Samráð fyrirhugað 09.02.2021—24.02.2021
Til umsagnar 09.02.2021—24.02.2021
Niðurstöður í vinnslu frá 24.02.2021
Niðurstöður birtar

Áform um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, nr. 129/1990

Mál nr. 38/2021 Birt: 09.02.2021
  • Mennta- og menningarmálaráðuneytið
  • Áform um lagasetningu
  • Málefnasvið:
  • Framhaldsskólastig
  • Háskólastig

Niðurstöður í vinnslu

Umsagnarfrestur er liðinn (09.02.2021–24.02.2021). Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Niðurstöður samráðsins verða birtar þegar unnið hefur verið úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust.

Málsefni

Mennta- og menningarmálaráðherra telur tímabært að endurskoða lög um Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, nr. 129/1990. Stefnt er að því að lagt verði fram nýtt frumvarp til nýrra heildarlaga um Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra.

Mennta- og menningarmálaráðherra telur tímabært að endurskoða lög um Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, nr. 129/1990. Stefnt er að því að lagt verði fram nýtt frumvarp til nýrra heildarlaga um Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra. Markmið þeirrar vinnu er aukinn fyrirsjáanleiki, bætt þjónusta og að starfsemi stofnunarinnar verði lýst eins og hún hefur þróast frá setningu laganna. Að mati mennta- og menningarmálaráðuneytis er afar brýnt að frumvarpið mæli fyrir um inntak táknmálstúlkaþjónustu og þau skilyrði sem þarf að uppfylla til að njóta hennar.

Með frumvarpinu er stefnt að því að allar efnisreglur og skilyrði sem þarf að uppfylla verði að finna í settum lögum frá Alþingi. Að mati mennta- og menningarmálaráðuneytis væri um mikla réttarbót að ræða fyrir táknmálstalandi. Í vinnunni verður hugað að framtíðarfyrirkomulagi stofnunarinnar, framtíðarfyrirkomulagi sjóðsins til túlkunar í daglegu lífi og annarrar þjónustu sem SHH veittir þar sem þjónustan er í dag annars vegar veitt á grundvelli reglugerðar og hins vegar gjaldskrár. Með nýjum lögum verður með skýrum hætti mælt fyrir um inntak þjónustunnar með lögum, þar sem meðal annars mun koma fram hvaða skilyrði þarf að uppfylla til að fá þjónustuna

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Sigurbaldur P. Frímannsson - 20.02.2021

Umsagnaraðili kemur fram með umsagnir sínar vegna stöðu sinnar sem aðstoðarleikskólastjóri Sólborgar. Leikskólinn Sólborg hefur átt í miklu og nánu samstarfi við Samskiptamiðstöðina og ætlar sér með umsögn sinni um frumvarp til breytingar á lögum nr. 129/1990, að styrkja þetta samstarf.

Breytingartillögurnar eru eftirfarandi:

1. gr:

Breytingartillaga: Markmið laga þessara er að tryggja lagalegan rétt heyrnarlausra til þjónustu sem víðast í þjóðfélaginu á grundvelli táknmáls heyrnarlausra, byggt á lögum nr. 61/2011.

2 gr.:

Breytingartillaga: Fella út: Heyrnleysingjaskólann

Setja inn í staðinn: leikskólann Sólborg í Reykjavík og grunnskólann Hlíðaskóla í Reykjavík

Leikskólinn Sólborg telur að þessi endurskoðun laga, styrki góðan sess SHH og tryggi jafnframt lagalega stöðu þeirra þjóðfélagsþegna sem reiða sig á íslenskt táknmál.

Afrita slóð á umsögn

#2 Hjörtur Heiðar Jónsson - 22.02.2021

Umsögn um mál 38/2021

Mikilvægt er að allir hagsmunaaðilar komi að gerð lagafrumvarps en í upptalningu í lið F 4 er varðar fyrirhugað samráð er ekki gert ráð fyrir samráði við fólk með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu né heyrnarskert fólk sem reiðir sig á túlkaþjónustu Samskiptamiðstððvar heyrnarlausra og heyrnarskertra.

Svo tryggt sé að samráð verði haft við alla hagsmunaaðila er legg ég til að við upptalningu í lið F 4 verði bætt við félögum ofangreindra hagsmunaaðila: Fjólu, félagi fólks með samþætta sjón og heyrnarskerðingu og Heyrnarhjálp, félagi heyrnarskertra á Íslandi.

Með virðingu og vinsemd,

Hjörtur H. Jónsson

Form. Heyrnarhjálpar

Afrita slóð á umsögn

#3 Reykjavíkurborg - 23.02.2021

Vísað er til tilkynningar í samráðsgátt dags. 9. febrúar sl., þar sem kynnt eru til samráðs áform um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, nr. 129/1990.

Eftirfarandi er umsögn Reykjavíkurborgar:

Það er fagnaðarefni að taka eigi til endurskoðunar lög um Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, nr. 129/1990 og þar með auka áherslu á málaflokkinn. Ný lög þurfa að styðja við stefnu um íslenskt táknmál.

Skóla og frístundasvið Reykjavíkurborgar væntir þess að með þessari vinnu náist markmið mennta- og menningarmálaráðuneytisins um að fyrirsjáanleiki verði aukinn, þjónusta bætt og að starfsemi stofnunarinnar verði lýst eins og hún hefur þróast frá setningu laganna.

Að lokum er tekið fram að mikilvægt er að við endurskoðun laganna verði haft víðtækt samráð við samfélag táknmálstalandi barna og starfsmanna í leik- og grunnskóla og frístundastarfi.

Virðingarfyllst

Helgi Grímsson

sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#4 Rannveig Sverrisdóttir - 23.02.2021

Undirrituð, sem er lektor í táknmálsfræði og táknmálstúlkun við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands, fagnar áformum um að endurskoðun á lögum um Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, nr. 129/1990, fari fram.

Samvinna námsgreinarinnar Táknmálsfræði og táknmálstúlkun við Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra (SHH) hefur frá upphafi verið mikil, bæði á sviði kennslu og rannsókna. Á hverju skólaári sjá starfsmenn SHH um a.m.k. 30% af kennslu innan greinarinnar og er hlutfallið hærra ef eingöngu er litið á kennslu í táknmálstúlkun. Á SHH fer fram þróun kennsluaðferða og námsefnis í þeim námskeiðum sem starfsmenn þar kenna og undirrituð treystir mikið á samvinnu við SHH og starfsfólk hennar. Á sviði rannsókna er samvinnan ekki síður mikilvæg en innan SHH er bæði söfnun og varðveisla efnis sem og mannauður sem stundar rannsóknir og hefur yfirgripsmikla þekkingu á íslensku táknmáli, sögu þess og þróun. Frá árinu 2011 hefur rannsóknarsamvinnan verið undir hatti Rannsóknarstofu í táknmálsfræðum sem er undirstofnun Málvísindastofnunar HÍ og samvinnuverkefni hennar og SHH. Samstarfssamningur sem rektor HÍ og forstöðumaður SHH undirrituðu í upphafi árs 2019 sýnir ennfremur mikilvægi samvinnunnar og að þegar kemur að kennslu í og rannsóknum á íslensku táknmáli gegnir SHH veigamiklu hlutverki.

Undirrituð vill því ítreka mikilvægi SHH fyrir kennslu og rannsóknir innan Táknmálsfræði og táknmálstúlkunar við Háskóla Íslands og að horft sé til þess við endurskoðun laganna/vinnu við nýtt frumvarp til nýrra heildarlaga. Í þeirri vinnu er mikilvægt að haft sé samráð við hlutaðeigandi aðila innan HÍ.

Virðingarfyllst,

Rannveig Sverrisdóttir, lektor og greinaformaður í táknmálsfræði og táknmálstúlkun

Íslensku- og menningardeild, Háskóla Íslands

Afrita slóð á umsögn

#5 Hólmfríður Þóroddsdóttir - 24.02.2021

Það er gleðilegt að endurskoða á lög um Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, nr. 129/1990.

Undirrituð stingur upp á að við 2.grein laganna, um hlutverk stofnunarinnar, verði bætt inn "söfnun og varðveisla" efnis á íslenska táknmálinu. Ekki er hægt að skrifa táknmál og eru myndbönd af málhöfum að tala íslenskt táknmál álíka mikilvæg og bókmenntir, gamlar sem nýjar, eru fyrir íslenska tungu.

Stofnunin hefur sinnt þessu hlutverki frá upphafi, eða eins og segir á heimasíðu SHH:

"Samskiptamiðstöðin hefur frá upphafi lagt metnað í að safna málsýnum af íslensku táknmáli á myndband. Í safninu er að finna fjölbreytt efni og málsýni frá um 200 málhöfum á ýmsum aldri. Þar er fjallað um líf og starf döff fólks og málið frá hverjum tíma er varðveitt.

Meðal efnis er viðtöl við málhafa á ýmsum aldri, frásagnir, námsefni og barnaefni. Auk þess eru yfir 10 þúsund upptökur af stökum táknum, sem tekin hafa verið upp fyrir SignWiki og önnur myndbönd fyrir vefinn. Ýmsar upptökur eru frá stærri og smærri viðburðum þar sem táknmál er talað.

Gagnasafnið varðveitir þannig málsýni úr íslensku táknmáli, menningu, sögu og lífsbaráttu döff fólks. Tilgangur með söfnuninni er bæði þjóðfræðilegur og málfræðilegur og stöðugt er unnið að því að bæta við safnið. Safnið er á stafrænu formi og markmiðið er að það verði aðgengilegt og leitarbært eftir t.d. efni, málhöfum, aldri og málfræðiatriðum. Safnið ætti fyrst og fremst að nýtast málfræðingum við að skapa málheild fyrir íslenskt táknmál en nýtist einnig kennurum og öðrum fræðimönnum til dæmis á sviði mannfræði og sagnfræði."

Er við hæfi að við lagabreytinguna verði þessu mikilvæga starfi komið formlega inn í hlutverk stofnunarinnar.

Virðingarfyllst

Hólmfríður Þóroddsdóttir