Frumvarpið var samþykkt sem lög frá Alþingi þann 13. júní 2021
Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 09.02.2021–23.02.2021.
Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.
Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 07.07.2021.
Með frumvarpinu er lagt til að lögfest verði markmið um að ná kolefnishlutleysi á Íslandi árið 2040.
Með frumvarpinu er lagt til að nýjum staflið verði bætt við 1. gr. laganna þar sem sett er fram markmið um að ná kolefnishlutleysi á Íslandi 2040. Kolefnishlutleysi lýsir ástandi þar sem jafnvægi hefur náðst milli losunar gróðurhúsalofttegunda og bindingar kolefnis af mannavöldum og nettólosun er því núll. Kolefnishlutleysi er lykilþáttur í Parísarsamningnum og nauðsynlegt til að ná markmiði samningsins um að halda hnattrænni hlýnun innan við 2°C og eins nálægt 1,5°C og hægt er.
Markmið um kolefnishlutleysi er nauðsynlegt til að halda aftur af hamfarahlýnun á jörðinni. Því er mikilvægt að nýta allar færar leiðir til að tryggja að staðið verði við metnaðarfullt markmið Íslands um kolefnishlutleysi árið 2040 og að unnið verði markvisst þar til því takmarki er náð. Lögfesting á markmiðinu er því afar mikilvægur áfangi í vegferð að takmarkinu.
Framundan er umfangsmikil stefnumótunarvinna um leiðina að kolefnishlutleysi og er þróunaráætlun til langs tíma hluti af þeirri vegferð. Við þessa stefnumótunarvinnu verður samtal, samráð og samvinna við almenning og hagaðila, lykilatriði vinnunnar, því markmið um kolefnishlutlaust samfélag mun kalla á breytingar víða.
Vinna þarf að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda alls staðar sem því verður við komið og auka bindingu kolefnis. Ísland er framarlega í nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa en þrátt fyrir það er samfélagið enn að miklu leyti háð jarðefnaeldsneyti, sérstaklega þegar kemur að vegasamgöngum. Hið sama gildir um suma af okkar stærstu atvinnuvegum s.s. sjávarútveg og ferðaþjónustu. Auk þess má rekja stóran hluta losunar gróðurhúsalofttegunda á Íslandi til stóriðju.
Þegar hefur verið gripið til ýmissa aðgerða m.a. með tilstilli efnahagslegra hvata til að stemma stigu við loftslagsvandann en þeirri vinnu er ekki lokið. Samráð og greiningar sem fyrirhuguð eru munu draga upp sviðsmyndir og leiðir sem nánar verður hægt að vinna með.
Búa þarf samfélagið allt undir þær breytingar sem eru framundan og nýta þau miklu tækifæri sem Ísland hefur til að vinna gegn loftslagsvá. Breytingarnar sem munu eiga sér stað þurfa að taka mið af íslenskum aðstæðum og áherslum.
Kolefnishlutleysi:
Jafnvægi milli losunar kolefnis út í andrúmsloftið og bindingar kolefnis úr andrúmsloftinu.
Í lagafrumvarpinu er orðið kolefnishlutleysi notað í tengslum við loftslagsmál. Fyrir fólk með grunnþekkingu í náttúrufræði og efnafræði er það augljóst að orðið vísar til þess ástands þegar jafnmikið er losað af kolefnissamböndum út í andrúmsloftið og bundið er úr því, t.d í gróðri. Þessi kolefnissambönd eru fyrst og fremst koltvísýringur og metan, reyndar mun meira af hinu fyrrnefnda og þess vegna er stundum bara (og ónákvæmlega) átt við koltvísýring þegar fjallað er um kolefnissambönd í lofthjúpnum.
Í lofthjúpnum eru fleiri efni sem hafa gróðurhúsaáhrif, og af þeim eru vatnsgufa og vatnsdropar mikilvirkust, en venjulega er litið framhjá þessum þætti í umfjöllun um gróðurhúsalofttegundir.
Nokkur önnur efni í lofthjúpnum hafa gróðurhúsaáhrif, en mun minni en koltvísýringur og metan. Þetta eru efni svo sem nituroxíð, ózon og afleiður af halógenum.
Til að forðast rugling, þá eru notuð sérstök orð þegar fjallað er um jafnvægi í áhrifum gróðurhúsalofttegunda í heild, þegar nettó áhrif losunar og bindingar gróðurhúsalofttegunda er núll. Það er t.d. hægt að kalla það gróðurhúsahlutleysi, loftslagshlutleysi eða eitthvað í þeim dúr.
Í ensku eru notuð hugtökin “net zero emissions”, “greenhouse gas neutrality” eða “climate neutrality” (sjá t.d. skilgreiningar IPCC: https://www.ipcc.ch/sr15/chapter/glossary/
IPCC skilgreinir kolefnishlutleysi sem núll nettó losun á CO2 og jafnar það á við kolefnishlutleysi, en horfir þá framhjá þætti metans.
Evrópuþingið er með skilgreiningu á kolefnishlutleysi sem er nákvæmari og stenst betur skoðun: https://www.europarl.europa.eu/news/en/headlines/society/20190926STO62270/what-is-carbon-neutrality-and-how-can-it-be-achieved-by-2050
“Kolefnishlutleysi merkir jafnvægi milli losunar kolefnis út í andrúmsloftið og bindingar kolefnis úr andrúmsloftinu.”
Til að forðast vafa og misskilning eða mistúlkun er ráðlegt að halda sig við þessa skýru, nákvæmu og rökréttu skilgreiningu.
ViðhengiAthugasemdir vegna greinargerðar með frumvarpi um um breytingu á lögum um loftslagsmál nr. 70/2012 (markmið um kolefnishlutleysi).
Greinargerð með lögum er mikilvægt lögskýringarplagg sem þarf að vera skýrt og rétt.
Hér verða gerðar athugasemdir við greinargerðina, setningu fyrir setningu. (Athugasemdir við lagatextann sjálfan hafa þegar verið gerðar). Því miður er mikið um ónákvæmni og á nokkrum stöðum er ekki farið rétt með.
Í greinargerðinni ættu að koma fram tíma- og magnmældar upplýsingar um árangur hingað til og hvers megi vænta að óbreyttu. Þar með ætti að sjást hvað vantar nú á að markmið um kolefnishlutleysi 2040 náist og til hvaða aðgerða þarf að grípa.
1: Inngangur
“Kolefnishlutleysi verði náð með varanlegum samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda
en einnig með breyttri landnotkun í samræmi við alþjóðlega viðurkennda staðla og með
hliðsjón af vistkerfisnálgun og skipulagssjónarmiðum.”
Þarna gætir ónákvæmni. Kolefnishlutleysi á ekki við um aðrar góðurhúsalofttegundir en þær sem innihalda kolefni, þ.e. CO2 og CH4 (metan). Þannig er hægt að ná kolefnishlutleysi án þess að líta til annara lofttegunda en CO2 og CH4. Aftur á móti er ekki hægt að meta nettó jafnvægi milli losunar og bindingar gróðurhúsalofttegunda í heild (einnig kallað loftslagshlutleysi) nema líta til fleiri gróðurhúsalofttegunda svo sem nituroxíða og halogensambanda. Munurinn er ekki mikill, en mikilvægur.
Einnig virðist óþarft á þessu stigi að vitna til alþjóðlega viðurkenndra staðla. Það kallar á frekari skýringar. Sama gildir um “vistkerfisnálgun og skipulagssjónarmið”. Óþarfi er að flækja málið strax með laustengdum hugtökum.
“Kolefnishlutleysi lýsir ástandi þar sem jafnvægi hefur náðst milli losunar
gróðurhúsalofttegunda og bindingar kolefnis af mannavöldum og nettólosun er því núll.”
Þessi skilgreining er ekki rétt. Réttara er: Jafnvægi milli losunar kolefnis út í andrúmsloftið og bindingar kolefnis úr andrúmsloftinu.
“Kolefnishlutleysi er lykilþáttur í Parísarsamningnum og nauðsynlegt til að ná markmiði
samningsins um að halda hnattrænni hlýnun innan við 2°C og eins nálægt 1,5°C og hægt er.”
Þessi fullyrðing er villandi ef ekki beinlínis röng. Hvergi er minnst á kolefnishlutleysi eða koltvísýring í Parísarsamningnum, heldur er þar almennt fjallað um gróðurhúsalofttegundir og aðgerðir til að takmarka loftslagshlýnun.
“Til að kolefnishlutleysi verði náð árið 2040 þarf að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda af
mannavöldum eins mikið og kostur er, svo sem með minni notkun jarðefnaeldsneytis í
orkuframleiðslu og samgöngum og á sama tíma auka kolefnisbindingu, til dæmis í jarðvegi
og gróðri með endurheimt vistkerfa og skógrækt, niðurdælingu koldíoxíðs til varanlegrar
geymslu í jarðlögum, eða með öðrum viðurkenndum aðferðum. Þannig myndast á hverjum
tíma, jafnvægi milli þeirra gróðurhúsalofttegunda sem losna vegna mannlegra athafna annars
vegar og hins vegar upptöku kolefnis og bindingu þess í viðtaka.”
Aftur er blandað saman losun og bindingu kolefnis annars vegar og gróðurhúsalofttegunda (sem heild) hins vegar. Breytingar á gróðurhúsalofttegundum öðrum en CO2 og CH4 hafa engin áhrif á kolefnisjöfnuð eða kolefnishlutleysi.
Orðalagið “Þannig myndast á hverjum tíma, jafnvægi ...” er óljóst. Er ekki átt við að þegar losun og binding kolefnis er jöfn, þá er kolefnishlutleysi náð?
2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
2.1. Tilefni og nauðsyn.
“Kolefnishlutleysi er lykilþáttur í Parísarsamningnum sem er drifinn áfram af því markmiði
að halda hnattrænni hlýnun innan við 2 °C og eins nálægt 1,5 °C og hægt er.”
Þessi fullyrðing er villandi ef ekki beinlínis röng. Hvergi er minnst á kolefnishlutleysi eða koltvísýring í Parísarsamningnum, heldur er þar almennt fjallað um gróðurhúsalofttegundir og aðgerðir til að takmarka loftslagshlýnun.
“Þetta kallar á að heimslosun nái hámarki án frekari tafar og minnki ört, þar til jafnvægi hefur verið náð í losun gróðurhúsalofttegunda og bindingu kolefnis um miðja öldina.”
Þetta má orða knappar og skýrar með því að fella brott orðin “nái hámarki án frekari tafar og”.
Seinni hluta setningarinnar má einnig skerpa og lagfæra til samræmis við rétta skilgreiningu á kolefnishlutleysi: “… þannig að losun kolefnis verði minni en binding árið 2040 eða fyrr.”
Í setningunni gætir misræmis í tímasetningum, mið öldin er 2050, en markmið um kolefnishlutleysi er sett 2040!
“Í baráttunni við loftslagsvána er nauðsynlegt að skipta upp því metnaðarfulla markmiði
sem hnattrænt kolefnishlutleysi er, þannig að aðilar eins og ríki borgir eða fyrirtæki setji sér
sjálf markmið um kolefnishlutleysi og finni leiðir til að uppfylla þau markmið.”
Hér virðist verið að færa ábyrgðina á aðra fremur en leggja áherslu á samábyrgð. Ekki eru haldbær rök fyrir því að skipta upp markmiðinu um kolefnishlutleysi á milli ríkisvalds, sveitarfélaga eða fyrirtækja (og einstaklinga?). Stjórnvöld eiga að taka forystu og veita stuðning en ekki einfaldlega ætlast til að aðrir “setji sér sjálf markmið um kolefnishlutleysi”. Eflaust er góð hugsun að baki, en hana þarf að orða mun betur.
“Mikilvægt er að nýta allar færar leiðir til að tryggja að staðið verði við markmið Íslands
um kolefnishlutleysi og að unnið verði markvisst þar til því takmarki er náð. Lögfesting á
markmiðinu er því afar mikilvægur áfangi að því marki að ná kolefnishlutleysi árið 2040.”
Þetta er vissulega rétt, en eru innantóm orð ef ekki fylgir tíma- og magnsett aðgerðaáætlun. Það þarf að koma fram strax á eftir þessum fullyrðingum.
Seinni setningunni má gjarnan breyta, t.d. “Lögfesting á markmiðinu er því afar mikilvægur áfangi í því að ná kolefnishlutleysi árið 2040.”
Endurskoðuð aðgerðaáætlun stjórnvalda frá 2020 er góður grunnur, en í henni er ekki gerður skýr greinarmunur á losun gróðurhúsalofttegunda annars vegar og losun kolefnis (CO2 og CH4) hins vegar. Í aðgerðaáætluninni er losun vegna landnotkunar (LULUCF) stórlega vanmetin, líklega sem nemur miljónum tonna af CO2 ígildum á ári (sjá t.d. rit Ólafs Arnalds og Jóns Guðmundssonar. 2020 http://www.lbhi.is/sites/lbhi.is/files/gogn/vidhengi/rit_lbhi_nr_133_ok.pdf ).
“Ísland ásamt Noregi og Evrópusambandinu tilkynntu um uppfært sameiginlegt markmið
um samdrátt í losun í desember 2020. Unnið er að því að tilkynna það með formlegum hætti
og er það gert með því að senda landsákvarðað framlag Íslands (e. Nationally Determined
Contribution, NDC) inn til samningsins á fyrsta ársfjórðungi 2021.”
Full ástæða er að geta þess hér hvert framlag Íslands verður og hvernig það skiptist milli kolefnisloftegunda og annarra gróðurhúsalofttegunda. Ennfremur er viðeigandi að taka fram að landsákvarðað framlag Íslands til að ná sameiginlegu markmiði aðildarríkja Evrópusambandsins, Íslands og Noregs um 40% samdrátt er 29%. Það er umtalsvert minna framlag en gera verður kröfu um af ríki sem stefnir á kolefnishlutleysi árið 2040.
“Framundan er umfangsmikil stefnumótunarvinna um leiðina að kolefnishlutleysi og er
langtímaáætlun um litla losun gróðurhúsalofttegunda á grundvelli Loftslagssamningsins
áfangi á þeirri vegferð.”
Ekki verður annað séð en að leiðin að kolefnishlutleysi sé nánast hin sama og leiðin að loftslagshlutleysi sem kemur fram í aðgerðaáætlun stjórnvalda frá 2020, og væntanlega í tillögum starfshóps um aðlögun íslensks samfélags að loftslagsbreytingum, en ráðherra skipaði þann starfshóp í desember síðastliðnum. Rétt er að vísa hér til þessarar vinnu fremur en óljósra fyrirheita um umfangsmikla stefnumótunarvinnu. Forsendur og umræða um fyrstu skrefin að kolefnishlutleysi liggja þegar fyrir.
“Auk þess má rekja stóran hluta losunar gróðurhúsalofttegunda á Íslandi til stóriðju.”
Þessi losun er nær eingöngu CO2. Hér þarf einnig að geta þess að mjög mikil CO2 losun er vegna landnotkunar.
“Mikilvægt er að bregðast við og sporna við afleiðingunum hnattrænnar hlýnunar.”
Hér er beinskeyttara og eðlilegra að fella út orðið “afleiðingar”. Lesist þá: “… sporna við hnattrænni hlýnun.”
“Jafnframt er mikilvægt að tryggja að það forskot sem Ísland hefur haft í orkumálum haldist nú þegar framboð endurnýjanlegrar orku eykst í öðrum ríkjum.”
Vandséð er hvernig þetta tengist efnislega vegferð að kolefnishlutleysi. Setninguna má fella brott ef ekki er bætt við skýringum og tengingum við markmið um kolefnishlutleysi.
“Markmið um kolefnishlutleysi er nauðsynlegt til að halda aftur af hamfarahlýnun á Jörðinni.“
Hér er nafn hnattar okkar réttilega ritað með stórum upphafsstaf! Betra væri að að rita „Markmið um kolefnishlutleysi um miðja þessa öld er nauðsynlegt …”
“Aðgerðaáætlun Íslands í loftslagsmálum, sem gefin var út í júní 2020 með 48 aðgerðum
og unnin í samvinnu fjölmargra hagaðila, horfir til samdráttar í losun gróðurhúsalofttegunda
til ársins 2030. Með aðgerðaráætluninni er jafnframt lagður grunnur að því að markmið um
kolefnishlutleysi náist árið 2040.”
Ath. að í lokin þarf að bæta við “ árið 2040.” Þarna er mikilvæg upplýsing sem mætti koma fram fyrr í greinargerðinni sbr. athugasemd að framan. Einnig þarf að koma fram hvernig aðgerðaáætlunin snertir kolefnishlutleysi sérstaklega, þ.e. hvernig hlutmengi kolefnishlutleysis (eða vegferðar að því) lítur út sem hluti af aðgerðaáætlun í loftslagsmálum. Þar má ekki gleyma stórum liðum svo sem losun vegna landnýtingar.
“Slík eftirfylgni er nauðsynleg til að átta sig á hvar á vegferðinni við erum stödd. Þegar horft
er til framtíðar skiptir máli að festast ekki um of í ákveðnum lausnum sem þykja skynsamlegar á hverjum tíma. Nýjar tæknilausnir eru sífellt að líta dagsins ljós, nýjar rannsóknir sem beina okkur í aðrar áttir.”
Hér má bæta við að nýjar upplýsingar og stöðumat eru nauðsynleg til að sjá hvar og hversu mikið þarf að herða aðgerðir til að ná settu markmiði. Jafnframt að mjög skammur tími er til stefnu og ekki ástæða til að bíða eftir nýjum lausnum. Haldgóðar lausnir liggja fyrir: Að draga úr losun, orkuskipti og margvísleg tækni sem varla þarf að tíunda.
2.2. Yfirlit yfir alþjóðasamninga.
Þessi kafli og sá næsti eru mjög margorðir þ.a. gott væri að hafa stutta samantekt/yfirlit.
“Til að ná markmiðum samningsins þarf að eiga sér stað stórfelldur samdráttur á losun gróðurhúsalofttegunda, nógu afgerandi til að hnattrænu kolefnishlutleysi verði náð fljótlega eftir árið 2050. Kolefnishlutleysi er því lykilþáttur í Parísarsamningnum og talið nauðsynleg forsenda þess að markmið samningsins verði að veruleika.”
Eins og getið var um í fyrri athugasemdum er kolefnishlutleysis eða losunar CO2 og CH4 ekki getið í Parísarsamningnum, heldur fjallar hann um að hafa hemil á hlýnun og um gróðurhúsalofttegundir alemennt. Það er því villandi að bendla kolefnishlutleysi við Parísarsamninginn sem lykilþátt. Vissulega er kolefnishlutleysi mikilvægt til að ná markmiðum Parísarsamningsins, en það þarf að orða það á réttan hátt, án þess að gefa í skyn að Parísarsamingurinn sé um kolefnishlutleysi eða að það sé eitt megininntak hans.
2.3. Yfirlit yfir alþjóðlegar skuldbindingar Íslands.
“Í ljósi hnattræns markmiðs Parísarsamningsins um kolefnishlutleysi og nauðsyn þess að
brjóta markmiðið niður í einingar þá eru aðildarríki samningsins hvött til þess að vinna og
tilkynna þróunaráætlanir sínar til langs tíma um litla losun gróðurhúsalofttegunda (LTS). Þau ríki sem hafa meiri möguleika en önnur til samdráttar í losun ættu að ganga á undan með góðu fordæmi og stefna að kolefnishlutleysi fyrr en samningurinn kveður á um. Í loftslags-baráttunni ættu lönd með mesta losun og getu til mótvægisaðgerða, að vera í fararbroddi með metnaðarfullar áætlanir.”
Þessi efnisgrein fjallar ekki um skuldbindingar, hvorki varðandi almenna losun og bindingu né kolefnishlutleysi. Þar að auki er ekki stafkrókur um kolefnishlutleysi í Parísarsamningnum. Best er því að fella efnisgreinina brott. Hún er heldur ekki vel orðuð.
Síðustu tvær efnisgreinarnar í kafla 2.3 fjalla heldur ekki um skuldbindingar og virðast því ekki eiga heima hér.
2.4. Aðgerðir stjórnvalda.
Í þessum kafla er nokkuð um beinar endurtekningar frá fyrri köflum, bæði efnislega og í orðalagi.
“Í áætluninni eru settar fram 48 aðgerðir sem fyrst og fremst snúast um samdrátt í losun til ársins 2030 en einnig beinar aðgerðir sem leggja grunninn að langtíma markmiði Ísland um kolefnishlutleysi árið 2040.”
Hér er óþarfi að nota orðið “langtíma”. Það eru ekki nema tæp 19 ár til 2040, auk þess sem orðið “langtíma” gefur til kynna að markmiðinu verði ekki breytt eftir 2040. Er það ljóst, eða er hugsanlegt að farið verði í bindingu umfram losun?
“Í skipunarbréfi ráðsins [Loftslagsráðs] óskaði umhverfis og auðlindaráðherra þess að ráðið tæki kolefnishlutleysi fyrir og skilaði ráðið þeirri samantekt til ráðherra í apríl 2020. Í stefnumörkun þeirri sem framundan er verður meðal annars byggt á samantekt ráðsins.”
Samantekt Loftslagsráðs er hér sett fram sem lykilplagg og gott væri að bæta inn vísun í það:
https://www.stjornarradid.is/library/02-Rit--skyrslur-og-skrar/Samantekt%20Loftslagsr%C3%A1%C3%B0s%20um%20kolefnishlutleysi%20-%20Loka%C3%BAtg%C3%A1fa-%20Uppsett.pdf
Einnig er rétt að rýna í inihald plaggsins (sem hefur hlotið litla almenna kynningu) þar eð byggt er á því í “stefnumörkun þeirri sem framundan er”.
Samantekt Loftslagsráð hefst á fullyrðingunni “Notkun þess [hugtaksins kolefnishlutleysi] í pólitískri og samfélagslegri umræðu hófst fyrir alvöru í aðdraganda Parísarsamningsins og varð síðan hluti af þeim samningi í árslok 2015.” Þetta er rangt! Eins og fjallað er um í athugasemdum hér að framan er alls ekki minnst á kolefnishlutleysi í Parísarsamningnum.
Í Samantekt Loftslagsráðs er “kolefnishlutleysi” ekki skilgreint á skýran og ótvíræðan hátt. Í heild er plaggið ómarkvisst með töluverðu orðskrúði og vífillengjum. Rangfærsla, ónákvæmni og óskýrleiki valda því að Samantekt Loftslagsráðs um kolefnishlutleysi er ekki heppilegur megingrundvöllur fyrir umræðu og stefnumótun um kolefnishlutleysi. Því miður virðist þessi greinargerð með lagafrumvarpi um kolefnishlutleysi mjög lituð af óskýrum skrifum frá Loftslagsráði og vekur það upp spurningar um hlut Loftslagsráðs við ritun greinargerðarinnar og jafnvel lagafrumvarpsins.
2.6. Aðgerðir sem snúa að almenningi/heimilum landsins.
Í þennan kafla mætti bæta við aðgerðum til að kynna almenningi kolefnishlutleysi, hvað það merkir og hver markmið okkar eru.
2.8. Stefnumótun um vegferð að kolefnishlutleysi; vinnan framundan.
Þessi efnisgrein er að miklu leyti ómarkviss endurtekning á því sem áður hefur komið fram. Vísast því til fyrri athugasemda.
3. Meginefni frumvarpsins.
3.2. Hvað er kolefnishlutleysi?
Í frumvarpinu er skilgreining “kolefnishlutleysi” hvorki nákvæm, skýr eða rökrétt. Réttara er: Jafnvægi milli losunar kolefnis út í andrúmsloftið og bindingar kolefnis úr andrúmsloftinu.
“Kolefnishlutleysi er lykilþáttur í Parísarsamningnum...”
Hið rétta er, að kolefnishlutleysis er alls ekki getið í Parísarsamningnum!
“Ísland, líkt og önnur ríki sem hafa sett sér markmið um kolefnishlutleysi tengja markmiðið við skuldbindingar gagnvart Loftslagssamningnum og mun Ísland byggja mat á árangri á losunarbókhaldi í tengslum við þær skuldbindingar.”
Hér er illilega blandað saman markmiðum um aðgerðir í loftslagsmálum (allar gróðurhúsa-lofttegundir og ekki skýr stefna um allsherjar hlutleysi í losun og bindingu). Sjá athugsemdir að neðan.
3.3. Hvaða losun og binding fellur undir markmiðið?
Loftslagssamningurinn skilgreinir þá losun og bindingu sem fellur undir skuldbindingar
hvers aðildarríkis samningsins og setur um leið ramma fyrir markmið um kolefnishlutleysi.
Þetta er villandi. Veigamiklir þættir kolefnislosunar falla ekki undir ákvæði um samdrátt skv. Loftlagssamningnum, t.d. losun vegna landnotkunar (LULUCF). Stór hluti CO2 losunar á Íslandi fellur undir þennan flokk.
“Mikilvægt er að draga úr allri losun gróðurhúsalofttegunda óháð uppsprettu og auka
bindingu kolefnis en Ísland hefur gengist undir skuldbindingar til ársins 2030 sem fela í sér
samdrátt í þeirri losun sem fellur undir fyrstu fjóra flokkana hér að ofan og að sjá jafnframt til þess að lágmarki að nettólosun í LULUCF, það er losun gróðurhúsalofttegunda að frádreginni bindingu kolefnis úr andrúmslofti verði ekki aukin.”
Þetta er ekki í samræmi við skuldbindingar íslenskra stjórnvalda vegna aðildar að samningi ESB landa. Markmið ESB fyrir 2030 (og 2050) er að nettólosun innan LULUCF verði að hámarki núll.
Sjá t.d. https://ec.europa.eu/clima/policies/forests/lulucf_en
“Þegar horft er til kolefnishlutleysis er miðað við losun og bindingu sem á sér stað á hverjum
tíma (á tilteknu ári). Þetta á við um alla flokkana hér að ofan, nema vegna losunar frá
LULUCF, þar sem enn ríkir mikil óvissa um mat á losun. Hér er því miðað við að 1990 sé
viðmiðunarár vegna losunar vegna landnotkunar (LULUCF), en árið 1990 er viðmiðunarár
Kýótó-bókunarinnar og Parísarsamningsins. Það er að segja horft verður til breytinga í losun
vegna landnotkunar miðað við árið 1990.”
Hér er verið að gera tilraun til að komast undan meginmarkmiði laganna og undanskilja losun vegna landnotkunar að stórum hluta ef ekki alveg, með því að leyfa áfram þá losun sem var 1990. Hún kann að vera svipuð eða jafnvel meiri en nú, auk þess sem mjög erfitt er að áætla hana. Sú losun verður jú ekki mæld úr þessu!
Eðlilegt er að miða við raunverulega losun vegna landnotkunar í hverju ársuppgjöri og telja hana inn í heildarbókald um losun og bindingu kolefnis. Engin haldbær rök eru fyrir notkun gamalla viðmiðunarára en það myndi breiða yfir raunverulega losun og undanskilja hana.
Í ESB samningum um LULUCF bindingu og losun er ekki annað tímaviðmið en uppgjör hvers árs fyrir sig, enda engin ástæða til annars. Þar er líka skuldbinding um að losun vegna landnotkunar verði ekki meiri en binding.
“Markmið Íslands um kolefnishlutleysi nær til þeirra sjö gróðurhúsalofttegunda sem
skilgreindar eru í Kýótó-bókuninni, en svo kolefnishlutleysi verði náð er talið nauðsynlegt að
draga umtalsvert úr losun þeirra allra. Þær eru eftirfarandi:
Koldíoxíð - CO2
Metan - CH4
Díköfnunarefnisoxíð - N2O
Vetnisflúorkolefni - HFCs
Flúorkolefni - PFCs
Brennisteinshexaflúoríð - SF6
Köfnunarefnistríflúoríð - NF3”
Þarna eru aftur grundvallarmistök. Það eru einungis CO2 og CH4 sem teljast með í kolefnisbúskap.
3.4. Öflun upplýsinga um losun á Íslandi.
“Umfangsmikil vinna við mat á losun gróðurhúsalofttegunda og upptöku kolefnis vegna
landnotkunar er nú hafin.”
Þetta er mikilvægt atriði og rétt að gera betur grein fyrir því. Hvenær hófst þessi vinna? „er nú hafin” bendir til að þessi vinna hafi hafist nýlega. Getur það verið í ljósi þess að kolefnishlutleysi hefur verið á dagskrá ríkisstjórnarinnar frá upphafi og að stór hluti af aðgerðum í loftslagsmálum undanfarin ár vinnur að kolefnishlutleysi?
“Nauðsynlegt er að geta metið og talið aðgerðir vegna landnotkunar fram á sama hátt og aðrar aðgerðir sem hafa áhrif á losun, en rétt er að fara varlega og telja ekki fram árangur þar sem mikil óvissa ríkir um mælingar og mat.”
Þessu verður að breyta. Það er ekki hægt að samþykkja að mælingar og mat með óvissu séu ekki taldar fram heldur sópað undir teppið. Það er heiðarlegt og rétt að setja það fram sem menn vita (að bestu manna yfirsýn), enda þótt einhver óvissa fylgi með í matinu. Það er eðli mælinga og vísinda almennt.
Ólafur S. Andrésson
kt. 091051-4519
Lífefnafræðingur og prófessor við H.Í.
ViðhengiSjá pdf skjal í viðhengi. Bkv Hrund
ViðhengiMeðfylgjandi er umsögn Samtaka iðnaðarins um breytingar á lögum um loftslagsmál.
ViðhengiHjálögð er umsögn Skógræktarinnar um drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um loftslagsmál nr. 70/2012 (markmið um kolefnishlutleysi).
ViðhengiMeðfylgjandi er umsögn Ungra umhverfissinna við drög að frumvarpi til laga um breytingar á lögum nr. 70/2012 um loftslagsmál (markmið um kolefnishlutleysi).
Kveðja
Tinna Hallgrímsdóttir, varaformaður UU
ViðhengiUmsögn Náttúruverndarsamtaka Íslands
Meðfylgjandi eru athugasemdir Náttúruverndarsamtaka Íslands við drög að frumvarpi um kolefnishlutleysi árið. Frumvarpið er mikil nýjung í vaxandi umræðu um nauðsynlegar aðgerðir til að koma í veg fyrir hamfarahlýnun. Engu að síður er margt gagnrýni vert, sbr. athugasemdir samtakanna hér að neðan.
Náttúruverndarsamtökin telja að texti frumvarpsins og greinargerðarinnar megi vera mun markvissari. Ennfremur vantar nauðsynlegar upplýsingar til að þingmenn, fjölmiðlar og allur almenningur geti áttað sig á þeirri loftslagsstefnu sem frumvarpið ber með sér.
Stærsti gallinn er að ekkert er að finna um hvert sé markmið stjórnvalda um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda innan hins nýja markmiðs Evrópusambandsins un 55% samdrátt í losun fyrir árið 2030. Slíkt markmið, sett fram með skýrum og trúverðugum hætti, er meginforsenda þess að Ísland nái markmiði ríkisstjórnarinnar um kolefnishlutleysi árið 2040.
Samtökin benda á að í viðtali við Spegilinn 10. desmber sl. sagði Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, að markmið Íslands miðað við hið nýja sameiginlega markmið Evrópusambandsríkjanna gæti orðið á bilinu 40 – 45%. Talaði forsætisráðherra fyrir hönd ríkisstjórnarinnar. Frumvarp þetta yrði miklu betra ef það kæmist á hreint.
Virðingarfyllst,
f.h. stjórnar Náttúruverndarsamtaka Íslands
Árni Finnsson
Viðhengi
Athugasemdir vegna frumvarps til laga um breytingar á lögum um loftslagsmál (markmið um kolefnishlutleysi)
Viðhengi