Samráð fyrirhugað 03.02.2021—19.02.2021
Til umsagnar 03.02.2021—19.02.2021
Niðurstöður í vinnslu frá 19.02.2021
Niðurstöður birtar 20.07.2021

Tillögur að breytingu á aðalnámskrá leikskóla

Mál nr. 33/2021 Birt: 03.02.2021 Síðast uppfært: 20.07.2021
  • Mennta- og menningarmálaráðuneytið
  • Annað
  • Málefnasvið:
  • Leikskólar, grunnskólar, framhaldsfræðsla og stjórnsýsla mennta- og menningarmála

Niðurstöður birtar

Niðurstöður samráðs meðfylgjandi

Nánar um niðurstöður

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 03.02.2021–19.02.2021. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 20.07.2021.

Málsefni

Mikilvægt er að aðalnámskrá leikskóla taki mið af þörfum barna með annað móðurmál en íslensku, því óskar mennta- og menningarmálaráðuneyti eftir umsögnum um tillögu að breytingu á gildandi aðalnámskrá leikskóla frá 2011.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið óskar eftir umsögnum um tillögu að breytingu á gildandi aðalnámskrá leikskóla frá 2011. Um er að ræða afmarkaðar breytingar er snúa að börnum með annað móðurmál en íslensku og fjöltyngd börnum. Að beiðni mennta- og menningarmálaráðherra vann Menntamálastofnun í samstarfi við hagsmunaaðila tillögur að breytingum með það að markmiði að tryggja börnum með annað móðurmál en íslensku og öðrum fjöltyngdum börnum betri menntun sem undirbýr þau undir önnur skólastig og virka þátttöku í samfélaginu. Aðrar breytingar á aðalnámskrá leikskóla svo sem vegna menntastefnu til ársins 2030 geta komið til greina en þær liggja ekki fyrir að svo stöddu.

Fjöltyngdum leikskólabörnum með annað móðurmál en íslensku hefur fjölgað umtalsvert frá því aðalnámskrá leikskóla tók gildi árið 2011. Sú samfélagsbreyting kallar á þau viðbrögð í skólakerfinu sem hér eru lögð til. Mikilvægt er að leikskólar mæti þörfum barna með fjölbreyttan menningar- og tungumálabakgrunn. Ávinningur af því að jafna stöðu þeirra gagnvart þeim sem eiga íslensku að móðurmáli er mikill, bæði fyrir einstaklinga sem í hlut eiga og samfélagið í heild.

Tilefni breytinganna er mótun menntastefnu til ársins 2030 á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytis. Í henni er áhersla lögð á að veita framúrskarandi menntun með þekkingu, þrautseigju, hugrekki og hamingju að leiðarljósi í umhverfi þar sem allir skipta máli og geta lært.

Með breytingum sem nú eru lagðar til verður almenn umfjöllun um íslensku sem annað tungumál í aðalnámskrá leikskóla aukin. Einnig er boðuð frekari áhersla á móttöku fjöltyngdra barna og að efla almenna málörvun, máltöku, fjöltyngi og næmi fyrir tungumálum almennt.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið beitir sér jafnframt fyrir aukinni áherslu á íslensku í skólum og í samfélaginu almennt í samræmi við þingsályktun um að efla íslensku sem opinbert mál á Íslandi sem samþykkt var á Alþingi vorið 2019. Einnig hefur verið gefinn út á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytis leiðarvísir um stuðning við móðurmál og virkt fjöltyngi í skóla- og frístundastarfi og fyrir liggja drög að stefnu um menntun barna og ungmenna með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn Einnig er á vef Menntamálastofnunar stöðumat fyrir erlenda nemendur á grunnskólastigi og unnið er að vinnslu stöðumats fyrir börn á leikskólaaldri. Þá er á Menntavísindasviði Háskóla Íslands að beiðni mennta- og menningarmálaráðherra unnið að útfærslu starfsþróunarnámskeiða fyrir starfandi leikskólakennara sem ætlað er að efla leiðtoga í málörvun og vinnu með fjöltyngda nemendur. Þá beitir mennta- og menningarmálaráðuneytið sér jafnframt fyrir aukinni áherslu á snemmbæran stuðning og styrkingu leikskólastigsins.

Breytingatillögurnar er að finna á blaðsíðum 23, 24, 25, 26, 28, 29 og 33 í meðfylgjandi skjali.

Stefnt er að því að breytingarnar taki gildi 1. ágúst 2021.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Barnaheill - Save the Children á Íslandi - 16.02.2021

Barnaheill – Save the Children á Íslandi þakka fyrir boð um að senda inn athugasemdir við ofangreint mál.

Að mati Barnaheilla er ánægjulegt að komið er á móts við stækkandi hóp barna sem hafa annað móðurmál en íslensku í tillögu að breytingu á aðalnámskrá leikskóla. Mikilvægt er að mati samtakanna að aðalnámskrá leikskóla sé í stöðugri þróun og í samræmi við þær breytingar sem eiga sér sífellt stað í íslensku samfélagi. Í aðalnámskrá kemur fram að starfshættir skólans skuli mótast af umburðarlyndi og jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi og ábyrgð. Ein leið til að ná fram því markmiði er breyting sem þessi sem nú er lögð fram. Bakgrunnur barna í íslenskum leikskólum er fjölbreyttur og ekki eingöngu vegna mismunandi móðurmáls heldur er menning þeirra, uppruni, trúarbrögð, siðir og venjur af mismunandi toga. Í drögum að stefnu um menntun barna og ungmenna með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn sem mennta- og menningarmálaráðuneytið gaf út árið 2020 kemur fram að þessi börn eru oft í viðkvæmri félagslegri stöðu. Þá er algengara að þau finni til meiri vanlíðanar en önnur börn.

Barnaheill líta svo á að þær breytingar sem lagðar eru til í aðalnámskrá leikskóla stuðli að auknu jafnrétti allra barna til náms, undirbúnings fyrir næstu skólastig og þátttöku í samfélaginu auk þess sem lögð er mikil áhersla á virðingu fyrir mismunandi menningarbakgrunni hvers barns. Með þessum breytingum kemur skýrt fram mikilvægi þess að bilið milli þeirrar menningar sem barnið býr við á heimili sínu og þeirrar menningar sem ríkjandi er í leikskólanum sé brúað. Hugtakið einstaklingsbundið nám fær skýra merkingu þegar nám barna í leikskóla byggir á þeim reynsluheimi sem þau búa nú þegar yfir þegar leikskólaganga þeirra hefst. Þessar breytingar eru í samræmi við 2. gr. barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem fjallar um að öll börn eigi að njóta sömu réttinda burtséð frá mismunandi menningarbakgrunni og 28. gr. sem fjallar um að öll börn eigi rétt á menntun og það eigi að hvetja þau til að mennta sig.

Barnaheill fagna þeirri auknu áherslu sem fram kemur í tillögunum og lýtur að samstarfi leikskóla og foreldra. Til að tryggja velferð barns er mikilvægt að gagnkvæm virðing sé ríkjandi milli heimilis og skóla og þá skiptir höfuðmáli að miðla upplýsingum þar á milli. Foreldrar af erlendum uppruna hafa í sumum tilfellum ólíka sýn á uppeldi, menningu og menntun frá þeirri sem er ríkjandi í leikskólanum og þarf því að ríkja gagnkvæmur skilningur svo nám og vellíðan barnsins séu sem allra best samtengd.

Barnaheill vilja þó árétta að þrátt fyrir mikilvægi þeirrar áherslu að mæta hverju og einu barni út frá mismunandi menningarbakgrunni, m.a. vegna mismunandi móðurmáls, þarf aðaláherslan ætíð að vera á það sem börnin eiga sameiginlegt frekar en það sem greinir þau í sundur. Kennarar á leikskólastigi þurfa að vera meðvitaðir um að koma á móts við hvert og eitt barn þegar nám þeirra er skipulagt en börn eiga aldrei að þurfa að upplifa að þau skeri sig úr á einhvern máta. Því þarf einnig að leggja sérstaka áherslu á hvaða nálganir kennarar og annað starfsfólk leikskóla hafa til að tryggja það en í 29. gr. Barnasáttmálans kemur fram að menntun eigi m.a. að hjálpa börnum að læra að rækta sjálfsmynd sína, hæfileika og færni.

Barnaheill leggja mikla áherslu á vernd barna gegn ofbeldi og vanrækslu og á rétt barna til að hafa áhrif á ákvarðanir sem þau varða. Samtökin hafa Barnasáttmálann að leiðarljósi í öllu sínu starfi.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#2 Reykjavíkurborg - 17.02.2021

Meðfylgjandi er umsögn mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu Reykjavíkurborgar

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#3 Reykjavíkurborg - 18.02.2021

Vísað er til tilkynningar í samráðsgátt dags. 3. febrúar sl., þar sem kynntar eru til samráðs tillögur að breytingum á gildandi aðalnámskrá leikskóla frá 2011. Um er að ræða afmarkaðar breytingar er snúa að börnum með annað móðurmál en íslensku og fjöltyngd börn.

Eftirfarandi er umsögn Reykjavíkurborgar:

Þeirri nálgun er fagnað sem farin er í tillögum að breytingum á aðalnámskrá leikskóla sem snúa að börnum með annað móðurmál en íslensku og fjöltyngd börn. Tillögurnar falla vel að heildinni þannig að textinn styður að verið sé að fjalla um öll börn og fjölskyldur þeirra og tekið er mið af fjölbreytileika í leikskólanum.

Þegar kemur að því efla íslenska málvitund þar sem börn læra ný orð og hugtök og þróa tungumálið er áherslan á leikinn sem er námsleið barnsins, og dagleg samskipti

Hlutverki leikskólakennara kemur skýrt fram sem er að leggja grunn að íslenskunámi barnanna og veita þeim tækifæri til að efla tungumálafærni, virða mismunandi tungumál og leita leiða til að vekja athygli á þeim í daglegu starfi.

Einnig kemur skýrt fram mikilvægi samstarfs og samskipta við foreldra tví- og fjöltyngdra barna og að tungumálafærni er undirstaða þess að börn geti tjáð sig og tekið virkan þátt í daglegu lífi sem mun skipta sköpum fyrir námsárangur þeirra.

Eftir þessar breytingar þarf enginn að vera í vafa um hlutverk leikskólans og leikskólakennara gagnvart því að koma í veg fyrir aðgreiningu þegar kemur að fjölbreyttum hópi barna.

Gerðar eru tillögur að breytingum í texta aðalnámskrár:

Á blaðsíðu . 33 er lagt til að skástrikuðum texti verði bætt við en yfirstrikaður tekinn út:

Þegar tví- og fjöltyngd börn hefja leikskólagöngu þarf að eiga samtal við foreldra um stöðu þeirra í heimamáli/heimamálum og íslensku.

Bera á virðingu fyrir fjölbreyttum bakgrunni barna og hvetja foreldra fjöltyngdra barna til að viðhalda heimamálinu/heimamálunum.

Gerðar eru eftirfarandi athugasemdir við leiðir og leiðbeiningar sem birtast í grunnþáttum aðalnámskrár, sjá eftirfarandi athugasemdir:

Grunnþættir:

Læsi bls. 11 – Ekki er minnst á fjölbreytt tungumál, fjöltyngi eða önnur móðurmál/heimamál en íslensku.

Lýðræði og mannréttindi bls. 13 - Þar er fjallað um samstarf við heimili barna og ungmenna en ekki minnst á samfélagslegar breytingar eða fjölbreytta menningu, tungumál eða hæfni til að eiga samskipti þvert á tungumál og menningu sem þarf að verða hluti af menntun allra sem starfa með börnum

Leiðarljós leikskóla bls. 23 - Þar er gerð sú breyting að notað er orðið mismunandi menningarheimar en færi betur að tala um fjölbreytta menningarheima.

Leikur og nám bls. 26 - Lagt er til að notað verði orðalagið, bera virðingu fyrir fjölbreyttum tungumálum og leita leiða til að styðja við móðurmál /heimamál og virkt fjöltyngi í daglegu starfi (sbr. nýútgefinn leiðarvísi Hjartans mál: https://www.stjornarradid.is/library/01--Frettatengt---myndir-og-skrar/MRN/Leidarvisir%20um%20studning%20vid%20modurmal_islenska.pdf

Læsi og samskipti bls. 28 – Hér er tekið fram að breytingar eru til bóta.

Fjölskyldan og leikskólinn bls. 32 – Lagt er til að bætt verði við setninguna „Huga þarf að málörvun og að gefa þeim verkfæri til samskipta og félagslegrar þátttöku“ strax frá upphafi leikskólagöngunnar. Þar er starfsfólk leikskólans mikilvægar fyrirmyndir.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#4 Öryrkjabandalag Íslands - 19.02.2021

Umsögn Öryrkjabandalags Íslands um tillögur að breytingum á aðalnámskrá leikskóla, mál 33/2021

Viðhengi