Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 12.1.–23.2.2021

2

Í vinnslu

  • 24.2.–21.6.2021

3

Samráði lokið

  • 22.6.2021

Skjöl til samráðs

Mál nr. S-6/2021

Birt: 12.1.2021

Fjöldi umsagna: 17

Drög að stefnu

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið

Umhverfismál

Drög að stefnu um meðhöndlun úrgangs 2021-2032

Niðurstöður

Í kjölfar samráðs gaf ráðherra út stefnu um meðhöndlun úrgangs 2021–2032, undir yfirskriftinni Í átt að hringrásarhagkerfi. Fjallað er um niðurstöður samráðs í sérstöku niðurstöðuskjali.

Málsefni

Óskað er eftir umsögnum um drög að stefnu umhverfis- og auðlindaráðherra um meðhöndlun úrgangs 2021-2032. Meginmarkmið stefnunnar eru að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá meðhöndlun úrgangs, vinna að kolefnishlutleysi Íslands og að stuðla að sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda.

Nánari upplýsingar

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið óskar eftir umsögnum um drög að stefnu um meðhöndlun úrgangs 2021-2032. Drögin eru sett fram undir heitinu Í átt að hringrásarhagkerfi.

Meginmarkmið stefnunnar eru að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá meðhöndlun úrgangs, vinna að kolefnishlutleysi Íslands og að auka endurvinnslu og aðra endurnýtingu, draga úr urðun og hætta urðun lífbrjótanlegs úrgangs. Framtíðarsýnin er að Ísland verði meðal leiðandi þjóða í loftslagsmálum og sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda til hagsbóta fyrir komandi kynslóðir.

Magn heimilisúrgangs á hvern íbúa hér á landi er með því mesta sem gerist meðal EES-ríkja og er endurvinnsla heimilisúrgangs of lítil og of mikið af honum urðað. Nýrri stefnu er ætlað að bæta úr þessu. Árið 2018 féllu til hér á landi um 1.300 þúsund tonn af úrgangi í heild og þar af voru 216 þúsund tonn urðuð. Þetta sama ár var samanlögð losun gróðurhúsalofttegunda frá urðun úrgangs, sorpbrennslu og jarðgerð hér á landi tæp 5% af heildarlosun Íslands og má rekja 95% af þeirri losun til urðunar úrgangs.

Árið 2016 kom út fyrri hluti stefnunnar undir heitinu Saman gegn sóun, sem kveður á um aðgerðir til úrgangsforvarna. Í stefnunni sem nú er til kynningar er mælt fyrir 24 aðgerðum og er stefnt að því að 12 þeirra verði lögfestar á þessu ári, m.a. skylda til flokkunar heimilisúrgangs og rekstrarúrgangs, samræming merkinga fyrir úrgangstegundir, bann við urðun úrgangs sem hefur verið safnað sérstaklega til endurvinnslu og að innheimta gjalda fyrir meðhöndlun úrgangs verði sem næst raunkostnaði við meðhöndlun hans. Með stefnunni eru stigin skref í átt að innleiðingu hringrásarhagkerfis á Íslandi. Meðal annarra aðgerða sem fara á í eru álagning urðunarskatts, bann við urðun lífbrjótanlegs úrgangs, stuðningur við heimajarðgerð og stuðningur við uppbyggingu innviða til meðhöndlunar úrgangs sem samræmast hugmyndum um hringrásarhagkerfi. Jafnframt er í drögunum að finna aðgerðir sem styðja eiga sérstaklega við sveitarfélög við að innleiða bætta úrgangsstjórnun.

Stefnan tekur við af Landsáætlun um meðhöndlun úrgangs 2013–2024 og er það í samræmi við breytingar sem gerðar voru á lögum um meðhöndlun úrgangs árið 2014.

Frestur til að senda inn umsagnir er til 23. febrúar nk.

Samráði lokið

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Umsjónaraðili

Skrifstofa umhverfis og skipulags

uar@uar.is