Samráð fyrirhugað 07.01.2021—18.01.2021
Til umsagnar 07.01.2021—18.01.2021
Niðurstöður í vinnslu frá 18.01.2021
Niðurstöður birtar

Drög að rannsóknaráætlun 2021-2023 um gagnaöflun og rannsóknir í ferðaþjónustu

Mál nr. 4/2021 Birt: 07.01.2021 Síðast uppfært: 14.01.2021
  • Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið
  • Annað
  • Málefnasvið:
  • Ferðaþjónusta

Niðurstöður í vinnslu

Umsagnarfrestur er liðinn (07.01.2021–18.01.2021). Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Niðurstöður samráðsins verða birtar þegar unnið hefur verið úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust.

Málsefni

Drög að rannsóknaráætlun 2021-2023 um rannsóknir og gagnaöflun í ferðaþjónustu. Staða verkefna í fyrri útgáfu hefur verið uppfærð (8 verkefni af 11) og þremur nýjum bætt við.

Fyrsta rannsóknaráætlun Ferðamálastofu var gefin út í ágúst 2020. Hér eru birt drög að endurskoðaðri útgáfu hennar fyrir tímabilið 2021-2023.

Í lögum um Ferðamálastofu segir að stofnunin skuli safna gögnum sem nýtast við ákvarðanatöku og markmiðasetningu í ferðaþjónustu og birta þau. Stofnunin skal jafnframt stuðla að rannsóknum og greina þörf fyrir rannsóknir á sviði ferðamála og vinna rannsóknaráætlun í samstarfi við rannsóknastofnanir, háskóla og atvinnugreinina þar sem skilgreind er rannsóknarþörf og forgangsröðun verkefna.

Í reglugerð nr 20/2020 er kveðið nánar á um söfnun og vinnslu upplýsinga og rannsóknir. Drög að uppfærðri rannsóknaráætlun eru sett fram í samræmi við áskilnað 7. gr. reglugerðarinnar.

Tengd mál

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Anna Guðrún Ragnarsdóttir - 14.01.2021

Á síðastliðnu ári varð íslenska þjóðarbúið fyrir miklum skaða í kjölfar Covid-19 en sá skaði kom ekki hvað síst fram í gegnum verulegan samdrátt í innlendri ferðaþjónustu. Sá skellur hefur minnt á hve þýðingarmikil atvinnugreinin er orðin fyrir íslenskan efnahag og hefur sérstaklega undirstrikað mikilvægi þess að hafa djúpan skilning á greininni og orsök og afleiðingar innan hennar. Með slíkum skilningi er hægt að draga úr sveiflum, og þar með óvissu, innan greinarinnar sem sömuleiðis dregur úr sveiflum og óvissu fyrir íslenskt efnahagslíf yfirhöfuð.

Rannsóknaráætlun ferðamálastofu felur annars vegar í sér nauðsynlega gagnaöflun og hins vegar greiningu á gögnum til að dýpka skilning á greininni. Sá skilningur snýr meðal annars að því að átta sig á seiglu greinarinnar og hvernig best er að bregðast við áföllum. Aukin þekking á þessu sviði mun undirbúa greinina fyrir öðrum niðursveiflum og áföllum sem kunna að verða í framtíðinni. Meðal annarra verkefna í rannsóknaráætlun er gerð þjóðhagslíkans en mikilvægi slíks líkans eykst með auknum umsvifum greinarinnar. Miðað við hve sveiflugjarn ferðaþjónustugeirinn er og hve stór hluti hann er af VLF er sérstaklega mikilvægt að hafa slíkt þjóðhagslíkan til að átta sig á áhrifum ferðaþjónustu á aðrar atvinnugreinar, atvinnuleysi, velferð og fleira.

Ég met sem svo að rannsóknaráætlun ferðamálastofu sé vel ígrunduð og vandlega unnin. Verkefnin sem teljast til hennar eru þörf og munu gagnast aðilum ferðaþjónustu, stjórnvöldum og þar með þjóðinni allri.

Afrita slóð á umsögn

#2 Jóhann Rúnar Björgvinsson - 15.01.2021

Höfundur, Jóhann Rúnar Björgvinsson, er þjóðhagfræðingur og ráðgjafi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í opinberum fjármálum.

Flest bendir til þess að í ljósi hagþróunar undanfarinna ára að ferðaþjónusta muni gegna lykilhlutverki hér á landi í framtíðinni varðandi hagvaxtaþróun, nýtingu vinnuafls og stækkun þjóðarkökunnar, en ferðaþjónusta er samansafn atvinnugreina sem selja ferðamönnum afurðir sínar. Líta má svo á að hinn mikli fjöldi ferðamanna sem heimsækir landið sé í raun auðlind sem hægt er að nýta til frekari virðisauka fyrir land og þjóð. Á sviði ferðaþjónustu eru því fjölmörg sóknarfæri, en það er áskorun okkar að sækja fram og bjóða þær afurðir sem gefa samfélaginu hvað mest til lengri tíma litið. Fyrir stefnumótun og ákvarðanatöku í ferðaþjónustu til lengri tíma er því lífsnauðsynlegt að styrkja verulega ferðaþjónustuþáttinn í þjóðhagslíkönum. Með slíku skrefi er hægt styrkja verulega áætlana- og spágerð í ferðaþjónustu og meta mun betur möguleg sóknarfæri og ávinningur fyrir þjóðarbúið. Það er því mikið fagnaðarefni að fram sé komin rannsóknaráætlun sem leggur áherslu á styrkja verulega grunn þjóðhagslíkana í því augnamiði að varpa skýrara ljósi á þjóðhagsleg og efnahagsleg áhrif ferðaþjónustu til lengri tíma.

Mikilvægt er að hafa í huga í þessu sambandi að í lögum um opinber fjármál frá 2015 er gert ráð fyrir að Alþingi samþykki árlega fimm ára áætlun fyrir hvert málefnasvið og er ferðaþjónusta eitt þeirra málefnasviða. Þá er í lögunum gert ráð fyrir að á þriggja ára fresti skuli ráðherra fjármála leggja fram langtímaáætlun um horfur og þróun varðandi m.a. samfélags- og atvinnuþætti og efnahagslega áhrif á hið opinbera. Til að rækja þetta hlutverk sómasamlega og að alvöru er mjög mikilvægt að ferðaþjónustan endurspegli sinni mikilvæga sess (sem hún hefur áunnið sér undanfari ár í þjóðarbúskapnum) í þeim þjóðhagslíkönum sem notuð eru í áætlana- og spágerð til skamms- og langstíma. Rannsóknaráætlunni er viðleitni til þess að styrkja þennan þátt, en það felst m.a. í því að styrkja (breikka og dýpka) gerð ferðaþjónustureikninga og að þróa samkvæmt alþjóðafyrirmynd ferðaþjónustulíkan tengt þjóðhagslíkani Hagstofunnar/Seðlabankans sem auðvelda mun verulega áætlana- og spágerð í ferðaþjónustu. Hér er um mjög mikilvægt hagsmunamál að ræða fyrir þjóðarbúið þar sem ferðaþjónustan hefur um árabil verið stærsta atvinnugrein þess, en ekki hefur verið sem skyldi rannsakað hagfræðilega hvernig mismundi þjóðhagsstærðir, s.s. verð- og gengisbreytingar, hafa áhrif á hegðun ferðamanna svo fáeitt sé nefnt.

Afrita slóð á umsögn

#3 Samtök ferðaþjónustunnar - 18.01.2021

Ágæti viðtakandi,

Í viðhengi er umsögn Samtaka ferðaþjónustunnar um drög að rannsóknaráætlun 2021-2023 um gagnaöflun og rannsóknir í ferðaþjónustu.

Ég væri þakklátur fyrir staðfestingu á móttöku.

Bestu kveðjur

F.h. SAF

Gunnar Valur Sveinsson

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#4 Guðrún Þóra Gunnarsdóttir - 18.01.2021

Umsögn RMF er viðhengd.

Viðhengi