Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 9.–23.2.2021

2

Í vinnslu

  • 24.2.–6.7.2021

3

Samráði lokið

  • 7.7.2021

Skjöl til samráðs

Mál nr. S-37/2021

Birt: 9.2.2021

Fjöldi umsagna: 9

Drög að frumvarpi til laga

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið

Umhverfismál

Drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um loftslagsmál nr. 70/2012 (markmið um kolefnishlutleysi).

Niðurstöður

Frumvarpið var samþykkt sem lög frá Alþingi þann 13. júní 2021

Málsefni

Með frumvarpinu er lagt til að lögfest verði markmið um að ná kolefnishlutleysi á Íslandi árið 2040.

Nánari upplýsingar

Með frumvarpinu er lagt til að nýjum staflið verði bætt við 1. gr. laganna þar sem sett er fram markmið um að ná kolefnishlutleysi á Íslandi 2040. Kolefnishlutleysi lýsir ástandi þar sem jafnvægi hefur náðst milli losunar gróðurhúsalofttegunda og bindingar kolefnis af mannavöldum og nettólosun er því núll. Kolefnishlutleysi er lykilþáttur í Parísarsamningnum og nauðsynlegt til að ná markmiði samningsins um að halda hnattrænni hlýnun innan við 2°C og eins nálægt 1,5°C og hægt er.

Markmið um kolefnishlutleysi er nauðsynlegt til að halda aftur af hamfarahlýnun á jörðinni. Því er mikilvægt að nýta allar færar leiðir til að tryggja að staðið verði við metnaðarfullt markmið Íslands um kolefnishlutleysi árið 2040 og að unnið verði markvisst þar til því takmarki er náð. Lögfesting á markmiðinu er því afar mikilvægur áfangi í vegferð að takmarkinu.

Framundan er umfangsmikil stefnumótunarvinna um leiðina að kolefnishlutleysi og er þróunaráætlun til langs tíma hluti af þeirri vegferð. Við þessa stefnumótunarvinnu verður samtal, samráð og samvinna við almenning og hagaðila, lykilatriði vinnunnar, því markmið um kolefnishlutlaust samfélag mun kalla á breytingar víða.

Vinna þarf að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda alls staðar sem því verður við komið og auka bindingu kolefnis. Ísland er framarlega í nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa en þrátt fyrir það er samfélagið enn að miklu leyti háð jarðefnaeldsneyti, sérstaklega þegar kemur að vegasamgöngum. Hið sama gildir um suma af okkar stærstu atvinnuvegum s.s. sjávarútveg og ferðaþjónustu. Auk þess má rekja stóran hluta losunar gróðurhúsalofttegunda á Íslandi til stóriðju.

Þegar hefur verið gripið til ýmissa aðgerða m.a. með tilstilli efnahagslegra hvata til að stemma stigu við loftslagsvandann en þeirri vinnu er ekki lokið. Samráð og greiningar sem fyrirhuguð eru munu draga upp sviðsmyndir og leiðir sem nánar verður hægt að vinna með.

Búa þarf samfélagið allt undir þær breytingar sem eru framundan og nýta þau miklu tækifæri sem Ísland hefur til að vinna gegn loftslagsvá. Breytingarnar sem munu eiga sér stað þurfa að taka mið af íslenskum aðstæðum og áherslum.

Samráði lokið

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Tenging við önnur mál (1)

Umsjónaraðili

Skrifstofa loftslagsmála

uar@uar.is