskilja persónulegar upplýsingar um aðgerðir gagnvart ákveðnum starfsmönnum sbr. persónuverndarlög.

Til þess að fá sjúklinga og aðstandendur með í verkefnið að auka öryggi og gæði þá er sjálfsagt að upplýsa um hvaða umbótum það skilaði. Sá hinn sami hefur gefið tíma sinn og orku í að senda inn kvörtun og það er mikilvægt að meta það og virða með þessum hætti. Það fær ennþá fleiri til að senda inn ábendingar og allir græða á því. Hvort viðkomandi krefst bóta eða ekki fyrir dómstólum er allt annað mál og óháð umbótunum. En ef viðkomandi fer eingöngu með málið fyrir dómstóla og sleppir að senda inn kvörtun til landlæknis missir kerfið af tækifærinu til umbóta. Ég tel mikilvægt að fólk sjái hag sinn í að taka þátt í þessu umbótaferli. Þannig verður öryggismenningin til smátt og smátt með því að viðhorf til kvartana breytist og fleiri vilja taka þátt í því að bæta öryggi okkar allra.

Í þriðja lagi varðandi 5. grein frumvarpsins

Í greinargerð með frumvarpinu er lögð rík áhersla á að auka málshraða og lækka kostnað hjá landlækni í kvörtunarmálum. Meðal annars lagt til að embættið hafi auknar heimildir til að leggja mat á hvort óskað er eftir óháðs mati sérfræðings og fleira en það kemur ekki beint fram í frumvarpinu. Í greinargerð frumvarpsins segir:

„Með ákvæðinu er lögð til nokkur einföldun á verklagi kvörtunarmála en ákvæðið þykir oft og tíðum íþyngjandi. Með ákvæðinu er lagt til að landlækni verði falið að meta í hverju tilviki fyrir sig hvernig rétt sé að rannsaka umrætt tilvik, hvort óskað sé umsagnar frá óháðum sérfræðingi eða hvort eftirlitssvið embættis landlæknis geti framkvæmt þá athugun sem nauðsynleg er í umræddu tilviki til að meta hvort gæðum og öryggi við veitingu þjónustunnar hafi verið ábótavant.“

Hvað er átt við með því að embættið hafi einhliða vald til að meta hvernig eigi að rannsaka hvert mál út af fyrir sig og eina krafan er að sá sem kvartar fái upplýsingar um það eftirá. Ef embættið á ekki að fylgja neinu opnu verklagi þá er mikil hætta á ferðum að mínu mati. Ef þetta á að gilda ætti að upplýsa þann sem kvartar um hvernig embættið hyggst rannsaka og gefa viðkomandi kost á að leggja rannsókninni lið eða koma með hugmyndir um hvað gæti orðið til þess að upplýsa málið með skilvirkum hætti. Svona ákvæði krefst þess að gagnsæi sé viðhaft svo vinnuaðferðir séu yfir allan vafa hafðar. Það er mjög einkennilegt ef embættið getur hagað verklagi sínu eftir huglægum hentugleika. Það er eingöngu ávísun á tortryggni þegar niðurstaða er kynnt. Þetta ber að hafa í huga sérstaklega þegar búið er að fella út heimild til að kæra málsmeðferð landlæknis til ráðherra.

Annað varðandi 5. mgr.

Það verður að vera yfir allan vafa hafði að ekki sá á hans hagsmuni sjúklings hallað og reyndar má gera ráð fyrir að sá sem ber fram kvörtun geri það af góðu einu en ekki í hefndarskini gegn ákveðnum starfsmanni. Rétt er að benda á að Sjúkratryggingum Íslands taka mið af niðurstöðu rannsóknar embættisins þegar gerð er krafa um bætur vegna mistaka. Er hægt að skilja að þessa rannsókn landlæknis frá bótakröfum eins og nefndin heldur fram í greinargerðinni?

Afrita slóð á umsögn

#3 Árni Haukdal Kristjánsson - 09.01.2021

Í greinargerð með frumvarpinu segir að það snúi „fyrst og fremst að heimildum þeirra sem þiggja þjónustu heilbrigðisþjónustunnar til þess að kvarta til landlæknis yfir þeirri þjónustu sem þeir nutu.“ Það skýtur skökku við að óbreytt frumvarp miðar aðallega að því að gera sjúklingum erfiðara fyrir með kvartanir og skerða rétt þeirra. Athygli vekur að í frumvarpinu er tekið fram að „Ekki þótti tilefni til að skoða samræmi frumvarpsins við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.“ Af hverju skyldi það vera? Ljóst er að jafnræðisreglu er ekki gætt við gerð frumvarpsins. Þannig er ekki gætt í hvívetna að mannréttindum sjúklinga. Fulltrúar LSH og landlæknis, stofnana sem kvartanir sjúklinga beinast að, sýsla um mál er varða hagsmuni sjúklinga án nokkurrar aðkomu málsvara. Engar kröfur eru gerðar til hæfis þess starfsfólks Embættis landlæknis sem fjallar um og úrskurðar í kvörtunarmálum. Á Íslandi er fámennt samfélag manna sem veldur því að hagsmunaárekstrar eru oft óhjákvæmilegir. Þannig er vægast sagt óheppilegt að eftirlitsskyldir aðilar skuli úrskurða í kvörtunarmálum er oft varða skólasystkini, kollega, fyrrum, samstarfsfólk og jafnvel vini. Slíkt fyrirkomulag afhjúpar augljóst vanhæfi enda hvati fyrir hlutdrægni í úrskurðum. Í dómskerfinu og stjórnkerfinu almennt kalla slík tengsl skilyrðislaust á vanhæfi.

Í frumvarpinu er m.a. lögð áhersla á að auka málshraða og lækka kostnað Embættis landlæknis vegna kvörtunarmála. Í því skyni er lagt til að embættið geti úrskurðað í málum án aðkomu óháðra sérfræðinga. Það blasir við að þetta myndi stórskaða rétt sjúklinga.

Í frumvarpinu er m.a. svohljóðandi málsgrein:

„Skylda landlæknis samkvæmt gildandi 4. gr. laga um landlækni og lýðheilsu til að afla að jafnaði umsagnar frá óháðum sérfræðingi eða sérfræðingum þegar kvörtun lýtur að meintri vanrækslu eða mistökum við sjúkdómsgreiningu eða meðferð telst einnig óþarflega íþyngjandi. Eðlilegra þykir að landlæknir meti í hverju tilviki fyrir sig, í samræmi við rannsóknarreglu stjórnsýsluréttarins, hvernig best sé að meta hvert tilvik fyrir sig og þá hvort umrætt tilvik sé þess eðlis að gæði þjónustunnar eða öryggi sjúklings hafi verið ábótavant.“

Það er augljóst að þessi breyting myndi skaða málsmeðferð sjúklinga enn frekar en nú er. Áður en lög nr. 41/2007 tóku gildi var heimilt að vísa ágreiningsmálum til sérstakrar nefndar sem í áttu sæti þrír einstaklingar tilnefndir af Hæstarétti. Með lögum nr. 41/2007 var þetta fyrirkomulag afnumið og aðeins landlæknir fjallar um kvartanir sem berast embættinu. Þessi breyting var mikil afturför enda skerti hún möguleika sjúklinga til að fá sanngjarna málsmeðferð.

Ég geri athugasemd við það að enginn málsvari sjúklinga sé hafður með í ráðum við gerð frumvarpsins. Það er mjög mjög bagalegt þar sem hagsmunir þeirra eru undir. Á móti þá eru fulltrúar LSH og Embættis landlæknis í starfshópnum. LSH er sú heilbrigðisstofnun sem oftast er kvartað undan og á því ríkra hagsmuna að gæta. Vinnubrögð og úrskurðir landlæknis í kvörtunarmálum hafa oft, og um árabil, sætt gagnrýni fyrir hlutdrægni. Af þessu hafa hlotist dómsmál þar sem þetta hefur í raun verið staðfest með dómum. En oftast nær er ekkert aðhafst eftir úrskurði landlæknis vegna gífurlegs aðstöðumunar og valdaójafnvægis aðila. Skaðaðir sjúklingar og aðstandendur þeirra, sem sitja eftir með sárt ennið, eru jafnan örmagna eftir viðskipti sín við þessar stofnanir. Þeir hafa því hvorki þrek né bolmagn til að leita réttar síns. Á móti þá hafa stofnanirnar allt að því takmarkalaus úrræði til að verjast. Þar má nefna aðgang að fjármagni, lögmönnum, sérfræðingum og öllu er svo haldið saman með óbilandi samtryggingu.

Skipan í starfshópinn, og frumvarpið sjálft, undirstrikar nauðsyn þess að skipa umboðsmann sjúklinga. Í dag er í raun enginn opinber aðili sem aðstoðar sjúklinga með kvartanir vegna heilbrigðisþjónustu. Skipun umboðsmanns sjúklinga hefur lengi verið til umræðu hér á landi. Til dæmis var tillaga til þingsályktunar þar um flutt á alþingi vorið 1995. Einhverra hluta vegna hefur tregða ríkt í kerfinu þannig að þetta sjálfsagða mannréttinda- og þjóðþrifamál hefur ekki fengið brautargengi. Maður þarf ekki að vera spámannlega vaxinn til að sjá hvar helsta fyrirstaðan liggur. Umboðsmenn sjúklinga starfa í öllum þeim löndum sem Íslendingar vilja bera sig saman við, svo sem á Norðurlöndunum. Það er nauðsynlegt fylgjast með því að réttur sjúklinga sé virtur og jafnræðis gætt. Það er því bráðnauðsynlegt að skipa slíkan opinberan aðila til að gæta réttinda og hagsmuna sjúklinga. Ég skora á alþingismenn að taka málið upp hið fyrsta.

Ég skora jafnframt á þingmenn að hafna óbreyttu frumvarpi og taka til greina réttmætar athugasemdir og ábendingar.

Afrita slóð á umsögn

#4 Bergþóra Guðnadóttir - 10.01.2021

Ég vil byrja á því að taka undir hverja einustu athugasemd sem komin er fyrir frá Auðbjörgu Reynisdóttur og Árna Haukdal Kristjánssyni. Þau eru augljóslega kunnug þeim óvönduðu vinnubrögðum og ómannúðlegu nálgunum sem Embætti Landlæknis beita. Ég er þar engin undantekning. Þegar ég heyri Embætti Landlæknis nefnt hellist yfir mig meiri vanlíðan heldur en ef sjálfur atburðurinn sem leiddi til kvörtunnar minnar er ræddur. Ég hafði sjálf rænu á því tveimur mánuðum eftir atvik mitt að senda inn erindi til Landlæknis og ekki óraði mig fyrir þvi að embættið ætti ekki með neinum hætti eftir að hjálpa mér eða skila þeirri tilfinningu til mín að af mínu atviki yrði dreginn lærdómur.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð hér um mitt mál þar sem ég er tæpum fimm árum síðan enn með lögfræðing í að hjálpa mér í að ná réttlætinu fram. En þegar maður er sakaður um lygar, af því að hitt og þetta er ekki skráð, og sérfræðiálit, sérfræðingar kallaðir til af EL, gera sem allra allra minnst úr þínum orðum og leggja allt kapp í að horfa á aðeins það sem finnst skráð og bakka svo óvönduð vinnubrögð kollega þinna og vina upp með öllum brögðum sem þeim dettur í hug, ertu nauðbeygður að leita réttlætis.

Nýlega var því breytt að ættingjum látins einstaklings er veitt leyfi til að senda inn kvörtun til EL. Ég vil benda á að það eitt og sér er ótrúlegt og sýnir hversu vanmáttugt fólk hefur hingað til verið þegar það veit að andlát ástvinar hefði ekki átt sér stað ef viðeigandi meðferð hefði fengist. Þessu væri ekki búið að breyta nema fyrir baráttu konu að nafni Ástríður Pálsdóttir, en hún missti manninn sinn 2011 eftir mistök og vanrækslu í heilbrigðiskerfinu og hefur barist fyrir aukni réttlæti þegar kemur að svona málum. Þessu ákvæði var ekki bætt inn í upp úr þurru eða afþví að embættið er alltaf að reyna auka öryggi þeirrar þjónustu sem sjúklingar fá. Nei, því miður, þessa breytingu fékk kona í gegn sem neitaði að láta bjóða sér hvað sem er.

Að vera sjúklingur sem á að koma með skýrt erindi og án ástæðulauss dráttar er snúið. Þegar þú missir heilsuna ertu mörg ár að átta þig á breyttu lífi og bara það að komast í gegnum daginn verður barátta. Að draga úr þeim tíma sem gefst til að skila inn kvörtun úr 10 árum í 5 er afar furðulegt þar sem aukin þekking er í dag á áföllum og hversu langur tími getur liðið þar til fólk "fúnkerar" eðlilega eftir áföll. Sjúklingar/aðstandendur eiga umsvifalaust að fá til sín umboðsmann sjúklinga hafi þeir lennt í atviki, áfalli á heilbrigðisstofnun. Og almenn vitund á að vera um umboðsmann sjúklinga í samfélaginu, þá fyrst er hægt að bera kerfið hér á íslandi saman við norðurlöndin, þar sem tíminn er 2-5 ár. Þar eru umboðsmenn sjúklinga og betur staðið að málum og meiri metnaður í að draga lærdóm af því sem miður fer.

Embætti Landlæknis sá um að tilnefna aðila í hópinn sem átti að endurskoða og skýra nánar frumvarp sem átti að hafa áhrif á störf EL, það þarf ekki löglærða manneskju í að sjá að eitthvað er bogið við að ekki sé lagður metnaður í að EL sæki eftir óháðum aðila til að hafa milligöngu í að finna algjörlega óháða sérfræðinga í þessa vinnu. Og að lokum: "í frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar sem lúta að því að skýra heimildir til kvörtunar til embættis landlæknis vegna heilbrigðisþjónustu. Enn fremur er frumvarpinu ætlað að skýra málsmeðferð í slíkum málum og GERA EINFALDARA ÞANNIG AÐ HÚN FALLI BETUR AÐ STÖRFUM OG HLUTVERKI LANDLÆKNIS".

Þetta virðist mikið miða að því að skera niður og minnka álag til EL í kvörtunarmálum. Koma málum þannig fyrir að sjúklingar sendi inn kvörtun til þeirrar stofnunnar sem á í hlut þar sem þjónustan var veitt. Ég bara átta mig ekki á því hvernig þetta getur aukið öryggi sjúklinga. Á þá stofnunin til að létta álagi af EL að rannsaka eigin störf?

Réttur EL til aðgangs að gögnum er mikill en þegar ég fékk mitt lokasvar frá EL fékk ég það á tilfinninguna að embættið hefði ekki rannsakað eitt né neitt, heldur apaði bara upp setningar eftir óháðum sérfræðingum sem kallaðir voru til sem rýndu eingöngu í það sem þeir vildu sjá í skráðum gögnum. Þessir óháðu sérfræðingar voru vinir/vinkonur/kunningjar þeirra sem komu að málum. Hversu faglegt er það? Það á sér ekki stað neitt umbótaferli þegar niðurlægjandi sérfræðiálit eru mest megnis unninn til að passa upp á kollega. Markmiðið ekki umbætur.

Á meðan EL leggur ekki meiri áherslu á að draga lærdóm af atvikum þá verður fólk áfram reitt, sárt og niðurlægt. Í mati óháðs sérfræðings sem er ekki óháður þar sem hann er að springa úr kollegahollustu, stendur að Bergþóra segi að svo hafi eftirfarandi xxx átt sér stað en um það sé ekkert í skráningu, mál mitt hjá EL er þá rekið eingöngu á skráðum gögnum en ekki því sem ég og maðurinn minn segjum. Hvernig það getur heitið rannsókn skil ég ekki og getur aldrei skilað sér í lærdómi og þar af leiðandi í bættu öryggi fyrir sjúklinga. Því það er ekkert að læra af, því það var ekki skráð!

Ég get ekki séð nein framfaraskref í þessu frumvarpi. Nema jú bara fyrir EL sem vill hafa minna að gera og getur ekki sinnt þessum auknu tilkynningunum til embættisins. Auknar tilkynningar ættu að þýða meira til að læra af og auka þannig öryggi sjúklinga en ég get ekki séð að það sé stefnan.

Því miður.

Afrita slóð á umsögn

#5 Ástríður Pálsdóttir - 11.01.2021

Álit á frumvarp

Það sem er gott við frumvarpið er nú er loks sett í lög að aðstandendur látinna sjúklinga eiga rétt á að setja fram kvörtun og þeir eiga rétt á vera hluti af afgreiðslu landlæknisembættisins með auknu gagnsæi. Til skamms tíma hefur embætti landlæknis tekist að halda aðstandendum látinna sjúklinga fyrir utan öll mál með því að kalla allar rannsóknir frumkvæðisrannsóknir. Þannig gátu aðstandendur mála sem þeir hófu ekki fengi að aðgang að niðurstöðunni. Sem betur fer er þetta ekki lengur verklag Embættis landlæknis. En það er gott að fá þennan rétt inn í frumvarp/lög. Núna er meira að segja komið eyðublað á LSH þar sem ættingjar látinna sjúklinga geta beðið um sjúkraskrá þeirra. Það var ekki að frumkvæði spítalans. Enn eitt dæmið um trega spítalans að hleypa almenningi inn í gögn málsins þegar sjúklingur deyr vegna mistaka og vanrækslu starfsfólksins.

Annars er ekkert gott við frumvarpið:

1. Ekki er enn hægt að kvarta yfir framkomu heilbrigðisstarfsmanna nema þegar þau eru að veita heilbrigðisþjónustu. Þegar ég reyndi að kvarta til Embættis Landlæknis yfir Niels Christian Nielsen, vörslumanni sjúkraskrá á LSH, vegna framkomu hans við mig var mér sagt að aðeins væri hægt að kvarta yfir heilbrigðisþjónustu. NCN hafði haldið frá mér gögnum úr sjúkraskrá látins eiginmanns og átt við sum. Ástæðan fyrir því að ég var sjálf að rannsaka andlát mannsins míns sáluga var sú að yfirstjórn Landspítala „láðist“ að tilkynna andlátið sem alvarlegt atvik. Þessu mætti bæta inn í frumvarpið, þ.e. leyfi til að kvarta yfir framkomu starfsfólks og yfirmanna í heilbrigðiskerfinu.

2. Ekkert eftirlit er með eftirlitinu, þ.e. landlæknisembættinu. Fyrir löngu er búið að taka úr sambandi réttinn til þess að áfrýja úrskurðum landlæknisembættinins til Heilbrigðisráðuneytisins. Landlæknir hefur síðasta orðið. Í öllum löndum í nágrenni okkar er Umboðsmaður sjúklinga en ekki á Íslandi af einhverjum ástæðum.

3. Nú er verið að auka völd embættis landlæknis með því að færa því völd til þess að rannsaka mál, sem til þeirra berast, algjörlega innanhúss. Afsökunin er að nú verði dregið úr kostnaði og málshraði muni aukast. Svo verði málsmeðferð einfölduð til muna. Þetta stendur reyndar ekki í sjálfu frumvarpinu. Í greinargerð um frumvarpið er málsgrein 5 oftúlkuð. Í frumvarpinu er ekki fjallað um hvernig á að rannsaka kvörtunarmál heldur eingöngu fjallað um hvað á að gera við upplýsingarnar. Það á að upplýsa þann sem kvartar um niðurstöðu máls, s.s. gagnsæi: „Landlæknir skal fjalla um kvartanir skv. 2. og 3. mgr. og ljúka máli með því að upplýsa þann sem kvartar um niðurstöðu máls“. Meiri gagnsæi: „Við rannsókn í kvörtunarmáli skal landlæknir gefa kvartanda tækifæri á að gera athugasemdir áður en honum er birt niðurstaða“. Svo þarf að ákveða hvað á að gera við niðurstöðurnar: „Landlæknir metur hvort tilefni er til að upplýsa þann aðila sem kvartað er undan eða hvort beita skuli ákvæðum II eða III kafla til að tryggja gæði og öryggi þjónustunnar“. Í greinargerð með frumvarpinu er kynntar nýjar hugmyndir um að rannsókn á málum hjá Landlæknisembættinu séu rannsökuð innanhúss en það stendur ekkert um það í frumvarpinu. Er ástæða til að ætla að læknismenntað starfsfólk embættisins geti metið rétta meðferðir í tilfellum sjaldgæfra sjúkdóma?

4. Málsgrein 4. Tímamörk kvartana. 5 ár er knappur tími vegna skorts á Umboðsmanni sjúklinga. Tregða Landspítala að afhenda sjúkragögn tefur líka fyrir. Aðstandendur látinna geta verið í alvarlegri kvíðaröskun árum saman vegna áfalls. Það er erfitt fyrir leikmann að vita hvaða gögn eru til í tölvukerfi spítalans og á pappírsformi.

Svo er annað: Landlæknisembættið (ásamt LSH) hefur vanda til að svara ekki bréfum. Þá vinnast 3 mánuðir fyrir hvert bréf því Umboðsmaður alþingis vill að viðkomandi stofnum fái 2 mánaða frest eftir ítrekun áður en tafakæra er tekin. Þannig spænist upp tíminn. Það tók mig meira en 5 ár að fá leyfi landlæknis til þess að sjá lista yfir starfsfólk LSH sem opnuðu sjúkraskrá mannsins míns. Landlæknisembættinu tókst að teygja afhendingu leyfisins 5 daga fram yfir málflutning lögmanna minna í hæstarétti. Tilviljun eða meðvirkni?

5. „Um aðgang að gögnum í kvörtunarmálum fer samkvæmt lögum um sjúkraskrár og upplýsingalög þegar við á“. Hér þarf að breyta lögum um sjúkraskrá og bæta inn setningu um að listar yfir þá sem opna sjúkraskrár látinna sjúklinga teljist hluti að sjúkraská.

Ég get ekki tekið undir með flutningsmönnum frumvarpsins að almenningur færi að kvarta til Landlæknis til þess eins að fá upplýsingar sem geta gagnast við málshöfðun. Ég sjálf eyddi megninu af heilu ári 2012, að safna gagna um andlát mannsins míns (2011) og viðmótið sem ég mætti hjá LSH og landlæknisembættinu gerði mig svo reiða og lítilsvirta að ég hlaut að fara í mál þegar ég sá vanræksluna í skjölunum „týndu“ („Öll pappírsgögn eru týnd“).

En af hverju mætti almenningur ekki nýta sér þær upplýsingar sem kæmu upp á yfirborðið í greinargerð landlæknis? Þess má geta að greinargerð landlæknisembættisins um andlát mannsins míns sáluga var notað af ýmsum aðilum til þess að klekkja á mér: Sjúkratryggingar, Héraðsdómur, lögreglan á höfuðborgarsvæðinu. Í Bretlandi þurfti fyrir nokkrum árum að setja sérlög sem vörnuðu því að spítalar heldu upplýsingum frá sjúklingum/aðstandendum ef þeir óttuðust lögsóknir.

Ég legg til að Embætti Landlæknis fari aftur í gang að gera allsherjarrannsókn á alvarlegum atvikum á sjúkrahúsum.

Ég legg til að Embætti Landlæknis kanni hversu oft er sleppt að tilkynna atvik. Það er hneyksli þegar yfirstjórn spítala sleppir því að skrá alvarleg atvik og í raun yfirhylming.

Ég legg til að aðgangur að uppflettilistum látinna sjúklinga verði sérstaklega bætt inn í lögin um sjúkragögn. Slíkir listar geta verið gagnlegir þegar um vanrækslu er að ræða. T.d. ef ábyrgur sérfræðingur skoðar aldrei sjúkraskrá sjúklings í innlögn á spítala.

Afrita slóð á umsögn

#6 Málfríður Stefanía Þórðardóttir - 19.01.2021

Athugasemdir við drög að frumvarpi til laga um breytingu á 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu, nr. 41/2007

Heilbrigðisráðherra skipaði starfshóp sumarið 2018 með það hlutverk að leiðarljósi að endurskoða og skýra nánar ákvæði 12. gr og 13. gr laga um landlækni og lýðheilsu nr. 41/2007. Hópurinn var skipaður vel völdum lögfræðingum og framkvæmdastjóra lækninga á LSH. Hópurinn fékk á fund til sín yfirlækni og sérfræðing hjá Embætti landlæknis en ekki virðist hafa verið fenginn fulltrúi sjúklinga á fundinn enda ber frumvarpið þess merki. í því stendur: “Í frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar sem lúta að því að skýra heimildir til kvörtunar til embættis landlæknis vegna heilbrigðisþjónustu. Enn fremur er frumvarpinu ætlað að skýra málsmeðferð í slíkum málum og gera einfaldari þannig að hún falli betur að störfum og hlutverki landlæknis“ [feitletrun mín]. Af þessu má draga þá ályktun að sjónarmið sjúklinga sé ekki haft að leiðarljósi né hagsmunir þeirra í umræddu frumvarpi.

Kvörtunum til Embættisins hefur fjölgað mikið á undanförnum árum og ætti það ekki að koma neinum á óvart þar sem læknisverkum/heilbrigðisverkum fjölgar stöðugt í samræmi við aukin fjölda Íslendinga. Sjúklingar eru einnig sem betur fer upplýstari um réttindi sín sem neytendur heilbrigðisþjónustunnar.

Í frumvarpinu kemur fram að málsmeðferð í kvörtunarmálum hafi eftir gildistöku laga nr. 41/2007 verið talin afar umfangsmikil og langt umfram það sem þurfa þykir til að uppfylla eftirlitsskyldur Embættisins. Ekki kemur fram hverjir meta það? Eru það starfsmenn EL sem einir geta lagt mat á eigin störf? Fram kemur að um meðferð kvartana gildi ákvæði stjórnsýslulaga eftir því sem við getur átt og afgreiðsla taki að jafnaði 7-24 mánuði. Í mínu tilviki liðu 26 mánuðir frá því að kvörtun var móttekin af EL þar til Embættið gaf út álit sitt. Ekki var fengið sérfræðiálit þar sem Embættið taldi sig geta lagt mat á kvörtun mína án aðkomu utanaðkomandi sérfræðings. Í álitinu var þremur veigamiklum kvörtunum hreinlega vísað frá þar sem Embættið áleit að það væri ekki á þeirra könnu að meta vinnubrögðin sem undan var kvartað. Það tók lögfræðing minn marga mánuði að fá svör frá Embættinu um það hvert ég ætti að fara með þann hluta kvörtunar minnar sem þau töldu sig ekki þurfa að leggja mat á. Samt sem áður er það sérstaklega tekið fram í lögum um landlækni og lýðheilsu og er undirstrikað að óskráðar meginreglur stjórnsýsluréttarins gildi um málsmeðferð landlæknis í kvörtunarmálum, þá sér í lagi leiðbeiningarskylda stjórnvalds, rannsóknarreglan, jafnræðisreglan, málshraðareglan og fleiri meginreglur sem gilda um alla málsmeðferð stjórnvalda. Ekki er því hægt að sjá að Embættið hafi fylgt þessum lögum í mínu tilviki.

Í frumvarpinu segir að skylda landlæknis samkvæmt gildandi 4. gr laga um landlækni og lýðheilsu að afla að jafnaði umsagnar frá óháðum sérfræðingi eða sérfræðingum þegar kvörtun lýtur að meintri vanrækslu eða mistökum við sjúkdómsgreiningu eða meðferð teljist einnig óþarflega íþyngjandi. Eðlilegt þyki að landlæknir meti í hverju tilviki fyrir sig í samræmi við rannsóknarreglu stjórnsýsluréttarins hvernig best sé að meta hvert tilvik fyrir sig og þá hvort umrætt tilvik sé þess eðlis að gæði þjónustunnar eða öryggi sjúklings hafi verið ábótavant. Slík niðurstaða væri til þess fallin að landlæknir geti beitt fyrrgreindum heimildum sínum gagnvart stofnun eða heilbrigðisstarfsmanni sem í hlut á. Skilja má að með þessu ákvæði geti Embætti landlæknis tekið einhliða ákvörðun um það hvort óháður sérfræðingur verði kallaður til í alvarlegum kvörtunarmálum. Mér þykir það merkilegt ef slíka sérþekkingu er alltaf að finna innan Embættisins í öllum málum og aldrei þurfi að leita út fyrir Embættið eftir sérfræðiáliti. Ljóst er að Embættið mun ekki nýta sér það að fá álit sérfræðinga þar sem kostnaður hefur aukist gríðarlega vegna sérfræðiálita. Slík vinnubrögð hljóta að koma niður á gæðum eftirlitsins.

Embætti landlæknis telur að sjúklingar noti kvörtunarheimildina of mikið og í þeim tilgangi að fá úr því skorið hvort um mistök eða vanrækslu hafi verið að ræða áður en tekin er ákvörðun um að höfða mál gegn viðkomandi starfsmanni eða sækja skaðabætur til Sjúkratrygginga. Álit Embættis landlæknis skiptir máli í þessu sambandi þó Embættið haldi öðru fram. Þegar sótt er um skaðabætur til Sjúkratrygginga Íslands þarf að taka fram í umsókninni hvort kvörtunarmál sé í gangi hjá Embætti landlæknis. Ef Sjúkratryggingar samþykkja bótaskyldu sem er í u.þ.b. 30% tilvika þá er aftur spurt hvort málið sé á borði landlæknis. Það er líka mikilvægt fyrir sjúklinginn, aðstandendur og aðra að fá álit Embættisins til að treysta því að umbótaferli fari af stað og sömu mistök eða atvik endurtaki sig ekki. Því er svo við að bæta að kvartandi ætti alltaf að vera upplýstur til hvaða úrræða gripið verði til að tryggja viðunandi þjónustu í heilbrigðiskerfinu.

Að til standi að stytta kvörtunartíma úr 10 árum í 5 ár, er ekki gert með hagsmuni sjúklinga í huga, Rannsóknir sýna að eftir mistök í heilbrigðiskerfinu, hafa sjúklingar ekki burði eða getu til að standa í slíkum kvörtunarmálum enda taka þau mjög á og er ég dæmi um það ásamt mörgum fleirum sem hafa gengið í gegnum þetta ferli sem er á köflum mjög niðurbrjótandi. Ekki er umboðsmanni sjúklinga til að dreifa sem sjúklingar gætu leitað til og það er mjög dýrt að fá sér lögfræðing. Að mínu mati er það samt nauðsynlegt þar sem samskipti við EL eru mjög erfið og sársaukafull. Það er sorglegt að það sé að jafnaði upplifun sjúklinga að það sé nánast tilgangslaust að bera fram kvörtun til Embættisins og það geri málin jafnvel verri.

Ef þessar tillögur að breytingum á lögum um landlækni og lýðheilsu munu verða samþykktar mun það rýra möguleika sjúklinga að leita réttar síns og fá viðurkenningu á að mistök eða vanræksla hafi átt sér stað. Annað ferli er ekki í boði nema einkamál sem eru mjög kostnaðarsöm og því einungis á færi þeirra sem standa fjárhagslega vel. Þessar tillögur eru því um leið til þess fallnar að ýta undir misrétti milli þeirra sem mikið eiga og annarra sem búa bið bág kjör. Því skýtur það skökku við að fram sé tekið í frumvarpinu að ekki þyki ástæða til að leggja mat á jafnréttisáhrif frumvarpsins.

Frumvarpið virðist vera sniðið að þörfum Embættis landlæknis og læknastéttarinnar en síður að þörfum sjúklinga og öryggi þeirra. Það er hvorki til þess fallið að auka traust á Embættinu eða heilbrigðiskerfinu í heild. Ég vona sannarlega að þessar tillögur að breytingu á lögum landlæknis og lýðheilsu nái ekki fram að ganga.

Afrita slóð á umsögn

#7 Samtök iðnaðarins - 20.01.2021

Meðfylgjandi er umsögn frá Samtökum iðnaðarins.

Viðhengi