Samráð fyrirhugað 03.02.2021—22.02.2021
Til umsagnar 03.02.2021—22.02.2021
Niðurstöður í vinnslu frá 22.02.2021
Niðurstöður birtar 15.12.2021

Drög að frumvarpi til laga um breytingu á raforkulögum nr. 65/2003 og lögum nr. 75/2004 um stofnun Landsnets hf. Drög að reglugerð, aðgerðaráætlun og skýrsla.

Mál nr. 32/2021 Birt: 03.02.2021 Síðast uppfært: 15.12.2021
  • Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið
  • Drög að frumvarpi til laga
  • Málefnasvið:
  • Orkumál

Niðurstöður birtar

Frumvarp lagt fram á vorþingi 2021 og afgreitt sem lög. Áfram unnið að breytingum á reglugerðum í kjölfarið.

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 03.02.2021–22.02.2021. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 15.12.2021.

Málsefni

Drög að frumvarpi til breytinga á raforkulögum, drög að breytingu á reglugerð um veginn fjármagnskostnað, yfirlit yfir aðgerðir til umbóta á regluverki á sviði raforkumála og skýrsla Deloitte um greiningu á regluverki.

Með þessum tillögum sem settar hafa verið í opið samráð eru lagðar til ýmsar breytingar sem eiga það sameiginlegt að markmið þeirra er að ná fram umbótum sem miða að því að auka gagnsæi á regluverki og fyrirkomulagi er varðar flutning og dreifingu raforku, stuðla að betri skilningi á forsendum ákvarðanatöku, auka skilvirkni, einföldun og hagkvæmni sem skili sér almennt í lægri gjaldskrám til notenda án þess að gæðum sé fórnað. Markmið breytinganna er að hvetja til hagræðingar hjá sérleyfisfyrirtækjum, bæta afhendingaröryggi og tryggja skilvirkt og gagnsætt eftirlit.

Helstu efnisatriði lúta að aukinni skilvirkni og einföldun við setningu hagræðingarkröfu fyrir sérleyfisfyrirtæki, stytta viðmiðunartíma fyrir markaðsvexti hvað varðar ávöxtunarkröfu, bæta yfirsýn og eftirlit með fjárfestingaráætlunum dreifiveitna, aukin áhersla lögð á gæði raforku og afhendingaröryggi, dregið úr hvötum til að fresta viðhaldi, endurskoðun á hlutfallstölum um leyfða arðsemi til að mæta kostnaði við veltufjármuni, breytingar á eignarhaldi flutningsfyrirtækisins, raforkuöryggi skilgreint og sett í markmiðsgrein raforkulaga, aukinn skýrleiki við ákvörðun rekstrarkostnaðar, aukin skilvirkni og einföldun við framlagningu kerfisáætlunar, aukinn sveigjanleiki við færslu of- eða vantekinna tekna milli ára við uppgjör tekjumarka, innkaup á kerfisþjónustu, yfirsýn og eftirlit með varaafli, aukið gegnsæi og bætt upplýsingagjöf og efling á raforkueftirliti Orkustofnunar.

Frestur til að senda inn umsagnir við ofangreind drög að frumvarpi, reglugerð og aðgerðaráætlun er til 17. febrúar.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Erla Björk Þorgeirsdóttir - 05.02.2021

Hafnarfirði 5.2.2021

Umsögn um aðgerðir til umbóta á regluverki á sviði raforkumála

Skýrsla Deloitte sem liggur til grundvallar þessum tillögum að umbótum á regluverki á sviði raforkumála er mjög vel unnin og þörf rýni og tillögur á þeim grunni eru allar til bóta.

Það er mjög mikilvægt að breytingar á reglugerð með frumvarpi þessu dragist ekki úr hófi og að fundin verði góð leið til að tryggja eftirfylgni með gæðum raforku og hvernig slík eftirfylgni kemur fram í tekjumörkum.

Það er nauðsynlegt að það verði vel útfært á hvaða forsendum gæði raforkunnar verði metin, hvernig það verður gert og hver gerir það. Í dag er Orkustofnun með fulltrúa í svokölluðum START hóp sem gefur út skýrslur um bilanatíðni og lengd bilana samkvæmt skilgreindum mælikvörðum. Fulltrúi stofnunarinnar hefur engar forsendur til þess að meta það hvort gögnin sem lögð eru fram eru rétt, auk þess sem þau varða aðeins lítinn hluta af þeim atriðum sem fylgjast þarf með.

Orkustofnun hefur hvorki búnað né þekkingu til að gera úttektir eins og gera þyrfti til að veita veitunum og Landsneti fullnægjandi aðhald á þessu sviði.

Ekki hefur verið fylgst með tíðnistýringu, spennugæðum eða yfirsveiflum og er vert að horfa til þess hvernig það er gert annars staðar og hvaða kröfur eru gerðar á þessu sviði. Nútíma tæknibúnaður getur verið mjög viðkvæmur fyrir öllu flökti í gæðum raforkunnar.

Það má einnig gjarnan spyrja þeirra spurningar hvort að það á alfarið að treysta á þær upplýsingar sem veiturnar taka saman eins og í START hópnum eða hvort eðlilegt mætti teljast að kalla eftir utanaðkomandi mati óháðra fagaðila.

Ef raunverulegur vilji er til þess að auka vægi smávirkjana í raforkukerfinu er ljóst að það eru ýmsir vankantar á leikreglum sem varða tengingu smávirkjana við dreifiveitur. Margir þessara vankanta voru dregnir fram í dagsljósið á ráðstefnu sem haldin var á vegum Orkustofnunar haustið 2019. Það er því mikilvægt að hleypa að borðinu fulltrúum sem gæta hagsmuna þeirra sem vilja greiða leið smávirkjana og einnig væri æskilegt að leita ráðgjafar hjá fagaðilum með þekkingu á kerfinu sem hafa hlutlausari sýn en fulltrúar orkufyrirtækja á markaði.

Einnig þarf að fara að horfa til þess að margir örsmáir framleiðendur (prosumers) munu koma fram í framtíðinni og eru þegar til staðar og vert er að gera samræmdar leikreglur á markaði fyrir þessa aðila. Sumarhúsaeigendur geta til dæmis komið sér upp sólarorkurafhlöðum, litlum vindrellum og jafnvel rafhlöðum til að nýta þessa raforkuframleiðslu sem best fyrir sig. Það þarf að tryggja öryggi starfsmanna dreifiveitna sem vinna við lagnir, sem tengjast slíkum framleiðendum, en kerfið gerir í dag ekki ráða fyrir framleiðslu hjá einstökum notendum.

Opin stjórnsýsla þar sem öll gögn og upplýsingar eru jafnóðum birt á netinu er eitthvert skilvirkasta og ódýrasta aðhald, sem hægt er að veita aðilum á markaði. Það væri farsælast ef slík vinnubrögð yrðu tekin upp varðandi alla stjórnsýslu á vegum Orkustofnunar. Þannig mætti hugsa sér að allar umsóknir um leyfi eins og til dæmis virkjanaleyfi færu strax á netið en væru ekki eingöngu auglýst í Lögbirtingablaðinu.

Þetta myndi stuðla að því að allir aðilar á markaði undirbyggju umsóknir enn betur, ef þeir vita að þetta verður opið almenning um leið og það kemur í hús hjá Orkustofnun. Þetta leiðir líka af sér aðhald á vinnubrögð Orkustofnunar þar sem allt ferlið er opinberlega staðfest jafnóðum. Þannig geta aðilar á markaði og almenningur fylgst með því að jafnræðis sé gætt.

Eitt er vert að skoða varðandi raforkueftirlitsgjaldið og það er hvort það er eðlilegt að raforkueftirlitsgjald veitufyrirtækja standi undir kostnaði við eftirlit með virkjanaleyfum eins og ætlast er til í dag.

Væri ekki eðlilegra að orkuframleiðendur greiði fyrir eftirlit með virkjanaleyfunum, frekar heldur en að raforkueftirlitið eigi að standa straum af þeim kostnaði?

Virkjanir og virkjanaleyfi spila stórt hlutverk varðandi raforkuöryggi í landinu. Því má ekki horfa fram hjá því hvernig leikreglur eru vegna þeirra.

Það vantar að marka betur hvað eigi að vera innhald í virkjanaleyfum eins og til dæmis almenn ákvæði sem allir aðilar verða að sætta sig við og síðan sértæk skilyrði sem hugsanlega kalla á aukinn kostnað við eftirlit sem þá mætti skoða hvort ekki væri eðlilegt að viðkomandi orkufyrirtæki greiddi fyrir. Í fæstum virkjanaleyfum eru skilyrði fyrir rekstrinum en svo eru dæmi um 20 sértæk atriði.

Ef virkjanaleyfi sem í gildi eru í dag eru skoðuð sést að þau eru afar misjöfn. Það væri æskilegt að tekið yrði sérstaklega á því að skýra það ferli og fjármögnun á eftirliti með virkjunum. Það er ekki hlutverk raforkueftirlits að hafa eftirlit með virkjunum og því að mörgu leiti óeðlilegt að ætla eftirlitsgjaldinu að standa undir því eftirliti eins og ætla mætti ef raforkulögin eru skoðuð.

Það er einnig mikilvægt að ákveða hvernig við tryggjum í þeim eyjarekstri sem rekstur raforkukerfisins er, að til sé orka til að mæta álagstoppum. Landsvirkjun ber ekki nein skylda til að eiga þessa orku til reiðu í lónunum. Þetta verður ekki síst mikilvægt ef vindorka bætist við kerfið sem ekki er eins fyrirsjáanleg og rekstur á vatnsafli og jarðvarma.

Í tengslum við skilgreiningu á raforkuöryggi mætti varpa þeirri spurningu fram hvort að það sé ásættanlegt að flutningskerfi raforku byggi á áratugagamalli hringtenginu en ekki möskvuðu neti eins og almennt þykir nauðsynlegt til að tryggja öryggi í flutningskerfum. Þessari möskvun verður ekki náð fram nema með því að tvöfalda þennan hring eða þvera hálendið. Brýnt er að höggva á þann hnút hvað menn vilja gera í þeim efnum. Það er grundvallaratriði til að tryggja orkuöryggi á Íslandi að leyst sé úr þessu máli.

Það er ekki farsælt að búa við það ástand sem verið hefur á flutningskerfinu til áratuga. Til að tryggja raforkuöryggi og möguleika landsbyggðarinnar til uppbyggingar verður að endurskoða stjórnkerfið í heild. Það þarf að tryggja eðlilega uppbyggingu og þróun á flutningskerfinu, þannig að það fullnægi kröfum nútímans um afhendingaröryggi. Kerfið getur ekki að óbreyttu þjónað Íslandi í heild sinni til framtíðar.

Sótt er að framtíðar orkuöryggi landsmanna úr ýmsum áttum og engin sátt virðist í sjónmáli. Það hlýtur því að þurfa að taka á þessum málum með öðrum hætti en reynt hefur verið til þessa. Orkuöryggi framtíðar byggist einnig á því að hægt verði að nýta þá möguleika sem við búum yfir til orkuöflunar.

Orkuöryggi á Íslandi ætti að miða að því að við þurfum sem allra minnst á kolefnisdrifum varaaflsstöðvum að halda. Það er hægt með því að vera með dreifðari raforkuframleiðslu en við erum með í dag og flutningskerfi sem stenst nútíma kröfur.

Allt of stór hluti raforkuframleiðslu á Íslandi er á gosbeltinu og því synd að ekki skuli hafa verið litið jákvæðum augum á virkjunarkosti utan þess svæðis meðförum verkefnisstjórnar verndar- og orkunýtingaráætlunar. Sú staðreynd aðí því ferli skuli viðgangast að horfa fram hjá grundvallar markmiðum lagana sem um ferlið gilda áhrifum er ógn við orkuöryggi og möguleika til uppbyggingar á nýjum atvinnutækifærum um allt land. Það er óásættanlegt að horft sé framhjá mikilvægum atriðum eins efnahag, samfélag og orkuöryggi þegar afdrifaríkar ákvarðanir eru teknar um uppbyggingu á raforkukerfi á Íslandi.

Orkuöryggi er grundvallar hagsmunamál allra landsmanna, sem tryggja verður með margvíslegum hætti. Einna brýnasti vandinn er að hægt sé að endurnýja flutningskerfið og auka raforkuframleiðslu utan gosbeltisins.

Það er eitt mikilvægasta verkefni dagsins í dag að tryggja orkuöryggi á Íslandi þannig að hægt sé að byggja upp ný atvinnutækifæri um allt land sem staðið geta undir rekstri á öðrum innviðum eins og heilbrigðiskerfi, menntakerfi og vegakerfi.

Þetta frumvarp er góð byrjun á því að breyta leikreglum á raforkumarkaði á Íslandi en víðtakari lausna er þörf.

Erla Björk Þorgeirsdóttir

Framkvæmdastýra Verkfræðistofunnar Afl og Orku

s: 894 5626

Afrita slóð á umsögn

#2 CarbFix ohf. - 17.02.2021

Meðfylgjandi er umsögn Carbfix ohf.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#3 Orka náttúrunnar ohf. - 17.02.2021

Meðfylgjandi er umsögn Orku náttúrunnar

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#4 Norðurál ehf. - 17.02.2021

Meðfylgjandi er umsögn Norðuráls.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#5 Fjórðungssamband Vestfirðinga - 17.02.2021

Hjálagt er í viðhengi umsögn Vestfjarðastofu og Fjórðungssambands Vestfirðinga

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#6 Halldór Kristján Þorsteinsson - 17.02.2021

Meðfylgjandi er umsögn Láru V. Júlíusdóttur hrl. og Halldórs Kr. Þorsteinssonar hdl. LL.M. hjá Lögmönnum Laugavegi 3.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#7 Samtök iðnaðarins - 17.02.2021

Meðfylgjandi er umsögn Samtaka iðnaðarins um drög að frumvarpi til laga um breytingu á raforkulögum, lögum um stofnun Landsnets hf. o.fl.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#8 Jóhann Þór Magnússon - 17.02.2021

Umsögn Jóhanns Þórs Magnússonar

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#9 Rio Tinto á Íslandi hf. - 18.02.2021

Umsögn Rio Tinto á Íslandi hf.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#10 Íris Lind Sæmundsdóttir - 19.02.2021

Góðan dag

Meðfylgjandi er umsögn Veitna ohf., dags. í dag, vegna draga að frumvarpi til breytinga á raforkulögum og tengdum reglum.

Kær kveðja, Íris Lind

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#11 Júlíus Jón Jónsson - 22.02.2021

Sjá viðhengi

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#12 Magnús Óskarsson - 22.02.2021

Umsögn send f.h. svissneska fyrirtækisins Climeworks AG. Sjá viðhengi.

Magnús Óskarsson, hrl.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#13 Ragnhildur Sif Hafstein - 22.02.2021

Meðfylgjandi er umsögn Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#14 Landsvirkjun - 22.02.2021

Meðfylgjandi er umsögn Landsvirkjunar.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#15 Tryggvi Þór Haraldsson - 22.02.2021

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti

Skrifstofa orkumála

Efni: Umsögn um drög að frumvarpi til laga um breytingu á raforkulögum nr. 65/2003 og lögum nr. 75/2004 um stofnun Landsnets hf. auk draga að reglugerð, aðgerðaráætlun og skýrslu. Mál nr. 32/2021 í Samráðsgátt.

RARIK þakkar fyrir tækifæri til að koma að umsögn um ofangreind mál.

Með framangreindum tillögum sem settar hafa verið í opið samráð eru, eins og segir í Samráðsgáttinni, lagðar fram ýmsar breytingar sem eiga það sameiginlegt að markmið þeirra er að ná fram umbótum sem miða að því að auka gagnsæi á regluverki og fyrirkomulagi er varðar flutning og dreifingu raforku, stuðla að betri skilningi á forsendum ákvarðanatöku, auka skilvirkni, einföldun og hagkvæmni sem skili sér almennt í lægri gjaldskrám til notenda án þess að gæðum sé fórnað. Markmið breytinganna er að hvetja til hagræðingar hjá sérleyfisfyrirtækjum, bæta afhendingaröryggi og tryggja skilvirkt og gagnsætt eftirlit.

RARIK hefur farið yfir drögin og telur að ýmislegt þurfi að vinna nánar og betur, en gerir ekki athugasemdir við tilgang og markmið tillagnanna.

Í skýrslu Deloitte á eftir að fara nánar yfir ýmsar forsendur sem þar er byggt á, skýra þær og leiðrétta, enda inniheldur skýrslan eins og hún er nú framsett mjög mikið af ályktunum sem byggja á vafasömum og í nokkrum tilvikum röngum forsendum. Vísast í því samhengi m.a. til umsagnar Samorku. Mikilvægt er að áframhaldandi vinna við skýrsluna verði unnin í samráði við flutnings- og dreififyrirtækin, eða Samorku, sem geta útvegað bæði upplýsingar og mikilvægt innlegg í hana. RARIK lýsir sig viljugt til að taka þátt í þeirri vinnu. Niðurstaða skýrslunnar endurspeglast síðan að einhverju leyti í drögum að frumvarpi til laga um breytingar á raforkulögum og drögum að reglugerð um breytingar á reglugerð 192/2016.

Í drögum að frumvarpi til laga um breytingar á raforkulögum nr. 65/2003 er að finna ýmsar jákvæðar breytingar, annað sem ekki er jafn augljóslega til bóta og þarf að skýra nánar, en síðan atriði sem virðast a.m.k. þarfnast lagfæringa. Má þar t.d. nefna skilgreiningu á varaafli, sem er allt önnur og víðtækari en notuð hefur verið á undanförnum árum og t.d. í reglugerð 1040/2005, þar sem m.a. kemur fram að varaaflsstöðvum sé ekki ætlað að vinna á samkeppnismarkaði, heldur séu þær eining í flutnings eða dreifikerfi. Þá segir í 15 gr. reglugerðar 1040/2005 að “Varaaflsstöðvar sem nýttar eru þegar truflanir koma upp í raforkukerfinu skulu undanþegnar greiðslum til flutningskerfisins“.

„Varaafl“ eins og líst er undir lið 1 og 2 í greinargerðinni með frumvarpinu, þ.e. FCR og FRR er allt annars eðlis og er í raun sú kerfisþjónustu sem Landsnet kaupir af framleiðslueiningum á markaði, í formi reiðuafls og jöfnunarorku. Það sama á við um þriðja lið greinargerðarinnar sem fjallar um varaafl til að leysa af hólmi FRC og FRR.

Það varaafl sem þarna er fjallað um er þannig allt annars eðlis en það staðbundna varaafl (neyðarafl) sem sett er upp á einstaka stöðum þar sem afhendingaröryggi frá flutnings- og dreifikerfum er ekki nægjanlegt. Mikilvægt er að gera greinarmun á þessu tvennu í raforkulögum.

RARIK telur mikilvægt að vinna áfram með frumvarpsdrögin og telur eðlilegt að sjónarmið flutnings- og dreififyrirtækjanna verði tekin til skoðunar og lýsir sig reiðubúið til að taka þátt í þeirri vinnu.

Jafnframt lýsir RARIK áhuga á að koma að áframhaldandi vinnu við Aðgerðir til umbóta á regluverki á sviði raforkumála, annað hvort beint eða í gegnum Samorku.

Virðingarfyllst

Tryggvi Þ. Haraldsson

Forstjóri RARIK

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#16 HS Orka hf. - 22.02.2021

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið

Málefnasvið: Orkumál

Mál nr. 32/2021

Svartsengi, 22. febrúar 2021

Varðar: Umsögn um drög að frumvarpi til laga um breytingu á raforkulögum nr. 65/2003 og lögum nr. 75/2004 um stofnun Landsnets hf. Drög að reglugerð, aðgerðaráætlun og skýrsla

Inngangur

Vísað er til máls nr. S-32/2021 í samráðsgátt stjórnvalda þar sem kynnt eru til umsagnar drög til breytinga á raforkulögum nr. 65/2003 og lögum um stofnun Landsnets hf. Nr. 75/2004. HS Orka fagnar markmiðum lagabreytinga þessa og áformum um einföldun regluverks, skýrleika og gagnsæi. Í umsögn HS Orku er almennt ekki verið að beina sjónum þröngt að sérhverri grein frumvarpanna heldur eru settar fram ábendingar um efnisatriði sem skipta máli við endurskoðun laga- og reglugerða er varða raforkuiðnaðinn.

Markmið raforkulaga

Megin markmið raforkulaga frá árinu 2003 var að stuðla að þjóðhagslega hagkvæmu raforkukerfi til eflingar atvinnulífs og byggðar í landinu. Til þess að ná þessu markmiði þurfa rekstraraðilar raforkukerfisins frá vinnslu til notenda að leggjast á eitt um að gera viðskipti samkeppnishæf, stuðla að skilvirkni og tryggja raforkuöryggi.

Þjóðhagslega hagkvæmt raforkukerfi til framtíðar

Þjóðhagslega hagkvæmt raforkukerfi og samkeppnishæfni haldast í hendur þar sem endanlegt verð er ráðandi um hvort verður af viðskiptum eður ei. Framleiðsla rafmagns hér á landi er umhverfisvæn sem skiptir máli í staðarvali þeirra fyrirtækja sem hingað kjósa að líta. En vegna fjarlægðar við markaði liggur forskot Íslands oftar en ekki í því að verð á umhverfisvænni orku sé samkeppnishæft í samanburði við það sem stendur til boða í samkeppnislöndum okkar, eins og á hinum Norðurlöndunum, öðrum Evrópulöndum eða Kanada.

Verð hefur farið lækkandi á þessum mörkuðum og hefur HS Orka sem og aðrir raforkuframleiðendur /salar mætt stöðunni með lægri verðum. Það er hins vegar mat HS Orku að notendur hafi ekki notið góðs af þessum lækkunum þar sem á sama tíma hafa verð hjá Landsneti og dreifiveitum farið hækkandi, með skírskotun til lagaákvæða og regluverks. Því er mikilvægt að hugað sé að flutningskostnaði raforkunnar þrátt fyrir að erfitt sé er að reikna til fulls þau áhrif sem frumvarpsdrögin boða til lækkunar er viðkemur tekjumörkun en ljóst er að áhrifin þurfa að vera marktæk ef treysta á samkeppnishæfni landsins.

Í greinargerð með frumvarpi um breytingu á raforkulögum er tilgreint að markmiðið sé m.a. að ná fram umbótum sem miða að því að auka gagnsæi á regluverk og fyrirkomulagi er varðar flutning og dreifingu raforku, einföldun og hagkvæmni sem skili sér almennt í lægri gjaldskrá til notenda án þess að gæðum sé fórnað. Markmið breytinganna er auk þess að stuðla almennt að auknum hvata til hagræðingar hjá sérleyfisfyrirtækjum og að tryggja skilvirkt og gagnsætt eftirlit með því. HS Orka fagnar þessum markmiðum og leggur áherslu á að í nýju frumvarpi verði gert kleift að bregðast við breyttum skilyrðum á raforkumarkaði þannig að framleiðendur/seljendur og flutnings- og dreifingaraðilar mæti áskorunum sameiginlega og axli þannig allir ábyrgð á því markmiði að skapa skilyrði til vaxtar í atvinnulífi þjóðarinnar.

Ákvörðun, forsendur og gagnsæi tekjumarka

HS Orka tekur undir sjónarmið Deloitte um að áfram verði notast við tekjumarkalíkan og að bæta þurfi upplýsingagjöf um forsendur sem liggja til grundvallar ákvörðunar um tekjumörk, svo sem upplýsingar um eignastofn. Vera kann að skilgreining þeirra eigna sem mynda eignastofn þann sem liggur til grundvallar tekjumarka sé of víðtæk sé litið til samanburðarfyrirtækja í nágranna- löndum. Eðlilegt væri að upplýsingar um sundurliðun eignastofnsins væru gerðar opinberar. Myndi það auka traust aðila á ferlinu ef eignastofninn yrði sérstaklega staðfestur af þriðja aðila t.a.m. endurskoðanda félagsins.

Með breytingum á reglugerð 192/2016, dags. 30. apríl 2020, var viðmið um eiginfjárhlutfall hækkað á bilinu 5-10% eða úr 45% í 55% og leiðir það til hækkunar tekjumarka viðkomandi dreifi- eða flutningsfyrirtækis. Eigið fé Landsnets var um 44% í árslok 2020 en spyrja má hvort viðmið um eiginfjárhlutfall á bilinu 45-55% sé ekki of hátt fyrir dreifi- og flutningsfyrirtæki með sérleyfi. Til samanburðar var eiginfjárhlutfall norska flutningsfyrirtækisins Statnett hæst um 30% á árunum 2015-2019 og um 23% í árslok 20191. Þá er viðmið um eiginfjárhlutfall 40% vegna tekjumarka Statnett að minnsta kosti fram til ársins 202323.

Ekki er ljóst hvers vegna tekjumörk til stórnotenda eru sett fram í íslenskum krónum enda undirliggjandi stærðir og uppgjörsmynt Landsnets í Bandaríkjadal. Í lögum nr. 65/2003 kemur fram að í reglugerð skuli kveða á með hvaða hætti tekið er tillit til almennra verðbreytinga og gengis gjaldmiðla en slík ákvæði er hins vegar ekki að finna í reglugerð 192/2016. Getur þetta valdið misræmi og ógagnsæi t.d. við ákvörðun tekjumarka og uppgjör.

HS Orka tekur undir álit Deloitte um að viðmið um veltufjárbindingu sem nemi 20% af tekjumörkum síðasta árs sé of hátt og fagnar breytingatillögu um lækkun hlutfallsins.

Tækifæri eru fólgin í því að bæta upplýsingagjöf um þau atriði sem metin eru til að ákvarða viðmið um fjármagnskostnað og ávöxtunarkröfu á eigið fé. Æskilegt væri að lánsfjármagnskostnaður tæki mið af raunverulegum lánskjörum fyrirtækjanna frekar en að miðað sé við ákveðnar vaxtaforsendur.

Þrátt fyrir að krafa um hagræðingu og kostnaðaraðhald eigi að vera til staðar virðist að svo sé ekki.Búa þarf svo um hnútana að hvatar til hagræðingar myndist í gegnum kostnaðaraðhald stjórnenda og eigenda. Væri það í samræmi við tilgang og anda raforkulaganna frá 2003.

Beintenging við virkjun

Í núgildandi 5. mgr. 12. gr. a. raforkulaga er tilgreint að ef stórnotandi tengir sig beint við virkjun og fer ekki um flutningskerfið, sem jafnframt tekur ekki þátt í kostnaði við tengingu stórnotandans, að þá skal úttektargjald viðkomandi stórnotanda til flutningskerfisins vera 60% af úttektargjaldi til stórnotenda. Auk þess er svo hægt að semja um frekari afslátt ef úttektin er alfarið háð því að orkan komi frá virkjuninni. Í 6. mgr. 12. gr. a er svo tilgreint að notandi sem ekki er stórnotandi geti líka fengið að tengja sig beint við virkun ef hann er algjörlega háður því að fá aðrar afurðir jarðhitavirkjunar en aðeins raforku og þá fari um úttektargjaldið eftir 5. mgr.

Nauðsynlegt er að skýra betur heimildir 12. gr. a hvað varðar beintenginu við virkjanir.

HS Orka telur að sanngirnisrök mæli með því að ekki sé gerður greinarmunur á milli stórnotenda og annarra notenda. Viðmiðið sem horfa eigi til er hvort notandi (stór sem lítill) sé beintengdur við virkjun og hafi þannig enga tengingu við flutningskrefið, njóti engrar þjónustu þess og skapi því engan viðbótarkostnað fyrir flutningskerfið. Ef notendur uppfylla þau skilyrði þá hlýtur að vera eðlilegt og sanngjarnt að notandi greiði ekkert úttektargjald og fái þannig 100% afslátt. Þá sé aðeins greitt fyrir kerfisþjónustu.

Þessu tengdu telur HS Orka að núgildandi heimild 5. mgr. til frekari afsláttar sé óskýr og til þess fallinn að valda ógagnsæi og óskýrleika, hættu á huglægri ákvörðunartöku, sem og verri skilningi á ákvörðunartöku.

HS Orka leggur því til að við 13. gr. frumvarpsins , sem breytir 12. gr. a. raforkulaga, verði bætt við útfærslu hvað varðar ofangreind ákvæði í 5. og 6. mgr. 12. gr. a. þar sem tekið er tillit til ofangreinds. Slíkar breytingar væru til þess fallnar að ná fram umbótum sem ná fram því markmiði að auka gagnsæi á regluverkið, stuðla að betri skilningi á ákvarðanatöku, auka skilvirkni, einföldun og hagkvæmni sem skili sér almennt í lægri gjaldskrám til notenda án þess að gæðum sé fórnað.

Hagræðing meðal sérleyfishafa

Um tíma fór fram lykiltölugreining innan raforkugeirans (Samorka) til að meta árangur Landsnets og dreifiveitna borið saman innbyrðis eða við sambærileg erlend fyrirtæki. Þeim samanburði var síðan hætt. Hugsanlega mætti taka slíkan samanburð upp að nýju og fela framkvæmdina óháðum greiningaraðilum í stað þess að framkvæmd sé á hendi aðila innan geirans. Um framkvæmd hagræðingarátaks þyrfti að veita Orkustofnum heimild til aðgerða og eftirfylgni. Það er áhyggjuefni að rekstrarkostnaður á flutt magn til notenda á árunum 2011 – 2019 hafi aukist umfram verðbólgu hjá öllum sérleyfisfyrirtækjum, þ.e. um 8,4% til 39,6% eða 1,0% til 4,3% á ári umfram verðbólgu, sbr. úttekt Deloitte 2. febrúar 2021.

Sameining dreifiveitna

Í aðgerðaskjali er rætt um möguleika þess að ná fram hagræðingu með sameiningu dreifiveitna. HS Orka tekur undir það og telur að með eflingu svæðisbundinna dreifiveitna megi ná fram hagræðingu með sameiningu og með því að fela þeim rekstur flutningsmannvirkja sem ekki tilheyra meginflutningskerfi á viðkomandi svæðum. Þetta myndi einnig létta á umfangi í þjónustu Landsnets en styrkir um leið viðkomandi dreifiveitur.

Eignarhald Landsnets

HS Orka hefur áður bent á annmarka í eignarhaldi Landsnets. Ótækt er að stærsti aðili á samkeppnismarkaði raforkusölu, Landsvirkjun, sé aðaleigandi sérleyfisfyrirtækisins. Það er t.d óásættanlegt að semja um tengigjöld virkjana við fyrirtæki sem er að stærstum hluta í eigu aðalsamkeppnisaðila. Þá er það líka óþægileg staða Landsvirkjunar að geta ekki beitt sér við rekstur Landsnets vegna varúðar gagnvart samkeppnislögum. Er HS Orka eindregið fylgjandi því að samkeppnisaðilar innar raforkuiðnaðarins hverfi úr eigendahópi Landsnets sem og önnur orkufyrirtæki sem þar eiga hlut. Rætt hefur verið um að Landsnet verði 100% eign ríkissjóðs sem væri góður kostur að mati HS Orku.

Virðingarfyllst,

f.h. HS Orku hf.

Arna Grímsdóttir, lögm.

Yfirlögfræðingur HS Orku hf.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#17 Landsnet hf. - 22.02.2021

Meðfylgjandi er umsögn Landsnets hf. vegna máls nr. 32/2021.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#18 Samorka - 23.02.2021

Hjálögð er umsögn Ráðgjafaráðs veitufyrirtækja innan Samorku um málið.

Virðingarfyllst, f.h. Samorku

Baldur Dýrfjörð

Viðhengi