Samráð fyrirhugað 18.02.2021—31.05.2021
Til umsagnar 18.02.2021—31.05.2021
Niðurstöður í vinnslu frá 31.05.2021
Niðurstöður birtar 24.08.2021

Borgarlínan - Forkynning á vinnslutillögu fyrir breytingu á Aðalskipulagi Kópavogs 2012-2024 og Reykjavíkur 2010-2030

Mál nr. 49/2021 Birt: 18.02.2021 Síðast uppfært: 27.08.2021
  • Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið
  • Annað
  • Málefnasvið:
  • Samgöngu- og fjarskiptamál

Niðurstöður birtar

Að ósk sveitarfélaganna voru vinnslutillögurnar birtar í samráðsgáttinni og óskað eftir athugasemdum og ábendingum. Úrvinnsla niðurstaðanna fer fram hjá sveitarfélögunum og verkefnastofu Borgarlínu hjá Vegagerðinni, og hafa gögnin verið afhend forstöðumanni verkefnastofu Borgarlínunnar.

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 18.02.2021–31.05.2021. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 24.08.2021.

Málsefni

Kópavogur og Reykjavíkurborg kynna drög að breytingu á aðalskipulagi sveitarfélaganna í samræmi við 2. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Ábendingar og athugasemdir skal senda á netfangið skipulag@kopavogur.is, skipulag@reykjavik.is og á samráðsgáttina.

Drög að breytingartillögum í Kópavogi og Reykjavík fjalla um tillögu að legu Borgarlínunnar og tillögur að staðsetningu kjarnastöðva. Í drögum að skipulagsgögnum eru jafnframt kynntar hugmyndir að leiðbeinandi staðsetningum almennra stöðva, viðmiðum um hönnun göturýmis og forgang almenningssamgangna og virkra ferðamáta. Í drögum fyrir Reykjavík eru jafnframt kynnt áform um Sæbrautarstokk og Miklubrautarstokk. Umhverfisskýrsla er hluti af drögunum, sem fjallar um helstu umhverfisáhrifin m.v. fyrirliggjandi gögn.

Frumdrög að Borgarlínunni eru fylgigögn með skipulagsgögnunum. Í þeim er hægt að finna ítarlegri upplýsingar m.a. um ákvörðun um Borgarlínuna, framkvæmdakostnað, hönnunarforsendur, legu, valkosti, umferðarspá og umhverfisáhrif. Frumdrögin eru aðgengileg á www.borgarlinan.is.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Valgerður P Maack - 16.04.2021

Færa stoppustöð Borgarlínu eins nálægt Hlíðarenda og hægt er

Afrita slóð á umsögn

#2 Kári Kristinsson - 16.04.2021

Stoppustöð Borgarlínu hjá Öskjuhlíð þyrfti að vera eins norðarlega og hægt er. Með því að færa stöðina frá Arnarhlíð er verið að færa hana frá tómstundarstarfi barna og þéttari byggð við Hlíðarenda. Einnig virðist skipulagið vera þannig núna að börn þurfa að fara yfir götu til að komast í íþróttastarf Vals.

Afrita slóð á umsögn

#3 Eyrún Pétursdóttir - 16.04.2021

Það þarf að vera Borgarlínustoppistöð í Arnahlíð. Með því að hafa stoppistöð við Arnarhlíð mun borgarlínan nýtast mun betur þeim mikla íbúarþéttleika sem ætlað er þar að búa auk þeirrar þjónustu og verslana sem þar er gert ráð fyrir. Það að hafa stoppistöð í Arnarhlíð mun auk þess laða að fyrirtæki, verslanir og þjónustu í öll þau athafnarými sem byggð hafa verið á jarðhæðum Hlíðarenda. Með því að hafa stoppistöð í Arnarhlíð nýtist hún auk þess öllum iðkendum Vals og öllu því íþrótta- og tómstundastarfi sem þar fer fram mun betur auk þess að auka líkur á að íbúar Hlíðanna sunnan Miklubrautar noti þennan legg Borgarlínunnar. Mun minni þéttleiki byggðar er í kringum fyrirhugaða stoppistöð Borgarlínunnar aðeins sunnar á leiðinni og ef ekki er vilji fyrir að fjölga stoppistöðum á þessum legg borgarlínunar teldi ég því að færa ætti þá stoppistöð inn í Arnarhlíð enda mun einnig öll sú uppbygging sem skipulögð hefur verið á næstunni byggjast upp á og við Hlíðarenda. Það er hálf grátbroslegt að láta Borgarlínuna ganga í gegnum Hlíðarendahverfið en stoppa ekki í því.

Afrita slóð á umsögn

#4 Jónmundur Kjartansson - 16.04.2021

Legg eindregið til að stoppistöð, sem nú er áætluð sunnan við Nauthólsveg, verði færð inn í Arnarhlíð. Á Valssvæðinu er risin fjölmenn íbúðabyggð, þar verða verslanir og önnur þjónusta, auk mikilla íþróttaumsvifa hjá Val. Stoppistöð mun því nýtast miklu betur með staðsetningu í Arnarhlíð.

Afrita slóð á umsögn

#5 Áslaug Sigurðardóttir - 16.04.2021

Ég ôska eftit að borgarlínan stoppi í Arnarhlíðinni en keyri ekki í gegn þar àn þess að stoppa, þetta verður þèttbílt svæði og finnst mér mjög undarlegt af það á ekki að vera stoppustöð þar sem flestir íbúar búa og verslanir verða. Þetta er stórmál fyrir þessa byggð að hafa samgöngur þar sem þarf ekki að fara yfir stôrar umferðargötur bæði fyrir börn og fulloðna, og stutt sé ut á biðstöð.

Afrita slóð á umsögn

#6 Daníel Gauti Georgsson - 16.04.2021

Borgarlínan og stoppustöðvar hennar verða að vera í takt við íbúafjölda og þjónustu hvers staðar fyrir sig.

Þess vegna er ég mjög hissa á staðsettningu stoppustöðva í kring um Hlíðarenda. Það verður að vera stoppustöð við Arnarhlíð fyrir alla íbúa hverfisins, fólksins sem mun nýta sér verslanir og þjónustu á svæðinu, einnig allra sem munu sækja íþróttaleiki á Hlíðarenda. Því legg ég það til að það verði bætt við stoppustöð í Arnarhlíð eða sú sem er fyrirhuguð við húsnæði Icelandair verði færð í Arnarhlíð.

Afrita slóð á umsögn

#7 Linda Ósk Sigurðardóttir - 17.04.2021

Ég var að skoða stoppustöðvar borgalínuna og það kom mér á óvart að stoppið í Arnahlíð væri tekið út ég er leikskólakennari í Engihlíð og við sáum fyrir okkur að það væri miklu betra að fara í Arnarhlíð til að taka borgarlínuna heldur en fara á Landspítalann í allri umferðinni. Svo við ræðum ekki alla sem koma á íþróttaatburði hjá Val það væri meiriháttar að losna við alla bílaumferðina ef fólk gæti tekið borgarlínuna t.d úr. KR hverfinu og stoppað svo við Valsheimilið. Ef maður er að gera eitthvað þá á maður að gera það vel! svo bæta við einni stoppustöð við Arnarhlíð takk:)

ps. Annars finnst mér lækkun hámarkshraða frábær og get ekki beðið eftir borgarlínunni

kv

LOS

Afrita slóð á umsögn

#8 Sigríður Elísa Eggertsdóttir - 17.04.2021

Sem íbúi á Hlíðarenda hef ég fylgst með þróun þessa verkefnis þar sem Borgarlínan á að keyra í gegnum hverfið. Eftir að áætlanir um stoppustöð í Arnarhlíð veru teknar út stefnir í að verkefnið verði mjög misheppnað hér á svæðinu. Línan mun liggja mitt í gegnum hverfi sem stefnir í að verða það þéttbýlasta á landinu og með tugþúsundir fermetra af atvinnuhúsnæði þegar það er fullbyggt. Það er algjör brandari að línan eigi að keyra hérna í gegn án þess að stoppa og missa þannig af góðri tengingu við þær þúsundir íbúa og atvinnurými á stærð við hálfa Kringlu. Til að toppa vitleysuna á hún þess í stað á hún að stoppa á mun dreiðbýlla svæði sunnar, við Hótel Loftleiðir þar sem tækifæri til uppbyggingar eru mjög takmörkuð næstu áratugi á meðan ekki næst að færa burtu flugvöllinn og íbúar verða mun færri en kringum Arnarhlíð. M.v. þessar áætlanir má færa rök fyrir því að lega borgarlínunnar gegnum hverfið sé mikill ókostur fyrir Hlíðarendahverfið því þessari umferð fylgir hávaði og atvinnurýmin við Arnarhlíð missa bílastæðin meðfram götunni án þess að línan þjónusti hverfið á fullnægjandi hátt.

Áætlað bil milli stoppustöðva LSH-Öskjuhlíð-HR er töluvert lengra en annarstaðar í þessum borgarhluta og því vel hægt að bæta við stoppustöð í Arnarhlíð. Ef það þarf endilega að fækka stöðvum þá er miklu skynsamlegra að fella út stoppið við Öskjuhlíð þar sem flestir væntanlegir notendur á svæðinu munu eiga erindi í Hlíðarendahverfið. Stöðina mætti staðsetja syðst í Arnarhlíð þannig að hún geti einnig þjónustað Loftleiðasvæðið vel (og þá séŕstaklega fyrirhugaða uppbyggingu nyrst á því svæði) og námsmannaíbúðir HR við Nauthólsveg.

Eftir því sem stöðin er höfð sunnar versnar tengingin við fleiri íbúa, fleiri atvinnufermetra og einnig íþróttastarf Vals.

Mikil óánægja er um þessi breyttu áform meðal íbúa hverfissins og treysti ég því að þetta verði tekið til endurskoðunar.

Afrita slóð á umsögn

#9 Gunnar Steinn Aðalsteinsson - 19.04.2021

Ekki viss hvort umsögnin mín barst fyrir helgi svo ég ætla að prófa aftur. Setti inn smá viðbætur í leiðinni.

Góðan dag

Ég hef verið stórnotandi strætó síðustu árin og nota hann við sem flest tilefni svo þaðan fæ ég áhuga á þessu verkefni. Ég er einnig nýfluttur í norvesturhluta Hlíðarendahverfis svo ég hef horft sérstaklega á áform um Borgarlínu á því svæði.

Ég tel skynsamlegt við val á staðsetningu Öskjuhlíðar stoppustöðvarinnar að reyna að hafa hana eins norðarlega og kostur er, helst í Arnarhlíð. Ef maður skoðar 400 m radíus út frá stoppustöðinni (sjá meðf. mynd úr frumdragaskýrslu) þá sést að hlutfall íbúa og atvinnufermetra er miklu miklu hærra í norður helmingi hringssins heldur en í suðurhlutanum sem er mun strjábýlli. Þessi munur mun síðan aukast eftir að búið er að byggja á reitum A, G og H (sem lendir reyndar utan 400 m radíussins) og síðan á fyrirhuguðum uppbyggingarreitum á norðurhluta Loftleiðasvæðis.

Ef stöðin er höfð of sunnarlega er styttra fyrir íbúa nyrst í hverfinu að ganga yfir Hringbraut til að taka Borgarlínuna við LSH en þá þarf að komast yfir Hringbraut. Þá yrði tengingin við íþróttastarf Vals á Hlíðarenda lakari og styttra fyrir notendur þess að ganga frá stoppustöð við LSH hinum megin við Hringbraut sem getur varla talist góð þjónusta við það svæði.

Í stuttu máli tel ég að nýting Borgarlínunnar verði meiri því norðar sem þessi stoppustöð er höfð og því eigi að hugsa hana sem einhverskonar meðaltal af staðsetningu stöðvarinnar sem átti að vera í Arnarhlíð og stöðvarinnar við öskjuhlíð, t.d. öðruhvoru megin við gatnamótin við flugvallarveg, fyrir framan fyrirhugaða uppbyggingu á Loftleiðasvæði eða syðst í Arnarhlíð.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#10 Anna Lóa Ólafsdóttir - 20.04.2021

Til þess er málið varðar!

Það þarf að vera Borgarlínustoppistöð í Arnahlíð en ekki eingöngu þarna móts við Loftleiðir. Með því að hafa stoppistöð við Arnarhlíð mun borgarlínan nýtast mun betur þeim mikla íbúarþéttleika sem ætlað er þar að búa auk þeirrar þjónustu og verslana sem þar er gert ráð fyrir. Þar fyrir utan mun það laða að fyrirtæki, verslanir og þjónustu í öll þau athafnarými sem byggð hafa verið á jarðhæðum Hlíðarenda. Með því að hafa stoppistöð í Arnarhlíð nýtist hún auk þess öllum iðkendum Vals og öllu því íþrótta- og tómstundastarfi sem þar fer fram mun betur auk þess að auka líkur á að íbúar Hlíðanna sunnan Miklubrautar noti þennan legg Borgarlínunnar.

Afrita slóð á umsögn

#11 Vilhjálmur Guðlaugsson - 27.05.2021

Grunnforsendur Borgarlínu er óbreytt ferðamynstur borgarbúa, þess vegna þurfi að grípa til nyrra lausna til að draga úr umferð.

Telja má að grunnforsendur séu brostnar því ætla má að verulega dragi úr umferð vegna breytinga á ferðamynstri, rökstyðja má þessa þróun með:

• Fjarfundabúnaði.

• Áhugi fyrir vinnu að heiman.

• Umsókn 9.000 aðila um 50 lóðir á Selfossi.

• Þróun erlendis, skrifstofuhúsnæði breytt í íbúðir vegna aukinnar heimavinnu.

6.5.2 Áhrif á loftslag

Áhrif á loftslag, nú þegar er rafbílavæðing landsmanna á fullu skriði, gera má ráð fyrir að yfir 90% einkabíla verði rafdrifnir 2035, Borgarlína mun þessvegna ekki hafa áhrif á CO2.

Afrita slóð á umsögn

#12 Óskar Guðmundsson - 28.05.2021

Daginn.

Ég er að velta fyrir mér hvernig sé hægt að leggja af stað í stóra og mikla för þegar að það er algjörlega ljóst að kostnaðarmat borgarlínu er skakkt og gott ef ekki hreinlega falsað.

Frumdrög voru verðlögð út frá þremur stofnleiðaframkvæmdum sem allt voru hverfatengingar. Ein yfir Úlfarsá og tvær á Arnarnesvegi. Hverfatengingar hafa jú ekki einn kostnaðarsamasta lið stórra gatnagerðaframkvæmda, hjáleiðir og ekki einast hjáleiðir heldur að efnisflutningar þurfa að vera um slíkar hjáleiðir. Slíku gætir ekki í hverfatengingum.

Hefum undirritaður nú í tvígang óskað svara frá Borgarlínu eftir að hafa þar fengið svar við fyrirspurn að annar verðbanki hafi verið notaður en að frumdrögum en enn sem komið er stendur á svörum (rúmur mánuður). Þetta er ekki sérlega flókin spurning um hvaða verðbanki er notaður en svarið gæti verið erfitt, sérstaklega þegar slíkt þarf að telja heildarkostnað á kílómetra sem hvergi hefur verið gefinn út enda á að sleppa til að byrja með nýjum höfuðstöðvum, geymslusvæði, þjónustusvæði, hleðslustöðvum og innkaupum á þeim vögnum sem á að nýta.

Þetta virðist vera einn allsherjar feluleikur og ætlunin að villa um fyrir almenningi þar til að og seint er orðið að snúa við.

Athuga skal að fjármögnun er ekki líkleg að liggja fyrir á næstunni enda kosningar að hausti og ný stjórn leggur ekki til nýjqa skatta fyrr en á öðru eða þriðja ári.

Heldur undirritaður fyrirvara með birtingu á umsögn þessari í fjölmiðlum ef hún skyldi "týnast".

Kkv, Óskar Guðmundsson.

Afrita slóð á umsögn

#13 Jón Sigurðsson - 30.05.2021

Frábær framkvæmd og vel að henni staðið. Þessi framkvæmd á eftir að stórbæta samgöngur í Kópavogsbæ og tengingar við önnur sveitarfélög.

Afrita slóð á umsögn

#14 Una Eyþórsdóttir - 30.05.2021

Líst ver á þessa framkvæmd, vel útfærð og á eftir að koma samgöngum í betra horf.

Afrita slóð á umsögn

#15 Þorsteinn Valur Baldvinsson - 30.05.2021

Erfitt er að finna greiningu á sjúkraflutningum inn á höfuðborgarsvæðið eða innan svæðis en vegna hagræðingar í heilbrigðiskerfi hefur fjöldi flutninga aukist sem og vegalengdir er farnar eru með sjúklinga í sjúkrabifreiðum.

Samkvæmt rannsóknum eru skýr tengsl á milli flutningsvegalengdar í sjúkrabifreið og lífslíkna og skýrt að það verður meira um andlát við aukna vegalengd og aukin tíma.

Nú er verið að byggja upp nýjan Landspítala fyrir tugi miljarða við Hringbraut og Vatnsmýrarveg, þangað stefna þá allir neyðarflutningar með sjúklinga og vert að horfa á hvað margir flutninga koma frá Suðurnesjum, Suðurlandi og Vesturlandi.

Það þyrfti að tryggja með lögum að einstaka sveitarfélög hafi ekki heimildir til að auka umferðarþunga á aðal flutningsleiðum fyrir neyðarakstur né gera annað það sem eykur viðbragðs og flutningstíma sjúkrabifreiða eða ógnar öryggi flutninga án þess að annar valkostur og betri fyrir þessa flutninga verði tryggður.

Tryggar flutningaleiðir eru margfalt mun meira hagsmunamál fyrir þessa flutninga en staðsetning í nánd við flugvöll er horft er á fjölda neyðarflutninga og hvaðan þeir koma.

Það hefur ítrekað gerst að andlát hafa átt sér stað í sjúkrabifreiðum sem koma frá Suðurnesjum vegna þess að á því svæði er ekki full mönnuð bráðamóttaka þrátt fyrir að íbúafjöldi sé kominn yfir 28.195

Á Vesturlandi búa 16.710 og á Suðurlandi búa 31.388, allur þessu hópur 76.293 landsmanna búa við þá staðreynd að eina fullbúna bráðamóttakan er staðsett í Reykjavík þar sem við sjúkraflutningsmönnum taka umferðartafir og aðrar hindranir á flutningum sem kosta mannslíf og skýrt er að stefnt er á að tefja þessa flutninga enn meira með ákvörðunum sem engar afleiðingar hafa fyrir þá sem þær taka þó þær kosti mannslíf.

Íbúafjöldin á landinu öllu er á fyrsta ársfjórðungi 2021. 368.792 þar af á höfuðborgarsvæðinu 237.470 og innan flutningsvegalengdar frá LSH 76.293 íbúar.

Svæði með 313.763 íbúa eiga því nánast allt sitt undir því að trygg flutningsleið sé fyrir sjúkrabifreiðar að bráðamóttöku við Hringbraut sem og Fossvogi á meðan hún er í notkun.

Bráðamóttökur á Selfossi, Akranesi eða Keflavík eru ekki mannaðar til neyðaraðgerða með möguleika á uppskurði vegna til dæmis fylgjulos allan sólahringinn, þær eru frekar flokkunarstöðvar fyrir framhaldsflutninga.

Boðanir SHS vegna sjúkraflutninga námu 32.979 árið 2020 sem er aukning um 793 boðanir á milli ára og þar af voru 8.221 forgangsútköll.

Fjöldi sjúkraflutninga á svæðum HVE, HSS og HSU er erfitt að finna enda ekki haldið á forsíðum.

Ekki má horfa framhjá því að ef farþegaflugvél laskast á Keflavíkurflugvelli er viðfangsefni fyrir sjúkraflutninga komið upp fyrir þolmörk og næsta alvöru móttaka er í Reykjavík

Það er því mikilvægt að verja með lögum tryggar flutningsleiðir og öryggi þeirra, bæði vegna sjúklinga og þeirra starfsmanna sem flutninga annast.

Tuga miljarða fjárfestingu í nýjum Landspítala má ekki stór skaða með þröngsýni

Afrita slóð á umsögn

#16 Ingibjörg Jóna Guðmundsdóttir - 30.05.2021

Jákvætt að almenningssamgöngur séu ígrundaðar í samráði við bæjarbúa. Tel mjög mikilvægt að halda Kársnesinu líka sem friðsælu náttúrusvæði, sérstaklega strandlengjunni sunnanvert sem er mjög ósnortin og með miklu fuglalífi og aðgangi að sjó.

Borgarholtsbrautin er þröng íbúagata og mikilvægt að hafa samráð við íbúa þar. Stöð við norðanverða Vesturvör hljómar vel með tengingu við hjólastíg á Kársnesi norðanverðu.

Afrita slóð á umsögn

#17 Kjartan Þór Kjartansson - 30.05.2021

Sem íbúi á Kársnesi skoðaði ég þessar tillögur út frá umhverfinu hér. En mér finnst mjög erfitt að átta mig út frá þessari tillögu hvernig breytingar á Borgarholtsbraut austan Kópavogsbrautar verða. Það vantar upplýsingar um í hvaða átt er horft á sniðmyndum en ég giska á að það sé í austur. Út frá því er ég ekki alveg að sjá hvernig verður pláss fyrir allar þessar akreinar á Borgarholtsbraut milli Urðarbrautar og Listabrautar.

Það mundi hjálpa að fá loftmynd þar sem sést hvernig akreinar og stígar breytast. Þannig mætti betur gera sér grein fyrir breytingunum.

Að endingu langar mig að benda á villu í skjalinu sem snýr að Kópavogi, en Reykjanesbraut liggur austan við Smáralind og því gæti reynst erfitt að tengja leið sem ekur hana um Hamraborg. Sömuleiðis hélt ég að Listabraut væri við Kringluna.

Afrita slóð á umsögn

#18 Susanne Miriam Arthur - 30.05.2021

Mér finnst Borgarlínan góða hugmynd, en mér er enn ekki alveg skiljanleg af hverju það sé nauðsynlegt að gera Borgarholtsbraut einstefna og eyðileggja bilstæði við götuna. Þótt rétt sé að mörg hús við Borgarholtsbrautina eru með stór loð og eiga pláss fyrir fleiri bíla gildir það alls ekki fyrir öll hús og sum, eins og okkar, eru bara með pláss fyrir tvo bila (fyrir tværi íbúðir—eitt stæði fyrir hvert íbúð). Þar að auki, með því að gera Borgarholtsbrautina einstefna lengjum við veg talsvert fyrir þá sem búa á Borgarholsbrautina en geta ekki nýta sér Borgarlínuna til að koma í vinnu, því að fólk þarf að keyra allan leið til endsins Kársnessins og svo til baka á Kársnesbrautina eða Kópavogsbrautina. Ég hef líka áhyggjur að sumir (sérstaklega þau sem búa við byrjun þar sem Borgarholtsbrautina verður einstefna) ákveða kannski bara að ekki fylgja umferðareglum og keyrum vitlaust eftir götunni til að stytta leiðina sína. Ég hef séð það oft gert við byrjun Melgerði og Vallagerði, og finnst mér það stórhættulegt fyrir gangandi eða hjólandi fólk.

Afrita slóð á umsögn

#19 Ómar Stefánsson - 30.05.2021

1. Ekki sprengja úr Bograrholtinu neitt fyrir breikkun á Borgarholtsbraut. Láta það duga sem er.

2. Vantar alla útreikninga á umferðar aukningu á Urðarbraut ef Borgarholtsbraut verður einstefna.

3. Ekki gera Borgarholtsbraut að einstefnu strax skoða hvort umferð hindri vagna of mikið í raun áður en það er gert.

4. Nota tveggja hæða vagna frekar en langa liðvagna. Það sparar í gerð á umferðarmannvirki (biðstöðvum).

5. Skoða betur legu hjólastíga í Kópavogsdal og Fossvogsdal. Óliklegt að fólk hjóli upp á hæðir ef það eru auðfarnir stígar í dalnum án bílaumferðar nærri.

6. Færa stoppstöð frá sundlaug Kópavogs að Borgarholtsbraut 39 og skólagerði (gera þá götu mögulega að einstefnu)

Afrita slóð á umsögn

#20 Þóra Marteinsdóttir - 30.05.2021

Legg til að Borgarlínan verði sett í stokk á Borgarholtsbraut. Skólabörn ganga yfir þessa götu mörgum sinnum á dag á leið í íþróttir og mikilvægt að tryggja öryggi þeirra.

Afrita slóð á umsögn

#21 Þórunn Björnsdóttir - 30.05.2021

Það er brýnt að setja Borgarlínuna í stokk milli Urðarbrautar og Bakkabrautar. Annars verður að beina borgarlínunni um Kópavogsbrautina.

Afrita slóð á umsögn

#22 Hulda Sif Ólafsdóttir - 30.05.2021

Sem íbúi á Kársnesinu í Kópavogi hef ég áhyggjur af því að Borgarlínan liggur í gegnum mitt íbúðahverfi, á tiltölulega þröngar götur sem börn ganga yfir á leið sinni í skóla. Því finnst mér mikilvægt að aksturshraði takmarkist við 30 km/klst og að ekki önnur ökutæki en strætisvagnar nýti sér leiðina yfir brúna milli Kársness og Öskjuhlíðar (nema reiðhjól og þess lags).

Miðað við þá umræðu sem hefur átt sér stað milli hverfisbúa virðast þetta vera samhljóma skoðanir, að bættar samgöngur séu litnar jákvæðu hugarfari, svo lengi sem þær auki ekki umferðaþunga um of og taki tillit til umferðaröryggis, þá sérstaklega með börn í huga.

Afrita slóð á umsögn

#23 Elín Hanna Pétursdóttir - 30.05.2021

Ef borgarlínan á að fara um Borgarholtsbraut er nauðsynlegt að tryggja öryggi barna sem ganga yfir Borgarholtsbraut á leið í og úr skóla og við leik í hverfinu.

Sem íbúa á Kársnesi og foreldri ungra barna þætti mér betri tilhugsun að hafa borgarlínuna ekki í gegnum mitt hverfið. Betri kostur væri að hafa borgarlínuna í gegnum Kársnesbraut og Vesturvör þar sem færri börn eru á ferli frá degi til dags.

Afrita slóð á umsögn

#24 Kristín Huld Sigurðardóttir - 30.05.2021

Meðfylgjandi er umsögn Minjastofnunar Íslands.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#25 Hulda Jónasdóttir - 30.05.2021

Það er alltaf jákvætt að endurbæta samgöngur. Hins vegar hlýtur það að vera mikil afturför að leggja hér meiriháttar umferðarmannvirki í gegnum kyrrlát íbúðahverfi, Kársnes sem tengt er fallegri náttúru allt í kring. Á árum áður var það mönnum mikið metnaðarmál að gæta hagsmuna bæjarbúa og haga staðsetningu stórra umferðarmannvirkja meðfram öðrum stofnæðum og beina umferð frá úthvefum góðri tengingu til hverfanna. Nefni sem dæmi Gjánna. Hér á hins vegar að stefna þungri umferð sem veldur hættu inn í slíkt hverfi. Betur færi á að skipuleggja slíkt mannvirki meðfram þeim stofnæðum sem fyrir eru. Borgarlína á betur heima neðan Fossvogskirkjugarðs með tengingu þar inn á stórar stofnæðar sem fyrir eru. Hjólastígatenging norðanmegin Fossvogs er alveg nauðsynleg og gott pláss neðan blokkana sem þar standa, á landfyllingu. Ég vil því skora á samgönguyfirvöld að tileinka sér sömu framsýni og var til staðar 1970 þegar gjáin var sett bæjarbúum til hagsbóta. Vinsamlega endurskoðið áform um að gjöreyðileggja hér dásamlegt hverfi.

Afrita slóð á umsögn

#26 Björgvin Þorgeir Hauksson - 30.05.2021

Ágætu skipulagsyfirvöld

Vil ég láta í ljós þá skoðun mína um legu borgarlínu eftir endilangri Borgarholtsbraut að hún vekur furðu mína og þá sérstaklega í ljósi þess að um er að ræða rótgróið, rólegt íbúahverfi og er engann veginn í takt við væntingar íbúa til síns nærumhverfis og þá staðreynd að sitthvoru megin við áætlaða leið eru tveir grunnskólar sem starfa á sitthvoru skólastiginu og töluverður umgangur barna á milli skólanna. Það þarf ekki neinn sérstakan sérfræðing til að sjá hvaða pláss er til umráða hér við götuna og allar kynntar breytingar þýða umtalsverð óþægindi og breytingar á tilverunni eins og hún er núna fyrir íbúa og þá sérstaklega hvað varðar bílastæði og leiðir í og út úr hverfinu. Þetta þarf að ræða.

Kynning á þessum framkvæmdum var haldin s.l. vetur fyrir íbúa götunnar, fjarfundur mitt í Covid faraldri og eftir því sem ég tók best eftir var mikið um umsagnir kynnenda líkt og ; stefnt er að, líklegt er og ekki er gert ráð fyrir og fl. í þeim dúr. Ég vænti þess að okkur íbúum við götuna verði kynnt NÁKVÆMLEGA hvers má vænta vegna þessara framkvæmda og hvaða áhrif þetta mun hafa til framtíðar, til að hægt sé að mynda sér skoðun á málinu. Það er ekki boðlegt að yfirvöld geti "laumað" svona málum í gegn án fulls samráðs við íbúa og algjörs gegnsæis um málið.

Ég sem íbúi við þessa götu er ekki tilbúinn til að taka á mig þau óþægindi og rask sem þetta mun valda þrátt fyrir að skv. skipuleggjendum muni þetta leysa gríðarlegan vanda annarra íbúa höfuðborgarsvæðisins, vanda sem ég sjálfur hef ekki orðið var við og tel mun minni og auðleysanlegri en látið er í veðri vaka.

Þannig að því er hér með komið á framfæri að það er algjör andstaða okkar íbúa að Borgarholtsbraut 78 við fyrirhugaðar framkvæmdir og er það mat mitt að svo sé um flest alla íbúa hér við götuna.

B.kv

Björgvin Hauksson

íbúi við Borgarholtsbraut

Afrita slóð á umsögn

#27 Helgi Guðjónsson - 31.05.2021

Meðfylgjandi umsögn er fyrir hönd Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur

Efni: Umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur um forkynningu á vinnslutillögu fyrir breytingu á Aðalskipulagi Kópavogs 2012-2024 og Reykjavíkur 2010-2030

Vísað er til bréfs Skipulagsstofnunar dags. 18. febrúar 2021 þar sem óskað er umsagnar Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur (HER) um forkynningu á vinnslutillögu fyrir breytingu á Aðalskipulagi Kópavogs 2012-2024 og Reykjavíkur 2010-2030. HER hefur farið yfir erindið og þau gögn sem því fylgja og gerir eftirfarandi umsögn.

Ítrekaðar eru eftirfarandi athugasemdir sem HER hefur komið á framfæri varðandi verkefnið í fyrri umsögnum:

HER telur að vel sé gerð grein fyrir framkvæmdinni og umhverfi hennar. Tekið verður á nauðsynlegum umhverfisþáttum í frummatsskýrslu. HER telur þó að gera þurfi sérstaklega grein fyrir þeim áhrifum sem framkvæmdin getur haft á lífríki Tjarnarinnar ef lega Borgarlínu um Fríkirkjuveg kallar á rask eða skerðingu. Í botnlögum Tjarnarinnar er staðfest þungmálmamengun og gætu framkvæmdir rótað upp botnleðju með neikvæðum afleiðingum fyrir lífríki. Sérstaklega skal gera grein fyrir muninum á umhverfisáhrifum þeirrar leiðar og öðrum valkostum á leggnum að Lækjargötu. Eins telur HER að fyrirhuguð lega Borgarlínu yfir Elliðavog kalli á nánari athugun. Svæðið er þegar undir miklu álagi vegna fjölda framkvæmda og meta þarf sérstaklega möguleg áhrif á lífríki auk mengunarhættu á framkvæmdatíma. Eins telur HER að gera ætti grein fyrir öðrum mögulegum valkostum fyrir legu línunnar á þessu svæði og bera umhverfisáhrif þeirra saman. Við fyrstu sýn er ekki að sjá að framkvæmdin kalli á starfsleyfi HER en kalli einstaka þættir hennar t.d. á niðurrif bygginga eða annarra mannvirkja er slíkt starfsleyfisskylt.

Í þeim tilvikum sem athugun á loftgæðum og hljóðvist leiðir í ljós aukið álag á viðkvæmum svæðum ætti að kanna möguleika á öðrum lagnaleiðum.

Vakin er athygli á að þann 28. desember 2020 kom út reglugerð nr. 1400 um mengaðan jarðveg og koma þar fram viðmiðunarmörk fyrir þungmála og lífræn efnasambönd fyrir landnotkun íbúðar- og atvinnuhúsnæðis. Ef komið er niður á mengaðan jarðveg þarf að tilkynna það til HER.

HER áskilur sér rétt til að koma með athugasemdir við málið á síðari stigum.

Virðingarfyllst

f.h. Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur

Helgi Guðjónsson

Heilbrigðisfulltrúi

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#28 Öryrkjabandalag Íslands - 31.05.2021

Meðfylgjandi er umsögn Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ).

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#29 Félag íslenskra bifreiðaeigenda - 31.05.2021

Meðfylgjandi er stutt umsögn frá Félagi íslenskra bifreiðaeigenda, FÍB.

Samgöngur á höfuðborgarsvæðinu

Stefna FÍB varðandi samgöngur á landi er að tryggja fjölbreytta valkosti og hreyfanleika með hagsýni, umhverfisvitund og öryggi vegfarenda að leiðarljósi. Borgarlínan og samgöngusáttmálinn falla vel um margt að samgöngusýn FÍB. FÍB leggst eindregið gegn hugmyndum um frekari hindranir á bílasamgöngur og að Borgarlínuverkefnið verði fjármagnað að stórum hluta með nýjum sköttum á notkun fjölskyldubílsins. Eðlilegra er að byggja brýr fremur en girðingar á leiðir almennings á höfuðborgarsvæðinu.

Áætlanir um Borgarlínuna og samgönguframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu eru metnaðarfullar og spennandi. FÍB telur að það þurfi að fara betur í samhæfingu samgöngumáta og auka við uppbyggingu vegamannvirkja til að mæta fyrirsjáanlegri fólksfjölgun. Einnig þarf að tryggja að flutningsleiðir sjúkrabifreiða og annarra bráðaliða séu öruggar og greiðar í borgarlandinu.

Orkuskipti í samgöngum ganga hratt og ör tækniþróun hefur dregið úr vistspori og aukið öryggi vegfarenda. Það þarf að taka þessar breytingar, nýjar snjalllausnir í samgöngum og áhrif kóvid heimsfaraldursins á vinnumarkaðinn betur inn í áætlanir um samgöngur í nánustu framtíð.

Virðingarfyllst

F.h. Félags íslenskra bifreiðaeigenda

Runólfur Ólafsson

Framkvæmdastjóri

Afrita slóð á umsögn

#30 Landssamtök hjólreiðamanna - 31.05.2021

Meðfylgjandi er umsögn Landssamtaka hjólreiðamanna (www.LHM.is) um Borgarlínan - Forkynning á vinnslutillögu fyrir breytingu á Aðalskipulagi Kópavogs 2012-2024 og Reykjavíkur 2010-2030.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#31 Þorkell Guðnason - 31.05.2021

Athugasemdir og hörð mótmæli eigenda allra fasteigna að Borgarholtsbraut 71, Kópavogi voru send innan frests á til þess ætlaðar addressur: Skipulags Kópavogs og Borgarlínu - skipulag@kopavogur.is og borgarlinan@borgarlinan.is - En þar sem það virðist ekki hafa skilað skjölunum í Samráðsgáttina eða þau voru ekki sýnileg hér - endur tek ég sendingu þeirra - Mótmælin og athugasemdirnar fylgja hér í viðhengi:

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#32 Ólafur Georgsson - 31.05.2021

Ég bý á Kársnesinu nánast við Borgarholtsbraut. Hér hefur fjölskyldan búið í nokkur ár og líkað vel. Kársnesið er enn alveg einstakt á höfuðborgarsvæðinu, þetta er rólegt hverfi, fremur öruggt fyrir börn og nokkuð útúr en þó stutt í allt og í raun tiltölulega miðsvæðis. Okkur hryllir við þeirri tilhugsun að taka hér í gegn eftir húsagötu þungaflutninga eins og nú stendur til. Ég hef ekkert á móti að stuðlað sé að umhverfisvænni samgöngum, enda notumst við bæði við rafmagnsbíl og rafmagnshjól á heimilinu. Það að beina þungaflutningum um Borgarholtsbraut verður hins vegar að teljast umhverfisspjöll og það algerlega gert á kostnað íbúa þar sem það eykur ónæði, heftir umferð bíla og eyðileggur bílastæði. Af hverju hefur ekki verið nein umræða um þetta? Það eru haldnar íbúakosningar um hvort setja eigi bekk, sandkassa eða rólu hér eða þar. En þegar á að umturna hverfinu með annarri eins framkvæmd, er það bara sett í gang og það var bara fyrir tilviljun að mér var bent á að ég gæti gert athugasemd hér. Er ekki rétt að setja þetta í almennilega grenndarkynningu og leyfa íbúum að koma að málinu áður en eitthvað er ákveðið? Ef af þessu verður, bresta í raun að hluta til forsendur fyrir að við fluttum hingað.

Ég mótmæli fyrirhuguðum áætlunum um að leggja þessa “borgarlínu” eftir Borgarholtsbraut.

Virðingarfyllst

Ólafur Georgsson