Samráð fyrirhugað 17.02.2021—01.03.2021
Til umsagnar 17.02.2021—01.03.2021
Niðurstöður í vinnslu frá 01.03.2021
Niðurstöður birtar 26.11.2021

Drög að frumvarpi til laga um breytingu á hjúskaparlögum nr. 31/1993

Mál nr. 48/2021 Birt: 17.02.2021 Síðast uppfært: 26.11.2021
  • Dómsmálaráðuneytið
  • Drög að frumvarpi til laga
  • Málefnasvið:
  • Fjölskyldumál

Niðurstöður birtar

Frumvarpið var lagt fram á Alþingi 25. mars 2021 en náði þá ekki fram að ganga. Frumvarpið verður lagt fram að nýju á 152. löggjafarþingi 2021-2022. Drög að frumvarpinu voru birt til umsagnar frá 17. febrúar til 1. mars 2021. Alls bárust fjórar umsagnir. Gerðar voru breytingar á frumvarpinu til þess að skýra efni frumvarpsins betur í nokkrum tilvikum þar sem talin var þörf á því með tilliti til tiltekinna athugasemda sem bárust.

Nánar um niðurstöður

Skjal að loknu samráði

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 17.02.2021–01.03.2021. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 26.11.2021.

Málsefni

Dómsmálaráðuneytið kynnir til umsagnar drög að frumvarpi til breytinga á hjúskaparlögum nr. 31/1993 (aldur hjónaefna, könnunarmenn og lögsaga í málum til hjónaskilnaðar).

Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ýmsum þáttum hjúskaparlaga. Lagðar eru til breytingar sem varða undanþáguheimild vegna lágmarksaldurs til þess að stofna til hjúskapar, könnun hjónavígsluskilyrða, lögsögu í hjónaskilnaðarmálum auk þess sem lagt er til að færa verkefni frá ráðuneytinu til sýslumanna.

Meginefni frumvarpsins

Aldur hjónaefna

Í fyrsta lagi er um að ræða breytingar á ákvæðum hjúskaparlaga varðandi aldur hjónaefna. Samkvæmt núgildandi lögum mega tveir einstaklingar stofna til hjúskapar þegar þeir hafa náð 18 ára aldri. Ráðuneytið getur veitt yngra fólki leyfi til að ganga í hjúskap enda liggi fyrir afstaða forsjárforeldra til hjúskaparstofnunarinnar. Lagt er til að afnumin verði undanþáguheimild frá því að einstaklingur yngri en 18 ára megi ganga í hjúskap. Einnig er lagt til að lögfesta meginreglu um viðurkenningu hjónavígslu sem stofnað er til erlendis. Lagt er til að lögin beri með sér að hjónavígslur einstaklinga yngri en 18 ára sem fara fram erlendis verði ekki viðurkenndar hér á landi nema samkvæmt ströngum undanþágum. Lagt er til að undanþágur verði einungis veittar í undantekningartilvikum með hliðsjón af hagsmunum þess sem var undir 18 ára. Þá verði alltaf að uppfylla þau skilyrði að einstaklingur hafi náð 16 ára aldri þegar hjónavígsla fór fram og hjúskapurinn verið viðurkenndur í því ríki þar sem hjónavígslan fór fram.

Könnun á hjónavígsluskilyrðum

Í öðru lagi er lagt til að könnun hjónavígsluskilyrða fari einungis fram hjá sýslumönnum, hvort sem hjónaefni eigi lögheimili hér á landi eða ekki. Þá er lagt til að ráðuneytið geti með reglugerð ákveðið að fela einu sýslumannsembætti umrætt verkefni. Þess ber að geta að vígsluheimildir presta og forstöðumanna trú- og lífsskoðunarfélaga og umboðsmanna þeirra verða óbreyttar samkvæmt lögum.

Lögsaga í hjónaskilnaðarmálum

Í þriðja lagi eru lagðar til breytingar á ákvæðum hjúskaparlaga varðandi lögsögu íslenskra stjórnvalda og dómstóla til þess að veita lögskilnað hér á landi í tilteknum tilvikum ef hvorugur aðili býr hér á landi og viðkomandi eru ekki íslenskir ríkisborgarar.

Færsla verkefna frá ráðuneytinu til sýslumanna

Í fjórða lagi eru lagðar til breytingar sem snúa að því að færa verkefni frá ráðuneytinu til sýslumanna.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Siðmennt,félag siðrænna húmanista á Íslandi - 26.02.2021

Hjálögð er umsögn Siðmenntar, félags siðrænna húmanista á Íslandi, um drög að frumvarpi til laga um breytingu á hjúskaparlögum.

Fyrir hönd Siðmenntar,

Inga Auðbjörg K. Straumland

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#2 Sýslumaðurinn á Vestfjörðum - 26.02.2021

Umsögn Sýslumannafélags Íslands, dags. 26. febrúar 2021, um mál nr. 48/2021.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#3 Inga Hrund Gunnarsdóttir - 28.02.2021

Sjálfvirk rafræn hjúskaparvottorð.

Í frumvarpinu kemur fram kostnaður sem verður til vegna starfsmanns sem þarf að sjá um könnun hjónavígsluskilyrða. Betra væri að leggja í fjárfestingu í forriti t.d. á island.is, sem myndi sjá sjálfkrafa um rafrænt vottorð fyrir fólk sem er með íslenskan ríkisborgararétt á leið í hjúskap með Íslendingi. Í langflestum tilfellum er hægt að sækja þessar upplýsingar (um hjúskap og þjóðerni) úr kerfum Þjóðskrár án þess að mannshöndin komi nálægt og færa svo upplýsingarnar í gátt sem sýslumenn og forstöðumenn trú- og lífsskoðunarfélaga fá svo aðgang að.

Ég skil að það gæti þurft að kanna málin betur af annar eða báðir aðilar eru útlenskir, að þá þurfi starfsmaður að kanna málið.

Þetta myndi t.d. leysa mál ef fólk vill ganga hratt í hjúskap t.d. ef annað þeirra er dauðvona og eftir að stofnkostnaður hefur verið greiddur ætti verð vottorðanna að lækka fyrir hinn almenna borgara.

Afrita slóð á umsögn

#4 Þjóðskrá Íslands - 01.03.2021

Meðfylgjandi er umsögn Þjóðskrár Íslands við mál nr. 48/2021

Viðhengi