Samráð fyrirhugað 09.02.2021—23.02.2021
Til umsagnar 09.02.2021—23.02.2021
Niðurstöður í vinnslu frá 23.02.2021
Niðurstöður birtar

Drög að frumvarpi um breytingu á ýmsum lögum á vátryggingamarkaði og bankamarkaði

Mál nr. 40/2021 Birt: 09.02.2021
  • Fjármála- og efnahagsráðuneytið
  • Drög að frumvarpi til laga
  • Málefnasvið:
  • Markaðseftirlit, neytendamál og stjórnsýsla atvinnumála

Niðurstöður í vinnslu

Umsagnarfrestur er liðinn (09.02.2021–23.02.2021). Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Niðurstöður samráðsins verða birtar þegar unnið hefur verið úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust.

Málsefni

Fjármála- og efnahagsráðherra birtir til umsagnar drög að frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lögum á vátryggingamarkaði og bankamarkaði.

Í frumvarpinu eru lagðar til ýmsar breytingar á lögum á vátryggingamarkaði og bankamarkaði. Breytingunum er ýmist ætlað að innleiða viðeigandi ákvæði í Evrópugerðum eða lagfæra orðalag í lögum þannig að það endurspegli betur efnistök Evrópugerða og tryggi innra samræmi við aðra löggjöf á fjármálamarkaði. Þrátt fyrir að frumvarpið hafi að geyma ákvæði sem fela ekki í sér beina innleiðingu á ákvæðum Evrópugerða þá taka allar breytingar þess mið af Evrópureglum. Helstu breytingar frá gildandi lögum verða eftirfarandi:

Helstu breytingar á lögum um vátryggingastarfsemi eru eftirfarandi:

1. Lagt er til að fyrirmælum um hvernig atkvæðisréttur í félagi skuli ákvarðaður verði bætt við ákvæði laganna sem fjallar um skilyrði fyrir starfsleyfi. Atkvæðisrétturinn hefur þýðingu við mat á virkum eignarhlut í félagi og skal vátryggingafélag veita Fjármálaeftirlitinu upplýsingar um eigendur og umfang eignarhlutarins.

2. Lagt er til að ríkisborgarar ríkja sem eru aðilar að EES-samningnum eða stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu verði undanþegnir búsetuskilyrðum til stjórnarmanna og framkvæmdastjóra vátryggingafélaga.

3. Lagt er til að tekið verði fram í lögum um vátryggingastarfsemi að áhrif endurskipulagningar, slita eða gjaldþrotaskipta á vátryggingafélagi eða búi þess á réttindi og skyldur aðila að skipulegum verðbréfamarkaði ráðist af lögum þess ríkis sem um markaðinn gilda.

4. Lagt er til að við lögin bætist ný skilgreining á hugtakinu „samstarf“ sem er efnislega samhljóða skilgreiningu hugtaksins í lögum um fjármálafyrirtæki. Skilgreiningin hefur meðal annars þýðingu við mat á hæfi- og hæfnisskilyrðum.

5. Lagt er til að hugtakinu „forstjóri“ verði skipt út fyrir hugtakið „framkvæmdastjóri“ til samræmis við önnur lög á fjármálamarkaði.

6. Lagðar eru til orðalagsbreytingar á ákvæðum VII. kafla laganna sem fjalla um stjórn, áhættustýringu og innra eftirlit. Breytingunum er ætlað að samræma orðalag við sambærileg ákvæði í öðrum lögum á fjármálamarkaði.

Helstu breytingar á lögum um dreifingu vátrygginga eru eftirfarandi:

1. Lagt er til að aukið verði við upplýsingar sem vátryggingafélög skulu veita Fjármálaeftirlitinu um vátryggingaumboðsmenn og aðila sem dreifa vátryggingu sem aukaafurð. Veiting upplýsinga er skilyrði skráningar.

2. Lagðar eru til sambærilegar orðalagsbreytingar á hæfis- og hæfniskilyrðum laganna og lagðar eru til á lögum um vátryggingastarfsemi í frumvarpinu.

3. Lögð er til breyting á ákvæði laganna um innlögn starfsleyfis vátryggingamiðlara. Eftir orðalagsbreytingu megi þannig ljóst vera að einstaklingar með sjálfstætt starfsleyfi sem vátryggingamiðlarar, sem jafnframt starfa hjá lögaðila sem er með starfsleyfi sem vátryggingamiðlari, skuli uppfylla allar kröfur laganna til að geta haldið sjálfstæðu starfsleyfi sínu.

Helstu breytingar á lögum um vátryggingarsamninga eru eftirfarandi:

1. Lagt er til að tveimur afleiddum gerðum sem útfæra nánar ýmis ákvæði í tilskipun 2016/97/ESB verði veitt lagagildi.

2. Lagt er til að við lögin bætist ný skilgreining á hugtakinu „viðskiptavinur“ til aðgreiningar við hugtakið „vátryggingartaki“. Nýja skilgreiningin hefur sérstaka þýðingu vegna þeirra skyldna sem hvíla á dreifingaraðilum vegna upplýsingagjafar, sér í lagi skv. II. og XX. kafla laganna. Skilgreiningin nær til bæði núverandi og hugsanlegra viðskiptavina, þ.m.t. þeirra sem enda á að gera ekki samning.

3. Lagt er til að gerð verði skýrari skil milli þarfagreiningar, ráðgjafar og ráðgjafar sem byggir á hlutlausri og persónulegri greiningu til samræmis við tilskipun 2016/97/ESB.

4. Kveðið er á um breytta hugtakanotkun í XX. kafla laganna um vátryggingatengdar fjárfestingarafurðir, meðal annars til samræmis við hugtakanotkun á verðbréfamarkaði. Þannig megi neytendum vera ljóst að um sömu vernd er að ræða á báðum mörkuðunum.

Breytingar á öðrum lögum.

1. Lagðar eru til samskonar breytingar á búsetuskilyrðum í lögum um fjármálafyrirtæki og lagðar eru til á lögum um vátryggingastarfsemi.

2. Lagðar eru til breytingar á lögum um viðbótareftirlit með fjármálasamsteypum. Breytingunum er fyrst og fremst ætlað að renna styrkari stoðum undir eftirlitsheimildir evrópsku eftirlitsstofnanna líkt og vikið er að í III. kafla greinargerðar. Á meðal annarra breytinga er tillaga að breyttri skilgreiningu hugtaksins „eftirlitsskyldur aðili“ samkvæmt þeim lögum.