Samráð fyrirhugað 26.02.2021—08.03.2021
Til umsagnar 26.02.2021—08.03.2021
Niðurstöður í vinnslu frá 08.03.2021
Niðurstöður birtar 05.01.2022

Drög að frumvarpi til laga um breytingu á varnarmálalögum nr. 34/2008 (öryggissvæði o.fl.).

Mál nr. 63/2021 Birt: 26.02.2021 Síðast uppfært: 05.01.2022
  • Utanríkisráðuneytið
  • Drög að frumvarpi til laga
  • Málefnasvið:
  • Utanríkismál
  • Sveitarfélög og byggðamál

Niðurstöður birtar

Frumvarpið var ekki lagt fram á Alþingi á 151. löggjafarþingi 2021.

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 26.02.2021–08.03.2021. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 05.01.2022.

Málsefni

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á varnarmálalögum sem lúta að endurskilgreiningu marka núverandi öryggissvæðis á Gunnólfsvíkurfjalli.

Lagt er til að 12. gr. varnarmálalaga nr. 34/2008 verði breytt og mörk núverandi öryggissvæðis við Gunnólfsvíkurfjall, í landi ríkisins við Gunnólfsvík endurskilgreind og útvíkkuð úr 93,5 hekturum í 771 hektara.

Markmið frumvarpsins er enn fremur að að færa skipulags- og mannvirkjavald á endurskilgreindu öryggissvæði yfir til ríkisins og tryggja óraskaða starfsemi öryggissvæðisins að teknu tilliti til hagsmuna ríkisins, sem og þjóðréttarlegra skuldbindinga á málefnasviðinu.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Guðmundur Eyjólfur Jóelsson - 07.03.2021

Það kemur bara ein spurning upp í hugan, til hvers þarf að stækka umráðasvæði og á hvers kostnað?

Afrita slóð á umsögn

#2 Stefán Pálsson - 07.03.2021

Samtök hernaðarandstæðinga hafa kynnt sér frumvarpsdrög um breytingu á varnarmálalögum sem kynnt eru í samráðsgátt stjórnvalda. Niðurstaða samtakanna er sú að málið sé vanreifað. Virðist frumvarpið annað hvort tilgangslaust eða ekki lagt fram af fullum heilindum og er hvort tveggja slæmt. Því er eindregið lagt til að málið verði dregið til baka.

Í frumvarpinu er lögð til veruleg stækkun öryggissvæðis á Langanesi niður í Finnafjörð. Líkt og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu er kveikjan að því áform byggingarfélaga um gerð tröllaukinnar alþjóðahafnar í Finnafirði, þar sem stjórnvöld vilja greinilega tryggja aðkomu sína að borðinu með skýrari hætti.

Greinargerðin rekur möguleg framtíðaráform um mögulega leitar- og eftirlitstengda starfsemi á svæðinu sem ætlunin er að afmarka. Erfitt er að sjá nokkra þörf á slíku, enda ljóst að meira en nægt rými ætti að vera innan hins fyrirhugaða hafnarsvæðis fyrir starfsemi Landhelgisgæslunnar. Má raunar telja það fráleitan tvíverknað að ætla að koma upp tveimur höfnum sitthvoru megin í firðinum.

Sérstaklega er tekið fram að engin áform séu fyrirhuguð um uppbyggingu varnarmannvirkja á svæðinu. Í því ljósi er furðulegt að óska eftir því að svæðið sé skilgreint sem öryggissvæði því í varnarmálalögum er hugtakið öryggissvæði einmitt skilgreint sem landssvæði sem lagt er til varnarþarfa. Sé greinargerðin sönn og rétt er frumvarpið því óþarft. Þetta kallað því augljóslega á eitthvað endurmat og endurskoðun, sem eitt og sér ætti að duga til að slá málinu á frest.

Sú hugsun flögrar að tortryggnum lesanda að markmið frumvarpsins sé einmitt ekki að tryggja Landhelgisgæslunni framtíðarvaxtarsvæði til gæslu og björgunarstarfa heldur að eyrnamerkja land til uppbyggingar framtíðarherskipahafnar þegar og ef stórframkvæmdir við höfn í Finnafirði verða að veruleika. Sé sú raunin verður það að teljast heigulsháttur og viðurkenna það ekki berum orðum. Sé það í raun stefna utanríkisráðuneytisins að horfa til norðausturhorns landsins sem framtíðarsvæðis herskipahafnar fyrir erlend ríki þá ætti ráðuneytið að hafa manndóm til að gangast við því í stað þess að reyna að smeygja tánni inn fyrir gættina með skilgreiningarbreytingum í lögum sem kynnt eru í blálok setutíma ríkisstjórnar með kosningar í námd.

(Umsögn þessi var kynnt og samþykkt á fundi miðnefndar Samtaka hernaðarandstæðinga þann 3. mars sl.)