Samráð fyrirhugað 25.02.2021—08.03.2021
Til umsagnar 25.02.2021—08.03.2021
Niðurstöður í vinnslu frá 08.03.2021
Niðurstöður birtar 06.01.2023

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna (fjölgun mismununarþátta), nr. 85/2018

Mál nr. 57/2021 Birt: 25.02.2021 Síðast uppfært: 06.01.2023
  • Forsætisráðuneytið
  • Drög að frumvarpi til laga
  • Málefnasvið:
  • Réttindi einstaklinga, trúmál og stjórnsýsla dómsmála
  • Lýðheilsa og stjórnsýsla velferðarmála

Niðurstöður birtar

Haft var samráð við eftirfarandi aðila við gerð frumvarpsins: Öryrkjabandalagið, Þroskahjálp, Samtökin '78, Mannréttindaskrifstofu Íslands, Jafnréttisstofu, félagsmálaráðuneytið, heilbrigðisráðuneytið, mennta- og menningarmálaráðuneytið, dómsmálaráðuneytið og fjármála- og efnahagsráðuneytið. Þrjár umsagnir bárust í samráðsgátt stjórnvalda, frá Landssamtökunum Þroskahjálp, Mannréttindaskrifstofu Íslands og Öryrkjabandalagi Íslands. Allir umsagnaraðilar studdu fyrirhugaða lagasetningu. Sjá nánar í niðurstöðuskjali.

Nánar um niðurstöður

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 25.02.2021–08.03.2021. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 06.01.2023.

Málsefni

Lagt er til að við lög nr. 85/2018 um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna verði bætt við mismununarþáttunum trú, lífsskoðun, fötlun, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum og kyntjáningu.

Með frumvarpi þessu er lagt til að í íslenskri löggjöf verði kveðið á um meginregluna um jafna meðferð einstaklinga, ekki einungis óháð kynþætti og þjóðernisuppruna heldur jafnframt óháð trú, lífsskoðun, fötlun, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum og kyntjáningu á öllum sviðum samfélagsins, utan vinnumarkaðar, sbr. ákvæði til bráðabirgða í lögum um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna, nr. 85/2018.

Bann við mismunun samkvæmt lögum nr. 85/2018 gildir á öllum sviðum samfélagsins, utan vinnumarkaðar og eru einstök svið sérstaklega tilgreind til áherslu. Engin breyting er lögð til varðandi þau svið sem lögin skulu ná til. Um jafna meðferð á vinnumarkaði óháð framangreindum mismununarþáttum gilda önnur lög, þ.e. lög nr. 86/2018.

Frumvarpið er liður í innleiðingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks hér á landi en Ísland undirritaði samninginn 30. mars 2007 og var hann fullgiltur 23. september 2016. Þess er vænst að þessi breyting á lögum nr. 85/2018 sem frumvarpið leggur til leiði til aukinnar réttarverndar fyrir fólk sem telur sér mismunað á grundvelli trúar, lífsskoðunar, aldurs, fötlunar, kynhneigðar, kynvitundar, kyneinkenna og kyntjáningar utan vinnumarkaðar og leiði þar með til aukins jafnréttis í samfélaginu.

Lagt er til að bætt verði við lögin tveimur nýjum ákvæðum, annars vegar vegna fötlunar (viðeigandi aðlögun, sbr. 7. gr. a, sbr. a-liður 5. gr.) og hins vegar vegna aldurs (frávik vegna aldurs, sbr. 7. gr. b, sbr. b-liður 5. gr.). Þessar sérreglur eru sambærilegar sérreglum þeim sem fjallað er um í lögum um jafna meðferð á vinnumarkaði, nr. 86/2018, sbr. 10. gr. og 12. gr. þeirra laga.

Lagðar eru til breytingar á lögum um jafna meðferð á vinnumarkaði, nr. 86/2018, sem þykja nauðsynlegar í kjölfar frumvarps þessa sem og laga um kynrænt sjálfræði, nr. 80/2019, laga um jafna stöðu og jafna meðferð kynjanna, nr. 150/2020 og laga um stjórnsýslu jafnréttismála, nr. 151/2020.

Lagt er til að verði frumvarpið samþykkt taki lögin þegar gildi. Þó er jafnframt lagt til að ákvæði laganna skuli ekki gilda um mismunandi meðferð á grundvelli aldurs fyrr en 1. júlí 2023. Er þetta lagt til þannig að nægur tími gefist til að fara yfir aldurstengd ákvæði í öðrum lögum, stjórnvaldsfyrirmælum og samningum og gera breytingar á þeim, ef þörf krefur, til samræmis við ákvæði frumvarpsins.

Einnig er lagt til í ákvæði til bráðabirgða að skipaður verði starfshópur sem skal fjalla sérstaklega um mismunun vegna tengsla (e. discrimination by association).

Tengd mál

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Landssamtökin Þroskahjálp - 08.03.2021

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna (fjölgun mismununarþátta), nr. 85/2008.

Landssamtökin Þroskahjálp þakka fyrir gott samráð sem forsætisráðuneytið hafði við samtökin við samningu frumvarpsins og vilja á þessu stigi kom efftirfarandi á framfæri varðandi frumvarpið.

Samtökin ítreka ábendingu um að skoða þurfi hvort rétt, sanngjarnt og eðlilegt sé að hafa skilyrði um „langvarandi“ í skilgreiningu fötlunar og fatlaðs fólks í frumvarpinu í ljósi efnis og tilgangs laganna og eðlis þeirra mannréttinda sem þeim er ætlað að vernda.

Samtökin leggja til að starfshópi sem á að skipa samkvæmt 11. gr. frumvarpsins „til að fjalla sérstaklega um mismunun vegna tengsla og mögulegar tillögur til breytinga á lögum þessum og lögum nr. 86/2018, um jafna meðferð á vinnumarkaði, til að koma til móts við þessar háttar mismunun“ verði einnig falið að fjalla um mismunun á grundvelli skynjunar eða skilnings (e. discrimination by perception).

Með mismunun á grundvelli skynjunar eða skilnings er átt við þegar einstaklingi er mismunað vegna þess að hann er talinn tilheyra tilteknum hópi, s.s. talinn vera fatlaður, samkynhneigður, tiltekinnar trúar o.s.frv.

Þá leggja samtökin til að í frumvarpinu verði kveðið skýrar á um hvenær umræddur starfshópur á að skila niðurstöðu sinni til ráðherra í síðasta lagi.

Landssamtökin Þroskahjálp áskilja sér rétt til að koma fleiri ábendingum á framfæri varðandi frumvarpið á síðari stigum, þ.m.t. þegar Alþingi hefur frumvarpið til meðferðar.

Virðingarfyllst.

Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður Þroskahjálpar.

Afrita slóð á umsögn

#2 Margrét Steinarsdóttir - 08.03.2021

Umsögn Mannréttindaskrifstofu Íslands um drög að frumvarpi um breytingu á lögum um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#3 Öryrkjabandalag Íslands (ÖBÍ) - 09.03.2021

Viðhengi