Samráð fyrirhugað 10.02.2021—25.02.2021
Til umsagnar 10.02.2021—25.02.2021
Niðurstöður í vinnslu frá 25.02.2021
Niðurstöður birtar 11.10.2021

Drög að breyttum reglum um þóknun til höfunda vegna opinbers flutnings tónverka og bókmenntaverka við kirkjulegar athafnir, sbr. 4. tölul. 21. gr. höfundalaga

Mál nr. 41/2021 Birt: 10.02.2021 Síðast uppfært: 11.10.2021
  • Mennta- og menningarmálaráðuneytið
  • Drög að reglugerð
  • Málefnasvið:
  • Menning, listir, íþrótta- og æskulýðsmál

Niðurstöður birtar

Sjá meðfylgjani niðurstöðuskjal

Nánar um niðurstöður

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 10.02.2021–25.02.2021. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 11.10.2021.

Málsefni

Mennta- og menningarmálaráðherra kynnir til umsagnar drög að breyttum reglum um þóknun til höfunda vegna opinbers flutnings tónverka og bókmenntaverka við kirkjulegar athafnir, sbr. 4. tölul. 21. gr. höfundalaga.

Mennta- og menningarmálaráðherra áformar breytingar á reglum um þóknun til höfunda vegna opinbers flutnings tónverka og bókmenntaverka við kirkjulegar athafnir, sbr. 4. tölul. 21. gr. höfundalaga nr. 73/1972. Samkvæmt ákvæðinu er opinber flutningur verka heimill við guðsþjónustu og aðrar kirkjulegar athafnir. En höfundar (texta og tóna) eiga rétt á þóknun skv. reglum sem ráðherra setur. Núgildandi reglur eru nr. 232/1974. Ákvæði 4. tölul. 1. mgr. 21. gr. höfundalaga á að tryggja að trúfélög megi flytja þá tónlist og texta sem þau telja sig þurfa vegna athafna og samkoma án þess að spyrja um leyfi í hvert sinn en jafnframt að tryggja að höfundar fái endurgjald fyrir þann flutning.

STEF f.h. höfunda hefur séð um innheimtu og dreifingu þóknana skv. þessu ákvæði til höfunda, bæði texta- og tónhöfunda. STEF og Biskupstofa f.h. Þjóðkirkjunnar, sem stærsti notandi þessarar heimildar, hafa haft forgöngu um að unnið verði að því að einfalda þóknanaferlið, m.a. til að tryggja að öll trúfélög greiði slíka þóknanir til höfunda og lögðu til að reglunum yrði breytt.

Samkvæmt núgildandi reglum nr. 232/1974 er greint á milli flutnings við guðsþjónustu, sbr. 2. gr., og jarðarfara, sbr. 3. gr. Fyrir flutning við guðþjónustur er greitt með föstu árlegu ríkisframlagi til STEFS, nú kr. 900.000. Sú greiðsla á, skv. ákvæði 2. gr. reglnanna, að vera 3% af áætluðum heildarlaunum flytjanda. Þessi greiðsla er að mati STEFS, langt fyrir neðan þau mörk. Fyrir flutning við jarðarfarir á að innheimta gjald sem á að vera 5% af launum flytjenda, sbr. 3. gr. reglnanna. Innheimta þessara gjalda má vera í höndum organista og útfararstjóra gegn þóknum sem ákveðin skal af menntamálaráðherra. Útfararstofur innheimta þetta gjald í dag.

Í reglum nr. 232/1974 er líka kveðið á um sjóð til styrktar tónskáldum og textahöfundum kirkjulegra verka, sbr. 4. gr. Í sjóðinn skal renna 20% af þeim gjöldum sem innheimt eru vegna flutnings við guðsþjónustur og jarðarfarir, sbr. 2. og 3. gr. reglnanna. Um sjóðinn (Tónmenntasjóður kirkjunnar) gilda reglur nr. 235/1974 „Skipulagsskrá fyrir Tónmenntasjóð kirkjunnar“.

Nú er lagt til að reglum um þóknanir vegna opinbers flutnings tónverka og bókmenntaverka verði breytt á þann veg að í stað 2. og. 3. gr. verði vísað í samninga STEFs og trúfélaga um endurgjald til höfunda vegna flutnings verka við athafnir trúfélaga. Þær breytingar hefðu í för með sér að það væri samkomulag þeirra á milli hvaða greiðslur STEF fengi frá kirkjunni og öðrum trúfélögum sem falla undir 4. tölul. 1. mgr. 21. gr. höfundalaga. Þar með félli niður hin árlega greiðsla frá ríkinu.

Á grundvelli ofangreinds er lagt til að reglur nr. 232/1974 verði afnumdar og þess í stað settar nýjar sem byggi á að STEF semji við trúfélög um greiðslur vegna tónlistar og texta sem flutt er við athafnir þeirra á grundvelli 4. tölul. 1. mgr. 21. gr. höfundalaga.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Margrét Bóasdóttir - 25.02.2021

Sjá skjal í viðhengi.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#2 Margrét Bóasdóttir - 25.02.2021

Margrét Bóasdóttir

Söngmálastjóri þjóðkirkjunnar

Katrínartún 4

105 Reykjavík

24. febrúar 2021

UMSÖGN um:

mál nr. 41/2021, „Drög að breyttum reglum um þóknun til höfunda vegna opinbers flutnings tónverka og bókmenntaverka við kirkjulegar athafnir, sbr. 4. tölul. 21. gr. höfundalaga“.

Umsagnarfrestur er til og með 25.02.2021.

Fulltrúar Þjóðkirkjunnar og STEFs hafa unnið sérlega vel saman að þeim drögum sem hér eru lögð fram, ásamt faglegri þjónustu og umsögn sérfræðinga Menntamálaráðuneytis.

Með þessum reglum er tryggt að höfundar fái þóknun fyrir flutning verka sinna í öllu helgihaldi kirkjunnar og þóknanakerfið hefur verið einfaldað og skýrt betur, þannig að greiðslur eru á árlegum grundvelli.

Hinar breyttu reglur taka á þeim breytingum sem hafa orðið í þjóðfélaginu og það sem mjög mikilvægt er; stuðla að jafnræði.

Eldri reglur tiltóku greiðslur og greiðsluviðmið vegna útfara, sem útfararstofur innheimtu síðan fyrir STEF, af aðstandendum. Með þessum reglum verða höfundaréttargreiðslur fyrir útfarir felldar inn í samning um annað helgihald og verða því ekki lengur hluti útfararkostnaðar.

Það sem mest er um vert þegar svo stór og viðamikill samningur er gerður, er að samningsaðilar hafa unnið hann í löngu og vönduðu vinnuferli og í góðri sátt.

Fyrir hönd þjóðkirkjunnar mæli ég með því að þessar reglur hljóti staðfestingu Alþingis.

Virðingarfyllst,

Margrét Bóasdóttir.

Afrita slóð á umsögn

#3 STEF - 01.03.2021

Efni: Umsögn um drög að breyttum reglum um þóknun til höfunda vegna opinbers flutnings tónverka og bókmenntaverka við kirkjulegar athafnir, sbr. 4. tölul. 21. gr. höfundalaga

Þau drög sem hér eru lögð fram til umsagnar hafa verið unnin í góðu samstarfi við STEF og fela í sér nauðsynlegar breytingar á núverandi reglum um þóknun til höfunda vegna opinbers flutnings við kirkjulegar athafnir. Með þeim er tryggt að trúfélög megi flytja tónlist og texta sem þau kjósa án þess að sækja um sérstakt leyfi í hvert sinn og að höfundar fái endurgjald fyrir þann flutning.

STEF og Biskupstofa hafa haft forgöngu um að einfalda þóknanakerfið og var horft til þeirrar vinnu við gerð þessarar nýju reglna. Samkvæmt núgildandi reglum er innheimt sértaklega fyrir tónlistarflutning við útfarir. Útfararstofur hafa til þessa innheimt aðstandendur um höfundaréttargjöld fyrir STEF en samkvæmt breyttum reglum verða þau hluti af samkomulagi milli STEFs og trúfélaga og því ekki lengur hluti af útfararkostnaði.

Ástæða er til að fagna þeim breytingum sem eru hér til umsagnar. Þá ber að þakka starfsfólki Menntamálaráðuneytis og starfsfólki Þjóðkirkjunnar samstarfið.

Guðmundur Þór Guðjónsson