Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 4.–18.2.2021

2

Í vinnslu

  • 19.2.–15.9.2021

3

Samráði lokið

  • 16.9.2021

Skjöl til samráðs

Mál nr. S-34/2021

Birt: 4.2.2021

Fjöldi umsagna: 3

Drög að frumvarpi til laga

Innviðaráðuneytið

Samgöngu- og fjarskiptamál

Drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um farþegaflutninga og farmflutninga á landi, nr. 28/2017

Niðurstöður

Ákvæði um fargjaldaálag og um tímabundna gestaflutninga voru lögð fram í frumvarpi til laga um breytingu á lögum um farþegaflutninga og farmflutninga á landi, nr. 28/2017. Vísað er til umfjöllunar um framkomnar umsagnir í greinargerð frumvarpsins, sem samþykkt var á Alþingi 13. júní 2021, sjá lög nr. 97/2021.

Málsefni

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið birtir til umsagnar drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um farþegaflutninga og farmflutninga á landi, nr. 28/2017.

Nánari upplýsingar

Með frumvarpinu eru lagðar til tvenns konar breytingar á gildandi lögum um farþegaflutninga og farmflutninga á landi, nr. 28/2017, með síðari breytingum. Annars vegar er lagt til að bætt verði við lögin skilgreiningu á tímabundnum farþegaflutningum (gestaflutningum) sem flutningafyrirtæki með staðfestu í löndum innan Evrópska efnahagssvæðisins starfrækja hér á landi gegn gjaldi á grundvelli Bandalagsleyfis.

Hins vegar eru lögð til ný úrræði til eftirlits með greiðslu fargjalda í almenningssamgöngum til að opna fyrir og styðja við skilvirkari lausnir við greiðslu fargjalda með það að markmiði að efla þjónustu við notendur

Samkvæmt reglugerð (EB) nr. 1073/2009 sem innleidd er í íslenskan rétt með reglugerð um leyfi til að stunda farþegaflutninga og farmflutninga á landi, nr. 474/2017, er sérhverju flutningafyrirtæki með staðfestu innan Evrópska efnahagssvæðisins og Bandalagsleyfi, heimilt að stunda svonefnda tímabundna gestaflutninga í öðrum aðildarríkjum í nánar tilgreindum tilvikum. Hafa erlend flutningafyrirtæki stundað slíka gestaflutninga hér á landi með ferðamenn á grundvelli heimildarinnar, en þess konar gestaflutningar eru í reglugerðinni skilgreindir sem óreglubundnir farþegaflutningar á vegum innanlands gegn gjaldi sem flutningafyrirtækið starfrækir tímabundið í gistiaðildarríki.

Nánari skilgreiningu á því hvað geti talist tímabundnir flutningar í þessu sambandi er ekki að finna í reglugerð (EB) nr. 1073/2009 og ekki var hugað að slíkri skilgreiningu við innleiðingu reglugerðarinnar hér á landi. Þá skortir enn fremur skýr lagaákvæði um þær reglur sem skulu gilda um tímabundna gestaflutninga og um eftirlit með því að farið sé að þeim reglum. Með frumvarpinu er lagt til að úr þessu verði bætt. Skilgreiningin sem lögð er til er efnislega samhljóða skilgreiningu reglugerðar (EB) nr. 1073/2009 en bætt er við hana nákvæmri skilgreiningu á því hvað talist geti tímabundnir gestaflutningar. Er þar miðað við allt að 10 samfellda daga í hverjum almanaksmánuði. Þá verði bætt við lögin ákvæðum um eftirlit með tímabundnum gestaflutningum og um viðurlög við brotum gegn þeim reglum sem um slíka flutninga gilda.

Greiðsla fargjalda í almenningssamgöngum, þ.e. reglubundnum farþegaflutningum, hefur á undanförnum árum færst í auknum mæli frá því að farþegar greiði fargjald hjá vagnstjóra yfir í fyrirframgreidd kort eða rafrænar lausnir. Eftirlit með því að hver og einn farþegi hafi greitt fargjald er hins vegar enn að mestu í höndum vagnstjóra þegar farþegi stígur um borð. Þetta fyrirkomulag stendur í vegi fyrir því að hægt sé að auka skilvirkni, stytta biðtíma á biðstöðvum og efla þannig þjónustu við farþega. Augljóst hagræði væri af því ef farþegar gætu stigið inn í vagninn um hvaða dyr sem er og þyrftu ekki að sýna vagnstjóra fram á greiðslu fargjalds, enda er framkvæmdin sú víðast hvar í nágrannalöndunum.

Til að styðja við frekari þróun á þessu sviði er því lagt til með þessu frumvarpi að kveðið verði á um skyldu farþega til að framvísa gildum farmiða eða sýna með öðrum hætti fram á rétt til flutnings, ef eftir því er leitað, sem og rétt flytjanda til að sannreyna að fargjald hafi verið greitt. Þá er lagt til að sérstaklega verði kveðið á um heimild flytjanda til að leggja vanrækslugjald á farþega sem ekki geta sýnt fram á greiðslu fargjalds og um endurskoðun slíkra ákvarðana.

Vakin er athygli á því að í drögum að reglugerð um breytingu á reglugerð um leyfi til að stunda farþegaflutninga og farmflutninga á landi, nr. 474/2017, sem voru birt í samráðsgáttinni 7. maí sl. (mál nr. 93/2020) var gert ráð fyrir nákvæmari skilgreiningu á tímabundnum gestaflutningum og að tímamörk þau sem bæri að miða við væru 14 dagar. Að nánar athuguðu máli var talið rétt að festa ákvæði um þetta í lög nr. 28/2017 og að miða við 10 samfellda daga í almanaksmánuði. Þá voru í drögum að frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 28/2017, sem birt var í samráðsgáttinni 5. október sl. (mál nr. 207/2020) ákvæði um vanrækslugjald í almenningssamgöngum. Ákveðið hefur verið að sameina þau ákvæði í aðeins breyttri mynd framangreindum ákvæðum um tímabundna gestaflutninga.

Samráði lokið

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Tenging við önnur mál (3)

Umsjónaraðili

Skrifstofa samgangna

postur@srn.is