Samráð fyrirhugað 22.01.2021—10.02.2021
Til umsagnar 22.01.2021—10.02.2021
Niðurstöður í vinnslu frá 10.02.2021
Niðurstöður birtar 27.09.2021

Drög að breytingu á lögum nr. 48/2011, um verndar- og orkunýtingaráætlun (málmeðferð virkjunarkosta í vindorku)

Mál nr. 19/2021 Birt: 22.01.2021 Síðast uppfært: 27.09.2021
  • Umhverfis- og auðlindaráðuneytið
  • Drög að frumvarpi til laga
  • Málefnasvið:
  • Umhverfismál
  • Orkumál

Niðurstöður birtar

Niðurstaða málsins i stuttu máli; Alls bárust 19 umsagnir í Samráðsgátt. Nokkrar breytingar voru gerðar á frumvarpinu í kjölfar umsagna. Í kaflanum um Samráð í greinargerð með frumvarpinu er gerð grein fyrir viðbrögðum við athugasemdum. Frumvarpið var lagt fram á Alþingi vorið 2021 en varð ekki að lögum.

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 22.01.2021–10.02.2021. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 27.09.2021.

Málsefni

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið kynnir til umsagnar drög að breytingum á lögum nr. 48/2011, um verndar- og orkunýtingaráætlun ásamt skilabréfi starfshóps þriggja ráðuneyta sem vann að tillögum um meðferð vindorku innan verndar- og orkunýtingaráætlunar.

***** Samráðsfrestur hefur verið lengdur til 10. febrúar 2021 ******

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er kveðið á um að „setja þurfi lög um vindorkuver ásamt því að vinna með sveitarfélögum leiðbeiningar um skipulagsákvarðanir og leyfisveitingar“.

Í lok árs 2019 var ákveðið að skipa sérstakan starfshóp þriggja ráðuneyta til að skoða frekar og vinna að mótuðum tillögum um hvernig best væri að haga málefnum vindorku sem orkunýtingarkosts hér á landi. Hópnum var m.a. falið að athuga hvort rétt væri að vindorka sætti annarri málsmeðferð innan rammaáætlunar en hinir hefðbundu orkunýtingarkostir skv. lögum nr. 48/2011 um verndar- og orkunýtingaráætlun (rammaáætlun) og þá hvernig það yrði best gert. Í hópnum sátu fulltrúar úr umhverfis- og auðlindaráðuneyti, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti ásamt samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti.

Í skýrslu starfshópsins eru lagðar til að gerðar verði tilteknar breytingar á lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun með tilliti til málsmeðferðar og ferli vindorkumála í rammaáætlun. Þar er gerð tillaga að því að aðlaga lög 48/2911 betur að séreðli vindorkunnar með þeim hætti að landssvæði verði að meginstefnu til flokkað í þrjá flokka landssvæða með tilliti til hagnýtingar vindorku:

Flokkur 1. Mælt yrði fyrir um að ekki yrðu byggð vindorkuver á landssvæðum í þessum flokki og að stjórnvöldum væri óheimilt að veita leyfi fyrir slíkum virkjunarkostum eða taka þá til meðferðar.

Flokkur 2. Þar féllu undir svæði sem gætu í eðli sínu almennt verið viðkvæm fyrir uppbyggingu vindorkuvera eða annarri mannvirkjagerð, en virkjunarkostir í vindorku innan slíkra svæða gætu þó komið til greina að uppfylltum tilteknum skilyrðum, meginreglum og viðmiðum og að undangengnu mati verkefnisstjórnar rammaáætlunar.

Flokkur 3. Þar yrðu um að ræða landsvæði sem hvorki teldust falla í flokk 1 né í flokk 2. Ákvörðunarvald um framhald virkjunarkosta á svæði í flokki 3 yrði þá hjá sveitarfélagi og öðrum stjórnvöldum að uppfylltum almennum reglum og skipulagsgerð einstakra sveitarfélaga, lögbundnu umhverfismati o.s.frv.

Í tillögum starfshópsins er gert ráð fyrir að við mat á virkjunarkostum í vindorku innan rammaáætlunar verði horft til sérstakrar stefnumörkunar stjórnvalda, meginreglna og viðmiða sem sett yrði fram í formi tillögu til þingsályktunar. Í slíkri þingsályktunartillögu yrði annars vegar gerð grein fyrir þeim svæðum sem féllu undir svæði 1. og svæði 2. skv. frumvarpinu og hins vegar þeim meginsjónarmiðum sem fylgja þarf við skoðun og mat á vindorkukostum sem eru á svæðum í flokki 2.

Hér er í raun horft nokkuð til sambærilegrar hugmyndafræði og þróuð var í Skotlandi sem hefur hins vegar verið aðlöguð að íslenskum aðstæðum. Drög að stefnumörkun stjórnvalda sem lögð er til í skýrslu starfshópsins og gert er ráð fyrir í frumvarpi til breytinga á lögum nr. 48/2011, um verndar- og orkunýtingaráætlun liggur fyrir og er hluti af þeim gögnum sem fylgja með frumvarpsdrögunum.

Ein af helstu breytingunum sem lagðar eru til felast í málsmeðferð virkjunarkosta í vindorku vegna þess séreðlis vindorkunnar að hún er hvorki staðbundin, né takmörkuð að eðli eða umfangi, eins og hinir hefðbundnu virkjunarkostir í vatnsafli og jarðvarma.

Í frumvarpinu er því gert ráð fyrir að málsmeðferð rammaáætlunar byggist á skoðun á tilgangi og markmiðum þess að svæðið er flokkað sem viðkvæmt svæði í flokki 2 og ef sú skoðun leiðir í ljós að vindorkukostur verði ekki talinn raska slíkum tilgangi þá verði heimilt að halda áfram með slíkt mál á stjórnsýslustigi að uppfylltum þeim skilyrðum sem fram koma.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Skúli Thoroddsen - 03.02.2021

Umsögn um drög að frumvarpi umhverfis- og auðlindaráðherra til breytinga á lögum nr. 48/2011, um verndar- og orkunýtingaráætlun (málsmeðferð virkjunarkosta í vindorku)

1. Um lögfræðilega túlkun laga nr. 48/2011, um verndar- og orkunýtingaráætlun

Eins og fram kemur í greinargerð með frumvarsdrögunum, liggur fyrir það lögfræðiálit m.a. Orkustofnunar og LEX lögmannsstofu, að gildandi lög um nr. 48/2011, um verndar- og orkunýtingaráætlun taki ekki til vindorkuvera. Landaslög lögmannsstofa komst hins vegar, í álit sínu fyrir umhverfis- og auðlindaráðuneytið, að svo væri með vísa vilji iðnaðarnefndar Alþingis á sínum tíma. UAR hefur haldið sig við þá skoðun fram til þessa.

Nú virðist UAR hafi fallist á að veruleg óvissa a.m.k. ríki um hvort lög um rammaáætlun gildi um vindorkukosti og standist þar með ákvæði stjórnarskrárinnar um atvinnufrelsi, eignarétt, skipulagsvald sveitarfélaga og jafnræði. Þess vegna virðist þurfi að negla niður sérákvæði um staðarval fyrir vindlundi, leggja lögunum til sérákvæði um vindorkuver, eins og fyrirhugað frumvarpi til breytingar á lögum nr. 48/2011, um verndar og orkunýtingaráætlun gerir ráð fyrir, að á eftir 1. mgr. 2. gr. laganna komi ný málsgrein svohljóðandi; Um virkjunarkosti til nýtingar vindorku fer samkvæmt ákvæðum 10. gr. a-c laganna. Það er sem sagt þessi 10. gr. a-c sem er nýjungin.

Markmiði breytinganna er samkvæmt greinargerð frumvarpsdraganna, annars vegar að forgangsraða með tilteknum hætti landssvæðum fyrir vindorku þannig að ná megi fram jafnvægi milli mikilvægra umhverfis-, samfélags- og efnahagslegra þátta við nýtingu þessa orkukosts og hins vegar að gera leyfisveitingarferlið skilvirkara en nú er og hins vegar.

Markmiðið er göfugt, en við fyrstu skoðun virðist höfundar frumvarpsins á villigötum varðandi skilvirka málsmeðferð og forgangsröðun á landssvæðum með þeim hætti sem frumvarpið boðar. Það felur í sér afturhvarf til ráherraræðis andstætt meginreglum laga vegna fullgildingar Árósasamningsins og kæranleika stjórnvaldsákvarðana utan við pólitísk afskipti og er í raun alveg óþarft og afleitt þegar grannt er skoðað.

Með frumvarpinu er lagt til að sérstaklega verði kveðið á um vindorku í lögum nr. 48/2011, um verndar- og orkunýtingaráætlun, til að taka af allan vafa um að virkjunarkostir í vindorku, sem eru yfir 10MW eða meira að uppsettu afli heyri undir lögin. Það er hið nýja ákvæði, 10 gr. a-c. Lagt er til að slíkir virkjunarkostir sæti annarri málsmeðferð skv. lögunum en hefðbundnir virkjunarkostir. Tillögu um vinorkukost á svonefndu svæði tvö, skal senda beint til verkefnisstjórnar án aðkomu Orkustofnunar. Það er hins vegar hlutverk Orkustofnunar, sbr. 2. mgr. 9. gr. laganna að skilgreina virkjunarkosti sem falla undir lögin. Ef slíkur kostur er mati Orkustofnunar nægilega skilgreindur skal verkefnisstjórn fá hann til umfjöllunar. Það gildir ekki um vindorkukosti og á ekki að heldur um vindorku, verði gr. 10 a-c að lögum. Þá er Orkustofnun tekin úr sambandi um þá kosti. Gildandi ákvæði um rammaáætlun eiga fyrst og fremst við um vatnsafls- og jarðvarmavirkjanir en ekki vindorkuver að mati Orkustofnunar eins og frumvarpið gerir líka ráð fyrir. Með frumvarpinu er lagt til að Orkustofnun verði á ótvíræðan hátt aftengd skilgreiningu á landsvæðum fyrir vinorkukosti. Ráðherra verði hins vegar sjálfum falið að samþykkja eða hafna slíkum kostum eftir að verkefnastjórnin hefur skilgreint þá.

Þetta er merkileg nálgun og vanhugsuð, að mínu áliti. Hún fer gegn eðli máls og meginreglum laga um raforkuframleiðslu, m.a. í ljósi þess að það er Orkustofnun sem veitir virkjunarleyfi og fer með stjórnsýslu raforkulaga. Markmið þeirra er að stuðla að þjóðhagslega hagkvæmu raforkukerfi og efla þannig atvinnulíf og byggð í landinu. Sérstaklega er tekið fram að mikilvægt sé að skapa forsendur fyrir samkeppni í vinnslu og viðskiptum með raforku, með þeim takmörkunum sem nauðsynlegar reynast vegna öryggis raforkuafhendingar og annarra almannahagsmuna. Í öðru lagi er það markmið raforkulaga að stuðla að skilvirkni og hagkvæmni í flutningi og dreifingu raforku. Og í 3ja lagi að tryggja öryggi raforkukerfisins og hagsmuni neytenda. Í fjórða lagi er markmið raforkulaga að stuðla að nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa, og fimmta, síðast en ekki síst, að taka tillit til umhverfissjónarmiða. Sé litið til þessara markmiða raforkulaga og skilyrða fyrir útgáfu virkjunarleyfis er lúta að því að tryggja nægilegt framboð raforku, öryggi, áreiðanleika og skilvirkni raforkukerfisins, nýtingu endurnýjanlegra orkulinda, umhverfisvernd og, landnýtingu að virtum ákvæðum laga um mat á umhverfisáhrifum virðist frumvarp ráðherra alveg óþarft.

Ekki verður heldur betur séð en að markmið fyrirhugaðs frumvarps umhversráðherra að tryggja að nýting landsvæða þar sem er að finna virkjunarkosti byggist á langtímasjónarmiðum og heildstæðu hagsmunamati þar sem tekið er tillit til verndargildis náttúru og menningarsögulegra minja, hagkvæmni og arðsemi ólíkra nýtingarkosta og annarra gilda sem varða þjóðarhag, svo og hagsmuna þeirra sem nýta þessi sömu gæði, með sjálfbæra þróun að leiðarljósi sé í samræmi við markmið raforkulaga og einkum laga um mat á umhverfisáhrifum svo engin munur er á.

Markmið laga um mat á umhverfisáhrifum er tryggja að áður en leyfi er veitt fyrir framkvæmd, hafi farið fram mat á umhverfisáhrifum viðkomandi framkvæmdar og að draga eins og kostur er úr neikvæðum umhverfisáhrifum, að stuðla að samvinnu þeirra aðila sem hafa hagsmuna að gæta eða láta sig málið varða vegna framkvæmda sem falla undir ákvæði laga þessara og í fjórða lagi að kynna fyrir almenningi umhverfisáhrif framkvæmda sem falla undir ákvæði laganna og mótvægisaðgerðir vegna þeirra og gefa almenningi kost á að koma að athugasemdum og upplýsingum áður en álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar liggur fyrir.

Ekki er að sjá að hér sé um efnislegan mun að ræða og verður ekki annað séð en að markmiðum frumvarpsins megi auðveldlega ná með mati á umhverfisáhrifum sem hvort sem þarf að fara fram. Í raun þarf ekki að leita lengra en í nafnið á lögunum – lög mat á umhverfisáhrifum.

2. Um umhverfisáhrif vindorkuvera og hlutverk Skipulagsstofnunar

Sennilega má telja mestu umhverfisáhrif vindorkuvera vera sjónræn áhrif, eftir atvikum neikvæð eða jákvæði og svo áhrif fuglalíf. Náttúrufræðistofnun Íslands á að veita Skipulagsstofnun umsögn sem vísar til svæða eða náttúrumyndana sem skráðar hafa verið á náttúruminjaskrá, þ.e. svæði sem taka til friðlýstra náttúruminja og svæða sem njóta sérstakrar verndar samkvæmt náttúruverndarlögum og náttúrufyrirbæra sem falla undir ákvæði náttúruverndarlaga. Það er þó ekki tilgangur minn að rekja hér þá þætti sem mestu skipta við ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsáætlun fyrir vindorkuverk, en víst er að stofnunin fer í saumana á þeim þáttum sem ráðherra vill að verkefnastjórn skoði samkvæmt frumvarp sínu og stefnumörkun umhverfisþáttanna.

Í nýlegum ákvöðunum Skipulagsstofnunar, t.d. vegna matsáætlana fyrir vindlundi í Reykhólahreppi og Dalabyggð (2020), eru gerðar ýtrustu kröfur í samræmi við leiðbeiningar Scottish Natural Heritage, um verndarsvæði fugla og vísað til fyrri ákvörðunar stofnunarinnar um Þykkvabæ (2017) sem er hluti af alþjóðlega mikilvægu fuglasvæði, farleið fugla vor og haust og umferð fugla mikil og fuglalíf auðugt utan fartíma. Þar eru fuglategundir, á válista Evrópusambandsins yfir tegundir í útrýmingarhættu. Sömu rannsóknarkröfur eru gerðar í matsáætlun um veigaminni fugla, eins og gegnir um fyrirhugaðan vindlund að Hróðnýjarstöðum í Dalabyggð, sem er utan mikilvægra fuglasvæða á Breiðafirði og Laxárdalsheiði, samkvæmt skilgreiningu Náttúrufræðistofnunar og nýtur engrar sérstakrar verndar. Skipulagsstofnun gerir engu að síður sömu kröfur um fuglarannsóknir í matsáætlun þess vindorkukosts. Það er því engin þörf fyrir álit verkefnastjórnar rammaáætlunar á því hver séu möguleg umhverfisáhrif þeirrar virkjunar nema til að útiloka svæðið fyrirfram á veikum lagalegum grunni. Umhverfismatsferlið allt er mun betur til þess fallið. Vindorkukosturinn stendur þá og fellur með áliti Skipulagsstofnunar á umhverfisáhrifum virkjunarinnar ásamt afstöðu viðkomandi sveitarfalags að lögum, að vegnum örðum samfélagsþáttum svo sem að stuðla að þjóðhagslega hagkvæmu raforkukerfi og efla þannig atvinnulíf og byggð í landinu, nema það sé ásetningur ráðherra að umhverfisþættir einir og sér, að hans ákvörðun, eigi að ráða nýtingu vindorku til raforkuframleiðslu á Íslandi. Slíkt væri auðvitað ótækt.

3. Er þörf á lagabreytingu?

Skynsamlegast leiðin varðandi vindorku væri, að minni hyggju, að eyða óvissu um túlkun laga nr. 48/2011 þannig að á eftir 1. mgr. 2. gr. laganna komi ný málsgrein svohljóðandi; Lög þessi taka ekki til nýtingar vindorku. Punktur.

Um virkjunarkosti til nýtingar vindorku, í samræmi við ákvæði stjórnarskrárinnar um skipulag sveitarfélaga, eignarrétt [á landsvæðum], atvinnufrelsi [til raforkuframleiðslu á samkeppnismarkaði innan EES svæðisins] og jafnræðis, fer samkvæmt gildandi lögum, þ.e. ákvæðum raforkulaga, skipulagsslaga, laga um mat á umhverfishárifum og laga um þjóðlendur. Leyfisveitingarferlið vegna vindorkukosta er kæranlegt, í samræmi við löggildinu Árósarsamningsins árið 2012, til úrskurðanefndar umhverfis og auðlindamála. Gildandi lagabálkar, einkum um umhverfismat og skipulag sveitarfélaga tryggja mjög vel vernd þeirra svæða sem umhverfisráðherra vill ná utan um í frumvarpi sínu, þar með töldum drögum að stefnumótun í þingsályktunartillögu sem ætlað er að virkja gildistöku lagabreytinganna, sem eru í raun alveg óþarfar eins og áður er ritað.

4. Nánar um frumvarp ráðherra

Ekki verður séð að tillaga umhverfisráðherra breyti neinu til bóta í aðferðafræði um leyfisveitingar vegna vindorku eða hvar slíkir vindlundir megi vera eða ekki vera. Gert er ráð fyrir þremur flokkum landssvæða með tilliti til vindorku í frumvarpinu.

Í fyrst lagi lokuðum svæðum eins og friðlýstum svæðum og þjóðgörðum. Það er ásættanlegt viðhorf, en í raun óþarft. Áslíkum stöðum yrðu vindorkuver aldrei reist hvort sem er. Mat á umhverfisáhrifum sæi til þess ásamt lög um náatúruvernd.

Í öðru lagi svæðum, sem í eðli sínu eru viðkvæm fyrir uppbyggingu vindorkuvera, en gætu þó komið til greina að uppfylltum tilteknum skilyrðum, og væntanlega samkvæmt mati á umhverfisáhrifum. Þetta svæði er í raun allt landið, að undskildum bannsvæðunum, svæði eitt, og eina heildarsvæðið sem kemur raunverulega til álita vegna þess að þriðja svæðið, „nýtingarflokkur“ þekur aðeins nokkra fjallatoppa fjærri tengivirkjum og flutningskerfi Landsnets, um 5% landsins að stærð ef marka vefsjá samráðsgáttinni.

Þetta 3ja, óhagkvæma, illa eða ónýtanlega svæði er eftirlátið skipulagsgerð einstakra sveitarfélaga og öðrum stjórnvöldum fyrir vindorkuver að uppfylltum almennum reglum og án aðkomu verkefnastjórar. Svoleiðis.

Frumvarpið gerir svo ráð fyrir því að verkefnisstjórnin veiti umhverfisráðherra umsögn um hvort vindorkukostur falli undir svæði í fyrsta flokki, bann við virkjun eða verði öðrum flokki þ.e. hvort vindorkukosturinn sé þar eftir atvikum mögulega ásættanlegur að vegnum meginreglum sem fram koma í hinni opinberu stefnumörkun í þingsályktunartillögu. Í umsögn verkefnisstjórnar, er gert ráð fyrir að fram komi skýr afstaða hennar um það hvort hún telji virkjunarkostinn uppfylla skilyrði stefnumörkunarinnar eða ekki, þannig að ráðherra geti annað hvort fallist á virkjunina eða hafnað henni. M.ö.o, ráðherra fær ákvörðunarvaldið um hvar megi hafa vindorkugarð og ákvörðun hans er þannig bæði pólitísk og huglæg. Síðan verða sveitarfélög og landeigendur að aðlaga sig þessum pólitíska vilja, án aðkomu almennings. Þetta er auðvitaðal óásættanleg lögfræði, m.a. í andstöðu við meginreglur laga vegna fullgildingar Árósasamningsins. Í þeim ákvæðum voru leyfisveitingar teknar úr höndum pólitískt kjörinna ráðherra og færðar hlutlægum stjórnsýslustofnunum þar sem ákvarðanir þeirra eru kæranlegar til faglegra úrskurðanefnda og svo auðvitað dómstóla. Í frumvarpinu er engu slíku til að dreifa. Með fyrirhuguðu frumvarpi er hlutlægri málsmeðferð og ákvörðunartöku vikið til hliðar í þágu pólitískra hugmynda ráðherra hverju sinni.

Svo vill til að þau viðmið sem verkefnastjórn er ætlað að fara eftir í tillögu sinni til ráðherra, og fram koma í fyrirhugaðri stefnumörkun, eru hin sömu og krafist yrði í mati á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Þegar græna ljósið hefur kviknað hjá ráðherra, ef frumvarp hans verður óbreytt að lögum, þarf nýtt „umhverfismat“ að fara fram, nú samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum. Sem sagt tvíverknaður ef ráðherra þóknaðist að fallast á tiltekin virkjunarkost. Lagabreytingin er þannig til þess fallin að flækja leyfisveitingaferlið, innleiða ráðherraræði og draga mál á langinn, ganga lengra en nauðsyn krefur andstætt meðalhófsreglu vandaðrar stjórnsýslu. Fyrra markmiði lagabreytinganna, að gera leyfisveitingarferli vegna nýtingar vindorku skilvirkara, er víðs fjærri.

Síðara markmið lagabreytinganna, um tiltekið jafnvægi milli mikilvægra umhverfis-, samfélags- og efnahagslegra þátta við nýtingu vindorku eru þau sömu og kæmu til álita samkvæmt markmiðum laga um mat á umhverfisáhrifum og raforkulögum.

Spyrja má í ljósi ofanritaðs hver sé þá ávinningurinn að frumvarpi til breytinga á lögum nr. 48/2011, varðandi málsmeðferð virkjunarkosta í vindorku? Hann er enginn. Þvert á móti yrði málsmeðferð ruglingsleg sem engu bætir við, eftir atvikum, vandaða hlutlæga efnismeðferð Skiplagsstofnunar, málmeðferð viðkomandi sveitarfélags og stjórnsýslu Orkustofnunar.

5. Bakgrunnur hugmynda um vindorku í rammaáætlun og skynsamleg aðferðafræði

Standi vilji stjórnvalda til þess að setja vindorkugarða í rammaáætlun mætti leita erlendra fyrirmynda að íslenskri lausn vandans, betur en gert er með frumvarpsdrögunum. Orkustofnunin í Noregi (NVE) var falið að setja fram tillögu að rammaáætlun um vindorku þar í landi ásamt viðeigandi þekkingargrunni og korti yfir þau svæði sem kæmu til greina fyrir vindorkuver að teknu tilliti til mikilvægra umhverfis- og samfélagssjónarmiða. Áætluninni var ætlað að stuðla að því að vindorkuver yrðu staðsett á sem bestum stað. Þrjú megin stef voru höfð að leiðarljósi. Skilgreining svæða sem ekki koma til greina fyrir vindorkuver, sbr. svæði eitt í frumvarpsdrögunum. (Þjóðgarðar, mikilvæg svæði á landsvísu fyrir villt hreindýr, þéttbyggð svæði og svæði með lágan meðalvindhraða). Þeim landsvæðum sem eftir stóðu var síðan skipt upp í 43 greiningarsvæði og þau greind nánar út frá áhrifum á flutningskerfið, möguleikum til orkuframleiðslu og áhrifum á umhverfi og samfélag á landsvísu. Þá stóðu eftir 13 svæði sem NVE taldi best fallin til vindorkuframleiðslu út frá fagskýrslum, greiningu á tæknilegum og fjárhagslegum þáttum sem og umhverfis- og samfélagshagsmunum.

Að baki tillögu að rammaáætlun um vindorku í Noregi og Skotlandi liggur umfangsmikil heimilda- og greiningarvinna og ítarlegt samráðsferli. Góður grunnur er nú þegar til staðar til að greina og velja nokkur slík svæði hér á landi, innan sem utan þjóðlenda. Skotar fóru svipaða leið, skilgreindu svæði þar sem vindorkuver eru líkleg til að vera ásættanleg, þó háð mati með tilliti til skilgreindra viðmiða.

Til þess að setja vindorkulundi í landsskipulag og/eða rammaáætlun hér á landi, standi vilji stjórnvalda til þess, mætti fela Orkustofnun að skilgreina möguleg vindorkusvæði á landsvísu út frá áhrifum á flutningskerfið, möguleikum til orkuframleiðslu og áhrifum á umhverfi. Það væri í fullkomnu samræmi við hlutverk Orkustofnunar, sbr. 2. mgr. 9.gr. laga um rammaáætlun, að skilgreina virkjunarkosti og einnig sbr. 2. gr. laga nr. 87/2003 um Orkustofnun, að vera ríkisstjórninni til ráðuneytis um orkumál, orkulindir og að miðla upplýsingum til stjórnvalda, að fela stofnuninni að setja fram tillögu að „rammaáætlun um vindorku“ ásamt viðeigandi þekkingargrunni yfir þau svæði sem kæmu til greina að teknu tilliti til mikilvægra umhverfis- og samfélagssjónarmiða.

Unnt væri að taka afstöðu til þess hvaða svæði, sem Orkustofnun tilgreindi, væru best fallin til vindorkuframleiðslu út frá fagskýrslum, greiningu á tæknilegum og fjárhagslegum þáttum sem og umhverfis- og samfélagshagsmunum. Í framhaldi af því setti Alþingi lög um vindorkusvæði þar sem fram kæmi hvernig með skuli fara leyfisveitingin. Slík svæði eru þá „takmörkuð auðlind“ þar sem framleiða má rafafl með vindorku á samkeppnismarkaði sem bjóða yrði út innan EES svæðisins, til að gæta jafnræðis og virða leikreglur á raforkumarkaði. Ekkert slík regluverk er enn í augsýn.

Hafa ber í huga að vindorka þarf varafal í vatnsafli, sem hér á landi er nóg af. Samspil vind- og vatnsorku er mjög vistvænn og hagkvæmur orkukostur til lengri tíma litið. Vatnsaflið er hins vegar að mestu í höndum Landsvirkjunar, sem ræður yfir uppistöðulónunum. Þess vegna verður að setja regluverk og skilgreina stjórnsýslu um úthlutun slíks varafals til að tryggja samkeppni á markaði, virða EES reglur, jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar og útiloka þannig ólögmæta einokun Landsvirkjunar á samkeppnismarkaði vindorkukosta á Íslandi. Þar til skýrt og ótvírætt regluverk, um takmörkun á eignarétti landsvæða og atvinnufrelsi liggur fyrir, með afmörkun svæða fyrir vindorkukosti til úthlutunar á jafnréttisgrundvelli, fyrirfram gefnu virkjunarleyfi, tengisamningi við flutningskerfi Landsnets, aðgengi að varafali í vatnsorku etc. ásamt deiliskipulagi sveitarfélags virðist skynsamlegast að halda sig við gildandi lög um efnið; raforkulögin, lög um mat á umhverfisáhrifum og skipulagslög varðandi vindorkugarða að svo stöddu og staðfesta þá túlkun að lög nr. 48/2011 taki ekki til nýtingar vindorku. Það dugar að minnsta kosti næstu misserin og árin, ef að líkum lætur.

7. Niðurstaða

Það er mikilvægt að skoða lagasetningu um vindorku í heildarsamhengi raforkuframleiðslu á samkeppnismarkaði að teknu tilliti til raforkulaga og regluverks á Evrópska efnahagssvæðinu, umhverfissjónarmiða, raforkuöryggis og samfélagsþátta svo sem vilja sveitarfélaga og nærumhverfis. Það gerir þetta frumvarp ekki. Það er því ótímabært eins og rakið hefur verið og óþarft að öðru leyti en sem staðfesting á því að lög nr. 48/2011 taki ekki til nýtingar vindorku. Raforkulögin og afleidd löggjöf um skilyrði virkjunarleyfis fyrir vindorkuver duga vel og fanga í raun öll þau álitamál sem frumvarpsdrög ráðherra er ætlað að lögfesta. Þau eru hins vegar til þess fallin, verði þau að lögum, að flækja málsmeðferðina og hindra skilvirka nýtingu vindorku á Íslandi á grundvelli einhliða sjónarmiða.

Skúli Thoroddsen

Afrita slóð á umsögn

#2 Tryggvi Þór Herbertsson - 05.02.2021

Umsögn um breytingu á lögum nr. 48/2011

Almennt fagnar umsagnaraðili því að lagaumgjörð um vindorku á Íslandi sé efld og óvissa um málsmeðferð minnkuð frá því sem nú er. Jafnframt er það álit umsagnaraðila að það sé skynsamleg leið sem lagt var upp með að við þessar breytingar verði í grundvallaratriðum horft til sambærilegrar hugmyndafræði og þróuð var í Skotlandi um málaflokkinn. Að því sögðu hefur umsagnaraðili nokkrar athugasemdir við drögin að frumvarpinu:

1. Ekki er nema að hluta farið eftir þeim leiðarvísi sem gefinn var. Þannig eru flokkunarreglur t.a.m. mun strangari og meira útilokandi í drögunum en gilda í Skotlandi. Mikilvægt er í lögum sem þessum að innibyggja að gríðarlegar tæknibreytingar eiga sér stað við byggingu og rekstur vindorkuvera og ómögulegt er að sjá fyrir um hvernig þróun mótvægisaðgerða verður háttað í framtíðinni. Til dæmis má nefna þá hröðu þróun sem á sér stað um þessar mundir á aðferðum til að forðast árekstur fugla. Þannig er t.a.m. hægðarleikur í dag að forðast árekstur sem var óhjákvæmilegur fyrir t.d. fimm árum síðan. Mikil framþróun í gervigreind og vélrænni sjóntækni gerir t.d. kleift að stýra hraða og stefnu spaða á vindmyllum á örskotsstundu ef hætta er á árekstri. Þá er einnig mikil framþróun í nano-tækni sem mun að öllum líkindum breyta ásýnd og sýnileika vindmilla mjög á næstu árum. Lögin ættu að vera framsýn að því leyti að ekki má útiloka eitthvað með öllu vegna vandamála sem ekki verða til staðar í nánustu framtíð. Verkefni fortíðar verða ekki leyst með lagasetningu til framtíðar.

2. Þegar þingsályktun og kort af Íslandi með flokkun frumvarpsins er skoðuð kemur í ljós að einungis um 5% Íslands eru utan þeirra svæða sem annað hvort er bannað að skoða (flokkur 1) eða er verulegum annmörkum háð (flokkur 2). Mikilvægt er að þegar drögin koma til kasta ríkisstjórnarinnar og þingsins þá verði þetta endurskoðað. Sem dæmi má nefna 10 km helgunarlínu sem dregin er um friðlýst svæði. Til að varpa betur ljósi á afleiðingarnar er gott að taka dæmi. Vindorkukosturinn Alviðra lendir samkvæmt gögnum máls í flokk 2. Ástæðan þar að baki er að fellið Grábrók sem sendur við byggðakjarnann á Bifröst í Borgarfirði er friðað. Þar með myndast sjálfkrafa 314 ferkílómetra landsvæði sem kallar á að allar vindorkuhugmyndir á því svæði þurfa að fá sérstaka umfjöllun og samþykki ráðherra til að verða að veruleika. Til samanburðar má benda á að Reykjavík stendur á landsvæði sem mælir 273 ferkílómetra í heild sinni. Núgildandi skipulagslög og reglur um umhverfismat ráða mjög vel við að skilgreina þá hagsmuni sem um ræðir. M.ö.o. ekki þarf breytingu á landslögum til að koma í veg fyrir að heimila að vindmillugarður verði reistur við Grábrók. Annað dæmi eru alþjóðlega mikilvæg fuglasvæði. Í byrjun síðasta áratugar var gerð gangskör að því að skilgreina hvar á Íslandi væru mögulega alþjóðlega mikilvæg fuglasvæði. Var það gert í tengslum við umsókn að Evrópusambandinu að því er umsagnaraðila skilst. Svæðin voru að mestu skilgreind án rannsókna og byggðu t.d. á að alls staðar þar sem er votlendi samkvæmt kortum var slíkt svæði skilgreint sem alþjóðlega mikilvægt fuglasvæði. Samkvæmt gögnum máls eru því stór landsvæði á Íslandi sett í flokk 2 út frá skilgreiningum sem litlar rannsóknir liggja fyrir um eða styðja. Núverandi reglur um umhverfismat og friðanir ráða vel við að koma í veg fyrir að slys verði á fuglaríki landsins vegna vindmylluframkvæmda. Þannig eru fuglarannsóknir umfangsmesti og dýrasti lögbundni hluti umhverfismats vegna vindorkugarða. Skipulagstofnun hefur t.a.m. í þeim úrskurðum sem kveðnir hafa verið upp undanfarið krafist að lágmarki tveggja ára rannsókna á fuglalífi með aðferðum sem eru notaðar í Skotlandi og á meginlandi Evrópu, auk fuglamerkinga og ratsjárrannsókna. Svo viðamiklar rannsóknir eru með því allra strangasta sem þekkist í Evrópu. Þessar rannsóknir gefa meiri og betri upplýsingar um fuglalíf en áður hafa fengist á Íslandi. Byggt á slíkum rannsóknum eru leyfi gefin samkvæmt núgildandi lögum. Vandséð er hvernig hægt er að auka þessar rannsóknir, sem eru grundvöllur leyfis, frá því sem nú er.

3. Í drögum að frumvarpi er ráðherra gefið meira vald en ásættanlegt er þar sem hann getur gengið gegn niðurstöðu verkefnisstjórnar við leyfisveitingar. Það er afturhvarf til fyrri tíma að ráðherra geti gefið út ígildi atvinnuleyfis til borgaranna á pólitískum forsendum. Nútíma lagagerð á ekki að bjóða upp á möguleika á slíkum vinnubrögðum. Jafnframt verður, ef þetta ákvæði verður að lögum, að gefa umsækjanda kost á að fá hraðari úrlausn sinna mála en að leita til verndar- og orkunýtingaráætlunar ef ráðherra og verkefnisstjórn eru ósammála. Í því sambandi má benda á að nýjasta slík áætlun, Rammaáætlun 3, hefur verið á borði ráðherra síðan 2016 – ósamþykkt.

4. Þá er mikilvægt að tímafrestir séu skilgreindir mun nákvæmar í lögunum. Mjög hefur brunnið við að tímafrestir séu skilgreindir eða virtir undanfarin ár. Langtímaafleiðingar slíkra vinnubragða er óvissa, aukinn viðskiptakostnaður og minnkandi tiltrú borgaranna á að ríkið geti leyst úr málefnum sem undir yfirvöld eru borin á sanngjarnan og gagnsæjan hátt. Það eru ekki málefnaleg rök að bera fyrir sig manneklu eða skorti á fjármagni. Ríkinu ber að sjá til þess að hægt sé að framfylgja skilyrðum laga til hins ítrast. Annars þarf að breyta þeim. Að fylgja lögum gengur í báðar áttir. Núverandi ástand grefur undan virðingu fyrir lögum og um leið löggjafar- og framkvæmdavaldinu.

5. Í greinargerð með frumvarpinu er sagt að ekki sé talið að frumvarpið brjóti gegn stjórnarskrá. Í huga umsagnaraðila er þessi niðurstaða ekki augljós. Hægt er með góðum rökum að halda því fram að takmarkanir sem frumvarpið setur eigendum jarðnæðis til nýtingar og lögaðilum til starfsemi geti bæði brotið gegn atvinnufrelsis- og eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar.

Umsagnaraðili áskilur sér rétt til og óskar eftir að fá að gera mun greinarbetri athugasemdir við drögin að frumvarpinu þegar það kemur til umfjöllunar Alþingis.

Tryggvi Þór Herbertsson,

Stjórnarformaður Qair Iceland ehf.

Afrita slóð á umsögn

#3 Húnavatnshreppur - 08.02.2021

Sjá meðfylgjandi

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#4 Steinunn M Sigurbjörnsdóttir - 09.02.2021

Við erum hópur fólks sem býr í 1 – 2 km. fjarlægð frá fyrirhugaðri vindorkuvirkjun uppá 130MW. Við óskum eftir því við íslensk stjórnvöld að heimilum okkar verði tryggð a.m.k. sama friðhelgi og friðuðu landi er tryggð í lagabreytingu þessari. Þ.e. að tryggt skuli í lögum að ekki skuli reisa vindorkuvirkjanir innan 10 km. fjarlægðar frá heimilum fólks. Einnig viljum við vekja athygli á að taka þarf tillit til og verja landeigendur sem hafa atvinnu og tekjur af ferðaþjónustu, sölu veiðileyfa og öðru slíku, en tvær af eftirsóttustu laxveiðiám landsins, Fáskrúð og Laxá í Dölum eru nú í stórhættu vegna áforma um vindorkuvirkjanir við árbakka þeirra. Við teljum að með því að tryggja strax að virkjanir þessar verði ekki settar niður eins nálægt heimilum fólks og atvinnustarfsemi og nú er í bígerð, þá megi m.a. koma í veg fyrir mögulegt heilsutjón, stórkostlegt eignatap íbúa, langvinn málaferli og mikið fjárhagslegt og samfélagslegt tjón lítilla sveitarfélaga.

Eftir að hafa sökkt okkur ofan í þessi mál s.l. þrjú og hálft ár þá búum við nú yfir nokkuð mikilli þekkingu á þessum málaflokki að því er snýr að íbúum, náttúru og samfélagi og erum við boðin og búin til þess að vinna með stjórnvöldum í þessu máli og veita mikilvægar upplýsingar er lýtur að sjónarhorni þeirra sem búa í landinu og hafa varið áratugum í uppbyggingu og ræktun þess. Við teljum sérstaklega mikilvægt að rétt sé staðið að öllu varðandi svo umdeild mál sem vindorkuvirkjanir eru, ekki síst hvað varðar þá íbúa sem eiga nú á hættu að fá tugi 200 metra hárra vindmylla við hlið heimila sinna.

Með von um farsælt samstarf stjórnvalda og íbúa landsins.

Virðingarfyllst,

Steinunn M. Sigurbjörnsdóttir

Afrita slóð á umsögn

#5 Ketill Sigurjónsson - 10.02.2021

Sjá meðf. viðhengi.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#6 Orkustofnun - 10.02.2021

Meðfylgjandi er umsögn Orkustofnunar.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#7 Landvernd, landgræðslu- og umhverisverndarsamtök Íslands - 10.02.2021

Góðan dag,

Meðfylgjandi umsögn Landverndar um mál 19/2021

kveðja

Auður

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#8 Samtök atvinnulífsins - 10.02.2021

Í fylgiskjali má finna sameiginlega umsögn Samtaka atvinnulífsins og Samtaka iðnaðarins.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#9 Landsvirkjun - 10.02.2021

Umsögn Landsvirkjunar

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#10 Skipulagsstofnun - 10.02.2021

Sjá hjálagða umsögn

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#11 Umhverfisstofnun - 10.02.2021

Hjálögð er umsögn Umhverfisstofnunar.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#12 Umhverfisstofnun - 10.02.2021

Hjálögð er umsögn Umhverfisstofnunar.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#13 EM Orka ehf. - 10.02.2021

Góðan dag,

Í viðhengi er umsögn EM Orku um mál 19/2021

Kær kveðja,

Ríkarður Ragnarsson

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#14 Samtök ferðaþjónustunnar - 10.02.2021

Ágæti viðtakandi,

Í viðhengi er umsögn Samtaka ferðaþjónustunnar um drög að breytingu á lögum nr. 48/2011, um verndar- og orkunýtingaráætlun (málmeðferð virkjunarkosta í vindorku).

Með góðum kveðjum

F.h. SAF

Gunnar Valur Sveinsson

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#15 Samband íslenskra sveitarfélaga - 10.02.2021

Hjálagt sendist umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga um frumvarpsdrög og drög að þingsályktun.

F.h. sambandsins

Guðjón Bragason

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#16 Hafþórsstaðir ehf. - 10.02.2021

Stjórnvöld og skipulagsyfirvöld hafa gefið út yfirlýsingar um að hér á landi verði innleitt norskt eða skoskt regluverk um vindorku. Þessar tillögur eru hinsvegar um séríslenskt regluverk sem gengur lengra um bannsvæði, athugunarsvæði, flækjustig og umfang. Hvatt er til þess að horfið verði frá þessu og skoska regluverkið innleitt eins og yfirlýst hefur verið. Fyrirsjáanleiki og lögmætar væntingar eru mikilvægir þættir í vandaðri stjórnsýslu.

Að því var stefnt að þessi vinna skilaði korti sem sýndi staði þar sem bannað verði að nýta vind, þar sem sérstök skoðun þarf að fara fram og svæði þar sem sveitarfélög geti heimilað vindorkuver. Rautt, gult og grænt kort. En niðurstaðan hér er rauð og gul því grænu svæðin munu vera innan við 5% og mörg ekki nýtanleg. Gott er að hafa í huga að ísland er á eftir öðrum í vindorku og í öllum nágrannalöndum okkar hafa risið fjölmörg vindorkuver en ekkert hér. Erfiðara regluverk er ekki hjálplegt við að bæta úr þessu og nýta þessi tækifæri græna hagkerfisins.

Sú forsenda að nýta megi vindorku hvar sem er á Íslandi er í vissum skilningi rétt, en í öðrum skilningi alröng. Þó meira rok sé á okkar góða landi en annarsstaðar er mikill munur á því hve hagkvæm vindorkuver eru eftir staðsetningu á Íslandi. Vindhraði, stefna vinds, ísing, höfn, aðkomuvegir, háspennulínur. Allt eru þetta þættir sem hafa mikil áhrif á hvar gott er og hvar ekki að nýta vindorku. Sama áhersla mætti vera á að kortleggja heppileg svæði, græn, eins og hin óheppilegu rauðu. Hagkvæmni er hér mikilvægt umhverfismál því hún snýr að því að hámarka nýtingu innviða og auðlinda, lágmarka sóun og hámarka afköst í endurnýjanlegri orkuframleiðslu.

Að þessu sögðu er ánægjulegt að loks hafi komið fram tillaga um fyrirkomulag til ríkisstjórnar og kynnt í samráðsgátt. Lagi ríkisstjórnin tillöguna að skoska regluverkinu, eins og boðað var áður en málið er lagt fram sem stjórnarfrumvarp, skapast spennandi tækifæri á þessu sviði. Vindorka hefur reynst mikilvæg í baráttu gegn loftslagsbreytingum og um leið sóknarfæri í atvinnu og efnahagsmálum. Verði skosku reglunum fylgt taka stjórnvöld bæði tillit til verndar og nýtingar í þeirri þróun.

Afrita slóð á umsögn

#17 Anna Dóra Sæþórsdóttir - 10.02.2021

Umsögn faghóps 2. í 4. áfanga verndar- og orkunýtingaráætlunar

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#18 Orkuveita Reykjavíkur - 10.02.2021

Sjá hjálagða umsögn.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#19 Sigurjón Norberg Kjærnested - 10.02.2021

Meðfylgjandi er umsögn Samorku um málið, ásamt fylgiskjali.

Viðhengi Viðhengi