Samráð fyrirhugað 07.01.2021—04.02.2021
Til umsagnar 07.01.2021—04.02.2021
Niðurstöður í vinnslu frá 04.02.2021
Niðurstöður birtar 12.04.2021

Drög að stefnu um félags- og tómstundastarf

Mál nr. 3/2021 Birt: 07.01.2021 Síðast uppfært: 12.04.2021
  • Mennta- og menningarmálaráðuneytið
  • Drög að stefnu
  • Málefnasvið:
  • Menning, listir, íþrótta- og æskulýðsmál

Niðurstöður birtar

Sjá meðfylgjandi niðurstöðuskjal

Nánar um niðurstöður

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 07.01.2021–04.02.2021. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 12.04.2021.

Málsefni

Mennta- og menningarmálaráðuneyti kynnir til samráðs drög að stefnu um félags- og tómstundastarf. Umfang stefnumótunarinnar miðast við gildissvið æskulýðslaga nr. 70/2007.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið kynnir til samráðs drög að stefnu í félags- og tómstundastarfi barna og ungmenna. Gildistími stefnunnar verður til ársins 2030. Vakin er athygli á að um vinnuskjal er að ræða þar óskað er eftir athugasemdum fyrir áframhaldandi vinnu. Þetta er liður í auknu samráði í vinnuferlinu þar sem heimsfaraldur kórónuveiru hefur haft víðtæk áhrif á samráð við haghafa. Unnið verður að tillögum að aðgerðum til þess að fylgja stefnunni eftir þegar úrvinnslu úr samráðsgátt lýkur. Sérstakt samráð um aðgerðir verður síðar.

Um er að ræða stefnu mennta- og menningarmálaráðuneytisins og það sem ráðuneytið hyggst leggja áherslu á og aðhafast til að styðja við skipulagt félags- og tómstundastarf. Tilefni stefnumótunarinnar er aukin krafa um gæði og öryggi í skipulögðu félags- og tómstundastarfi og framtíðarsýn fyrir málaflokkinn.

Með stefnu í skipulögðu félags- og tómstundastarfi er hægt að stuðla enn frekar að innleiðingu Barnasáttamála Sameinuðu þjóðanna og tilmælum Evrópuráðsins um gæði félags- og tómstundastarfs. Um leið er sett framtíðarsýn fyrir málaflokkinn og forgangsröðun verkefna. Með þátttöku í skipulögðu félags- og tómstundastarfi fá börn og ungmenni tækifæri til að taka þátt á sínum forsendum, þroskast í öruggu umhverfi og um leið styðja við grunngildi þess að búa í lýðræðislegu samfélagi.

Umfang stefnunnar tekur mið af æskulýðslögum nr. 70/2007 og er skilgreint í 2. gr. laganna. Lögin miðast við starf barna og ungmenna á aldrinum 6-25 ár.

Stefnt er að því að stefnan taki gildi vorið 2021.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Aðalsteinn Gunnarsson - 18.01.2021

Kópavogur 18. janúar 2021

Umsögn Æskunnar Barnahreyfingar um Mál nr. 3/2021

Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Drög að stefnu um félags- og tómstundastarf barna og ungmenna 2020-2030

Æskan Barnahreyfing fagnar þessum drögum að stefnu um félags- og tómstundastarf barna og ungmenna 2020 – 2030. Okkar starf hefur byggt upp góð gildi hjá þátttakendum í gegnum tíðina.

Æskan Barnahreyfing vill minna á mikilvægi þess að í stefnunni þarf að koma fram að allur vettvangur þar sem börn og ungmenni eru á að vera laus við áfengi og önnur vímuefni. Það á við um; neyslu, hvatningu til neyslu, auglýsingar og markaðssetningu, kostendur, húsnæði, starfsfólk, sjálfboðaliða og fyrirmyndir.

Æskan Barnahreyfing leggur áherslu á að stefnan innifeli fjölbreytt tilboð úr öllum áttum samfélagsins. Það getur þýtt að draga þarf fram tilboð sem finnast þó þau séu ekki algeng.

Mikilvægt er að stjórnvöld og samfélagið viðurkenni mikilvægi félags og tómstundastarfs. Sterk stefna byggir undir þá viðurkenningu.

Tryggja þarf fjölbreytt tilboð sem þýðir að tryggja þarf fjármagn í starfsemi frjálsra félagasamtaka sem hafa takmarkaða möguleika á utanaðkomandi styrkjum.

Mikilvægt er að auka samstarf þeirra sem vinna með börnum og passa að óviðeigandi áhrif komist ekki að þeim. Hér nefnum við sérstaklega áfengisiðnaðinn sem er vágestur í lífi barna.

Hvað varðar hæfi þeirra sem vinna með börnin er mikilvægt að tryggja öryggi barnanna umfram allt. Námskeið og endurmenntun eru mikilvæg s.s. Blátt áfram, Verndum börnin, skyndihjálp ofl.

Rannsóknir eru mikilvægar fyrir okkar starf til að marka stefnuna hverju sinni en mega ekki ganga svo mikið á fjármuni rekstursins að hann leggist af.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#2 Reykjavíkurborg - 25.01.2021

Vísað er til tilkynningar í samráðsgátt, dags. 7. janúar sl., þar sem kynnt er til samráðs drög að stefnu í félags- og tómstundastarfi barna og ungmenna.

Því er fagnað af hálfu Reykjavíkurborgar að drög að stefnu um félags- og tómstundastarf barna sé í vinnslu. Með því er stigið jákvætt skref í þeirri vegferð að hafa skýra sýn og styðja við félags- og tómstundastarf barna og ungmenna.

Eftirfarandi eru ábendingar Reykjavíkurborgar um drög að framangreindri stefnu:

· Í stefnunni er skilgreining á hugtakinu tómstundir sótt í ráðstefnurit Netlu, Menntakviku frá árinu 2010. Hægt er að sækja skilgreiningar á lykilhugtökum í tómstundafræði í rafrænan Íðorðabanka , sjá nánar skilgreiningu á hugtakinu tómstundir hér: https://idord.arnastofnun.is/leit/t%C3%B3mstundir

· Á það er bent að ekki er ljóst hver tenging stefnunnar er við Evrópusáttmála um æskulýðsstarf, stefnumótun í æskulýðsmálum 2014-2018 og framkvæmd stefnumótunar Æskulýðsráðs í æskulýðsmálum. Núgildandi æskulýðslög eru frá 2007 og því þarf að huga að því hvort stefnan kalla á endurskoðun á gildandi Æskulýðslögum.

· Til að auka líkur á því að stefnan raungerist er mikilvægt að innleiðingu stefnunnar fylgi fjármagn frá ríki til sveitarfélaga og aðgerðaráætlun þar sem ábyrgðar- og framkvæmdaaðilar verða skilgreindir.

· Í kafla stefnunnar Framboð og inntak félags- og tómstundastarfs er mikilvægt að vísa í hálfformlegt nám og óformlegt nám (sjá nánar skilgreiningar á https://idord.arnastofnun.is/). Þá er bent á mikilvægi þess að fram komi tengsl milli umfjöllunar um lýðræði og starfsemi ungmennaráða.

· Það er vel að í stefnunni eru skýr tengsl við Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

· Áratuga rannsóknir á högum og líðan barna og unglinga hafa leitt til þróunar starfshátta í félags- og tómstundastarfi barna. Með vísan til þess er mikilvægt að fjalla sérstaklega um þátttöku í félags- og tómstundastarfi sem verndandi þátt í lífi barna og ungmenna.

· Það er mikilvægt að bæta inn í stefnuna áætlunum um að setja þurfi gæðaviðmið um félags- og tómstundastarf fyrir börn og ungmenni. Í stefnunni er lagt til að setja eigi gæðaviðmið fyrir rekstur og stjórnun en hvergi minnst á fagleg gæðaviðmið fyrir félags- og tómstundastarfið sjálft.

· Bent er á að hægt er að vísa til starfsemi ungmennaráða í kafla stefnunnar sem fjallar um framboð og inntak félags- og tómstundastarfs í lið tvö undir markmið þar sem fjallað er um aðkomu barna og ungs fólks að skipulagningu og ákvarðanatöku.

· Bent er á að hægt er að fjalla um óformlegt og hálfformlegt nám í þriðja lið kaflans um framboð og inntak félags- og tómstundastarfs þar sem fram kemur að þátttakendur fái tækifæri til að öðlast færni, læra og vaxa með þátttöku í reynslunámi.

· Bent er á að uppsetning væri skýrari ef undir hverjum þætti A, B og C vísi titill stefnu í viðkomandi efni, t.d. A: Framboð og inntak og félags- og tómstundastarf væri stefnutitill ,,Stefna um framboð og inntak félags- og tómstundastarfs“.

· Í kaflanum Rekstrar og starfsumhverfi félags- og tómstundastarfs kemur fram að aukin fjárframlög til reksturs verði tryggð og jafnræðis gætt við úthlutun fjármagns. Það væri til bóta ef fram kæmi hvaða tómstunda- og félagsstarf falli þarna undir og hvort ráðuneytið muni styrkja félags- og tómstundastarf sveitarfélaga.

· Í kafla um Rekstrar og starfsumhverfi félags- og tómstundastarfs kemur fram að félags- og tómstundastarf sé öruggur vettvangur allra barna og alls ungs fólks. Mikilvægt er að í aðgerðaráætlun verði settar verklagsreglur til að tryggja öryggi til dæmis hvað varðar fjölda starfsmanna pr. barn í félags- og tómstundastarfi.

· Í kaflanum Mannauður sem undirstaða félags- og tómstundastarfs er mikilvægt að nefna nám í tómstunda- og félagsmálafræði sem er svo sannarlega mikilvægt fyrir faglega framþróun í félags- og tómstundastarfi.

· Sjálfboðaliðar og launaðir starfsmenn eru títt nefndir í kafla um Mannauð sem undirstöðu í félags- og tómstundastarfi. Það er mikilvægt að kveða fastar að orði um mikilvægi menntunar þeirra sem starfa með börnum og ungmennum í félags- og tómstundastarfi. Þarna færi betur að nefna mikilvægi fagmanna á vettvangi frítímans í stað þess að vísa til launaðra starfsmanna.

· Tómstunda- og félagsmálafræði er ungt fag á menntavísindasviði HÍ en mikill fjöldi er nú þegar kominn með þessa menntun, það er B.Ed. í tómstunda- og félagsmálafræðum og einnig á meistarastigi. Mikilvægt er að stefnan ávarpi þessa fagstétt.

· Í kaflanum Rannsóknir og þróun í félags- og tómstundastarfi er fjallað um mikilvægi þess að úthlutun styrkja sé á faglegum forsendum. Það er mikilvægt að í aðgerðum og aðgerðaráætlun séu þessar forsendur gagnsæjar og skýrar.

· Í kaflanum Rannsóknir og þróun í félags- og tómstundastarfi er mikilvægt að fram komi að einnig sé stutt við að samstarf tómstunda- og félagsstarfs á vegum sveitarfélaga við háskólasamfélagið verði aukið.

Að lokum er því komið á framfæri af hálfu Reykjavíkurborgar að stefnunni, aðgerðum og aðgerðaráætlunum fylgi fjármagn frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu sem geri sveitarfélögum og þeim sem starfa samkvæmt stefnunni kleift að fylgja eftir stefnu um félags- og tómstundastarf barna og ungmenna 2020-2030.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#3 Hafnarfjarðarkaupstaður - 25.01.2021

Sjá meðfylgjandi viðhengi.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#4 Landssamtökin Þroskahjálp - 27.01.2021

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um drög að stefnu um félags- og tómstundastörf.

Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fötluð börn og ungmenni og fólk með þroskahömlun. Samtökin byggja stefnu sína á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, Barnasáttmála SÞ og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum. Um 20 félög eiga aðild að samtökunum með um 6 þúsund félagsmenn.

Augljóst er að stefna um félags- og tómstundastarf barna og ungmenna varðar mikilvæga hagsmuni og réttindi fatlaðra barna til þátttöku í samfélagi, í gegnum tómstundastarf, á jafnréttisgrundvelli.

Landssamtökin Þroskahjálp taka undir að með þátttöku í skipulögðu félags- og tómstundastarfi fái börn og ungmenna tækifæri til að taka þátt á sínum forsendum, þroskast í öruggu umhverfi og um leið styðja við grunngildi þess að búa í lýðræðissamfélagi. Réttur fatlaðs fólks til þátttöku í samfélagi til jafns við aðra er varinn í samningi Semeinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem Ísland fullgilti árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að fylgja. Í 30. grein samningsins er fjallað sérstaklega um þátttöku í menningarlífi, tómstunda-, frístunda- og íþróttastarfi og ítrekuð skyldan til þess að tryggja fötluðum börnum, til jafns við önnur börn, aðgang að leikjum og tómstunda- og frístunda- og íþróttastarfi, meðal annars innan skólakerfisins.

Með vísan til framangreinds vilja Landssamtökin Þroskahjálp koma eftirfarandi á framfæri:

Vísa mætti með skýrari og afdráttarlausari hætti til samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem leiðarljóss í félags- og tómstundastarfi barna og ungmenna. Með fullgildingu samningsins eru stjórnvöld skuldbundin til að framfylgja ákvæðum hans, m.a. með því að tryggja að stefnumótun stjórnvalda taki mið af ákvæðum hans

Í samningnum er mjög mikil áhersla lögð á skyldur ríkja til að tryggja fötluðu fólki tækifæri til félagslífs og tómstundastarfs til jafns við aðra og án aðgreiningar. Landssamtökin Þroskahjálp beina þeim tilmælum til stjórnvalda að fjalla sérstaklega um tómstundir án aðgreiningar sem markmið í stefnumótuninni.

Ungmennaráð Þroskahjálpar, sem skipað er einstaklingum með þroskahömlun og/eða aðrar skerðingar á aldrinum 16-24 ára, hefur skilgreint aukið aðgengi að félags- og tómstundastarfi sem forgangsverkefni. Í málefnavinnu ráðsins í janúar 2021 kom fram eindreginn stuðningur við að ráðið beitti sér fyrir því að hvetja til þess að úrval og aðgengi að félagslífi, tómstundum og íþróttum yrði aukið. Landssamtökin Þroskahjálp taka undir þessa kröfu og telja fara vel á því að skoða framboð og raunverulegt aðgengi fatlaðra barna og ungmenna að félags-, íþrótta- og tómstundastarfi samhliða stefnumótun í máleflokknum í heild.

Landssamtökin Þroskahjálp lýsa yfir áhuga og vilja til að koma á fund ráðuneytisins til að gera grein fyrir áherslum sínum og sjónarmiðum við innleiðingu stefnunnar. Einnig bendum við á ungmennaráð Þroskahjálpar sem samráðsvettvang við það mikilvæga verkefni.

Anna Lára Steindal, verkefnisstjóri í málefnum barna, ungmenna og fólks af erlendum uppruna hjá Landssamtökunum Þroskahjálp.

Afrita slóð á umsögn

#5 Tinna Rut B. Isebarn - 28.01.2021

Meðfylgjandi er umsögn Landssambands ungmennafélaga (LUF) um drög að stefnu um félags- og tómstundastarf barna og ungmenna 2020-2030, mál nr. 3/2021.

Virðingarfyllst f.h. LUF

Tinna Isebarn, framkvæmdastjóri

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#6 Strandabyggð - 29.01.2021

Það eru gleðitíðindi að nú eigi að móta stefnu um félags- og tómstundastarf og þá sérstaklega hversu mikið vægi rödd barna og ungmenna hefur í stefnunni. Enn sem komið er eru þó nokkrir hnökrar á stefnunni sem ég vil benda góðfúslega á.

1. Lögin sem stefnan byggir á þarfnast endurskoðunar.

2. Orðanotkun. Ég tel mikilvægt að fjalla um félags- og tómstundastarf í gegn um allt skjalið í stað þess að tala stundum um æskulýðsstarf.

3. Áhersla á sjálfboðaliða. Vissulega starfa sjálfboðaliðar í sumu félags- og tómstundastarfi en það er á undanhaldi. Að mínu mati getur illa samræmst að gera kröfur til þekkingar, færni og menntunnar ef ekki á að greiða laun fyrir starfið. Ég á þá ekki við að taka eigi út sjálfboðaliðana en vægi þeirra ætti að vera minna. Það stenst til að mynda ekki skoðun að félagsstarfsemi byggi fyrst og fremst á sjálfboðastarfi eins og fram kemur í stefnunni (tilvísun í lögin).

4. Áhersla á menntun. Við viljum hafa vel menntað starfsfólk sem hefur burði til að halda úti faglegu starfi sem víðast. Hér er þó aðallega fjallað um færni og þekkingu. Mikilvægt er að stefna að því að fólk sem sinni starfinu hafi sótt sér menntun sem nýtist í starfi.

5. Að félagsmiðstövar sinni öllum á svæðinu. Ég tel það ekki endilega vera keppikefli félagsmiðstöðva að þjónusta öll ungmenni í sveitarfélagi heldur hitt að tryggja að öll born fái tómstundaframboð við hæfi og taki þátt í einhverju. Þ.e.a.s. að ef ungmenni er ötult í íþróttum hefur félgsmiðstöð takmarkaðar áhyggjur af að viðkomandi taki ekki þátt í starfinu þar líka heldur einbeytir sér að ófélagsbundinni æsku.

6. Fagleg forysta. Ég held að það hljóti að vera eitt af markmiðum okkar að allt félgs- og tómstundastarf njóti faglegrar forystu einhvers sem hefur menntun, þekkingu og reynslu, jafnvel þegar starfið er að mestu byggt upp af sjálfboðaliðum. Það er mikilvægt að útfæra hvernig þessu skuli háttað og gefa því rými í stefnunni.

Ég hlakka til að geta starfað eftir fullmótaðri og framsýnni stefnu um félags- og tómstundastarf barna og ungmenna.

Esther Ösp Valdimarsdóttir,

tómstundafulltrúi Strandabyggðar

Afrita slóð á umsögn

#7 Samband íslenskra sveitarfélaga - 04.02.2021

Góðan dag

Meðfylgjandi er umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga.

f.h. sambandsins,

Valgerður Rún

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#8 Ungir umhverfissinnar - 04.02.2021

Meðfylgjandi er umsögn Ungra umhverfissinna um drög að stefnu um félags- og tómstundastarf

Umsögn skilar Þorgerður M Þorbjarnardóttir formaður samtakanna.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#9 Amanda Karima Ólafsdóttir - 04.02.2021

Eftirfarndi mætti skoða með hliðsjón af vinnu í stefnu um félags og tómstundastarf.

B) Rekstar og starfsumhverfi félags og tómstundastarfs

Þegar rætt er um að starfið getur verið ábyrgð sjálfboðaliða eða starfsfólks þá er mikilvægt að ábyrgð þeirra sem sinna félags- og tómstundastarfi sé betur skilgreint. Horfa þurfa til ýmissa annarra þátta varðandi ábyrgð þeirra sem vinna með börnum og ungmennum og til þess er mikilvægt að byggja upp ákveðinn lagaramma í kringum þjónustu sem þessa.

C) Mannauður sem undirstaða félags- og tómstundastarfs

Þegar rætt er um að auka nýliðun sjálboðaliða og starfsfólks þá er mkilvægt að gert sé betur grein fyrir hlutverki sjálfboðaliða (starfslýsing) hvert markmiðið sé með því að auka við sjálfboðaliðum í starfi á vettvangi frítímans og hver ber ábyrgð á því hvort að sjálboðaliðar vinni faglega. Á sama tíma að skilgreina betur starfsumhverfi Tómstunda- og félagsmálfræðinga og þeirra sem starfa á vettvangi frítímans. Horft sé til þess að hvetja sveitarfélög til að byggja upp heilsársstarfsemi þegar kemur að frítímaþjónustu sem bætir og eykur faglega þjónustu allt árið um kring. Á sama tíma sé starfsfólki tryggður traustur starfsvettvangur í starfa í og því meiri líkur á að fólk tileinki og horfi á störf á vettvangi frítímans til framtíðar.

Lögin sem stefnan á að byggja á er frá 2007 (og þá væntanlega í vinnslu ca frá aldamótum til 2007). Þessi lög þarf að byrja á að skoða og uppfæra áður en stefna er sett til næstu 10 ára sem á að byggja á þeim lögum.

Með kærri kveðju,

Amanda

Afrita slóð á umsögn

#10 Karen Geirsdóttir - 04.02.2021

Hugrún Geðfræðslufélag styður umsögn LUF

Afrita slóð á umsögn

#11 Öryrkjabandalag Íslands - 04.02.2021

Hér meðfylgjandi er umsögn Öryrkjabandalags Íslands um drög að stefnu um félags-og tómstundastarf barna og ungmenna 2020-2030, mál3/2021

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#12 Elín Hoe Hinriksdóttir - 04.02.2021

Meðfylgjandi er umsögn eftirfarandi félagasamtaka: ADHD samtökin, Einhverfusamtökin, Sjónarhóll ráðgjafamiðstöð, Tourette samtökin og Umhyggja.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#13 Þórunn Bylgja Borgþórsdóttir - 04.02.2021

Umsögn ungmennaráðs Múlaþings

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#14 F.Í.Æ.T - Félag íþrótta-, æskulýðs- og tómstundafulltrúa á Íslandi - 04.02.2021

Umsögn stjórnar félags íþrótta-, æskulýðs- og tómstundafulltrúa á Íslandi (FÍÆT)

sjá viðhengi

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#15 Akureyrarbær - 04.02.2021

Sjá umsögn í viðhengi

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#16 Gunnar Einarsson - 04.02.2021

AFS á Íslandi styður þá umsögn sem er þegar búið að leggja fram af LUF (Landssamband Ungmennafélaga).

Fyrir hönd AFS á Íslandi

Gunnar Einarsson, formaður stjórnar.

Afrita slóð á umsögn

#17 Barnaheill - Save the Children á Íslandi - 04.02.2021

Umsögn Barnaheilla - Save the Children á Íslandi um drög að stefnu um félags- og tómstundastarf barna og ungmenna 2020-2030.

Barnaheill – Save the Children á Íslandi þakka fyrir boð um að senda inn athugasemdir við ofangreint mál.

Samtökin fagna því að nú séu komin fram stefnudrög fyrir félags- og tómstundastarf barna til ársins 2030.

Barnaheill þakka fyrir gott samráð við hagsmunaaðila og þau tækifæri sem gefin eru til að taka þátt í mótun stefnunnar. Samtökin fengu þannig áður tækifæri til að leggja fram tillögur að því hvað koma skyldi fram í stefnunni og um helstu sjónarmið sem samtökin töldu að gæta þyrfti að við mótun hennar. Margt af því sem Barnaheill lögðu til í áðursendu skjali til ráðuneytisins hefur náð inn í stefnudrögin og fyrir það þakka samtökin.

Stefnudrögin byggja á inntaki Æskulýðslaga nr. 70/2007. Að mati Barnaheilla er um margt orðið tímabært að endurskoða Æskulýðslögin og breyta þeim til samræmis við samtímaþekkingu og í takt við þróun sem hefur átt sér stað á fagsviði tómstunda- og félagsmálafræða. Skilgreina þarf á nýjan leik orðið Æskulýðsstarf í lögunum, með víðfeðmari hætti en gert er í núgildandi lögum, þar sem telja ætti með að æskulýðsstarf væri liður í að styðja við bætta lýðheilsu barna, þ.m.t. að tiltaka rétt þeirra til heilnæms umhverfis, líkamlegrar, andlegrar og félagslegrar heilsu.

Heilt yfir innihalda stefnudrögin gagnleg sjónarmið. Það er ánægjulegt að sjá að á hana sé litið sem þátt í innleiðingu Barnasáttmálans. Með því má ætla að við útfærslu og innleiðingu sjálfrar stefnunnar verði að horfa til allra meginreglna sáttmálans, 1) um að börn skuli hafa jafnan aðgang og jöfn tækifæri til félags- og tómstunda óháð stétt og stöðu, 2) um að allar ákvarðanir um börn og félags- og tómstundir skuli taka með það sem barni er fyrir bestu, 3) að með félags- og tómstundum skuli unnið að því að börn njóti besta mögulega lífs og þroska og 4) að við félags- og tómstundaiðju skuli börn fá að láta rödd sína heyrast og fá að taka virkan þátt í mótun og framfylgd stefnunnar. Gagnlegt væri að sjá fjallað um þessi sjónarmið í stefnunni frekar en nú þegar er gert.

Barnaheill vilja enn fremur ítreka eftirfarandi úr áðursendu skjali til ráðuneytis:

!) Mikil áhersla er lögð á það í stefnudrögunum að börn stundi félags- og tómstundastörf á eigin forsendum og það sé lýðræðislegt val. Að mati Barnaheilla er mikilvægt að börnum séu veitt tækifæri á fyrstu árum ástundunar, t.d. fram að 9 ára aldri, til að kynna sér fjölbreyttar tómstundir svo þau finni sjálf hvar áhugi þeirra, ánægja og styrkleikar liggja. Þetta mætti gjarnan tiltaka í stefnunni

2) Mikilvægt er að tryggja jafnt aðgengi allra barna í raun, að teknu tilliti til ólíkra þarfa, svo sem hvað varðar þjóðerni og tungumál, fjárhag, misjafnrar félagslegrar stöðu svo og fötlunar. Í stefnunni þarf að tiltaka þau sjónarmið svo ljóst sé að stefnan miði að því að veita þeim börnum sem þurfa sérstakan stuðning til að geta í raun nýtt sér rétt til þátttöku í félags- og tómstundastarfi.

3) Gott væri að tiltaka í stefnunni að mikilvægt sé að vera vakandi fyrir því að ekki sé þrýst um of á börn að taka þátt í of mörgum frístundum sem komið getur niður á hvíld og næðistíma. Styðja þarf börn í að temja sér jafnvægi og kenna þeim á mörkin sín og að hlusta á innsæi sitt, hvenær komið er nóg. Jafnframt er mikilvægt að hinir fullorðnu styðji við skoðanir og þarfir barna þannig að ekki sé sett á þau umframpressa um að skara fram úr ef það er ekki það sem barnið sækist eftir.

4) Mikilvægt er að tryggja fagþekkingu í öllu frístunda- og tómstundastarfi, þ.á m. þekkingu í forvörnum og viðbrögðum við hvers kyns ofbeldi, líkamlegu, andlegu, kynferðislegu og gegn misnotkun, skeytingarleysi og hvers kyns mismunun og einelti í æskulýðsstarfi. Gera þarf að skyldu að starfsfólk og sjálfboðaliðar sitji námskeið í forvörnum, m.a. gegn ofbeldi og einelti, ásamt skyndihjálp og viðhaldi þeirri þekkingu sem þau öðlast í slíkri fræðslu.

Barnaheill hafa Barnasáttmálann að leiðarljósi í öllu sínu starfi og leggja áherslu á vernd barna gegn ofbeldi og á bann við mismunun. Samtökin hvetja til þess að stefna þessi verði kláruð að teknu tilliti til athugasemda og að unnin verði aðgerðaáætlun með skilgreindum hlutverkum og ábyrgð aðila sem hana framkvæma.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#18 Jónína Sif Eyþórsdóttir - 04.02.2021

Æskulýðssamband Þjóðkirkjunnar (ÆSKÞ) vill koma eftirfarandi á framfæri í tengslum drög að að stefnu í félags- og tómstundastarfi barna og ungmenna:




Við gerð stefnunnar hefur verið fallið frá fyrri orðanotkun: „Æskulýðsstarf“ og í staðin tekið upp „félags- og tómstundastarf“. Við teljum að stefnan ætti enn að nýta orðanotkunina „æskulýðsstarf“ eða „ungmennastarf“ þar sem slíkt er þjálla og líklegra til að festa sig í sessi í daglegu tali.



Mikilvægt er að hafa í huga að æskulýðsstarf er fjölbreytt og því sé öllu gert jafnhátt undirhöfði hvort sem um er að ræða starf á vegum sveitarfélaga/skóla, íþróttafélaga, trúfélaga, frjálsra félagasamtaka, stjórnmálasamtaka osfrv.

Að samræmdar siðareglur og heilræði fyrir starfsfólk í æskulýðsstarfi verði gefnar út. Líkt og þær sem ÆSKÞ hefur starfað eftir síðast liðin ár. 



Allt starf sé vímuefnalaust.



Að óheimilt sé að starfsmenn eða sjálfboðaliðar hafi gerst brotlegir við ákvæði XXII og XXIII kafla almennra hegningarlaga, nr. 19/1940. Sama skal gilda um brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni, nr. 65/1974, á síðastliðnum fimm árum. 

Að reglur séu settar um ábyrgðaraðila starfs svo ekki séu sjálfboðaliðar hafðir ábyrgir fyrir starfi.



Tímabært er að  endurskoða æskulýðslög nr. 70/2007 á sama tíma og stefnumótarvinnan fer fram. 


Æskulýðssamband Þjóðkirkjunnar (ÆSKÞ) hefur staðið vörð um æskulýðsstarf innan þjóðkirkjunnar, verið sóknum innan handar og ráðgefandi þegar kemur að þróun og vexti faglegs æskulýðsstarfs. Viðburðir okkar og verkefni miða að því að auka og tryggja aðgang alls ungs fólks að æskulýðsstarfi óháð efnahag eða búsestu. Þátttaka í æskulýðsstarfi þjóðkirkjunnar er öllum þátttakendum að kostnaðarlausu og mætum við þar meðal annars þeim fjölskyldum sem ekki hafa efni á að senda börn sín og ungmenni í kostað æskulýðsstarf og komum þannig í veg fyrir félagslega einangrun ungs fólks af efnaminni fjölskyldum sem og þeirra sem finna sig ekki í öðru íþrótta og tómstundastarfi. 


ÆSKÞ hvetur til óformlegrar menntunar ungs fólks með þátttöku og þjálfun í lýðræðislegum verkefnum á borð við Kirkjuþingi unga fólksins og Leiðtogaskólans. Þannig hefur starfsfólk, æskulýðsleiðtogar og þátttakendur sem hafa lagt sitt að mörkum innan kirkjunnar einnig margsinnis sannað sig á öðrum vettvangi enda búin að hljóta þjálfun í skipulagningu viðburða, framkvæmd æskulýðsstarfs, þátttöku í stórum og smáum nefndum um ýmis málefni bæði innan kirkju og utan. Þessi þjálfun í lýðræðislegri þátttöku hefur gefið ungu fólki rödd og þor til að láta til sín taka. 
 


Æskulýðssamband þjóðkirkjunnar hefur í mörg ár starfað undir ströngum siðareglum og heilræðum sem tryggja öryggi þátttakenda og leiðtoga í starfi. Slík viðmið ættu að vera öllum sem starfa með ungu fólki aðgengileg.


Það er mikilvægt að í stefnumótunar vinnu sem þessari sé horft til þess fjölbreytileika sem í boði er þegar æskulýðsstarf á Íslandi er annars vegar. Það er mikilvægt að muna að æskulýðsstarf er ekki bara íþróttir og listir heldur einnig starf þar sem einstaklingar fá að koma saman í öruggu umhverfi án þess að þurfa að sýna fram á getu eða hæfileika á ákveðnu sviði. Staður þar sem ungt fólk fær að þroska félagsfærni sína, samfélagslega þátttöku og skilning á því samfélagi sem það býr í. 


Það skiptir einnig gífurlegu máli að starfsreynsla og menntun æskulýðsleiðtoga sé metin að verðmætum og haft í huga að allir þeir sem bera ábyrgð á starfi þurfi að vera starfsmenn, en ekki launalausir sjálfboðaliðar. Það þarf að tryggja að þeir sem fari með forstöðu yfir starfi séu tryggðir í sinni vinnu og með þekkingu og hæfni til að sinna henni. Tryggja þarf fjármagn fyrir æskulýðsstarf svo hægt sé að breyta þeirri viðteknu venju að þeir sem starfar á þeim mikilvæga vettvangi sem æskulýðsstarf er séu í launaðri vinnu líkt og aðrir sem gegna mikilvægum störfum í samfélaginu.  


Það er mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir því hversu fjölbreytt æskulýðsstarf á sér stað á Íslandi og virkja tengsla net þessara aðila. Þar sem hvert starf hefur án efa sína kosti en einnig mismunandi gildi og áhrif á þátttakendur. Árangur af æskulýðsstarfi er mögulega illmælanlegur nema sem hausatalning eða viðlíka. En hafa verður í huga tilgang þess að meta áhrif og árangur – því það að skila einum þátttakenda úr starfi glöðum og reynslunni ríkari getur verð gífurlega verðmætt fyrir samfélagið – sér í lagi ef þátttaka þessa einstaklings í æskulýðsstarfi komi í veg fyrir eða vann gegn því að viðkomandi fetaði aðra verri braut í lífinu.  
ÆSKÞ styður þá hugmynd að komið verði á fót Gæðaviðmiðum  Evrópuráðsins fyrir æskulýðsmiðstöðvar sem fyrirmyndar að góðum starfsvenjum. Þar sem það mun í okkar huga án efa auka faglegheit æskulýðsstarfs á landsvísu.  



Fyrir hönd ÆSKÞ


Jónína Sif Eyþórsdóttir



 
 




Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#19 Tómas Ingi Torfason - 04.02.2021

Meðfylgjandi er umsögn frá KFUM og KFUK á Íslandi vegna stefnu Mennta- og menningarmálaráðuneytisins um félags- og tómstundastarf barna og ungmenna 2020-2030.

F.h. KFUM og KFUK

Tómas Torfason, framkvæmdastjóri

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#20 Ungmennafélag Íslands - 04.02.2021

Efni: Umsögn um drög að stefnu um félags- og tómstundastarf barna og ungmenna 2020-2030, mál nr. 3/2021

UMFÍ fagnar því að fram eru komin drög að stefnu um félags- og tómstundastarf barna og ungmenna, sem í stuttu máli má kalla Æskulýðsstefnu. Drögin eru mikilvægt skref sem færir Íslendinga nær því umhverfi sem börn og ungmenni búa við í samanburðarlöndum, sér í lagi á meginlandi Evrópu.

Helsta gleðiefni UMFÍ er að með stefnu í skipulögðu félags og tómstundastarfi er stuðlað enn betur en áður að innleiðingu Barnasáttamála Sameinuðu þjóðanna og tilmælum Evrópuráðsins um gæði félags- og tómstundastarfs. Um leið er sett fram framtíðarsýn til áratugar fyrir málaflokkinn og forgangsröðun verkefna.

Með þátttöku í skipulögðu félags- og tómstundastarfi fá börn og ungmenni tækifæri til að taka þátt á sínum forsendum, þroskast í öruggu umhverfi og um leið styðja við grunngildi þess að búa í lýðræðislegu samfélagi auk þess að njóta þekkingar fagmenntaðs starfsfólks.

Gott samstarf

Drögin sem hér um ræðir eru byggð á mikilli bakgrunnsvinnu, mörgum fundum og samvinnu félagasamtaka þar sem grunnur var lagður að stefnunni. Vinnuferlið við drögin er liður í auknu samráði.

Vissulega er um vinnuskjal að ræða. Engu að síður einkennist skjalið af opnu ferli þar sem fjölda hagaðila er hleypt að borðinu. UMFÍ væntir þess að sami háttur verði hafður á þegar Æskulýðsstefnan verður unnin áfram. Slíkt tryggir góða og vel unna stefnu byggða á faglegum grunni.

Ungmennaráð UMFÍ hefur síðastliðin tíu ár staðið fyrir ráðstefnunni Ungt fólk og lýðræði. Þar hefur margoft verið gagnrýnt að stjórnvöld taki ákvarðanir um ungt fólk án þess að leita viðbragða eða álits þess. Það var því ánægjulegt að hér við mótun draga að Æskulýðsstefnunni hafa slík vinnubrögð verið viðhöfð.

Þó má vissulega finna ýmislegt sem hægt væri að bæta enn frekar. Þar á meðal söknum við frekari skilgreiningar á æskulýðsstarfinu. Verði æskulýðsstarf ekki skilgreint með frekari hætti en hér er gert má ætla að hætta sé á að Æskulýðsstefnan nái yfir of vítt svið. Með öðrum orðum þarf að skilgreina betur starfsemi æskulýðsfélaga, hvers kyns starfsemi fellur undir skilgreininguna og þar fram eftir götunum. Þetta er jafnframt mikilvægt með hliðsjón af fjármögnun Æskulýðsstefnunnar. Afmörkuð og skýr skilgreining á því hvað felst í æskulýðsstarfi ber með sér hagræðingu þess fjármagns sem ætlað er til stefnunnar. Forsenda þess að að grunnurinn verði traustur er að starfið sé vel skilgreint.

Ljóst er að enn er nokkuð verk að vinna.

Stefnt var að því að móta stefnuna með nánari hætti á ráðstefnu með ungmennum árið 2020.

Kórónuveirufaraldurinn olli því hins vegar að hætta varð við ráðstefnuna eins og flest annað þar sem búist var við mörgum þátttakendum. Í stað þess var haldinn afskaplega árangursríkur og gefandi fjarfundur þar sem lagður var grunnur að drögum stefnunnar með einkar lausnamiðuðum hætti.

Lausnamiðuð hugsun, opið og jákvætt samráð og samtal við eins marga hagaðila og mögulegt er tryggir að góð stefna mun vonandi innan tíðar líta dagsins ljós. UMFÍ fagnar því hversu mörgum hefur verið boðið að borðinu og hversu margir fá tækifæri til að láta rödd sína hljóma og koma skoðunum sínum á framfæri við gerð stefnunnar, stefnu sem hefur verið í opnu samráði í gátt stjórnvalda í sex vikur.

Hafa ber í huga að eftir að unnið verður úr umsögnum að drögum Æskulýðsstefnunnar verður unnið að tillögum að aðgerðum til þess að fylgja stefnunni eftir. Enn er því talsverðu starfi ólokið. Margir hagaðilar munu því setjast aftur saman við borðið til að ljúka verkinu.

UMFÍ er umhugað um að vel takist til og hefur því hvatt forsvarsfólk í hreyfingunni og ungmennaráði UMFÍ til þess að láta rödd sína hljóma og taka þátt í að móta stefnuna.

Stefna til framtíðar

UMFÍ fagnar því sérstaklega að Æskulýðsstefnan sé til áranna 2020 - 2030. Til samanburðar náðu fyrri stefnur einungis til 3 – 5 ára sem er alltof skammur tími til að huga að öllum þeim þáttum sem máli skipta, hvað þá að rúm gefist til að innleiða stefnuna með faglegum hætti í starf íþrótta- og æskulýðsfélaga.

Að mati UMFÍ er mikilvægt að mennta- og menningarmálaráðuneytið standi fyrir samráði um drög að Æskulýðsstefnunni og sé á sama tíma framkvæmdaraðili hennar. Stefnur fyrri ára guldu fyrir það að þær settu kvöð á sveitarfélög og frjáls félagasamtök sem þau áttu erfitt með að standa undir.

UMFÍ tekur heilshugar undir þá framtíðarsýn sem endurspeglast í drögum að Æskulýðsstefnu stjórnvalda. Þ.e. að skipulagt æskulýðs- og tómstundastarf verði viðurkennt sem ein styrkasta stoðin í íslensku samfélagi. Þó fagnar UMFÍ því sérstaklega að óformlegu námi sem vissulega er fólgið í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi er lyft upp í drögum að Æskulýðsstefnu.

Fjölbreytni er lykill að framtíðinni

Í drögum að Æskulýðsstefnu til áranna 2020 – 2030 er lögð áhersla á fjölbreytileika. Hann fær þar mikið vægi og er lyft upp. Mikilvægt er einmitt að skipulagt félags- og tómstundastarf sé fjölbreytt og í stöðugri þróun. Þess vegna er svo gríðarlega mikilvægt að sem flestir fái tækifæri til að fara undir hatt skipulags starfs á því sviði sem þeir kjósa.

Fyrirtækið Rannsóknir og greining hefur um árabil kannað samspil ýmissa þátta hjá börnum í 8. 9. og 10 bekk grunnskóla í verkefni sem kallast Ánægjuvogin. Að Ánægjuvoginni koma UMFÍ og ÍSÍ. Niðurstöðurnar sýna með skýrum hætti að börn og ungmenni sem eru undir hatti skipulags starfs, hvort heldur er í íþróttum eða öðru æskulýðsstarfi, eru síður likleg til að leiðast út í áhættuhegðun og neyta áfengis- og vímuefna en hin, sem standa utan við skipulagt starf. Þar á meðal kemur fram í nýlegum niðurstöðum Ánægjuvogarinnar, að neysla allra vímuefna er mun ólíklegri á meðal unglinga í 8. - 10. bekk sem æfa íþróttir með íþróttafélagi en þeirra sem æfa ekki eða standa utan skipulags starfs.

UMFÍ og ÍSÍ hafa lagt áherslu á að ungmenna- og íþróttafélög nýti sér þessar góðu niðurstöður, bæði til að sýna iðkendum og foreldrum þeirra fram á hversu gott starf er unnið innan félaganna en einnig til að rýna og kanna hvað má betur fara, til þess að gera gott starf enn betra í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi.

Æskulýðsstarf er í sífelldri mótum enda kröfur samfélagsins fjölbreyttar. Af þeim sökum er mikilvægt að hagaðilar séu vakandi fyrir því að vera í sífelldri mótun og hræðast ekki breytingar. Þvert á móti verði þeir að leita leiða til að breytast og tryggja með þeim hætti að komið verði til móts við ólíkar þarfir, væntingar og ólík áhugasvið barna og ungmenna í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi.

Með sanni má segja að með drögum að Æskulýðsstefnu sé lagður faglegur grunnur að skipulögðu æskulýðsstarfi. Mikilvægt er að umgjörðin verði í lagi.

Saman erum við öll betri

Ungmennafélag Íslands, skammstafað UMFÍ, er landssamband ungmennafélaga. UMFÍ var stofnað í ágúst árið 1907. Sambandsaðilar UMFÍ eru 28 talsins sem skiptast í 21 íþróttahérað og 7 ungmennafélög með beina aðild. Alls eru um 450 félög innan UMFÍ með rúmlega 270 þúsund félagsmenn.

Forsvarsfólk UMFÍ og ungmennaráð UMFÍ er reiðubúið til frekari útskýringa og aðstoðar á fleiri stigum málsins ef þess er óskað.

f.h. Ungmennafélags Íslands

Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#21 Samband íslenskra framhaldsskólanema (S.Í.F) - 04.02.2021

Meðfylgjandi í viðhengi er að finna umsögn Sambands íslenskra framhaldsskólanema, SÍF, um drög að stefnu um félags- og tómstundastarf.

Afrita slóð á umsögn

#22 Samfés, samtök félagsmiðstöðva og ungmennahúsa á Íslandi - 04.02.2021

Meðfylgjandi er umsögn Samfés, landssamtaka félagsmiðstöðva og ungmennahúsa um drög að stefnu um félags- og tómstundastarf barna og ungmenna 2020-2030, mál nr. 3/2021.

Virðingarfyllst f.h. Samfés

Victor Berg Guðmundsson, framkvæmdastjóri

Viðhengi