Samráð fyrirhugað 18.02.2021—03.03.2021
Til umsagnar 18.02.2021—03.03.2021
Niðurstöður í vinnslu frá 03.03.2021
Niðurstöður birtar

Frumvarp til laga um áhafnir skipa

Mál nr. 51/2021 Birt: 18.02.2021 Síðast uppfært: 19.02.2021
  • Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið
  • Drög að frumvarpi til laga
  • Málefnasvið:
  • Samgöngu- og fjarskiptamál

Niðurstöður í vinnslu

Umsagnarfrestur er liðinn (18.02.2021–03.03.2021). Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Niðurstöður samráðsins verða birtar þegar unnið hefur verið úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust.

Málsefni

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið kynnir til umsagnar drög að frumvarpi til laga um áhafnir skipa. Með frumvarpinu er gerð tillaga um ný heildarlög um áhafnir íslenskra skipa. Er markmiðið að einfalda löggjöfina um menntun og þjálfun, öryggisfræðslu, skírteini, lögskráningu, lágmarksmönnun, vinnu- og hvíldartíma, læknisvottorð, heilsu- og tryggingavernd, orlof, heimferðir, vinnuskilyrði o.fl.

Með frumvarpinu er lagt til að fern lög verði sameinuð:

Lög nr. 30/2007 um áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa.

Lög nr. 76/2001 um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa.

Lög 35/2010 um lögskráningu sjómanna.

Lög nr. 50/1961 um bryta og matreiðslumenn á farskipum og fiskiskipum.

Meginmarkmiðið með frumvarpinu er að sameina, samræma og einfalda lagaákvæði ofannefndra laga. Í nokkrum atriðum eru þó lagðar til efnisbreytingar á ákvæðum laganna út frá þeirri reynslu sem skapast hefur eftir gildistöku laganna og breytingum skv. alþjóðasamningum og EES-gerðum sem tekið hafa gildi gagnvart Íslandi síðan fyrrnefnd lög tóku gildi. Eftirfarandi breytingar eru lagðar til:

1. Lagt er til að felld verði niður ákvæði um undanþágunefnd og mönnunarnefnd og verkefni þeirra fengin Samgöngustofu, sjá 10. og 17. gr. frumvarpsins.

2. Lagt er til að kveða skýrar á um mönnun smáskipa, þ.e. skipa sem eru 15 metrar og styttri að skráningarlengd, þannig að fylgt verði svokallaðri 14 klst reglu á grundvelli 64. gr. sjómannalaga. Þegar útivist þeirra fer yfir 14 klst. verði áskilnaður um að ávallt séu 2 skipstjórnarmenn um borð með tilskilin réttindi og geti þeir jafnframt gegnt störfum vélavarðar hafi þeir tilskilin réttindi til þeirra starfa. Ástæðan er fyrst og fremst mikil slysatíðni þessara báta en skv. upplýsingum rannsóknanefndar samgönguslysa má rekja allt að 50 strönd smábáta til þess að sá sem var við stjórn skipsins sofnaði vegna þreytu og vinnuálags og hefur nefndin margoft komið með tillögur til úrbóta í þessu efni, sjá 17. gr. frumvarpsins.

3. Lagt er til að þegar eigandi skips skv. skipaskrá er lögskráður sem skipstjóri og er einn um borð í skipi þá sé ekki krafa um stýrimann þó útivist fari yfir 14 klukkustundir. Á þetta einungis við um siglingar á smáskipum.

4. Lagt er til að gildandi ákvæði 3. mgr. 12. gr. laga nr. 30/2007 um þjónustusamninga um viðhald vélbúnaðar smáskipa falli brott. Þessi framkvæmd hefur ekki tekist vel og talið nauðsynlegt að einhver um borð hafi lágmarksþekkingu um viðhald véla. Ekki hefur reynst vel að framfylgja eftirliti með að þessu viðhaldi hafi verið sinnt af þjónustuaðilum í landi, skip ganga kaupum og sölum á milli landshluta og útgerðarstaðir skipanna geta verið mjög breytilegir innan ársina. Þá er horft til tillagna í öryggisátt frá rannsóknarnefnd samgönguslysa í nokkrum málum, sjá 17. gr. og ákvæði til bráðabirgða.

5. Vinnu- og hvíldartími: Áréttað er í frumvarpinu að um vinnu- og hvíldartíma á fiskiskipum og öðrum skipum fari eftir ákvæðum 64. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 og að vaktafyrirkomulag og heildarmönnun skips skuli ávallt hagað þannig að vinnu- og hvíldartími áhafnar sé í samræmi við ákvæði laganna. Sjá 4. mgr. 17. gr., 20. og 23. gr. frumvarpsins

6. Lagt er til að sett verði ákvæði um að erlend skip sem notuð eru að staðaldri í íslenskri landhelgi (<12 sjómílur) verði að fylgja íslenskum lögum, EES gerðum og alþjóðasamningum á sama hátt og íslensk skip hvað varðar öryggismál, menntunar- og skírteiniskröfur, lágmarksmönnun og réttindi áhafnar. Sjá 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins.

7. Með frumvarpi þessu er lagt til að sett verði ákvæði um stjórnvaldssektir sem Landhelgisgæsla Íslands geti lagt á vegna brota á lögunum og reglum settum skv. þeim, sjá 31. gr. frumvarpins

8. Öryggisstjórnunarkerfi – fiskiskip: Ekki hafa verið sett ný ákvæði um þetta efni og er kallað eftir sjónamiðum hagsmunaðila.

9. Lögð er til breyting á ákvæðum um matsveina og bryta í 19. gr. þannig að miðað er við útivist skips en ekki stærð þess eins og gildir samkvæmt lögum í dag.

Tengd mál

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Páll Jóhann Pálsson - 26.02.2021

Umsögn um frumvarp til laga um áhafnir skipa.

Þessi umsögn er í samræmi við megintilgang frumvarpsins um að samræma og einfalda lög um áhafnir skipa.

7.grein Ekki er eðlilegt að svipta menn alfarið réttindum eftir fimm ár þó þeir hafi starfað við greinina í minna en tólf mánuði. Eðlilegra væri að réttindi myndu skerðast um t.d. eitt þrep eða þar um bil tímabundið.

Það má hinns vegar færa rök fyrir því að þeir sem hafa starfað minna en tólf mánuði síðustu fimm ár missi réttindi tímabundið til að gegna stöðu á stjórnunarsviði (samkvæmt skilgreiningu í 2. Grein 2. Töluliðar) t.d. Skipstjóri, yfirstýrimaður eða yfirvélstjóri eða þar til þeir hafa starfað í t.d. 12 mánuði undir stjórn yfirmanna á stórnunarsviði.

Það getur ekki verið eðlilegt að t.d.maður með Skipherraéttindi á varðskipi og langan starfsferil fái ekki endurnýjuð réttindi til að vera undirstýrimaður á smábát þó hann hafi verið skráður stýrimaður minna en 12 mánuði s.l. fimm ár.

Eða maður með full vélstjóraréttindi á öll sip fái ekki réttindi til að vera vélavörður á smáskipi þó svo að hann hafi verið skráður minna en 12 mánuði s.l. fimm ár,við endurnýjun skýrteinis.

10. grein Ekki er hægt að fallast á þau rök að það bæti skilvirkni og auki samræmi og sérhæfingu að leggja niður undanþágunefnd og mönnunarnefnd og færa alfarið inn í Samgönngustofu.

Þessar tvær nefndir hafa einmitt verið skipaðar af mönnum með þá sérþekkingu og reynslu sem til þarf til að leggja mat á hin ýmsu mál. Þessi þekking og reynsla þyrfti því að vera til staðar inni í Samgöngustofu.

15.grein Að hafa skítreinið um borð í rafrænum heimi er tímaskekkja þar sem starfsmenn lanhelgisgæslu og Samgöngustofu sjá allar þær upplýsingar um réttindamál skipverja í sínum gögnum auk þess sem skráning gengur ekki nema réttindi séu til staðar.

17.grein Sjálfsagt mál er að hafa tvo skipstjóramenntaða menn á smáskipum ef veiðiferð fer yfir 14 tíma. Það er hinns vegar nóg að hafa einn mann um borð með þekkingu og tilskilin réttindi á vélbúnað hvort sem veiðiferð er undir eða yfir 14 tímum.

Með því að sleppa kröfu um annan smáskipavélavörð má fallast á að afnema þjónustusamninga við þjónustuaðila í landi.

Undirritaður er mentaður vélfræðingur og skipstjóri og hefur starfað um borð og gert út smábáta í yfir 20 ár. Er nú starfsmaður og einn af eigendum Vísis hf sem gerir út stóra og litla línubáta.

Páll Jóhann Pálsson

Afrita slóð á umsögn

#2 Árni Bjarnason - 01.03.2021

Sjá í viðhengi.

Umsögn Félags skipstjórnarmanna, VM Félag vélstjóra og málmtæknimanna og Sjómannasambands Íslands

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#3 Halldór Árnason - 02.03.2021

Meðfylgjandi er álit um breytingu á: Frumvarpi til laga um áhafnir skipa. Word skjal tvær bls.

Afrita slóð á umsögn

#4 Halldór Árnason - 02.03.2021

Umsögn um: Frumvarp til laga um áhafnir skipa.

Góðan dag.

Ég undirritaður vil koma eftirfarandi atriðum á framfæri:

Að bátar undir 12 m og vélarstærð undir 249 KW fái að vera áfram vélstjóralausir, með því skilyrði að þeir hafi samning við smiðju. Þeir eru notaðir allt öðruvísi en 15 m bátar.

Skip eru flokkuð eftir lengdum; 8 - 10 m, 10 – 12 m og 12 – 15 m.

15 m bátar eru nýir af nálinni, á markaði og ef vel er að gáð, þá er líklega mesta slysatíðnin á þeim ofurbátum, miðað við fjölda þeirra. Staðreyndina tel ég vera, að slysin verða vegna þreytu og svefnleysis, en ekki sökum skorts á prófskírteinum.

Mér finnst hættulegt að setja alla báta undir 15 m undir sama hatt. Bátar sem eru nýlega smíðaðir eru margfalt stærri og allt öðruvísi, en bátar hafa verið fram að þessu. Þeir eru einnig gerðir út öðruvísi en hinir, þ. e. nánast upp á hvern dag ársins.

Ég vil biðja samgöngunefnd að kynna sér rekstrarfyrirkomulag báta undir 15 m.

Báturinn minn; Sæljómi BA 59 (2050) er innan við 12 m að mælingarlengd. Hann er með viðhaldssamning við smiðju. Vélarstærð er 115 KW og hann gengur 8 mílur. Ég vil taka fram að ég hef gert út fjóra báta á 50 ára tímabili, nú í maí 2021. Það hefur aldrei þurft að draga bát frá mér í land, en ég hef aðstoðað marga. Ef þetta frumvarp gengur í gegn, þá kemst ég ekki á sjó, því mig vantar vélstjóraréttindin.

Einnig má nefna að ég er á útkallslista á björgunarskipinu Verði II, hér á staðnum og fór síðast í útkall nú í janúar.

Mig langar að koma á framfæri tillögu varðandi mönnun smábáta, þegar verið er á sjó lengur en í 14 tíma:

Að ekki sé þörf á réttindamanni, sem öðrum manni um borð.

Skýring: Ég og fleiri sem höfum tekið með okkur byrjendur á sjóinn; þ.a.l. hafa viðkomandi ekki verið komnir með réttindi.

Mér finnst lágmarkið að greinin um mönnun fiskiskipa, miðist ekki eingöngu við stýrimannsréttindi, heldur einnig háseta. Getur háseti ekki staðið vakt?

Tveir skráðir um borð, það gefur hliðstætt öryggi, sem væntanlega er verið að sækjast eftir.

T.d. þegar maður er á línu eða grásleppu, þá er aldrei hægt að sjá það fyrir hversu langur róðurinn verður. Sá veiðiskapur er oft vaggan að byrjunarferli sjómanna.

Að fenginni reynslu af strandveiðunum; þá var ég einu sinni lengur en 14 tíma í róðrinum.

Það stóð ekki á viðbrögðum Fiskistofu: Ef þetta kæmi fyrir aftur, þá yrði veiðileyfið tekið af mér! Samt voru tveir skráðir um borð.

Eftirlit með smábátum er að verða all ískyggilegt.

Virðingarfyllst,

Halldór Árnason

Mýrum 8, 450 Patreksfirði

Afrita slóð á umsögn

#5 SVÞ-Samtök verslunar og þjónustu - 03.03.2021

Meðfylgjandi er umsögn SVÞ - Samtaka verslunar og þjónustu um drög að frumvarpi til laga um áhafnir skipa.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#6 Hilmar Snorrason - 03.03.2021

Sjá viðhengi með umsögn

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#7 Samtök ferðaþjónustunnar - 03.03.2021

Ágæti viðtakandi,

Í viðhengi er umsögn Samtaka ferðaþjónustunnar-SAF um frumvarp til laga um áhafnir skipa

Með góðum kveðjum

F.h. SAF

Gunnar Valur Sveinsson

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#8 Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) - 03.03.2021

Meðfylgjandi er umsögn SFS

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#9 Slysavarnafélagið Landsbjörg - 03.03.2021

Umsögn Slysavarnafélagsins Landsbjargar í viðhengi.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#10 Gísli Gunnar Marteinsson - 03.03.2021

17. Greinin í þessu frumvarpi er afar bagaleg og mun, að óbreyttu, draga verulegan dilk á eftir sér. Þessi 14 tíma regla þarf að fara af hjá öllum bátum. Til margra ára hafa smærri bátar ,,legið" úti án óeðlilegra áfalla. Núna, sem ekki þekktist fyrr, hefur tæknin og þar með öryggið aukist til muna með Ais-merki frá hverju skipi. Smærri bátar eru búnir öllum þeim ljósabúnaði sem nauðsynlegur er til að sýna hvað er verið að gera.

Það verður að láta mönnum það eftir að stýra sjálfir sínu róðrarmynstri. Hve illa er farið með olíu t.d. í strandveiðum vegna þess að ,,stóri bróðir" hefur sett 14 tíma róðrarreglu??

Menntun í skipsstjórn er nauðsynleg og ennfremur að hafa tekið námsskeið í vélstjórn en látum þar við sitja. Þetta er fínt svona. Uppistaðan af skipsströndum s.l. ár var ekki vegna þess að það vantaði mannskap með skýrteini um borð í bátana. Sennilega frekar vegna þess að menn hafa unnið of lengi og nota ekki einföldustu viðvaranir. T.d. í dýptarmælum.

Þessar mönnunarhugmyndir munu koma afar illa við t.d. grásleppuveiðimenn. Það er ekki eins og hásetar hafi beðið í biðröðum eftir að fá pláss á grásleppu en núna þarf að pikka þá úr ,,hópnum" sem hafa réttindi bæði á skip og vél. Eða vera eins og jójó og keyra í land fyrir 14 t. En má þá nokkuð fara af stað aftur fyrr en eftir 10 tíma??? Þetta mun gera þennan veiðiskap enn erfiðari en hann er.

Smá viðvörun: Ekki gera málin flóknari en þau eru nú þegar. Stoppa hér.

Afrita slóð á umsögn

#11 Samtök smærri útgerða - 03.03.2021

Meðfylgjandi er umsögn Samtaka smærri útgerða.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#12 Stefán Þór Kristjánsson - 03.03.2021

Sjá viðhengi með umsögn

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#13 Landhelgisgæsla Íslands - 03.03.2021

Meðfylgjandi er umsögn Landhelgisgæslu Íslands.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#14 Örn Pálsson - 03.03.2021

Meðfylgjandi er umsögn frá Landssambandi smábátaeigenda

Viðhengi