Samráð fyrirhugað 08.03.2018—16.03.2018
Til umsagnar 08.03.2018—16.03.2018
Niðurstöður í vinnslu frá 16.03.2018
Niðurstöður birtar 26.11.2018

Frumvarp til laga um Ferðamálastofu, ferðamálaráð og leyfisveitingar í ferðaþjónustu

Mál nr. S-29/2018 Birt: 08.03.2018 Síðast uppfært: 26.11.2018
  • Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið
  • Drög að frumvarpi til laga
  • Málefnasvið:
  • Ferðaþjónusta

Niðurstöður birtar

Frumvarpið varð að lögum nr. 96/2018. Niðurstöður samráðs: Athugasemdir bárust ráðuneytinu frá Samtökum ferðaþjónustunnar og var tekið tillit til þeirra, svo sem varðandi nánari skýringar á hugtökum í frumvarpinu og greinarmun á ábyrgðartryggingum og tryggingum á grundvelli laga um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun.

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 08.03.2018–16.03.2018. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 26.11.2018.

Málsefni

Hér er um að ræða drög að frumvarpi til nýrra heildarlaga um Ferðamálastofu, ferðamálaráð og leyfisveitingar í ferðaþjónustu. Frumvarpið felur í sér heildarendurskoðun laga um skipan ferðamála, nr. 73/2005, og munu þau lög falla úr gildi verði frumvarpið að lögum.

Hér er um að ræða drög að frumvarpi til nýrra heildarlaga um Ferðamálastofu, ferðamálaráð og leyfisveitingar í ferðaþjónustu. Frumvarpið felur í sér heildarendurskoðun laga um skipan ferðamála, nr. 73/2005, og munu þau lög falla úr gildi verði frumvarpið að lögum. Frumvarpið felur í sér skýrari afmörkum á verkefnum Ferðamálastofu, breytt hlutverk ferðamálaráðs, breyttar skilgreiningar sem tengjast innleiðingu á tilskipun um pakkaferðir, kröfur til ferðaþjónustuaðila um öryggisáætlanir og skilvirkari þvingunarúrræði Ferðamálastofu.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Gunnar Valur Sveinsson - 16.03.2018

Samtök ferðaþjónustunnar (Samtökin) hafa kynnt sér frumvarp til laga um Ferðamálastofu, ferðamálaráð og leyfisveitingar í ferðaþjónustu og eru með eftirfarandi ábendingar.

Samtökin vilja fyrst koma á framfæri ábendingu um allt of skamman tíma til umsagnar sem takmarkar möguleika á að fara djúpt í efnisatriði fyrirliggjandi draga. Þá benda samtökin á að ekkert samráð hefur verið haft við greinina við gerð frumvarpsins og er það ámælisvert.

Samtökin telja að lögin beri ekki með sér skýran mun á ábyrgðatryggingum sem ferðaþjónustuaðilum er skylt að leggja fram við leyfisumsókn og pakkaferðatryggingum sem aðilum sem selja pakkaferðir er skylt að leggja fram. Orðalag frumvarpsins er óskýrt og getur ruglað þessum tveim þáttum saman.

Varðandi einstaka efnisgreinar frumvarpsins eru samtökin með eftirfarandi athugasemdir:

4. gr. ferðamálaráð

• Samtökin telja því betur við komið í svo mikilvægum flokki sem ferðaþjónusta er að SAF skipi varaformann ferðamálaráðs. Þá skýtur það skökku við að fjölgað sé í ráðinu samtímis sem fulltrúum SAF er fækkað. Samtökin leggja til að þau tilnefni varaformann ferðamálaráðs ásamt því að skipa tvo aðra fulltrúa

6. gr. orðaskýringar

• Samtökin telja ekki nógu skýrt kveðið á um að ferðasali dagsferða falli ekki undir skilgreiningar á seljanda eða smásala og að sama skapi skilyrði boðaðs frumvarps um pakkaferðir.

• Þá telja samtökin afar mikilvægt að starfstöð sé skilgreind í frumvarpinu, ekki síst til til að tengja þá skilgreiningu öðrum lögum og skilyrðum erlendra aðila til að starfa hér á landi.

8. gr. leyfisskylda

• Samtökin benda á það sem áður hefur komið fram varðandi skilgreiningar og mikilvægi þess að skýra þarf vel að ferðasali dagsferða fellur ekki undir skilgreiningar í boðuðu frumvarpi um pakkaferðir. Þá telja samtökin ekki nógu skýrt að hugtakið „seljandi“ sé yfirhugtak á söluaðilum pakkaferða þ.m.t. ferðaskipuleggjanda.

• Samtökin telja eðlilegt og sjálfsagt að erlendir aðilar verði leyfisskyldir hér á landi til að gæta jafnræðis við innlenda aðila á öllu sviðum. Í því samhengi er einnig rétt að ítreka kröfuna um að erlendir aðilar skili inn öryggisálætlun og er hér að neðan tillaga þess efnis:

Erlendur seljandi, ferðaskipuleggjandi eða ferðasali dagsferða sem hyggst opna starfsstöð á Íslandi skal sækja um leyfi, leggja fram skírteini um tryggingu og öryggisáætlun eins og nánar er mælt fyrir um í lögum þessum.

9.gr. öryggisáætlanir

• Samtökin telja ekki nógu skýrt kveðið á um að þeir sem aðeins hafa milligöngu um sölu ferða í nafni annarra þurfi ekki að gera skil á öryggisáætlun. Samtökin leggja til eftirfarandi málsgrein til að gera ákvæðið skýrara:

Hver sá sem hyggist sem setja saman styttri ferðir byggðar á leyfi ferðasala dagsferða, eða setja saman pakkaferðir byggðar á leyfi ferðaskipuleggjanda, sem farnar eru innan íslensks yfirráðasvæðis bera ábyrgð á að útbúa skriflega öryggisáætlun fyrir hverja tegund ferða, sbr. d-lið 7.gr. óháð því hvort viðkomandi selur ferðina beint til neytanda eða í gegnum endursölu hjá öðrum aðilum.

• Samtökin telja afar mikilvægt að lögin sem frumvarpið byggir á tengist VAKANUM með skýrari hætti og að þau skilyrði sem sett eru fram varðandi öryggis og gæðamál samræmist skilyrðum VAKANS.

19.gr. ákvæði til bráðabyrgða

• Í punkti I er þeim sem nú eru með ferðaskipuleggjandaleyfi og skráðar bókunarþjónustur gert að sækja um nýtt leyfi 2 mánuðum eftir gildistöku laganna. Ljóst er að það er mjög skammur frestur, þar sem gildistakan er áætluð 1.júlí 2018. Samtökin fara fram á að frestur til að sækja um nýtt leyfi verði a.m.k. 3 mánuðir eftir að allar tilskyldar reglugerðir hafa verið settar.

• Eins og áður hefur komið fram er mikilvægt að skýra betur hverjum ber að gera skil á öryggisáætlunum og að það sé tíundað undir þessum lið.

Þar sem of skammur tími hefur verið til umsagna við fyrirliggjandi drögum fara samtökin fram á að eiga fund með fulltrúum ráðuneytisins þar sem nánar er farið i hvern efnisþátt draganna.

Samtökin áskilja sér rétt til að koma með frekari athugsemdir á síðari stigum.

Viðhengi