Samráð fyrirhugað 12.02.2021—01.03.2021
Til umsagnar 12.02.2021—01.03.2021
Niðurstöður í vinnslu frá 01.03.2021
Niðurstöður birtar

Drög að frumvarpi til laga um verðbréfasjóði

Mál nr. 44/2021 Birt: 12.02.2021 Síðast uppfært: 15.02.2021
  • Fjármála- og efnahagsráðuneytið
  • Drög að frumvarpi til laga
  • Málefnasvið:
  • Markaðseftirlit, neytendamál og stjórnsýsla atvinnumála

Niðurstöður í vinnslu

Umsagnarfrestur er liðinn (12.02.2021–01.03.2021). Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Niðurstöður samráðsins verða birtar þegar unnið hefur verið úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust.

Málsefni

Fjármála- og efnahagsráðherra birtir til umsagnar drög að frumvarpi til innleiðingar á tilskipun 2014/91/ESB um verðbréfasjóði (UCITS) og tilskipun 2010/78/ESB að því er varðar verðbréfasjóði (Omnibus I).

Frumvarpið felur í sér ný heildarlög um verðbréfasjóði sem koma í stað núgildandi laga um verðbréfasjóði, nr. 128/2011. Með frumvarpinu er lagt til að ákvæði tilskipunar 2014/91/ESB um breytingu á tilskipun 2009/65/EB um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum um verðbréfasjóði (UCITS) að því er varðar störf vörsluaðila, starfskjarastefnu og viðurlög verði innleidd í íslenskan rétt, sem og ákvæði tilskipunar 2010/78/ESB um breytingu á ýmsum tilskipunum að því er varðar valdsvið Evrópsku eftirlitsstofnunarinnar (Evrópska bankaeftirlitsstofnunin), Evrópsku eftirlitsstofnunarinnar (Evrópska vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunin) og Evrópsku eftirlitsstofnunarinnar (Evrópska verðbréfamarkaðseftirlitsstofnunin) að því er varðar verðbréfasjóði.

Almennt eru ekki lagðar til efnisbreytingar á ákvæðum núgildandi laga um verðbréfasjóði nema að því leyti sem að innleiðing UCITS V og Omnibus I felur í sér. T.d. eru ekki almennt gerðar breytingar nema mjög smávægilegar á ákvæðum um staðfestingu verðbréfasjóða, skipulagskröfur rekstrarfélaga verðbréfasjóða, fjárfestingarheimildir sjóðanna, gagnsæiskröfur og markaðssetningu verðbréfasjóða yfir landamæri. Í einhverjum tilvikum hefur þó þurft að skerpa á innleiðingu UCITS-tilskipunarinnar og eru þá lagðar til efnisbreytingar á viðkomandi ákvæðum eða ný ákvæði lögð til. Þá er lagt til að ákvæði um samruna verðbréfasjóða og höfuðsjóði og fylgisjóði, sem samkvæmt núgildandi löggjöf eru í reglugerð ráðherra nr. 472/2014, verði tekin upp í lögin til að gæta samræmis við UCITS, og það sama á að einhverju leyti við um ákvæði um ársreikninga verðbréfasjóða sem nú er kveðið á um í reglum Seðlabanka Íslands. Áfram verði nánari útfærsla ákvæðanna í stjórnvaldsfyrirmælum eftir því sem ástæða þykir til. Þá eru lagðar til tilfærslur ákvæða úr lögum um fjármálafyrirtæki yfir í lög um verðbréfasjóði, fyrst og fremst að því er varðar kröfur til starfsleyfis rekstrarfélaga, starfsheimildir og starfsskilyrði, en almennt er ekki um efnisbreytingar að ræða. Þó er lagt til að rekstrarfélög verðbréfasjóða verði ekki lengur fjármálafyrirtæki í skilningi laga um fjármálafyrirtæki, heldur fjármálastofnanir líkt og er um rekstraraðila sérhæfðra sjóða.

Eftirfarandi eru helstu efnisbreytingar sem lagðar eru til á gildandi lögum um verðbréfasjóði:

- Hlutverk vörslufyrirtækja er skýrt frekar og ákvæði um ábyrgð þeirra endurbætt. Skilgreint er hvaða aðilar geti verið vörslufyrirtæki og skilyrði sett fyrir útvistun á verkefnum vörslufyrirtækja til þriðja aðila,

- Lagt er til að ákvæði um starfsleyfi og skipulagskröfur rekstrarfélaga verðbréfasjóða verði færð úr lögum um fjármálafyrirtæki og að rekstrarfélögin teljist ekki lengur til fjármálafyrirtækja heldur fjármálastofnana.

- Skerpt er á valdheimildum Fjármálaeftirlitsins og ákvæðum um samstarf við önnur lögbær yfirvöld á EES.

- Lagt er til að sérstakur kafli verði í lögunum um hlutdeildarsjóði, sem er það rekstrarform sem íslenskir verðbréfasjóðir eru reknir á, en ekki felast í kaflanum efnisbreytingar frá núverandi rétti, heldur er fyrst og fremst um breytta framsetningu að ræða.

- Lagðar eru til nokkrar breytingar á ákvæðum um fjárfestingarheimildir, þ.e. nýttar eru heimildir UCITS-tilskipunarinnar og settar í frumvarpið heimildir verðbréfasjóða til fjárfestingar í allt að 25% af eignum í skuldabréfum samkvæmt lögum um sértryggð skuldabréf, nr. 11/2008, eða sambærilegum skuldabréfum útgefnum í ríki innan EES og svo til að beita fjárfestingaraðferðum (e. techniques and instruments), t.d. verðbréfalánum eða endurhverfum verðbréfaviðskiptum, í þeim tilgangi að ná fram skilvirkri stýringu eigna sjóðs. Þá er lagt til aukið svigrúm frá því sem kveðið er á um í núgildandi löggjöf til að laga frávik þar sem farið er fram úr fjárfestingarheimildum, kveðið er á um heimildir verðbréfasjóða til að eignast erlendan gjaldeyri með skiptasamningum og svo er gerð breyting á fjárfestingarheimildum fylgisjóða. Breytingar þessar eru gerðar til að gæta samræmis við UCITS-tilskipunina.

Tengd mál

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Jóna Björk Guðnadóttir - 01.03.2021

Meðfylgjandi er í vðhengi umsögn Samtaka fjármálafyrirtækja um frumvarpið.

Bestu kveðjur, Jóna Björk

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#2 Kvika banki hf. - 01.03.2021

Meðfylgjandi er umsögn Kviku banka hf.

Viðhengi