Samráð fyrirhugað 17.02.2021—02.03.2021
Til umsagnar 17.02.2021—02.03.2021
Niðurstöður í vinnslu frá 02.03.2021
Niðurstöður birtar 09.07.2021

Drög að tillögu til þingsályktunar um lýðheilsustefnu til ársins 2030

Mál nr. 47/2021 Birt: 17.02.2021 Síðast uppfært: 09.07.2021
  • Heilbrigðisráðuneytið
  • Drög að stefnu
  • Málefnasvið:
  • Lýðheilsa og stjórnsýsla velferðarmála

Niðurstöður birtar

Á grundvelli draga um lýðheilsustefnu og þeirra umsagna sem bárust gegnum Samráðsgáttina var mælt fyrir tillögu til þingsályktunar á 151. löggjafarþingi og var hún samþykkt 12. júní 2021 á Alþingi.

Skjal að loknu samráði

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 17.02.2021–02.03.2021. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 09.07.2021.

Málsefni

Drög að tillögu til þingsályktunar um lýðheilsustefnu til ársins 2030.

Drög þessi að þingsályktunartillögu er unnin í heilbrigðisráðuneytinu.

Með þingsályktunartillögunni leggur heilbrigðisráðherra til stefnumótun um lýðheilsu til ársins 2030. Með ályktuninni er haldið áfram á þeirri vegferð sem lögð var fram í lýðheilsustefnu frá árinu 2016 þar sem mótaður var fyrsti hluti stefnu og aðgerða sem stuðla að heilsueflandi samfélagi og bættri lýðheilsu á öllum aldursskeiðum. Með hinni nýju stefnu er þó ekki ætlunin að afnema eða taka við af stefnunni frá árinu 2016 heldur eiga þær að ganga í takt á þeirri vegferð að bæta lýðheilsu á Íslandi.

Í tillögunni er skilgreind framtíðarsýn fyrir lýðheilsu á Íslandi sem verði eftirfarandi:

a. Lýðheilsustarf verði markvisst, á heimsmælikvarða og einkennist af þverfaglegu samstarfi heilbrigðisþjónustu, sérstaklega heilsugæslu, og annarra hagaðila á Íslandi, t.a.m. sveitarfélögum, með áherslu á heilsueflingu og forvarnir.

b. Lýðheilsustarf verði metið með því að mæla gæði, öryggi, árangur, aðgengi og kostnað sem og kostnaðarhagkvæmni.

Til þess að framtíðarsýnin verði að veruleika verði lögð áhersla á ákveðin meginviðfangsefni til þess að styrkja stoðir lýðheilsustarfs á Íslandi, en viðfangsefnin eru almennt þau sömu og finna má í heilbrigðisstefnu til ársins 2030. Er talið mikilvægt að nálgast viðfangsefnið á sama hátt og gert er í heilbrigðisstefnu til að tryggja samfellu í stefnumörkun stjórnvalda á þessu sviði. Viðfangsefnin eru eftirfarandi:

1. Forysta til árangurs.

2. Rétt þjónusta á réttum stað.

3. Fólkið í forgrunni.

4. Virkir notendur.

5. Skilvirk þjónustukaup.

6. Gæði í fyrirrúmi.

7. Hugsað til framtíðar.

Lýðheilsustarf á Íslandi skal jafnframt hafa jafnrétti og jöfnuð að leiðarljósi.

Frestur til að skila inn umsögnum er til og með 2. mars 2021.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Landssamtökin Þroskahjálp - 26.02.2021

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um drög að tillögu til þingsályktunar um lýðheilsustefnu til ársins 2030.

Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fötluð börn og ungmenni og fólk með þroskahömlun. Samtökin byggja stefnu sína á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, Barnasáttmála SÞ og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum. Um 20 félög eiga aðild að samtökunum með um 6 þúsund félagsmenn.

Samtökin lýsa yfir ánægju sinni með hve skýrt er kveðið á um jafnfrétti, jafnt aðgengi að upplýsingum, ólíkar þarfir, samstarf og samráð milli þjónustuveitenda í drögum að lýðheilsustefnu.

Sterkar vísbendingar eru um að heilsa fólks með þroskahömlun og/eða einhverfu sé almennt lakari en annarra og jafnframt um að aðgengi þessa hóps að upplýsingum, úrræðum og heilsutengdu forvarnarstarfi sé ábótavant. Á þetta jafnt við um átaksverkefni til heilsueflingar, aðgengi að viðeigandi stuðningi og fræðslu um heilsueflingu og sértæk úrræði til að efla heilsu og vellíðan. Þessi stefnumótun er því afar mikilvæg fyrir fólk með þröskahömlun og/eða einhverfu og mikilvægt að gæta sérstaklega að þörfum þess og tryggja að það þurfi ekki að þola mismunun á þessu sviði á grundvelli fötlunar sinnar.

Árið 2016 fullgiltu íslensk stjórnvöld samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og skuldbundu sig þar með til að framfylgja ákvæðum hans.

Í 4. gr. samningsins, sem hefur yfirskriftina Almennar skuldbindingar, segir m.a.:

Aðildarríkin skuldbinda sig til þess að tryggja og stuðla að því að öll mannréttindi og mannfrelsi verði í einu og öllu að veruleika fyrir allt fatlað fólk án mismununar af nokkru tagi vegna fötlunar. … Aðildarríkin skuldbinda sig í þessu skyni til … að taka mið af vernd og framgangi mannréttinda fatlaðs fólks við alla stefnumótun og áætlanagerð.

5. gr. samningsins hefur yfirskriftina Jafnrétti og bann við mismunun og hljóðar svo:

1. Aðildarríkin viðurkenna að allir menn eru jafnir fyrir og samkvæmt lögum og eiga rétt á jafnri vernd og jöfnum hag lögum samkvæmt án nokkurrar mismununar.

2. Aðildarríkin skulu banna hvers kyns mismunun á grundvelli fötlunar og tryggja fötluðu fólki jafna og skilvirka réttarvernd gegn mismunun af hvaða ástæðu sem er.

3. Aðildarríkin skulu, í því skyni að stuðla að jöfnuði og uppræta mismunun, gera allar viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að fötluðu fólki standi viðeigandi aðlögun til boða.

4. Eigi ber að líta á sértækar ráðstafanir, sem eru nauðsynlegar til þess að flýta fyrir eða ná fram jafnrétti til handa fötluðu fólki í reynd, sem mismunun samkvæmt skilmálum samnings þessa.

Í ljósi þessa, og í tengslum við stefnumótun í lýðheilsumálum, er ástæða til að vekja sérstaklega athygli á skyldu stjórnvalda „til að tryggja að fötluðu fólki standi viðeigandi aðlögun til boða. Sé það ekki gert telst vera um mismunun á grundvelli fötlunar að ræða.

Hað átt er við með viðeigandi aðlögun er skýrt í 2. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, en þar segir:

“Viðeigandi aðlögun“ merkir nauðsynlegar og viðeigandi breytingar og lagfæringar, sem eru ekki umfram það sem eðlilegt má teljast eða of íþyngjandi, þar sem þeirra er þörf í sérstöku tilviki, til þess að tryggt sé að fatlað fólk fái notið eða geti nýtt sér, til jafns við aðra, öll mannréttindi og mannfrelsi.

Þetta felur m.a. í sér að mikilvægt er að huga sérstaklega að því við útfærslu og innleiðingu stefnunnar og þeirra verkefna sem af henni mun leiða að sérstaklega sé gætt að því að upplýsingar skili sé til fólks með þroskahömlun og/eða einhverfu og sé á formi sem er því aðgengilegt, til dæmis með því að hafa upplýsingar á auðlesnu máli og tryggja að fötlun sé ekki útilokandi þáttur þegar kemur að því að nýta sér úrræði, t.d. vegna skorts á viðeigandi stuðningi eða aðgengi.

Samtökin lýsa yfir áhuga á því að koma á fund ráðuneytisins til að gera frekari grein fyrir afstöðu sinni og áherslum og vísa í því sambandi til 3. tl. 4. gr. samnings SÞ þar sem segir:

Þegar aðildarríkin undirbúa löggjöf sína og stefnu samningi þessum til framkvæmdar og vinna að því að taka ákvarðanir um málefni sem varða fatlað fólk skulu þau hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, einnig fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.

Virðingarfyllst.

Anna Lára Steindal, verkefnisstjóri í málefnum barna, ungmenna og fólks af erlendum uppruna.

Afrita slóð á umsögn

#2 Krabbameinsfélag Íslands - 02.03.2021

Í viðhengi er umsögn frá Krabbameinsfélagi Íslands.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#3 Lyfjafræðingafélag Íslands - 02.03.2021

Hér í viðhengi er umsögn Lyfjafræðingafélag Íslands

Kv.

Inga Lilý

Formaður LFÍ

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#4 Aðalsteinn Gunnarsson - 02.03.2021

Umsögn Æskunnar um drög að tillögu til þingsályktunar um lýðheilsustefnu til ársins 2030. Mál nr. 47/2021 Birt: 17.02.2021

Æskan barnahreyfing er hreyfing byggð á traustum grunni og hefur unnið á Íslandi síðan 9. maí 1886. Meginviðfangsefni samtakanna er forvarnastarf, en auk þess skipa mannúðar-, friðar- og menningarmál og umhverfisvernd veigamikinn sess í stefnu þeirra og starfi. Félagar Æskunnar eru kjarninn í samtökunum og á þeim byggist starfið hverju sinni. Innan samtakanna starfa stúkur, eins og deildir og félög innan samtakanna eru kölluð, og litlir hópar um ákveðin viðfangsefni. Nýir félagar geta gengið til liðs við starfandi deildir, gerst beinir félagar að samtökunum án þess að vera félagar í ákveðinni deild, eða stofnað nýja deild og valið sér eitt eða fleiri verkefni til að vinna að.

Æskan lýsir yfir ánægju sinni með að unnið sé að nýrri stefnu þar sem í forgrunni eru heilsuefling og forvarnir sem miða að því að viðhalda og bæta heilbrigði allra. Sérstaklega er ánægjulegt að stefnt sé að því að lýðheilsustarf verði á heimsmælikvarða en eitt verk þar er okkur efst í huga. „Íslenska módelið“ er á heimsmælikvarða í forvörnum, svo flott að það er útflutningsvara þar sem erlendir heilbrigðisstarfsmenn, forvarnasamtök, stofnanir og sérfræðingar eru að taka það upp um víða veröld. Æskan hefur unnið með fyrsta stigs forvarnir í grasrót samfélagsins og telur mikilvægt að það fari saman með því sem er gert opinberlega og inni á stofnunum.

Til þess að framtíðarsýnin verði að veruleika þarf að tryggja að lagaumhverfið haldi vel utan um samfélagið og þær forvarnir sem lagt er af stað með. Á tímum faraldurs kórónavírusins stóðu yfirvöld þétt með samfélaginu og takmörkuðu verulega aðgengi að áfengi til að draga úr útbreiðslunni vegna þess að áfengi er engin venjuleg neysluvara. Hafa þarf til hliðsjónar Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, Barnasáttmálann og þau gildi sem samfélagið stendur fyrir. Setjum forvarnir í þann forgang sem þær eiga skilið.

Æskan lýsir yfir áhuga á því að senda fulltrúa á fund ráðuneytisins til að gera frekari grein fyrir afstöðu sinni og áherslum

Virðingarfyllst.

Aðalsteinn Gunnarsson framkvæmdastjóri Æskunnar.

Afrita slóð á umsögn

#5 Barnaheill - Save the Children á Íslandi - 02.03.2021

Umsögn Barnaheilla - Save the Children á Íslandi um drög að tillögu til þingsályktunar um lýðheilsustefnu til ársins 2030.

Barnaheill – Save the Children á Íslandi þakka fyrir boð um að senda inn athugasemdir við ofangreint mál.

Samtökin fagna því að fram sé að koma ný lýðheilsustefna og gera eftirfarandi tillögur að úrbótum og breytingum:

Í drögum þingsályktunartillögunnar kemur m.a. fram að með lýðheilsu sé átt við heilsueflingu og forvarnir sem miða að því að viðhalda og bæta heilbrigði fólks. Barnaheill benda á að einnig þarf að tilgreina að ekki eigi einungis að viðhalda og bæta heilbrigði, heldur koma í veg fyrir hvers kyns sjúkdóma sem lífsstíll, lífskjör og/eða önnur staða getur valdið. Víðtæk og öflug fræðsla um heilbrigði og vellíðan er mikilvæg í námi barna frá upphafi leikskólagöngu og tryggja þarf að foreldrar séu upplýstir um mikilvægi þess að stuðla að heilbrigðum lífsháttum barna sinna.

Einnig kemur fram að stuðla eigi að markvissri heilsueflingu og forvörnum, á réttum stöðum innan heilbrigðisþjónustu, m.a. með ráðgjöf um heilbrigða lifnaðarhætti og forvarnir fyrir einstaklinga og hópa, m.a. á sviði næringar, hreyfingar, geðræktar, tannverndar, kynheilbrigðis, áfengis- vímu- og tóbaksvarna.

Barnaheill vilja árétta að tryggja þarf jafnræði og félagslegt réttlæti til að allir hafi kost á að nýta sér þessa þjónustu sem talin er upp. Félagsleg staða, s.s. fátækt getur komið í veg fyrir það.

Í þingsályktunartillögunni kemur fram að stjórnvöld skuli stuðla að því að allir hafi viðeigandi þekkingu og færni til að taka upplýstar ákvarðanir um heilsueflingu og forvarnir og geti þannig betur borið ábyrgð á eigin heilsu, svo sem með því að auka heilsulæsi og færni almennings með markvissum hætti, m.a. með fræðslu í heilsugæslu og í menntakerfi landsins.

Barnaheill taka undir það sem hér er sagt en jafnframt vilja samtökin nefna að viðeigandi þekking er ekki nóg fyrir alla, heldur er stuðningur nauðsynlegur fyrir þá sem ekki hafa forsendur til að tileinka sér heilsulæsi eða færni til að bera ábyrgð á eigin heilsu.

Lýðheilsustefnan þarf að byggja á Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, eins og fjallað er um í greinargerð með tillögunni, tryggja þarf jafnræði, jöfnuð og félagslegt réttlæti þegar unnið er að lýðheilsumálum og í heilbrigðisþjónustu. Að uppræta fátækt, efla þekkingu á heilbrigðum lífsháttum og stuðla að valdeflingu er ein besta leiðin til þess. Jafnframt þarf að tryggja að þeir sem veita þjónustuna hafi frumkvæði að því en ekki sá sem þarf og þiggur þjónustu, þar sem ekki hafa allir forsendur til þess. Til þessa hafa kerfi verið flókin og fólk ekki vitað af rétti sínum eða þjónustu sem er í boði, mikill tími hefur farið í öflun upplýsinga og leit að þjónustu. Þetta á ekki síst við um foreldra sem eignast börn með einhvers konar frávik eða sjúkdóma. Mikilvægt er að bæta það.

Í greinargerðinni er fjallað um að efnahagslegir, félagslegir og umhverfisþættir geti haft áhrif á lýðheilsu. Barnaheill taka undir það og árétta mikilvægi þess að litið sé á lýðheilsu út frá rétti einstaklinga, þ.m.t. barna til að njóta besta mögulega heilsufars, sbr. 24. gr. Barnasáttmálans.

Barnaheill vinna að bættum mannréttindum barna og hafa Barnasáttmálann að leiðarljósi í öllu sínu starfi.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#6 Öryrkjabandalag Íslands - 02.03.2021

Meðfylgjandi er umsögn Öryrkjabandalags Íslands, ÖBÍ.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#7 Samband íslenskra sveitarfélaga - 02.03.2021

Góðan daginn

Meðfylgjandi er umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Virðingarfyllst,

Bryndís Gunnlaugsdóttir

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#8 Kjartan Hreinn Njálsson - 02.03.2021

Sjá umsögn embættis landlæknis í viðhengi.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#9 Inga Þórsdóttir - 02.03.2021

Sjá meðfylgjandi skjal. Óskað er eftir samtali eða fundi. F.h. Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands, Inga Þórsdóttir

Viðhengi