Samráð fyrirhugað 04.02.2021—18.02.2021
Til umsagnar 04.02.2021—18.02.2021
Niðurstöður í vinnslu frá 18.02.2021
Niðurstöður birtar 30.08.2022

Áform um frumvarp til laga um breytingu á lögum um framhaldsskóla, nr. 92/2008, og lögum um grunnskóla, nr. 91/2008 (fagráð eineltismála)

Mál nr. 35/2021 Birt: 04.02.2021 Síðast uppfært: 30.08.2022
  • Mennta- og barnamálaráðuneytið
  • Áform um lagasetningu
  • Málefnasvið:
  • Framhaldsskólastig

Niðurstöður birtar

Áform um frumvarp til laga um breytingu á lögum um framhaldsskóla, nr. 92/2008, og lögum um grunnskóla, nr. 91/2008 (fagráð eineltismála) voru til umsagnar í samráðgátt stjórnvalda dagana 4. - 18. febrúar 2021. Alls bárust 4 umsagnir. Farið var yfir umsagnir og þær hafðar til hliðsjónar við smíði lagafrumvarps sem var lagt fyrir Alþingi 7. apríl 2021. Frumvarpið var samþykkt á Alþingi 13. júní 2021.

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 04.02.2021–18.02.2021. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 30.08.2022.

Málsefni

Hjá mennta- og menningarmálaráðuneyti er að hefjast vinna sem snýr að því að styrkja lagalega umgjörð fagráðs eineltismála á grunn- og framhaldsskólastigi svo hún verði í samræmi við þá framkvæmd sem viðhöfð er núna hjá ráðinu.

Hjá mennta- og menningarmálaráðuneyti er að hefjast vinna sem snýr að því að styrkja lagalega umgjörð fagráðs eineltismála á grunn- og framhaldsskólastigi svo hún verði í samræmi við þá framkvæmd sem viðhöfð er núna hjá ráðinu.

Mál sem fagráð eineltismála fæst við eru oft og tíðum þung og erfið einstaklingsmál og þeim fylgja oft viðkvæm gögn. Frumvarpsvinnan mun taka mið af því að um er að ræða vinnslu mjög viðkvæmra persónuupplýsinga, m.a. í skilningi laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Með vísan til þess er markmiðið að lagaleg umgjörð eineltismála á grunn- og framhaldsskólastigi verði þannig að aðkoma fagráðsins að eineltismálum og heimildir varðandi úrlausn mála verði skýrari en nú er.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Samband íslenskra sveitarfélaga - 18.02.2021

Góðan dag

Meðfylgjandi er umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga.

f.h. sambandsins

Valgerður Rún

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#2 Reykjavíkurborg - 18.02.2021

Vísað er til tilkynningar í samráðsgátt dags. 4. febrúar sl., þar sem kynnt er til samráðs áform um frumvarp til laga um breytingu á lögum um framhaldsskóla, nr. 92/2008, og lögum um grunnskóla, nr. 91/2008 (fagráð eineltismála).

Eftirfarandi er umsögn Reykjavíkurborgar:

Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar fagnar áformum um breytingu á lagalegri umgjörð eineltismála á grunn- og framhaldsskólastigi. Mikilvægt er að skýra hlutverk og heimildir fagráðs eineltismála. Einnig er brýnt að tryggja að ætíð sé farið með persónuupplýsingar í samræmi við grundvallarsjónarmið og reglur um persónuvernd og friðhelgi einkalífs.

Þá þarf að tryggja grundvöll fagráðsins þannig að það geti starfað á sem árangursríkastan hátt með hagsmuni allra barna og ungmenna í skóla- og frístundastarfi að leiðarljósi.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#3 Barnaheill - Save the Children á Íslandi - 18.02.2021

Umsögn Barnaheilla - Save the Children á Íslandi um áform um frumvarp til laga um breytingu á lögum um framhaldsskóla, nr. 92/2008, og lögum um grunnskóla, nr. 91/2008 (fagráð eineltismála).

Barnaheill – Save the Children á Íslandi þakka fyrir boð um að senda inn athugasemdir við ofangreint mál.

Barnaheill gera ekki athugasemdir almennt um áform þau sem eru uppi um að styrkja lagalega stoð fagráðs eineltismála.

Hins vegar vilja samtökin nýta tækifærið til að benda á eftirfarandi:

Barnaheill telja mjög mikilvægt að fullnægjandi stoð sé í lögum um leik–, grunn- og framhaldsskóla hvað varðar einelti. Mikilvægt er að eineltismál séu unnin af fagmennsku og samkvæmt bestu og nýjustu rannsóknum.

Í skilgreiningu um hlutverk fagráðsins segir:

Hlutverk fagráðs er samkvæmt verklagsreglum, að veita skólasamfélaginu stuðning vegna eineltismála með almennri ráðgjöf, leiðbeiningum og upplýsingagjöf. Hægt er að vísa eineltismálum til fagráðsins ef ekki tekst að finna fullnægjandi lausn innan skóla eða sveitarfélags. Í þeim tilvikum þá ber fagráðinu að veita ráðgefandi álit á grundvelli þeirra gagna og upplýsinga sem því berast. Nemendur, foreldrar og forráðamenn og starfsfólk í grunn- og framhaldsskólum geta vísað málum til fagráðs og einnig aðilar sem starfa með börnum í skóla-, frístunda- eða tómstundastarfi, sem hefur stoð í grunnskólalögum.

Barnaheill telja nauðsynlegt að hlutverk fagráðsins sé ekki síður að styðja skóla til að koma í veg fyrir einelti og þann skaða sem það veldur til lengri tíma, bæði einstaklingum og hópum.

Samkvæmt nýjustu rannsóknum og viðhorfi til eineltis er nú fremur litið á einelti sem menningarlegt, samskiptalegt og félagslegt mein fremur en einstaklingsbundinn vanda. Einelti sé fyrst og fremst afleiðing ótta við útilokun úr hópnum.

Því skuli alltaf vinna með hópinn í heild þegar upp koma eineltismál, fremur en að einblína á að einhver sé gerandi og annar þolandi. Einelti fær síður að festa rætur í umhverfi þar sem borin er virðing fyrir margbreytileikanum og ekki er gert ráð fyrir að einstaklingur breyti útliti sínu eða öðru til að falla í hópinn.

Að vinna með skólabrag, samskipti og félagsfærni er lykilatriði til að koma í veg fyrir einelti.

Að sjálfsögðu þurfa þó þeir einstaklingar sem hafa þurft að upplifa einelti að fá aðstoð til að byggja upp sjálfsmynd sína.

Barnaheill hvetja til þess að hlutverk fagráðsins verður endurskilgreint með það fyrir sjónum að það veiti ráðgjöf til skóla um hvernig koma megi í veg fyrir einelti.

Barnaheill leggja mikla áherslu á vernd barna gegn ofbeldi, þ.á m. einelti og vanrækslu og á rétt barna til að hafa áhrif á ákvarðanir sem þau varða. Samtökin hafa Barnasáttmálann að leiðarljósi í öllu sínu starfi.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#4 Sædís María Jónatansdóttir - 18.02.2021

Undirrituðum langar að koma á framfæri ábendingum vegna áforma um frumvarp um fagráð eineltismála.

Í minni sveitarfélögum er aðgengi að sérfræðiþjónustu stundum ábótavant. Aðgengi að fagráði eineltismála er mikilvægt úrræði fyrir skólasamfélög og ekki hvað síst á landsbyggðinni, en tryggja þarf að úrræðið fái góða kynningu. Þá telja undirritaðar einnig að efla þurfi fræðslu um eineltismál og þá miðlægt. Fræðsla um eineltismál þarf að vera á breiðum grunni og ná til allra sem tilheyra skólasamfélaginu en einnig þeirra sem koma að íþrótta- og æskulýðsstarfi. Í fræðslu ætti að gefa tengslum líðanar og hegðunar barna og ungmenna sérstakan gaum og jafnframt forvörnum og úrræðum.

Virðingarfyllst

Sædís María Jónatansdóttir og Dagbjört Ósk Jóhannsdóttir

Viðhengi