Samráð fyrirhugað 01.02.2021—23.02.2021
Til umsagnar 01.02.2021—23.02.2021
Niðurstöður í vinnslu frá 23.02.2021
Niðurstöður birtar 28.06.2021

Drög að frumvarpi til laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana

Mál nr. 30/2021 Birt: 02.02.2021 Síðast uppfært: 28.06.2021
  • Umhverfis- og auðlindaráðuneytið
  • Drög að frumvarpi til laga
  • Málefnasvið:
  • Umhverfismál
  • Sveitarfélög og byggðamál
  • Samgöngu- og fjarskiptamál
  • Landbúnaður
  • Orkumál
  • Sjávarútvegur og fiskeldi

Niðurstöður birtar

Lög samþykkt á Alþingi

Skjal að loknu samráði

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 01.02.2021–23.02.2021. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 28.06.2021.

Málsefni

Lagt er til að sameina í eitt lög um mat á umhverfisáhrifum og lög um umhverfismat áætlana. Lögð er áhersla á að lögin verði aðgengilegri, málsmeðferð einfölduð og að aðkoma almennings og annarra hagsmunaaðila að ferlinu sé tryggð. Þá eru lagðir til einfaldaðir framkvæmdaflokkar og þeim fækkað úr þremur í tvo.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur sett til kynningar í samráðsgátt frumvarp um heildarlög um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Frumvarpið er byggt á tillögu starfshóps um heildarendurskoðun laga um mat á umhverfisáhrifum. Meginmarkmið endurskoðunarinnar er að auka skilvirkni í málsmeðferð og tryggja sem best aðkomu almennings og annarra hagsmunaaðila að ferlinu í samræmi við markmið Árósasamningsins.

Með aukinn skýrleika að leiðarljósi er með frumvarpinu lagt til að lög um mat á umhverfisáhrifum og lög um umhverfismat áætlana verði sameinuð í eina löggjöf. Einnig er leitast við að bæta framsetningu laganna og gera þau skýrari, m.a. með því að færa hluta þeirra í reglugerð.

Í frumvarpinu er lögð til einfaldari málsmeðferð við umhverfismat framkvæmda þar sem fallið er frá tvöföldu samráði, þ.e. samráði á vegum framkvæmdaraðila annars vegar og Skipulagsstofnunar hins vegar. Þá er lagt til að framkvæmdaraðili leggi fram eina umhverfismatsskýrslu í stað frummatsskýrslu og matsskýrslu. Gert er ráð fyrir möguleika á forsamráði framkvæmdaraðila, leyfisveitenda og Skipulagsstofnunar í þeim tilgangi að auka gæði og skilvirkni verkefnisins og er lagt til að kynningar og samráð um umhverfismat fari fram í gegnum landfræðilega samráðs- og upplýsingagátt.

Þá er gert ráð fyrir að heildarferli umhverfismats styttist frá því sem nú er, enþó eru lagðir til rýmri tímafrestir vegna málsmeðferðar en eru í núgildandi lögum. Þá er lagt til að framkvæmdaflokkum verði fækkað úr þremur í tvo og verða framkvæmdir í flokki A ávallt háðar umhverfismati. Framkvæmdir í flokki B eru hins vegar háðar umhverfismati sé talið líklegt að þær hafi í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif.

Umsögnum um frumvarpsdrögin skal skilað í Samráðsgátt Stjórnarráðsins eigi síðar en 23. febrúar næstkomandi.

Tengd mál

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Orkuveita Reykjavíkur - 19.02.2021

Hjálögð er umsögn OR og dótturfélaganna Carbfix, Veitna og Orku náttúrunnar við frumvarp til laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana.

Kær kveðja, Íris Lind

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#2 Rúnar Guðmundsson - 21.02.2021

F.h. skipulags- og byggingarnefndar Sveitarfélagsins Skagafjarðar er hér með send inn bókun skipulags- og byggingarnefndar frá 398 fundi. dags. 10.2.2021.

Bókun:

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið kynnir til samráðs í samráðsgátt mál nr. 30/2021, drög að frumvarpi til laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Umsagnarfrestur er til og með 23.02.2021.

Skipulags- og byggingarnefnd fagnar breytingum sem geta orðið til einföldunar og styttingar á verkferlum vegna umhverfismats áætlana og umhverfismati framkvæmda.

Afrita slóð á umsögn

#3 Landssamtök skógareigenda - 23.02.2021

151. löggjafarþing 2020–2021.

Þingskjal x — x. mál.

Stjórnarfrumvarp.

Stjórn Landssamtaka skógareigenda (LSE) þakkar fyrir tækifæri til að veita umsögn um frumvarp til laga

um umhverfismat framkvæmda og áætlana og gerir eftirfarandi athugasemdir og breytingartillögur.

1. kafli- Markmið, gildissvið, skilgreiningar o.fl.

1. grein- Markmið laganna

Þar segir orðrétt:

a. sjálfbær þróun, heilnæmt umhverfi og umhverfisvernd sem vinna skal að með umhverfismati framkvæmda og áætlana sem eru líklegar til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif,

Sjálfbærni:

Í fyrsta kafla, fyrstu grein, fyrsta liðar frumvarpsins kemur fram hugtakið „sjálfbærni“. Staldra má við þetta hugtak og velta því aðeins fyrir sér. Orðið er notað eins og ríkið vilji stuðla að sjálfbærni í landinu. Sjálfbærni yrði náð í samráði við skipulagsvöld. En hver skilgreinir hugtakið? Ef leitað yrði umsagna þriðja aðila er ekki öruggt að sami skilningur væri á milli stofnana, einstaklinga, hagsmunaaðila eða jafnvel hlutlausra. Sjálfbærni er hugtak sem á uppruna sinn til þýskrar skógræktar. Af sjálfbærni er dregið hugtakið „hringrásarhagkerfi“, sem hefur megin stoðirnar þrjár: efnahag, samfélag og náttúra. Það er því engin furða að hugtakið eigi uppruna sinn í skógrækt sem getur stutt svo mjög vel við allar stoðirnar þrjár. Mögulega er skógur það vistkerfi sem best getur stutt við sjálfbærni Íslands.

Þróun:

Þróun er mjög vítt hugtak. Til þess að þróun getir átt sér stað verður að vera hvati eða þrýstingur að einhverju tagi til að ná fram þróun í einhverja átt. Ef ríkið vill veita þann hvata er það mjög af hinu góða og eru áreiðanlega margir, sem tilheyra hópi almennings, sammála því. Þróun í átt að sjálfbærni er lofsverð og ætti með öllum mætti styðja við slíka þróun, hvað sem hún kostar... eða hvað?

Heilnæmt umhverfi:

Flestir jarðarbúar hugsa eflaust um gróið land þegar hugtak „heilnæmi“ er notað í ljósi landslagsheildar. Grænt land er gróið land. Eyðimerkur hálendis Íslands er land í sárum og varla eins hraust og heilnæmt land getur orðið. Hvað orðið „umhverfi“ varðar er allt annað uppi á teningnum. Umhverfi mannsins er ekki alltaf svo heilnæmt. Byggðalög mannsins eru mörg hver óheillavænleg náttúrunni í hnattrænum skilningi. Ekki þarf að fjölyrða um það hér. En hugtakið „Heilnæmt umhverfi“ gæti verið tilvísun í náttúruna, þar sem mannanna inngrip hefur ekki notið við. Ísland væri þá eflaust gróðri klætt, með stæðilegum trjám, bæði birki og reynir og mögulega öðrum einnig, sem farfuglar frá Evrópu gætu hafa flutt til landsins. Jöklar væru mögulega enn stórir og landið grófskorið eftir hamfarir og umhleypingar. Líf á Íslandi væri heilnæm náttúra. Ísland er í hjarta okkar stolt okkar og prýði þrátt fyrir slæmt ástand þess. Megum við hafa kjark til að bæta það og vera gott fordæmi fyrir komandi kynslóðir.

Umhverfisvernd:

Sé ætlunin að vernda umhverfi þýðir það ákall um stöðnun á þróun. Það hefur ekkert með gott eða slæmt að gera. Sé verndin í því fólgin að stöðva neikvæða þróun þýðir það að ekki sé gengið á sjálfbærni þess lands. Sé verndin fólgin í að koma í veg fyrir jákvæða þróun þýðir það að gengið er á möguleika lands til sjálfbænar. Orðið umhverfisvernd getur nefnilega verið til jafn mikils gagns eins og ógagns. Þegar sagt er að land eigi að fá að „njóta vafans“ og því sé land verndað þýðir það að engin frekari afskipti skulu við höfð af því landi. En er það svo gott að land eigi að „vera í vafa“? Er ekki einmitt gott að mannveran reyni að bæta fyrir það land sem þegar hefur hnignað af okkar völdum? Er ekki einmitt tækifæri frekar í að bæta land fremur en að festa í álögur öfugþróunar?

4. grein- Umhverfismat

Þar segir orðrétt:

Í umhverfismati skal greina, lýsa og meta, með tilliti til viðkomandi framkvæmdar eða áætlunar, bein og óbein umtalsverð áhrif á eftirfarandi umhverfisþætti:

Í lið c er upptalning og segir orðrétt:

c. land, landslag, víðerni, jarðmyndanir, jarðveg, vatn, loft og loftslag,

Orðið „víðerni“ bíður upp á að skilja megi lögin sem svo að víðerni eitt og sér sé öðru fremra. Orðið „landslag“ felur í sér skilgreiningar og mætti ætla að ásýnd nær og fjær falli þar undir.

Hugtakið „víðerni“ ætti að falla úr upptalningunni.

Í lið d er tvö ólík atriði talin upp:

d. efnisleg verðmæti og menningarminjar,

Efnisleg verðmæti af nýtingu lands geta verið af ýmsum toga, t.d. sumarhúsaland, ferðaþjónusta, nytjaskógur og landbúnaður. Orðið menningarminjar á flest óskylt með verðmætum, nema ef vera skildi „menningararfur“. Bæði hugtökin eiga vel við í upptalningu þó ólík séu og er því lagt til að þau fái hvorn sinn liðinn í upptalningunni. M.ö.o.

d. efnisleg verðmæti

e. menningarminjar

2. kafli- Stjórnsýsla, forsamráð og samþætt málsmeðferð.

5. grein- Yfirstjórn og framkvæmd.

Grein hefst á orðunum:

Ráðherra fer með yfirstjórn þeirra mála sem lög þessi taka til. Ráðherra til aðstoðar er Skipulagsstofnun sbr. 2. mgr.

Þegar viðamikil völd færast á svo fáar hendur er mikil ábyrgð lögð á þann einstakling sem veldur embætti ráðherra hverju sinni. Upp kemur hugtak „einræðist“ í hugann fremur en „lýðæði“ sem alla jafna á betur við lýðinn á Íslandi, þó báðar aðferðir hafi sína kosti. T.d. gæti einn maður með svo mikil völd lagt allt kapp á eftirfylgni við eitt stórt og jafnvel persónulegt hagsmunamál, í öndvegi fremur en þjóðinni til heilla. Ef um einkaland er að ræða er eðlilegt að eignarétturinn sé gerður hærra undir höfði en afstöðu eins manns í hæsta embætti framkvæmda. Til málamiðlunar er því lagt til að orða upphaf greinarinnar á þessa leið.

Viðkomandi sveitafélag/félög fer með yfirstjórn þeirra mála sem lög þessi taka til. Sveitastjórnum til aðstoðar er ráðherra og Skipulagsstofnun sbr. 2. mgr...

5. grein- Yfirstjórn og framkvæmd.

Í lið g -segir orðrétt:

g. að starfrækja vefsjá og samráðs- og upplýsingagátt um umhverfismat framkvæmda og áætlana.

Þetta er skref inn í nútímann. Til að fylgja þessari ágætu grein eftir mætti íhuga ýmis atriði.

Þetta er liður í að gera miðlægan korta- og gagnagrunn fyrir alþjóð. Svipaða uppbyggða og vefsjá Alta. Þannig mætti opna sérhæfða gagnagrunna á vegum ríkisins og framreiða á aðgengilegan hátt fyrir almenning. Þessi vinna er reyndar hafin að einhverju leiti en þetta gæti verið leið til að gera enn betur?

Gott er að hafa upplýsingagátt opna fyrir almenning en óvíst er hvort þessi hugmynd þjóni tilgangi sínum til langframa. Almenningur ver yfirleitt ekki tíma sínum í skrif á slíkum umsögnum. Óvíst er að allar raddir komi að málinu. Hér þyrfti að koma til jákvæður hvati. Þegar upplýsingum frá almenningi er loksins komið inn í matsferlið er síðan alls óvíst hver metur umsagnirnar. (Það á t.d. vel við um þetta umfangsmikla frumvarp sem margir hafa hagsmuni af. Fáir hafa tíma til að lesa yfir það, skilja, kynna sér til mergjar og koma því síðan í orð svo auðlesið sé.) Það ætti því að skoða annað að eftirtöldu. Annað hvort að opna ferlið svo mjög að hvert skref megi rekja bein til einstaklinga í ákvarðanatökunni og kerfið sé auk þess vottað af hlutlausum aðila (einskonar dómstóll). Eða að auðvelda matsferlið enn frekar svo málin gengi hratt í gegn, án mikilla umsagna og samráða í ferlinu.

7. grein- Forsamráð.

Forsamráð er afbragðs hugmynd. En hví er sett forskeyti for- framan við samráð? Yrði þetta ekki samráðsferli sem stæði allan tíman fram að niðurstöðum?

3. kafli- Umhverfismat áætlana.

12. grein- Ábyrgð á umhverfismati áætlunar og tímasetning.

Hér má túlka sem svo að markmið laganna stangist á við þessa grein. Fyrstu orð markmiða þessa laga eru „sjálfbær þróun“ og ef markmiðin eiga að standast þyrfti að vera hvati fyrir sjálfbærni. Hvatinn felur í sér þróun og hvatinn getur verið af mörgu tagi en beinn fjárhagslegur hvati er sá hvati sem flestir landsmenn skilja. Ef ætlunin er að þróa til sjálfbærni þyrfti að liggja hvati því til grundvallar. Það þyrfti því að vinna lögin þannig að þau virki sem hvati. Það mætti t.d. hafa umhverfismatskýrslugerðarferlið það stutt og hnitmiðað að ekki þætti ógnvekjandi að þora í slíkt ferli. Einnig væri hægt að sjá fyrir sér beinan fjárhagslegan stuðning við gerð þessara áætlana ef markmiðin eiga að nást í sátt við þjóðina.

Beinn fjárstuðningur til framkvæmdaraðila eða einföldun regluverks eru því tillögur til úrbóta þessu til stuðnings.

1. viðauki- Flokkur framkvæmda. Landbúnaður, skógrækt og fiskeldi. B-FLOKKUR

1.02

Framkvæmdir til að leggja óræktað land eða lítt snortið svæði undir þaulnýtinn landbúnað sem taka til 5 ha eða stærra svæðis.

Land sem felur í sér tækifæri til landbúnaðar ætti að fara í C-flokk. Í C flokki hafa heimamenn völdin og ákvarðanir landbúnaðar ættu að heyra undir sveitir landsins. Ef efling landbúnaðar er heftur með afskiptum ríkisins er vegið að skilyrðum fólks til að alfa sér viðurværis og frekari búsetu. Ef markmið þessara laga er að efla sjálfbæra þróun í sveitum landsins væri hægt að biðja viðkomandi sveitastjórnarstig að leggja áherslu á það við leyfisveitingu. Hér ættu ekki að vera stærðarviðmið heldur eingöngu ákvæði sem tiltekin eru í markmiðum þessara laga.

1.04

Nýræktun skóga sem tekur til 50 ha eða stærra svæðis. Varanleg skógareyðing sem tekur til 0,5 ha eða stærra svæðis.

Í gildi eru umfangsviðmið nýskógræktar tilkynningarskildar á 200 ha landsvæðis eða stærra. Áform um stærri skóga en 199 hektara eru settir í B-flokk. Í þessum frumvarpi er lagt til að lækka viðmiðið niður í 50 ha og svipar það þar með til nágrannalanda okkar. Þar eru jarðir alla jafna smærri, mun minni en gengur og gerist hérlendis. Þar hefur skógrækt verið við líði í ár og aldir. Frá upphafi bændaskógræktar á Íslandi hefur gjarnan verið reynt að draga úr áhrifum „frímerkjaskógræktar“ ef svo má kalla það þegar afmörkun girðingar ræður umfangi skógræktar. Með þessum tillögum er verið að stuðla að enn frekari „frímerkjaskógrækt“ þar sem landslagheildir eru brotnar upp í enn smærri einingar. Sýn á jarðir í skógrækt verður frekar lýst sem „brothætt umhverfi“ fremur en „heilnæmt umhverfi“ og sitt sýnist hverjum hvort það verði skógrækt framtíðar til eftirbreytni. Það gæti orðið til þess að með auknum „frímerkjaáhrifum“ fái skógrækt á sig slæman stimpil, líkt og t.d. Skotar hafa þegar gengi í gegnum fyrir áratugum síðan. Þurfum við að gera sömu mistök og nágrannar okkar?

Hér er lagt til að viðmiðunarmörk skógræktar verði afnumin og falli öll í C-flokk.

Í skógræktarlögum (Skógar og skógrækt, 231. mál, Lög nr. 33/2019. 149. löggjafarþing 2018–2019.) segir að sé eyðing skóga sé tilkynningarskyld til Skipulagsstofnunar. Vert er þó að benda á að með eflingu skógræktar má búa jarðveg vel í haginn enda þekktist vel að fella skóga til að búa til ræktarland.

Fjölmargt styður við slíka ákvörðun. Sameinuðu þjóðirnar hafa gefið úr sautján markmið til að samfélaga okkar mannanna geti verið sem sjálfbærast og mannúðlegast. Skógrækt tikkar í öll boxin, ef svo má segja. Hér á eftir er upptalning á hverju markmiði fyrir sig og stutt, en ekki tæmandi, útlistun á tengingu við nytjaskógrækt og möguleika hennar á Íslandi.

1) Engin fátækt- Skógrækt skapar auðlind, sem mun skipta sköpum fyrir næstu kynslóðir.

2) Ekkert hungur- Takmörkun á gjöfulu ræktarlandi markast af landþekju gróðurs og skóga.

3) Heilsa og vellíðan- Mannfólk sækir í heilnæmt umhverfi. Skógarlandslag er heilnæmt umhverfi.

4) Menntun fyrir alla- Skógar veita arð til fólksins sem nota má til mennta.

5) Jafnrétti kynjanna- Bein- sem óbein störf af skógrækt eru ekki kynbundin.

6) Hreint vatn og hreinlætisaðstaða- Skógar hreinsa grunnvatn og hægir á rennsli þess til sjávar.

7) Sjálfbær orka- Skógar ljóstillífa og binda orku í viðnum.

8) Góð atvinna og hagvöxtur- Skógrækt er heilnæm. Skógur er stækkandi auðlind hagvaxtar.

9) Nýsköpun og uppbygging- Nýsköpun fylgir vaxandi auðlind og uppbygging fellst í sjálfbærni.

10) Aukinn jöfnuður- Skógrækt byggir upp atvinnu í dreifðari byggðum landsins.

11) Sjálfbærar borgir og samfélög- Borgarskógrækt felur í sér fleiri tækifæri en ógnanir.

12) Ábyrg neysla og framleiðsla- Nytjar í og við skóga yrðu heimaræktaðar í stað aðfluttra.

13) Aðgerðir í loftslagsmálum- Skógrækt er mótvægisaðgerð við mengun mannsins.

14) Líf í vatni- Næringarefni úr skógum fylgja straumvatni til vatna og sjávar.

15) Líf á landi- Eyðimerkur Íslands öðlast líf, ofan sem neðan yfirborðs.

16) Friður og réttlæti- Það er réttlætismál gagnvart lífi á jörðinni að rækta skóg.

17) Samvinna um markmiðin- Aukin tækifæri um þekkingarmiðlun milli landa með auknum jöfnuði.

Með kveðju og þökk fyrir tækifærið að fá að veita málinu umsögn

Hlynur Gauti Sigurðsson

Framkvæmdastjóri Landssamtaka skógareigenda.

Sent á samráðsgátt alþingis 23.febrúar 2021

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#4 Samtök iðnaðarins - 23.02.2021

Meðfylgjandi er umsögn Samtaka iðnaðarins um drög að frumvarpi til laga um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda og áætlana.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#5 Umhverfisstofnun - 23.02.2021

Hjálögð er umsögn Umhverfisstofnunar.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#6 Landsvirkjun - 23.02.2021

Meðfylgjandi er umsögn Landsvirkjunar

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#7 Aðalsteinn Sigurgeirsson - 23.02.2021

Hjálögð er umsögn Skógræktarinnar um drög að frumvarpi til laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#8 Landsnet hf. - 23.02.2021

Hjálögð er umsögn Landsnets hf. um drög að frumvarpi til laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana.

Virðingarfyllst f.h. Landsnets hf.

Guðjón Axel Guðjónsson.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#9 Verkfræðingafélag Íslands - 23.02.2021

Meðfylgjandi er umsögn Verkfræðingafélags Íslands.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#10 Landvernd, landgræðslu- og umhverisverndarsamtök Íslands - 23.02.2021

Góðan dag, Í viðhengi er umsögn Landverndar.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#11 Bændasamtök Íslands - 23.02.2021

Sjá hjálagða umsögn Bændasamtaka Íslands.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#12 Tryggvi Þór Haraldsson - 23.02.2021

Meðfylgjandi er umsögn RARIK í viðhengi.

Virðingarfyllst

Tryggvi Þ. Haraldsson

forstjóri RARIK

Viðhengi