Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 10.–24.2.2021

2

Í vinnslu

  • 25.2.–25.7.2021

3

Samráði lokið

  • 26.7.2021

Skjöl til samráðs

Mál nr. S-39/2021

Birt: 9.2.2021

Fjöldi umsagna: 11

Drög að frumvarpi til laga

Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Fjölskyldumál

Drög að frumvarpi til laga um breytingar á barnaverndarlögum nr. 80/2002 (barnaverndarþjónusta, umdæmisráð barnaverndar, samþætting o.fl.

Niðurstöður

Frumvarpið var samþykkt sem lög frá Alþingi þann 13. júní 2021. Í kafla 5.2 í greinargerð með frumvarpi til laganna er fjallað um umsagnir í samráðsgáttinni og afstaða tekin til þeirra.

Málsefni

Félags- og barnamálaráðherra kynnir til umsagnar frumvarp til laga um breytingar á barnaverndarlögum nr. 80/2002. Frumvarpið felur í sér fyrri hluta heildarendurskoðunar barnaverndarlaga.

Nánari upplýsingar

Frá árinu 2018 hefur átt sér stað umfangsmikil vinna við stefnumótun í barnavernd innan stjórnsýslunnar og á vettvangi þingmannanefndar um málefni barna, með virku samráði við sveitarfélög, fagfólk, börn og aðra hagsmunaaðila.

Meðal annars skipaði þáverandi félags- og jafnréttismálaráðherra starfshóp til að móta framtíðarsýn og stefnu í barnavernd til ársins 2030. Hópurinn vann greiningu á stöðu barnaverndarmála og áfanganiðurstöður í október 2018. Jafnframt skipaði félags- og barnamálaráðherra starfshóp sem var falið að móta tillögur að framtíðarskipulagi barnaverndarþjónustu sveitarfélaga. Starfshópurinn skilaði niðurstöðum sínum til ráðherra 16. október 2020.

Í lok árs 2020 var fyrirséð að ekki næðist að ljúka heildarendurskoðun barnaverndarlaga með frumvarpi sem lagt yrði fram á 151. löggjafarþingi. Í áfangaskýrslu þingmannanefndar um málefni barna frá í janúar 2021 kemur fram tillaga um að skipta endurskoðun barnaverndarlaga í tvennt. Í fyrri hluta vinnunnar yrði lögð áhersla á breytingar á stjórnsýslu barnaverndar í samræmi við samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna og breytingar á þeim stofnunum félagsmálaráðuneytisins sem koma að barnavernd. Í síðari hluta vinnunnar verði unnið áfram með úrræði í barnavernd, hlutverk einstakra stofnana ríkis og sveitarfélaga við veitingu úrræða og þar með skiptingu kostnaðar milli stjórnsýslustiganna.

Í samræmi við tillögu þingmannanefndarinnar kynnir félags- og barnamálaráðherra frumvarp til laga um breytingar á barnaverndarlögum nr. 80/2002 sem felur í sér fyrri hluta vinnu við endurskoðun barnaverndarlaga. Vinna við síðari hluta hennar stendur yfir og er fyrirhugað að henni ljúki síðar á þessu ári.

Meginefni frumvarpsins:

1. Barnaverndarnefndir verða lagðar af. Dagleg verkefni í barnavernd verða falin barnaverndarþjónustu. Á vettvangi sveitarfélaga munu jafnframt starfa umdæmisráð barnaverndar sem hafa aðkomu að tilteknum ákvörðunum og ráðstöfunum í barnavernd. Áhersla er lögð á fagþekkingu þeirra sem sitja í umdæmisráðum.

2. Umdæmi barnaverndarþjónustu verða stækkuð. Miðað verður við að í það minnsta 6.000 íbúar standi að baki hverri þjónustu.

3. Barnaverndarþjónusta verður samþætt annarri þjónustu í þágu farsældar barna. Lögð er áhersla á samfellu í þjónustu og skýr ábyrgðaskil við beitingu löggjafar.

4. Þátttaka barna við meðferð barnaverndarmála verður efld. Meðal annars er lagt til að sérstaklega verði fjallað um rétt barna til að fá upplýsingar um mál sitt á barnvænan hátt.

5. Löggjöf verður aðlöguð að stafrænum lausnum í barnavernd, þar með talið sameiginlegum gagnagrunni í barnavernd.

6. Barnaverndarþjónusta, með aðkomu umdæmisráðs barnaverndar, fær rýmri heimildir til að vista barn utan heimilis en áður.

7. Málsmeðferð tiltekinna ráðstafana barnaverndar verður einfölduð. Hér einkum átt við úrræði gagnvart þeim sem vinna með börnum, mál vegna brottvikningar heimilismanns og nálgunarbanns og úrræði vegna ófæddra barna.

8. Ákvæði barnaverndarlaga verða aðlöguð að breytingu stjórnsýslu og tilkomu nýrra stofnana félagsmálaráðuneytisins, Barna- og fjölskyldustofu og Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála.

Samráði lokið

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Tenging við önnur mál (1)

Umsjónaraðili

Skrifstofa barna- og fjölskyldumála

frn@frn.is