Frumvarpið var samþykkt sem lög frá Alþingi þann 13. júní 2021. Í kafla 5.2 í greinargerð með frumvarpi til laganna er fjallað um umsagnir í samráðsgáttinni og afstaða tekin til þeirra.
Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 10.02.2021–24.02.2021.
Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.
Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 26.07.2021.
Félags- og barnamálaráðherra kynnir til umsagnar frumvarp til laga um breytingar á barnaverndarlögum nr. 80/2002. Frumvarpið felur í sér fyrri hluta heildarendurskoðunar barnaverndarlaga.
Frá árinu 2018 hefur átt sér stað umfangsmikil vinna við stefnumótun í barnavernd innan stjórnsýslunnar og á vettvangi þingmannanefndar um málefni barna, með virku samráði við sveitarfélög, fagfólk, börn og aðra hagsmunaaðila.
Meðal annars skipaði þáverandi félags- og jafnréttismálaráðherra starfshóp til að móta framtíðarsýn og stefnu í barnavernd til ársins 2030. Hópurinn vann greiningu á stöðu barnaverndarmála og áfanganiðurstöður í október 2018. Jafnframt skipaði félags- og barnamálaráðherra starfshóp sem var falið að móta tillögur að framtíðarskipulagi barnaverndarþjónustu sveitarfélaga. Starfshópurinn skilaði niðurstöðum sínum til ráðherra 16. október 2020.
Í lok árs 2020 var fyrirséð að ekki næðist að ljúka heildarendurskoðun barnaverndarlaga með frumvarpi sem lagt yrði fram á 151. löggjafarþingi. Í áfangaskýrslu þingmannanefndar um málefni barna frá í janúar 2021 kemur fram tillaga um að skipta endurskoðun barnaverndarlaga í tvennt. Í fyrri hluta vinnunnar yrði lögð áhersla á breytingar á stjórnsýslu barnaverndar í samræmi við samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna og breytingar á þeim stofnunum félagsmálaráðuneytisins sem koma að barnavernd. Í síðari hluta vinnunnar verði unnið áfram með úrræði í barnavernd, hlutverk einstakra stofnana ríkis og sveitarfélaga við veitingu úrræða og þar með skiptingu kostnaðar milli stjórnsýslustiganna.
Í samræmi við tillögu þingmannanefndarinnar kynnir félags- og barnamálaráðherra frumvarp til laga um breytingar á barnaverndarlögum nr. 80/2002 sem felur í sér fyrri hluta vinnu við endurskoðun barnaverndarlaga. Vinna við síðari hluta hennar stendur yfir og er fyrirhugað að henni ljúki síðar á þessu ári.
Meginefni frumvarpsins:
1. Barnaverndarnefndir verða lagðar af. Dagleg verkefni í barnavernd verða falin barnaverndarþjónustu. Á vettvangi sveitarfélaga munu jafnframt starfa umdæmisráð barnaverndar sem hafa aðkomu að tilteknum ákvörðunum og ráðstöfunum í barnavernd. Áhersla er lögð á fagþekkingu þeirra sem sitja í umdæmisráðum.
2. Umdæmi barnaverndarþjónustu verða stækkuð. Miðað verður við að í það minnsta 6.000 íbúar standi að baki hverri þjónustu.
3. Barnaverndarþjónusta verður samþætt annarri þjónustu í þágu farsældar barna. Lögð er áhersla á samfellu í þjónustu og skýr ábyrgðaskil við beitingu löggjafar.
4. Þátttaka barna við meðferð barnaverndarmála verður efld. Meðal annars er lagt til að sérstaklega verði fjallað um rétt barna til að fá upplýsingar um mál sitt á barnvænan hátt.
5. Löggjöf verður aðlöguð að stafrænum lausnum í barnavernd, þar með talið sameiginlegum gagnagrunni í barnavernd.
6. Barnaverndarþjónusta, með aðkomu umdæmisráðs barnaverndar, fær rýmri heimildir til að vista barn utan heimilis en áður.
7. Málsmeðferð tiltekinna ráðstafana barnaverndar verður einfölduð. Hér einkum átt við úrræði gagnvart þeim sem vinna með börnum, mál vegna brottvikningar heimilismanns og nálgunarbanns og úrræði vegna ófæddra barna.
8. Ákvæði barnaverndarlaga verða aðlöguð að breytingu stjórnsýslu og tilkomu nýrra stofnana félagsmálaráðuneytisins, Barna- og fjölskyldustofu og Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála.
Fagna þessum drögum að frumvarpi og tel löngu tímabært að breyta fyrirkomulagi varðandi barnaverndarnefndir á Íslandi.
Vísa í meistararannsókn mína sem ég gerði í félagsráðgjöf árið 2009 og ber heitið -Barnaverndarnefndir á Íslandi: Rannsókn á bakgrunni og viðhorfi nefndarmanna ásamt sjónarhorni starfsmanna". Rannsóknin styður algjörlega við þetta frumvarp. Hægt er að lesa rannsóknina inn á þessari slóð:
https://skemman.is/handle/1946/4447
Arndís Tómasdóttir
Félagsráðgjafi MA
Lagt er til að sett verði á laggirnar heildrænt, staðlað mat (screening) sem hver einasti starfsmaður, umsjónaraðili, sérfræðingur, aðstoðarmaður, fósturforeldri og/eða rekstraraðili sem kemur að barnarverndamálum þurfi að fara í gegnum. Hér er átt við sálfræðilegt mat sem er staðlað. Það á ekki hver sem er að gera fengið vinnu við að sinna börnum fyrir barnavernd. Gera þarf stífari kröfur og hafa tiltæk mælitæki eða verkfæri til að flokka aðila frá sem hafa til að bera einhver þau persónueinkenni sem gætu reynst börnum skaðleg.
Gerðar verði ítarlegri kröfur til þeirra sem vinna í baraverndarkerfinu en þeirra sem vinna almennt í heilbirgðis-, mennta, eða félagslega kerfinu. Skönnun sem þessi yrði gerð til þess að koma í veg fyrir að börn lendi í umsjón, eða höndum aðila sem ekki eru færir um að sinna þeim á eðlilegan hátt, smbr ýmsir rekstraraðilar heimila eða úrræða á undanförnum árum sem uppvísir hafa orðið að ófaglegri nálgun við sína skjólstæðinga, ef ekki hreinlega ofbeldi, barnaníði eða vanrækslu.
Væri þá gert ráð fyrir að ekki þyrfti bara að skila inn hreinu sakavottorði heldur þyrfti viðkomandi einnig að standast sálfræðiðlegt og persónulegt mat til þess að fá að starfa í þessum geira. Þannig yrði hægt að koma í veg fyrir að fólk í ójafnvægi, fólk með einhverskonar raskanir, fólk persónuleikaraskanir, barnagirnd, alvarlega geðsjúkdóma og/eða andfélagslega hegðun komist í tæri við börn innan þess kerfis sem hannað á að vera til að vernda þau.
Lagt er til að þetta verði unnið af fagaðilum á sviði sálfærði, réttarsálfærði og geðlækninga og þannig búin til amk einn varnargarður
til að forða börnum frá því að lenda í höndum aðila sem ekki eru í stakk búnir til að sinna því viðkvæma og mikilvæga starfi sem barnavernd er.
Virkilega ánægjulegt að sjá þetta ferli komið af stað og lýsi ég yfir mikilli ánægju með þessa vinnu.
Ég vil minna á hvort ekki sé nauðsyn á endurskoðun menntunar fagstétta þegar kemur að forvörnum og viðbrögðum um ofbeldi gegn börnum. Reynsla mín hefur sýnt það að fagfólk, þekki sérstaklega vel til í leik og grunnskólastiginu, kennarar fá takmarkaða menntun sem lítur að ofbeldismálum.
Þyrfti að vera markvisst og taktfast t.a.m. annað hvert ár líkt og skyndihjálparkennsla.
Styð fyrri umsögn hér frá Ásgerði Á Jóhannsdóttur að gerðar séu enn ítarlegrar kröfur til þeirra sem vinna almennt í mennta, heilbrigðis og félagslega kerfinu.
Er þakklát fyrir þessa vinnu og bíð eftir útkomu síðari hlutans.
Arnrún Magnúsdóttir, leikskólakennari
Fræðsla ekki hræðsla - LAUSNAHRINGURINN
Mjög þarfar og góðar breytingar á barnaverndarlögum í farvegi. Mig langar til að benda á nokkur atriði sem þyrfti e.t.v. að skoða betur.
Varðandi 27. gr. þá þyrfti að taka á þeirri aðstöðu þegar barn er statt í umsjá þriðja aðila og aðstæður hjá forsjáraðila eru ófullnægjandi en ekki er fyrirhugað að kyrrsetja barn hjá þriðja aðila. Þá getur verið nauðsynlegt að koma barni í vistun annað en orðalag ákvæðsins virðist ekki ná til þessa tilviks.
Varðandi 28. gr. og 29. gr. þá er óljóst hvort veita eigi forsjáraðila andmælarétt þegar tekin er ákvörðun um að gera kröfur um tímabundna vistun barns utan heimilis eða forsjársviptingu fyrir dómi. Þetta eru ekki endanlegar ákvarðanir um réttindi eða skyldu og því ekki skylda til að veita andmælarétt skv. málsmeðferðarreglum stjórnsýsluréttar. Það getur engu að síður verið mjög mikilvægt fyrir forsjáraðila að fá að koma sínum sjónarmiðum að þegar teknar eru ákvarðanir um hvort gera eigi kröfu fyrir dómi.
Þá er mikið óhagræði að málsmeðferðin skuli vera svo ólík skv. 28. og 29. gr. enda getur dómur ekki kveðið á um tímabundna vistun barns ef krafist hefur verið forsjársviptingar. Þetta getur leitt til þess að börn fara aftur á heimili forsjáraðila ef ekki er fallist á forsjársviptingu fyrir dómi, án þess að aðstæður séu viðunandi fyrir barn, og rof kemur í vistun barns utan heimilis. Þetta getur ennfremur leitt til þess að börn séu of lengi í tímabundnum úrræðum og í raun brotið á þeirra réttindum þar sem barnaverndaryfirvöld bíða of lengi með að gera kröfur um forsjársviptingu. Það er viðvarandi hræðsla í barnaverndarkerfinu við að krefjast forsjársviptingar vegna þess að ef kröfum um forsjársviptingu er hafnað þá er barn komið í umsjá forsjáraðila. Oftar en ekki við þessar aðstæður næst ekki samvinna við forsjáraðila um aðlögun barns á heimili forsjáraðila að nýju og barn fer án undirbúnings í umsjá forsjáraðila. Þessi málsmeðferð er öll á kostnað velferðar og réttinda barnsins.
Þá langar mig að benda á að það vantar skýrar reglur um það þegar forsjáraðili vill fallast á kröfu sem gerð hefur verið fyrir dómi þ.e. hvaða þýðingu slíkt samþykki hefur. Óljóst er hvort forsjáraðili geti afturkallað slíkt samþykki eins og gildir um aðrar ráðstafanir sem hann hefur samþykkt eða hvort samþykki hafi sömu réttaráhrif og dómur/úrskurður. Ljóst er þó að koma verður í veg fyrir að forsjáraðilar geti komið sér hjá málsmeðferð fyrir dómi með því að samþykkja ráðstöfun en stuttu síðar afturkallað samþykki sitt og sett vinnslu barnaverndarmálsins á byrjunarreit.
Einnig vil ég benda á breytingu sem varð á málsmeðferð barnaverndarmála fyrir dómi með síðustu breytingu á lögum um meðferð einkamála og það er um skipan dómenda í forsjársviptingarmálum. Nú eru tveir löglærðir dómarar sem sitja í dómi en aðeins einn sérfróður dómari í stað tveggja eins og áður var. Þessi breyting hefur að mínu viti leitt til þess að í málum af þessu tagi er ekki næg sérþekking hjá dómendum sem fara með málin og nú þegar verið er að tryggja betri sérþekkingu á sviði barnaverndar þá verður að telja að þetta atriði sé mjög mikilvægt til þess að tryggja rétta niðurstöðu í alvarlegustu barnaverndarmálunum.
Umsögn fjölskyldu- og barnamálasviðs Hafnarfjarðarkaupstaðar.
ViðhengiUmsögn velferðarsviðs Akureyrarbæjar er í meðfylgjandi skjali.
ViðhengiUmsögn deildarstjóra og lögfræðings barnaverndar Kópavogs
ViðhengiUmsögn ADHD samtakanna í meðfylgjandi skjali.
ViðhengiUmsögn Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) um frumvarp til laga um breytingar á barnaverndarlögum nr. 80/2002 (barnaverndarþjónusta, umdæmisráð barnaverndar, samþætting o.fl.), mál nr. 39/2021.
ViðhengiMeðfylgjandi er umsögn Félagsráðgjafafélags Íslands
Viðhengi