Samráð fyrirhugað 19.02.2021—01.03.2021
Til umsagnar 19.02.2021—01.03.2021
Niðurstöður í vinnslu frá 01.03.2021
Niðurstöður birtar 09.07.2021

Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 65/1974, um ávana- og fíkniefni (afglæpavæðing neysluskammta)

Mál nr. 52/2021 Birt: 19.02.2021 Síðast uppfært: 09.07.2021
  • Heilbrigðisráðuneytið
  • Drög að frumvarpi til laga
  • Málefnasvið:
  • Lýðheilsa og stjórnsýsla velferðarmála
  • Réttindi einstaklinga, trúmál og stjórnsýsla dómsmála

Niðurstöður birtar

Að loknu samráði var mælt fyrir frumvarpinu á Alþingi en það náði ekki fram að ganga á 151. löggjafarþingi.

Skjal að loknu samráði

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 19.02.2021–01.03.2021. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 09.07.2021.

Málsefni

Heilbrigðisráðuneytið kynnir til umsagnar drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um ávana- og fíkniefni, nr. 65/1974, um afglæpavæðingu neysluskammta.

Á þingmálaskrá heilbrigðisráðherra fyrir 151. löggjafarþing er áætlað að leggja fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um ávana- og fíkniefni, nr. 65/1974, um afglæpavæðingu neysluskammta.

Tilefni frumvarpsins er stefnumörkun stjórnvalda að meðhöndla eigi vanda vímuefnanotenda í íslensku samfélagi í heilbrigðiskerfinu fremur en dómskerfinu. Um leið hafa efasemdir um gagnsemi hinnar alþjóðlegu baráttu gegn vímuefnum farið vaxandi og verið áberandi í samfélagsumræðu, bæði alþjóðlegri og innlendri. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er kveðið á um að snúa þurfi af braut harðra refsinga fyrir neyslu fíkniefna og að leggja skuli áherslu á forvarnir og lýðheilsu.

Frumvarpið felur í sér breytingar á lögum nr. 65/1974, um ávana- og fíkniefni, á þá leið að kaup og varsla á takmörkuðu magni af ávana- og fíkniefnum til eigin nota, svokallaðra neysluskammta, verði heimiluð. Í frumvarpinu er jafnframt kveðið á um að ráðherra skuli í reglugerð kveða á um hvaða magn ávana- og fíkniefna getur talist til eigin nota. Þá er í frumvarpinu það lagt til að ekki skuli gera upptæk efni sem eru í vörslu einstaklinga sem eru 18 ára og eldri þegar magn þeirra er innan þess sem talist getur til eigin nota.

Byggir frumvarpið á hugmyndafræði skaðaminnkunar sem vísar til stefna, verkefna og verklags sem miðar fyrst og fremst að því að draga úr heilsufarslegum, félagslegum og efnahagslegum afleiðingum notkunar löglegra og ólöglegra vímuefna án þess að markmiðið sé að draga úr vímuefnanotkun. Skaðaminnkun gagnast fólki sem notar vímuefni, fjölskyldum þeirra, nærsamfélagi notandans og samfélaginu í heild.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Gunnar Smári Helgason - 19.02.2021

Mikilvægt og gott skref í baráttunni gegn fíkniefnaglæpum.

Afrita slóð á umsögn

#2 Patrekur Örn Pálmason - 19.02.2021

Afglæpavæðing er eina lausnin.

Fólk inn í heilbrigðiskerfið í staðin fyrir lögreglustöðvar.

Ísland gæti grætt fleiri milljarða á hampi, cbd og thc framleiðslu, en fyrir drullandi álver og aðra stóriðju ..

það er árið 2021....

Lögsetja , skattleggja og hætta þessum f%%%%% fordómum!

ps hættið að reykja krakk ...... og spice

Afrita slóð á umsögn

#3 Brynjólfur Tómasson - 20.02.2021

Finnst að skilgreina þurfi hvaða efni eru leyfileg. Það gæti verið gert í reglugerð þeirri sem skilgreinir skammtastærðir.

Trúi ekki að leyfa eigi kaup og vörslu á stórhættulegum efnum.

Afrita slóð á umsögn

#4 Mike Vestmar Bjarnason - 24.02.2021

þetta er löglegur iðnaður útum allan heim og það er staðreynd !

Stríðið við Fíkniefni er löngu úrelt einsvo stríðið við áfengi í gamla daga.

við erum ekki í gamla daga við erum í 2021!

í dag og í gær er enginn árangur við stríð við fíkniefni búið að nást nema að það sé meira framboð og glæpir tengt ólöglegri starfsemi.

byrjum að borga skatta frá þessari iðju og hættum að skapa okkur glæpafólk

Afrita slóð á umsögn

#5 Aðalsteinn Gunnarsson - 26.02.2021

Aðalsteinn Gunnarsson

Reykjavík 26. febrúar 2021

Vímuefni eru með helstu hindrunum sjálfbærrar þróunar mannkyns. Þau hafa neikvæð áhrif á allar stoðir samfélagsins (umhverfi, efnahagur og samfélag) og snerta við öllum hliðum samfélagsins. Vímuefni stefna mannauði í voða, grafa undan hagvexti, veikja innviði samfélagsins og eru gríðarlegt byrði á heilbrigðiskerfinu.

Þetta frumvarp opnar gáttir fyrir aukið magn og úrval vímuefna og ýtir undir aukna neyslu vegna aukins framboðs.

Ég er þess vegna alfarið á móti auknu aðgengi að vímuefnum og hvet þig Svandís Svavarsdóttir að leggja ekki fram þetta frumvarp eða önnur í þessa átt.

Afrita slóð á umsögn

#6 Snarrótin - samtök um skaðaminnkun og mannréttindi. - 28.02.2021

Umsögn Snarrótarinnar er hjálögð.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#7 Lyfjafræðingafélag Íslands - 01.03.2021

Góðan daginn,

Hér í viðhengi er umsögn LFÍ

Kveðja

Inga Lilý

Formaður Lyfjafræðingafélag Íslands

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#8 Rauði krossinn á Íslandi - 01.03.2021

Sjá viðhengi

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#9 Reykjavíkurborg - 01.03.2021

Meðfylgjandi er umsögn Reykjavíkurborgar um drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni ( afglæpavæðing neysluskammta).

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#10 Barnaheill - Save the Children á Íslandi - 01.03.2021

Umsögn Barnaheilla - Save the Children á Íslandi um drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 (afglæpavæðing neysluskammta).

Barnaheill – Save the Children á Íslandi þakka fyrir boð um að senda inn athugasemdir við ofangreint mál.

Að mati Barnaheilla er það heillaskref ef lögum verður breytt á þann veg að einstaklingum verði ekki gerð refsing fyrir það að hafa í fórum sínum vímuefni í neysluskömmtum. Samtökin taka undir þau sjónarmið sem fram koma í umfjöllun ráðuneytisins um fyrirhugaðar lagabreytingar að mikilvægara er að styðja þá sem ánetjast hafa vímuefnum til bata fremur en að beita hörku og refsingum gagnvart því ástandi. Barnaheill benda þó á nýjar hugmyndir um sjónarmið gagnvart vímuefnaneytendum sem hverfa frá notkun sjúklingahugtaksins. Líta þarf á þá sem nota og hafa ánetjast vímuefnum, sem fólk með ákveðinn vanda vegna veikleika sem þróast hafa sem afleiðingar annarra þátta. Mikilvægt er að skoða vandann í samhengi; vímuefnavandann og ofbeldi og áföll í æsku, fremur en að líta á fólk sem sjúklinga og hvað þá glæpafólk. Fíknihvöt er næstum alltaf viðbragð við tilfinningaálagi (Felitti, 1998. Sjá grein Rótarinnar um viðfangsefnið: https://www.rotin.is/haettuleg-taugaliffraedithrahyggja/). Barnaheill líta engu að síður svo á að um mikilvægar fyrirhugaðar breytingar sé að ræða sem leiða til aukinnar mannúðar og virðingar gagnvart einstaklingum sem njóta mannréttinda en hvetja til þess að umfjöllun um umrædda orðanotkun verði bætt við greinargerðina með frumvarpinu.

Barnaheill telja mikilvægt að koma fram við börn sem ánetjast hafa vímuefnum sem börn sem þurfa stuðning og virðingu, sem börn sem að öllum líkindum þurfa að vinna úr áföllum sínum til að sigrast á vandanum, rétt eins og hinir fullorðnu. Þeim ber ekki að gera refsingu við því að hafa í fórum sínum neysluskammta vímuefna fremur en fullorðnum. Fjalla mætti um það í greinargerð hvort börn hér á landi séu almennt sótt til saka fyrir að hafa með höndum neysluskammta og hvort um sé að ræða stefnubreytingu hvað varðar börn og vörslu þeirra á neysluskömmtum. Barnaheill skilja það sem svo að börnum verði skv. frumvarpinu ekki gerð refsing fyrir vörslu á neysluskömmtum vímuefna. En skýrt er skv. frumvarpinu að áfram verði heimilt að gera vímuefni sem þau hafa með höndum upptæk. Barnaheill efast um að sú framkvæmd sé til heilla en taka undir sjónarmið sem fram koma í greinargerðinni um skyldur ríkja gagnvart börnum sem fram koma í 33. gr. Barnasáttmálans. Hins vegar þarf að líta til annarra sjónarmiða Barnasáttmálans, um rétt barns til að tjá um mál sem þau varða og að taka skuli tillit til skoðana þeirra eftir því sem aldur og þroski gefur tilefni til, um rétt barns til friðhelgi einkalífs, rétt til heilsuverndar og svo framvegis.

Börn sem hafa ánetjast vímuefnum eiga í vanda sem þarf að veita þeim stuðning við að rata út úr svo þeim gefist kostur á að ná heilsu. Við þann stuðning þarf að huga að mannréttindum þeirra á heildstæðan hátt, m.a. að meta áhrif ákvarðana á líf þeirra og líðan og hlusta vel á sjónarmið þeirra og vilja. Þau eiga rétt á að láta skoðun sína í ljós og það er mikilvægt að vinna málin í góðu samráði við einstaklingana sjálfa, þ.e. börnin. Að hlusta vel á hverjar þarfir þeirra séu.

Öll börn eiga rétt á bestu mögulegu heilsuvernd og vernd gegn ofbeldi og vanrækslu. Mikilvægt er að muna alltaf að barn er einstaklingur með sín eigin sjálfstæðu mannréttindi, jafnvel þó það hafi ánetjast vímuefnum. Oft er um að ræða börn sem fyrir eiga við erfið andleg veikindi að stríða eða búa við og með einhvers konar andlega erfiðleika. Það er afskaplega mikilvægt að hlúa áfram að börnum af virðingu þó þau velji að prófa vímuefni. Slík sjónarmið þurfa að mati Barnaheilla alltaf að liggja til grundvallar í þjónustu við börn í vanda.

Barnaheill telja hér um mannúðlegt skref að ræða sem taka skal en árétta að mikilvægt er að koma fram af virðingu við börn og mismuna þeim ekki á ómálefnalegan hátt.

Samtökin þakka fyrir skýringu þá sem fram kemur í frumvarpinu að hér sé ekki stigið skref í átt að lögleiðingu vímuefna heldur er einungis verið að afnema refsingar vegna vörslu vímuefna í neysluskömmtum. Það telja Barnaheill gott að liggi fyrir.

Áfram sem fyrr þarf að leggja mikla áherslu á forvarnafræðslu og að nýtast áfram við áherslur á að styrkja jákvæða þætti í lífi barna og að aðstoða börn og fjölskyldur þeirra við að vinna bug á neikvæðum þáttum. Í greinargerðina vantar umfjöllun um almenn áhrif á börn og ungmenni ef frumvarpið verður að lögum, sbr. 3. gr. Barnasáttmálans. Allar ákvarðanir sem varða börn skal taka með það sem þeim er fyrir bestu að leiðarljósi og því er mikilvægt að fram komi umfjöllun um hvernig mat á því hafi farið fram og um val á ákvörðun. Hætt er við því að umræða um vímuefni muni breytast og viðhorf til þeirra almennt verða jákvæðari ef ekki verður lengur ólöglegt að hafa neysluskammta vímuefna með höndum. Slík viðhorf geta svo að mati Barnaheilla leitt til þess að fleiri börn og ungmenni prófi frekar vímuefni en ella.

Barnaheill leggja mikla áherslu á vernd barna gegn ofbeldi og vanrækslu og á rétt barna til að hafa áhrif á ákvarðanir sem þau varða. Samtökin hafa Barnasáttmálann að leiðarljósi í öllu sínu starfi.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#11 Kristín Þóra Gunnarsdóttir - 01.03.2021

Ég er alfarið á móti auknu aðgengi að vímuefnum

Afrita slóð á umsögn

#12 Kjartan Hreinn Njálsson - 01.03.2021

Sjá umsögn embættis landlæknis í viðhengi.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#13 Bindindissamtökin IOGT - 01.03.2021

IOGT á Íslandi

Umsögn um Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 65/1974, um ávana- og fíkniefni (afglæpavæðing neysluskammta) - Mál nr. 52/2021

IOGT á Íslandi leggst eindregið gegn þessu frumvarpi. Það vinnur gegn og veikir forvarnir á Íslandi og hjálpar mest eiturlyfasölum. Bindindissamtökin IOGT vinna mikið með almenningi í grasrótarstarfi, þar kemur fram mikil andúð samfélagsins á frumvarpinu. Það vekur undrun okkar þegar fjallað er um að breyta lögum sem heyra til forvarna í landinu að kalla ekki á frjáls félagasamtök sem eru virk í forvörnum. Frumvarp þetta er í algerri mótsögn við heilbrigðisstefnu þessarar sem og fyrri ríkisstjórna. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) bendir á að notkun vímuefna er þáttur í ósmitnæmum sjúkdómum og hvetur allar þjóðir til að draga úr neyslu.

Það vantar nýja heildarstefnu í forvörnum. Á síðasta ári rann út heildarstefnan sem var í gildi. IOGT á Íslandi hefur kallað eftir að ný heildarstefna verði mótuð þar sem allir þættir eru metnir. Að reyna að keyra í gegn lögleiðingu neysluskammta áður en heildarstefnan er sett er mjög einkennilegt. Minnir á bútasaum þar sem klippt eru göt í forvarnarvarnarteppið. Líkist því sem þau sem vilja „frelsa“ áfengi eru gera núna. Þau gáfust upp á að koma frumvarpi með mörgum breytingum í gegnum þingið og reyna núna að koma einni breytingu í gegn í einu.

Frumvarpið er kúvending á núverandi forvarnarstefnu – það á að leyfa neyslu á öllum fíkniefnum, leyfa fíkniefnasölum ótakmarkaða tilraunastarfsemi til finna efnið sem mun klófesta einstaklinginn.

Frumvarpið er lögleiðing fíkniefna – yfir 250 mismunandi efna. Leyfilegt verður að vera með ákveðið magn af fíkniefnum og engin viðurlög. Lögreglan má ekki gera efnin upptæk. Að kalla þetta afglæpavæðingu er tæknilega rétt en rétta orðið er lögleiðing neysluskammta.

Hugtakið „afglæpavæðing“ (decriminalisation) þýðir í raun refsingalækkun á afbroti sem getur þýtt allt frá minni/öðruvísi refsing niður í enga refsingu. Hugtakið þýðir ekki eingöngu að gera glæp refsilausan eða löglegan.

Í greinargerðinni er eins og í fyrri greinargerð rangt sagt frá um afglæpavæðingu í Portúgal árið 2001 og því haldið fram „lagabreytingar í Portúgal sem sem aflögðu refsingar vegna vörslu neysluskammta ólöglegra vímuefna“.

Með því að lesa um hvað Portúgalska leiðin er og lesa sjálf lögin í Portúgal þá sést að þetta frumvarp er ekkert í líkingu við Portúgölsku leiðina, heldur lögleiðir það fíkniefni en það var ekki gert í Portúgal. Það er í raun ótrúleg ósvífni að líkja þessu frumvarpi saman við það sem gert var í Portúgal til að draga úr almennri vímuefnanotkun. Í lögum Portúgals[6] kemur skýrt fram að öll neysla og varsla vímuefna sé bönnuð. Lagabreytingin í Portúgal var ekki frá glæp yfir í löglögt, heldur úr glæp í minni glæp þar refsingar miða að koma viðkomandi í meðferð. Eftir breytinguna 2001 þá er neysla þessarra vímuefna áfram ólögleg og líka varsla þeirra. Það sem breyttist er sá sem er tekinn með 10 dagskammta eða minna, að þá eru lyfin gerð upptæk og hann/hún er send fyrir sérstaka nefnd sem situr í hverju sveitarfélagi (Comissöes para a Dissuasao da Toxicodependencia - CDT) [7] sem reynir að fá einstaklinginn að fara í meðferð. Þetta er 3ja manna nefnd sem í sitja félagsráðgjafi, geðlæknir og lögfræðingur. Nefndin getur sektað (refsað) á margvíslega vegu:

T.d. Sektir allt að €150 sem var um 30 % af lágmarkslaunum í Portúgal. Svipta atvinnuréttindum, svo sem hjá lækni eða leigubílstjóra. Bannað að fara á ákveðna staði eða hitta ákveðna einstaklinga. Bann við utanlandsferðum. Svifta einstaklinga byssuleyfi. Upptaka eigna. Stöðva greiðslur frá opinberum stofnunum. Skylda að hitta nefndina reglubundið. Ef einstaklingur í Portúgal er háður eiturlyfjum, þá má senda hana á meðferðarstofnun eða honum veitt samfélagsþjónusta, ef nefndin (CDT) telur það þjóna betur markmiðinu - að halda lögbrjótnum á beinu batabrautinni. Nefndin (CDT) getur ekki skyldað fólk í meðferð en stefna nefndarinnar (CDT) er að fá fíkla til að fara í og vera í meðferð. Nefndin (CDT) hefur full völd til að afnema sektir þegar fíkillinn fer sjálfviljugur í meðferð. Ef lögbrjóturinn er ekki fíkill eða vill ekki gangast undir meðferð eða samfélagsþjónustu þá má sekta hann. Að auki þá eru engin aldurstakmörk í frumvarpinu enda virðist það vilji flutningsmanna að börn og unglinga geti neytt eiturlyfja löglega ef þau vilja. Hér sést glöggt að frumvarp 23 sem fer fram á lögleiðingu neysluskammta er allt annað en Portúgalska leiðin.

Höfundar greinargerðarinnar halda væntanlega líka fram að þegar fólk á Íslandi sem haldið hraðafíkn sem er beitt hraðasektum eða sviptingu ökuréttinda að það sé ekki refsingar???

Það er risastökk milli þess að minnka refsingar fyrir neysluskammt og að lögleiða þá.

Þeir sem vilja lögleiða þessi 250+ vímuefni hljóta að telja þau minna hættuleg en talið hefur verið. En samt er eitt af rökum þeirra að það verði að lögleiða af því sum þessarra vímuefna valdi dauðsföllum vegna of stórra skammta og að þeim muni fækka ef efnin verði lögleg. Mjög er beinblínt á dauðsföll vegna of stórra skammta en önnur dauðsföll tengd efnunum og annars skaði virðist skipta litlu máli.

Staðreyndin er sú að löglegu vímuefnin valda flestum dauðsföllum. Árlega deyja um 55 milljón manns, þar af 8 milljónir tengt tóbaki og um 3 millónir tengt áfengi. Í heild er skaðinn af áfengi mun hærri en af tóbaki. Síðan koma lögleg verkjalyf eins og fentanyl og oxykódon, sem eru lögleg en misnotuð. Þessi mikli skaði af tóbaki, áfengis og verkjalyfja er vegna fjöldans sem notar efnin. Um 1980 reyktu um 50% fullorðinna á Íslandi tóbak en í dag 7,6 %. Rétt 40 % fullorðinna í heiminum neyta áfengis. Um 270 milljónir fullorðinna (15-64 ára) eða 5,5 % höfðu neytt annarra fíkniefna árið 2016. Af þeim voru 35 milljónir með vímuefnaröskun, eða 0,7 %.

Er besta leiðin til að hjálpa þessum 35 milljónum að gefa fíkniefnaiðnaðinum opið skotleyfi á 8 milljarða?

Frú Ragnheiður segir að um 600 manns séu skjólstæðingar hennar – það er rúmt prómill af þjóðinni. Er þeim best borgið með því að manneskja í fjármálageiranum geti fengið sér í nösina löglega? Ef valið væri á milli lögleiðingar fíknefna eða 600 milljóna á ári í starfsemina – hvort myndi vera betra fyrir skjólstæðingana?

Þegar við finnum skaðleg eiturefni í umhverfinu þá reynum við fjarlægjum þau úr umhverfinu, takmarka aðgang og notkun. Bann við notkun þeirra auðveldar öllum ákvarðanatöku. Líka foreldrum og unglingum.

Lögleiðing normaliserar og veitir ákveðið samþykki fyrir notkun. Þó að hamrað sé á að þetta skref sé gert fyrir langt leidda fíkla – sem er rangt – þá eru það tveir hópar sem hagnast á þessu frumvarpi. Það er fólkið sem vill neyta fíkniefna í afþreyingarskyni (og heldur að það geti alveg forðast fíkniröskun) og síðan er það hópurinn sem græðir langmest - fíkniefnaframleiðendur og fíkniefnasalar. Næsta skref á eftir þessu frumvarpi er að lögleiða kaup og sölu.

Það er ótrúlegt að Vinstri-Grænir skulu ganga erinda þessarar öfgafyllstu tegundar af græðgiskapítalisma sem fíknaefnaframleiðendur eru. Því hvað er meira arðrán en að selja vöru sem hlekkjar neytendur hennar í þrælakistu og rænir þá fé, heilsu og lífi?

Forvarnir byggjast á þrem meginstoðum. Að minnka eftirspurnina, að minnka framboðið, og að lágmarka skaðann. Ekki minnka skaðann heldur að lágmarka skaðann bæði fyrir neytandann og þjóðfélagið. Mikilvægast er að minnka eftirspurnina því auðveldar allt hitt og lágmarkar skaðann. Því færri sem byrja því færri fara illa út úr neyslu.

IOGT á Íslandi lýsir sig fúst til samstarfs við heilbrigðisráðuneytið varðandi mótun heildarstefnu forvarna. Við erum tilbúin að hitta starfsfólk ráðuneytis eða ráðherra til frekari viðræðna um forvarnir og jafnframt aðstoða við gagnaupplýsingar.

Skjótasta og skilvirkasta leiðin til að bæta heiminn er að lifa vímuefnalausum lífsstíl.

Með vinsemd og virðingu, fyrir hönd IOGT á Íslandi

Björn Sævar Einarsson, Formaður IOGT á Íslandi

Afrita slóð á umsögn

#14 Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga - 01.03.2021

Meðfylgjandi er umsögn frá Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#15 Afstaða til ábyrgðar - 01.03.2021

Sjá umsögn Afstöðu í viðhengi

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#16 Samanhópurinn - 02.03.2021

Umsögn um frumvarp - afglæpavæðing neysluskammta

Viðhengi