Máli lokið með birtingu aðgerðaráætlunar um barneignarþjónustu.
Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 08.01.2021–08.02.2021.
Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.
Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 23.01.2023.
Heilbrigðisráðuneytið óskar eftir umsögnum um skýrslu starfshóps sem heilbrigðisráðherra fól að gera tillögur að bættri barneignaþjónustu með áherslu á að auka samþættingu milli meðgönguverndar, fæðingarhjálpar og þjónustu við konur í sængurlegu.
Enn sem komið er, er engin stefna til um barneignarþjónustu hérlendis, hvorki varðandi fjölda og staðsetningu skilgreindra fæðingarstaða á landsvísu né yfirlýst stefna um þá þjónustu og aðbúnað sem konum ætti að standa til boða í gegnum. Auk þess skortir víða samfellu í þjónustuna milli meðgönguverndar, fæðingarhjálpar og í sængurlegu. Árlega kemur út skýrsla frá Fæðingarskráningunni um nýliðið ár, gefin út af Kvenna- og barnasviði Landspítala, fyrir hönd Embættis landlæknis og fjallar um fæðingarþjónustuna á landsvísu. Árið 2010 vann Ljósmæðrafélag Íslands skýrslu
um barneignarþjónustu á landsvísu og í hverju heilbrigðisumdæmi og er það gagnleg heimild um stöðu barneignarþjónustu á þeim tíma. Embætti landlæknis gaf út Leiðbeiningar um val á fæðingarstað árið 2007 sem leiðbeinandi viðmið fyrir fagfólk og barnshafandi konur um mismunandi
þjónustustig skilgreindra fæðingarstaða landsins. Þær leiðbeiningar hafa ekki verið yfirfarnar síðan. Í desember 2019 skipaði Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra, þverfaglegan starfshóp um stefnumótun í barneignarþjónustu. Í skipunarbréfi kemur fram að styrkja þurfi samfellu í þjónustunni milli meðgönguverndar, fæðingarhjálpar og í sængurlegu og skuli stefna í barneignarþjónustu á landsvísu byggja á nýútgefinni heilbrigðisstefnu og taka m.a. mið af áherslum ráðherra á rétta þjónustu á réttum stað, skilvirk þjónustukaup og gæði. Samkvæmt skipunarbréfi átti starfshópurinn að skila drögum að stefnu í maí 2020 en vegna tafa sem hlutust af covid-19 heimsfaraldrinum, seinkaði þeirri vinnu.
Starfshópinn skipuðu:
Guðlaug Einarsdóttir, sérfræðingur í heilbrigðisráðuneytinu, verkefnisstjóri starfshópsins.
Alexander K. Smárason, prófessor við Heilbrigðisvísindastofnun Háskólans á Akureyri, forstöðulæknir fæðingar- og kvensjúkdómalækninga á SAk tiln. af Sjúkrahúsinu á Akureyri.
Berglind Hálfdánsdóttir, ljósmóðir og dósent, tiln. af Námsbraut í ljósmóðurfræði við Háskóla Íslands.
Hulda Hjartardóttir, yfirlæknir fæðingarteymis, tiln. af Landspítala.
Ósk Ingvarsdóttir, kvensjúkdóma- og fæðingarlæknir, yfirlæknir ÞÍH, tiln. af Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
Sigrún Kristjánsdóttir, yfirljósmóðir, tiln. af Heilbrigðisstofnun Suðurlands.
Starfshópurinn hélt 27 fundi, flesta á fjarfundarformi. Hópurinn gerði könnun á stöðu barneignarþjónustu á landinu sem send var öllum þjónustuveitendum eða fulltrúum þeirra og kallaði eftir áliti fjölda sérfræðinga,
Á 948. fundi byggðarráðs Sveitarfélagsins Skagafjarðar þann 13. janúar 2021 var gerð eftirfarandi bókun.
Lagður fram tölvupóstur dagsettur 8. janúar 2021 þar sem heilbrigðisráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 5/2021, "Barneignarþjónusta - stöðuskýrsla og tillögur starfshóps ráðherra".
Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar fagnar framkominni skýrslu um barneignarþjónustu. Eins og réttilega er bent á er engin stefna til um barneignarþjónustu hérlendis, hvorki varðandi fjölda og staðsetningu skilgreindra fæðingarstaða á landsvísu, né yfirlýst stefna um þá þjónustu og aðbúnað sem konum ætti að standa til boða. Á Norðurlandi vestra er enginn skilgreindur fæðingarstaður og þurfa barnshafandi konur í þeim landshluta því að leita til Akureyrar, Akraness eða annað til að fæða börn sín. Ekki þarf að fjölyrða um oft á tíðum erfiðar aðstæður sem konur geta lent í af þeim sökum en barnshafandi konur í Skagafirði þurfa t.a.m. í öllum tilfellum að fara um erfiða fjallvegi til fæðingarstaða, þ.e. um Öxnadalsheiði, Vatnsskarð, Þverárfjall eða Siglufjarðarveg. Síðast liðinn vetur lokuðust þessir vegir mjög reglulega, Öxnadalsheiði í 34 skipti, Vatnsskarð í 22 skipti, Þverárfjall í 43 skipti og Siglufjarðarvegur í 54 skipti. Þá má minna á að aðgangur íbúa Norðurlands vestra að sjúkrahúsþjónustu sem er með sólarhringsaðgengi að skurðstofu er hvergi lakara en á Norðurlandi vestra. Nánast enginn íbúi á möguleika á að komast í slíka þjónustu á innan við klukkustund en í þeim landshluta sem næst lakast stendur á rúmlega helmingur íbúa þess kost að komast á þannig sjúkrahús innan klukkustundar. Úr þessu má bæta með tvennu móti, að byggja upp og manna sjúkrahús sem getur bætt aðgengi íbúanna að þessari þjónustu. Hins vegar má bæta samgöngur. Ef miðað er við framangreinda skýrslu um barneignarþjónustu virðist ætlunin ekki vera sú að byggja upp fæðingarþjónustu á Norðurlandi vestra heldur mögulega koma upp starfsstöð héraðsljósmóður á Sauðárkróki sem „bæri ábyrgð á að veita grunnþjónustu í héraði, s.s. meðgönguvernd, sængurleguþjónustu og ungbarnavernd auk leghálsskimunar og ávísun hormónatengdra getnaðarvarna auk þess að hafa skilgreinda og launaða bakvaktaskyldu til að sinna bráðatilfellum í héraði. Héraðsljósmóðir bæri ábyrgð á að samþætta grunnþjónustu við sérhæfða þjónustu sem væri ýmist hægt að veita á staðnum, með fjarheilbrigðisþjónustu eða með flutningi skjólstæðings á hærra þjónustustig.“ Með öðrum orðum virðist ætlunin sú að áfram verði enginn skilgreindur fæðingarstaður á Norðurlandi vestra heldur verði komið á fót starfi héraðsljósmóður sem undirbyggi barnshafandi konur undir flutning á hærra þjónustustig. Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar fer fram á að íbúar Norðurlands vestra búi við sambærilega þjónustu af hálfu ríkisins og íbúar annarra landshluta.
Umsögn frá stjórn Fagráðs um ljósmæðraþjónustu á Landspítala er í viðhengi.
ViðhengiGóðan daginn
Meðfylgjandi er umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga
Virðingarfyllst,
Bryndís Gunnlaugsdóttir
ViðhengiUmsögn frá Námsbraut í ljósmóðurfræði, við Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands.
ViðhengiUmsögn stjórnar Ljósmæðrafélags Íslandsí viðhengi.
Viðhengi ViðhengiUmsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar vegna samráðs máls nr. 5/2021, „Barneignarþjónusta - stöðuskýrsla og tillögur starfshóps ráðherra“.
Landssamtökin Þroskahjálp fagna því að gefa eigi út opinbera stefnu í barneignarþjónustu þar sem tryggja eigi samfellu milli þjónustustiga og aukin stuðning við foreldra.
Fatlað fólk hefur samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna rétt á fjölskyldulífi, stuðningi og fræðslu í hlutverki sínu. Um er að ræða afar viðkvæman og jaðarsettan hóp sem hefur í gegnum tíðina upplifað stuðningsleysi og verið í aukinni hættu á að börn þeirra séu tekin af þeim vegna fordóma og stuðningsleysi. Samtökin harma að hvergi sé rætt um þarfir og stuðning við fatlaða foreldra, sér í lagi seinfæra foreldra.
Fatlaðir foreldrar upplifa oft vantraust fagfólks á getu þeirra sem veldur miklum áhyggjum og kvíða, sem bætist ofan á það álag sem fylgir því að annast ungabarn. Mikilvægt er að foreldrar geti treyst því að staðið sé vörð um hagsmuni þeirra og barna þeirra og að velferð fjölskyldunnar sé í forgrunni.
Lykilþáttur í stuðningi við seinfæra foreldra er að samstarf sé á milli félagsþjónustu og heilbrigðiskerfisins enda mikilvægt að skipuleggja stuðninginn, í samráði við foreldrana og efla sjálfsákvörðunarrétt og sjálfstraust þeirra í hlutverkinu. Alltof algengt er að fatlað fólk lendi á milli kerfa þar sem enginn ber ábyrgð á þjónustunni við þau og að aðstoð sem óskað er eftir berist seint, og því hafi vandinn oft undið upp á sig.
Reynsla félagsmanna samtakanna sýnir að skortur er á aðgengilegri fræðslu fyrir fólk með þroskahömlun um getnað og meðgöngu. Tryggja þarf fræðsluefni á auðskildu máli fyrir verðandi foreldra. Þá er skortur á upplýsingum um fæðingaraðstöðu og þann stuðning sem í boði er fyrir fatlaðar mæður en mikilvægt er að allir foreldrar, óháð fötlun, geti undirbúið sig fyrir þennan mikilvæga atburð í lífi sínu.
Hvað varðar fræðslu þjónustuveitenda er mikilvægt að starfsfólk sem sinnir barnshafandi konum og nýjum mæðrum fái nútímalegar og góðar upplýsingar um réttindi fatlaðs fólks og að skilningur sé á að fötlun foreldris hafi ekki forspárgildi um getu til að annast barn sitt og veita þeim gott atlæti og uppeldi. Gæðaúttektir á leiðbeiningum fyrir heilbrigðisfólks ætti einnig að tiltaka fræðslu um stuðning við fatlaðar mæður, og sérstaklega seinfærar mæður.
Þá telja samtökin mikilvægt að breytingar verði gerðar á reglugerð um hjálpartæki svo fatlaðir foreldrar eigi rétt á hjálpar- og stuðningstækjum til þess að styðja þær í foreldrahlutverki sínu.
Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir
Sjá meðfylgjandi umsögn Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands
Viðhengi