Samráð fyrirhugað 19.02.2021—01.03.2021
Til umsagnar 19.02.2021—01.03.2021
Niðurstöður í vinnslu frá 01.03.2021
Niðurstöður birtar

Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 65/1974, um ávana- og fíkniefni (afglæpavæðing neysluskammta)

Mál nr. 52/2021 Birt: 19.02.2021
  • Heilbrigðisráðuneytið
  • Drög að frumvarpi til laga
  • Málefnasvið:
  • Lýðheilsa og stjórnsýsla velferðarmála
  • Réttindi einstaklinga, trúmál og stjórnsýsla dómsmála

Til umsagnar

Umsagnarfrestur er 19.02.2021–01.03.2021. Umsagnir eru birtar jafnóðum og þær berast. Niðurstöður samráðsins verða birtar þegar unnið hefur verið úr þeim ábendingum og athugasemdum sem berast.
Senda inn umsögn

Málsefni

Heilbrigðisráðuneytið kynnir til umsagnar drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um ávana- og fíkniefni, nr. 65/1974, um afglæpavæðingu neysluskammta.

Á þingmálaskrá heilbrigðisráðherra fyrir 151. löggjafarþing er áætlað að leggja fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um ávana- og fíkniefni, nr. 65/1974, um afglæpavæðingu neysluskammta.

Tilefni frumvarpsins er stefnumörkun stjórnvalda að meðhöndla eigi vanda vímuefnanotenda í íslensku samfélagi í heilbrigðiskerfinu fremur en dómskerfinu. Um leið hafa efasemdir um gagnsemi hinnar alþjóðlegu baráttu gegn vímuefnum farið vaxandi og verið áberandi í samfélagsumræðu, bæði alþjóðlegri og innlendri. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er kveðið á um að snúa þurfi af braut harðra refsinga fyrir neyslu fíkniefna og að leggja skuli áherslu á forvarnir og lýðheilsu.

Frumvarpið felur í sér breytingar á lögum nr. 65/1974, um ávana- og fíkniefni, á þá leið að kaup og varsla á takmörkuðu magni af ávana- og fíkniefnum til eigin nota, svokallaðra neysluskammta, verði heimiluð. Í frumvarpinu er jafnframt kveðið á um að ráðherra skuli í reglugerð kveða á um hvaða magn ávana- og fíkniefna getur talist til eigin nota. Þá er í frumvarpinu það lagt til að ekki skuli gera upptæk efni sem eru í vörslu einstaklinga sem eru 18 ára og eldri þegar magn þeirra er innan þess sem talist getur til eigin nota.

Byggir frumvarpið á hugmyndafræði skaðaminnkunar sem vísar til stefna, verkefna og verklags sem miðar fyrst og fremst að því að draga úr heilsufarslegum, félagslegum og efnahagslegum afleiðingum notkunar löglegra og ólöglegra vímuefna án þess að markmiðið sé að draga úr vímuefnanotkun. Skaðaminnkun gagnast fólki sem notar vímuefni, fjölskyldum þeirra, nærsamfélagi notandans og samfélaginu í heild.

Viltu senda inn umsögn um málið?

Smelltu hér til að skrá þig inn með Íslykli eða rafrænni auðkenningu.

Ef umsögnin er send fyrir hönd samtaka, fyrirtækis eða stofnunar þarf umboð þaðan, sjá nánar hér.